1079 - Um hafragraut og fleira

Það hlýtur að hafa verið í vor sem leið sem ég birti hér á blogginu mínu hafragrautaruppskrift sem er með því vinsælasta sem ég hef skrifað. Þetta veit ég vegna þess að í fermingarveislu um þetta leyti kommentaði Hörður mágur munnlega á þessa hafragrautaruppskrift. Þó Hörður sé lesgjarn (eftir því sem Ingibjörg systir segir) þá er hann ekki eins skrifglaður og sumir aðrir.

Ég er ekki hættur að borða hafragraut á morgnana en nú hefur uppskriftin þróast og er nokkurnvegin svona:

Efni.
Haframjöl (4-5 skeiðar)
Salt (eitt dass eða jafnvel tvö)
Vatn (eftir þörfum)
Döðlur (2-3 stykki)
Kanill (dálítið)
Hunang (framan til í matskeið)
Mjólk (ef vill - og svo gjarnan sem útálát)
Bankabygg (ein matskeið)

Passa samt að setja bankabyggið á undan hunanginu ef sama skeiðin er notuð. Síðan má jafnvel borða grautinn með þeirri skeið. Ekkert vandamál er að nálgast bankabyggið því það er til hálfsoðið eða soðið í stórri skál í ísskápnum. Það bætir grautinn ekki beinlínis en drýgir hann mjög og er auk þess hollt og eykur skilning fólks á bankakreppunni eins og nafnið bendir til.

Þremur fyrstu efnunum og bankabygginu er blandað saman í hæfilega stóra skál sem sett er varlega í örbylgjuofninn og hann látinn í gang í 4-5 mínútur. Hinu öllu er blandað í á eftir og úr verður fínasti grautur.

Enn eru menn að katta-semdast við bloggið mitt sem kennt er við bekkjarmynd. Í orði kveðnu segjast margir vera kattavinir þó þeir séu það kannski ekki í reynd. DoctorE sagði það hafa komið sér á óvart að ég skyldi taka upp fyrir hann hanskann þegar hann var rekinn af Moggablogginu. Á sama hátt (býst ég við) kom mér á óvar að doksi skyldi vera sá kattavinur sem hann hefur sýnt sig að vera. Eins og t.d. þegar hann setti fjölda kattamynda á bloggið hans Sigurðar Þórs.

Kannski er það vitundin um dauðann sem gerir mennina svona vonda. Dýr eru oftast laus við þessa illsku sem einkennir mannfólkið. Systir mín sagði einhverntíma að ekki mætti ræða um förgun á köttum svo þeir heyrðu því þeir skildu meira en margir héldu. Einhver viðstaddra sagði þá með fyrirlitningu: „Heldurðu að kettir hafi mannsvit, eða hvað?" Hún svaraði að bragði: „Já, að minnsta kosti það."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í augum okkar katta er heimurinn algjörlega svarthvítur. Við erum kóróna sköpunarverksins og erum bestir og vitrastir á þessari jröð. En til bæði góðir menn og vondir. Góðir menn eru þeir sem elska ketti. Vondir menn eru þeir sem hata ketti.  Gæti ekki einfaldara verið.

Mali the malicious 14.7.2010 kl. 00:44

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Mig minnir að ég hafi ort þetta í tilefni hafragrautarbloggsins

Hafragraut og heilsufæði
hita Sæmi kann
Þótt örbylgjur og eðlisfræði
ekki skilji hann
 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.7.2010 kl. 00:50

3 Smámynd: Kama Sutra

Ég legg til að Malinn stofni sitt eigið blogg fyrst faðir hans hefur harðlæst og kæft fögru Malaröddina á sínu bloggi.

Ég pant verða bloggvinur númer eitt á Malablogginu.

Kama Sutra, 14.7.2010 kl. 05:04

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jóhannes þetta er fín vísa og mig rámar í hana. Treysti því bara að þetta með örbylgjurnar og eðlisfræðina sé rímsins og stuðlanna vegna.

Sæmundur Bjarnason, 14.7.2010 kl. 06:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband