Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

416. - Gallar á kommentakerfinu hérna og tillaga um nýjung í sambandi við bloggvinina

Hér er gott dæmi um það sem ég sé sem galla við kommentakerfið, Hugmyndin um einhliða bloggvináttu eða uppáhaldsbloggarakerfi innan moggabloggsins er alveg ágæt. Þetta er úr kommentakerfinu mínu:

Í sambandi við bloggvini þá má velta því fyrir sér hvort hægt sé að koma upp einhliða bloggvináttu svona til hliðar við gagnkvæma bloggvináttu. T.d. ef margir vilja lesa þitt blogg án þess að þú þurfir alltaf að fylgjast með færslum hinna.

Af einhverjum ástæðum hef ég lesið flestar þínar færslur þótt við séum ekki tengdir.

Emil H. Valgeirsson, 11.8.2008 kl. 13:04

Emil ég hef einmitt oft velt þessu fyrir mér. Ég vil endilega geta fylgst með sumum bloggvinum mínum og jafnvel ýmsum öðrum án þess að þeir viti nokkuð af því. Þetta má kalla einhliða bloggvini eða eitthvað annað. Venjulegt favorits kemur ekki að gagn því þetta þyrfti að vera á moggablogginu og auk þess hægt að sjá í fljótu bragði hvort eitthvað er nýtt. Það er enginn vafi að þetta er hægt. Prófaðu að skrifa um þetta t.d. á kerfi.blog.is Google reader er líklega hægt að nota en fljótlegra er að hafa þetta einfaldlega á moggabloggsstjórnborðinu.

Sæmundur Bjarnason, 11.8.2008 kl. 13:28

Ég skal senda þeim línu, fæ kannski að vitna í svarið þitt.

Emil H. Valgeirsson, 11.8.2008 kl. 14:02

Mér finnst mikilvægt að hugsa um hvernig bloggið (Moggabloggið og önnur) geta orðið betri. Tilllögur um slíkt geta vel komið í athugasemdum og átt erindi til margra. Upphaflega kommentinu frá Emil tók ég ekkert eftir fyrr en ég var búinn að skrifa nýtt blogg. Þar með finnst mér mjög hafa aukist líkurnar á því að þetta fari framhjá mörgum sem þó lesa bloggið mitt.

Hverjir skoða gömul blogg og komment við þau? Hverjir skoða reglulega kerfi.blog.is? Nei það þýðir lítið að koma með góðar tillögur ef sárafáir sjá þær.

Heilmikil bót er þó að því að gefa kost á að vakta athugasemdir og nota ég það talsvert. Svo vaktar maður alltaf sitt eigið blogg. Að minnsta kosti ef kommentin eru ekki þeim mun fleiri.

Nýlega heyði því fleygt að það væri eins og að ganga í björg að ánetjast blogginu. Bloggheimar = Álfheimar. Líklega er eitthvað til í því. En menn hljóta þó að ráða því sjálfir hve fastir þeir verða. Svo eru önnur björg kannski ekkert betri.

Með því að setja mig á forsíðublogglistann eru þeir Moggabloggsmenn búnir að gefa mér vald til þess að vekja athygli á málum sem kannski fara framhjá flestum. Til að gera þetta þarf ég að gæta þess að hafa fyrirsögnina rammandi og fyrstu setningarnar í blogginu þess eðlis að fremur sé klikkað á það en eitthvað annað. 

 

415. - Nenni eiginlega ekki að blogga - og þó

Var að koma heim af tveimur ættar- eða fjölskyldumótum og ekki meira um það núna. En þetta átti ég tilbúið að mestu leyti og best að koma því að:

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Tilraunin með vísnauppsetninguna um daginn gekk bara vel. Það er alltannað að sjá þetta svona. Kannski ég fari bara að henda inn vísum villt og galið. Nóg ætti ég að kunna af slíku.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að sinna vísnablogginu mínu (visur7.blog.is) en það var nokkuð sæmileg leið til vinsælda hér áður og fyrr að hrúga saman vísum um sem flestar fréttir (einkum þær vinsælustu) og linka í þær.

Ég minntist víst á Jóhannes úr Kötlum hér á blogginu mínu um daginn. Þegar ég var í skóla sat hann stundum yfir sem kallað var á vorprófum. Reffilegur og myndarlegur kall.

Einhverju sinni voru þeir Jóhannes og Kristmann Guðmundsson staddir á pósthúsinu í Hveragerði ásamt fleirum og voru meðal annars að tala um vísnagerð. Eikum sjaldgæfa bragarhætti og skemmtilegt rím. Meðal annars töluðu þeir um vísuna alkunnu sem er svona:

Getur ekkert gert vel
gengur þó með sperrt stél.
Bertel.

Allt í einu víkur Jóhannes sér að Kristmanni og segir:

Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann.
Kristmann.

Kristmann sem ekki þótti með hraðkvæðustu mönnum var fljótur að svara þessu:

Fleiri þó við ötlum
að farið hafi úr pjötlum
í Kötlum.

Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það en ég man að ég keypti þetta í einhverri af Ísoldabókun Kristmanns. Já, mig minnir að ég hafi lesið þær flestar á sínum tíma. Ísold hin bjarta, Ísold hin svarta og Ísold hin gullna minnir mig að þær heiti. Þetta eru sjálfsævisögulegar bækur sem Kristmann sendi frá sér á efri árum.


414. - Að vinda bráðan bug að bloggi á bloggið mitt

Nú vind ég að því bráðan bug
að láta mér eitthvað detta í hug.

Þetta gæti næstum því verið upphaf á vísu. Það var Ólafur Skorrdal sem ráðlagði mér að nota shift/enter (minnir mig) þegar ég vil setja vísur almennilega upp. Sjáum til hvernig það dugar. Ég held að þetta snúist allt um line-feed og carriage return svo maður sletti svolítið ensku fyrst maður kann hana.

Hvað á að gera við alla þessa bloggvini? Sumir safna þeim og vilja hafa þá sem flesta. Sumir eru á móti þeim og vilja ekki sjá þá nema þeir séu almennilegir. Sumir kunna ekki að sækjast eftir þeim (segja þeir). Þetta með að senda póst í gegnum bloggið til bloggvina sinna (eins í einu eða allra í senn) er ágætur fídus þó mér sé til efs að hann verði mikið notaður. (til hvers er tölvupóstur?)

Já, þetta með bloggvinina er alvarlegt mál. Ég er alltaf dálítið hræddur við að fikta mikið í stjórnborðinu. Held að þá geti öll mín blogg fokið út í veður og vind. Þó veit ég að svo er ekki og að moggabloggsguðirnir mundu hjálpa mér ef ég gerði einhverja fáránlega vitleysu. Einu sinni fannst mér að ég þyrfti helst alltaf að lesa það sem bloggvinir mínir skrifuðu. Mér finnst það ekki lengur. Þeir eru orðnir svo margir og skrifa svo mikið. Sumir eru að vísu nánast hættir að blogga en gætu hvenær sem er byrjað aftur. Svo eru til önnur blogg og jafnvel er bloggað utan moggabloggsins. Svei mér þá.

Sumir líta á bloggvinina sem eins konar arfa eða illgresi sem sprettur upp af bloggmoldinni og að þá þurfi að grisja öðru hvoru. Ég hef tvisvar lent í því að vera hent út af bloggvinalista og varð hálffúll við í bæði skiptin. Aðeins einu sinni hefur beiðni frá mér um bloggvináttu ekki verið ansað. Hef sjálfur aldrei hent neinum út og alltaf sagt já við beiðnum annarra.

Nú eru Ólympíuleikarnir byrjaðir með látum. Mér finnst skrýtin fullyrðingin um að þetta séu afskaplega pólitískir Ólympíuleikar. Hvernig er hægt að sjá það svona fyrirfram? Eru Ólympíuleikar ekki alltaf pólítískir hjá þeim sem vilja hafa þá það? Og mega þeir ekki jafnvel vera pólitískir? Þeir sem hafa viljað nota þetta tækifæri til að vekja athygli á mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda hafa svo sannarlega gert það. Snýst þetta ekki allt um auglýsingamennsku og að komast að í fjölmiðlum?

08.08.08 er merkileg dagsetning. Benni og Jóhanna fóru til Parísar í morgun og verða þar fram á þriðjudag.

Og fáeinar myndir úr því ég á þær til:

Picture 029Mold og sandur rétt hjá Minni-Borg í Grímsnesi.

Picture 060Þetta er frá Sólheimum.

Picture 151Snúrustaurar á Stokkseyri.

Picture 185Fiðrildi á glugga.


413. - Að vakta umræður á moggablogginu

Ég er nýtekinn upp á því að vakta umræður sem mér finnst vera merkilegar á moggablogginu. Les varla önnur blogg orðið. Ég þarf ekkert að taka þátt í þeim umræðum frekar en ég vil en fæ alltaf að vita ef ný komment bætast við. Í gær vaktaði ég til dæmis umræður sem spunnust útaf góðri grein Hrannars Baldurssonar um blogg sem heitir: „Er Geir Haarde að dissa bloggara?" og sé ekki eftir því. Sum kommentin þar eru mjög góð. Kristján H. sem virðist ekki vera bloggari skrifar þar til dæmis ágætt komment um stjórnarandstöðu bloggara og líklega þróun bloggsins. Það að geta fylgst með umræðum er góð viðbót hjá þeim moggabloggsstjórnendum. Áður var þetta þannig að maður gat aldrei vitað nema maður væri að missa af góðum kommentum.

Ekki komst ég á listann hjá Kalla Tomm og súta það ekki. Sá þó ekki betur í gær en einn aðili hefði minnst á mig. Það var auðvitað stórfrændi minn, eðalbloggari, tölvugrúskari og topplistahöfundur Gunnar Helgi Eysteinsson sem það gerði.

Menn eru að furða sig á því að ég skuli vera að hallmæla Guðna Ágústssyni. Samt er ég víst skráður í Framsóknarflokkinn vegna þess að ég tók einu sinni þátt í prófkjöri hjá þeim. Hló samt þegar þeir reyndu að rukka mig um árgjald eða eitthvað slíkt. Það getur verið að hægt sé að notast við Guðna sem þingmann og ráðherra en hann er ekki gerður úr því efni sem þarf í flokksformenn.

Það mun hafa verið nokkrum árum fyrir 1990 sem nikótíntyggjó kom fyrst á markaðinn. Þetta var sagt ágætt að nota til þess að hætta að reykja. Um það leyti voru flestir farnir að gera sér ágæta grein fyrir óhollustu tóbaks en á það hafði skort nokkuð þegar sígarettur voru fyrst að nema land hér að einhverju marki.

Nikótíntyggjó var þó lyfseðilsskylt og nauðsynlegt að fá leyfi læknis til að geta fengið að nota slík ósköp. Ekki fór fáviska þessi þó framhjá öllum því að nokkrum tíma liðnum var leyft að selja þessi stórhættulegu eiturlyf hverjum sem var. Sú breyting gekk í gildi um áramótin 1990 og 1991 og ég ákvað að láta verða af því einu sinni enn að hætta að reykja.

Um þetta leyti vann ég á Stöð 2 en átti heima í Hveragerði. Ekkert Apótek var í Hveragerði um þetta leyti að ég held enda hefði það ekki breytt neinu því það hefði eflaust verið lokað á nýjársdag 1991. Það var sá dagur sem ég þurfti að þrauka nikótíntyggjólaus auk sígarettuleysisins en um morguninn 2. janúar lét ég það verða mitt fyrsta verk að kaupa mér nikótíntyggjó í Árbæjarapóteki. Mér er það minnisstætt að ég var fyrsti maðurinn sem nýtti mér þar hið nýfengna frelsi og keypti mér nikótíntyggjó án þess að sýna framá það skjallega að ég þyrfti á því að halda.


412. - Guðni Ágústsson sýnir sinn innri mann

Leiðinlegt með Guðna Ágústsson. Hann opinberaði svo sannarlega sinn innri mann í þættinum hjá Sverri Stormsker. Sverrir var eiginlega í vandræðum með hann allan tímann en tókst nokkrum sinnum að lempa hann smávegis. Svona skapvonska og yfirgangur tíðkast ekki hjá pólitíkusum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Bráðum verður lag til að losna við hann úr formannsstóli og frú Valgerður og Björn Ingi hugsa honum áreiðanlega þegjandi þörfina bæði fyrir framkomuna og eins fyrir stefnuna sem hann er að reyna að stýra flokknum inná. Fyrst hann þorði ekki að leggja til atlögu þegar Halldór fór frá á hann ekki skilið að stýra flokknum enda er allt í rúst hjá honum.

En nóg um þessa pólitík. Það er heldur óskemmtileg tík. Pólitískar vangaveltur eru næstum því eins leiðinlegar og umferðasögur. Þegar fólk kemur saman eru umferðasögur alveg á pari við veðrið. Allir hafa eitthvað til málanna að leggja og allir eru svo svakalega góðir og tillitssamir í umferðinni en hafa alltaf lent í kasti við einhverja fávita þar. Hvar ætli þeir séu eiginlega?

Allir virðast líka geta fimbulfambað endalaust um veðrið án þess að segja nokkuð en þurfa þó ekki að úthúða neinum. Ekki einu sinni ríkisstjórninni.

Verslunarmannahelgin er liðin og sumri tekið að halla. Ættarmót og allskyns uppákomur taka nú við. Um næstu helgi verð ég líklega á ættar- eða fjölskyldumótum beggja megin.

Don Hrannar líkir blogginu við stjórnarandstöðu. Ekki svo vitlaust. Sennilega eru stjórnmálamenn sumir farnir að óttast bloggara meira en samþingmenn sína enda mun hættulegri. Guðni óttast samt Stormskerið allra mest.

Og í lokin fáeinar myndir:

IMG 2008Þetta er reyndar ekki pappi en pappi á að fara þangað.

IMG 2142Þessi blómabreiða er við Gerðuberg í Breiðholtinu.

IMG 2185Já þetta er Esjan. Ógnarlegt fjall.

IMG 2199Þessi er dálítið „Arty Farty" eins og sagt er. Annars er þetta nú eiginlega sólseturs eða sólaruppkomumynd (man ekki hvort) þó ég hafi lofað að hafa þær ekki fleiri.IMG 2215

Gangstéttarnar í Kópavogi eru fyrir bíla eins og allir vita.


411. - Útsynningur og landsynningur

Heyrði eitt sinn góða kenningu um uppruna orðanna útsynningur og landsynningur. Samkvæmt henni er útsynningur suðvestanátt en landsynningur suðaustanátt og það held ég að passi við skilning flestra. Auðvitað má líka heimfæra þetta á útnyrðing og landnyrðing þó ég þekki þær vindáttir miklu minna.

Fyrst eftir landnám Íslands var Noregur náttúrlega landið og áttamiðanir voru með hliðsjón af því. Út var að sjálfsögðu í átt frá landinu (Noregi) og þannig eru þessar áttir til orðnar.

Það næsta sem við þurfum að geta gert hér á moggablogginu er að geta dánlódað í einhveru aðgengilegu formi öll okkar bloggskrif og annað það sem við höfum sent hingað inn. Það er alltof seinlegt að geta bara tekið eina og eina færslu í einu eins og mér skilst að sé núna. Ég efast ekki um að stjórnendur bloggsins geti leyst þetta farsællega fyrir okkur. Annað eins hafa þeir nú afrekað.

Fyrst þegar ég byrjaði að blogga prentaði ég bloggin mín út öðru hvoru og safnaði þeim í möppu. Nú er ég alveg hættur að nenna því. Það væri samt gott að geta átt þetta einhvers staðar. Ég er svo tortrygginn að ég treysti helst engum.

Í pælingum mínum um blogg og þessháttar er ég sennilega alltaf að segja það sama þó með mismunandi orðalagi sé. Alltaf reyni ég þó að hafa eitthvað bitastæðara með þessum vesælu pælingum mínum.


410. - Söltunartilraunir dómsmálaráðherra

Ég held að Björn Bjarnason sé að reyna að salta stóra Ramsesarmálið. Hann gerir sér eflaust grein fyrir því að bloggarar margir bíða með spenntan bogann eftir því að hann staðfesti úrskurð Útlendingastofnunar. Varla þorir hann að snúa honum við. Það bæri vott um karakterveikleika og gæti gefið slæmt fordæmi.

Líklega er hann að leita að leiðum til að tefja málið og einnig vonar hann eflaust að eitthvað gerist fljótlega sem auðveldi honum þetta allt. Þó hljótt sé um þetta mál að sinni er andstaða fólks við úrskurð Útlendingastofnunar í málinu lifandi enn. Þetta mál hefur margt sem bendir til að það geti orðið að nýju Gervasoni-máli. Varla mun þó ríkisstjórnin springa vegna þess.

Margir virðast hafa hætt að blogga að undanförnu eða að minnsta kosti tekið sér frí um hásumarið. Aðrir koma bara í staðinn og ég sé ekki neitt lát á vinsældum moggabloggsins. Bilanir eins og urðu um daginn geta þó reynt á þanþolið en starfsmenn virtust bregðast vel við vandanum.

Ég er alltaf að finna betur og betur hvað það er sem fólk vill lesa. Mjög margir kíktu á síðuna mína í gær og má ýmsar ályktanir af því draga. Vinsældir eru þó ekki allt þó margir virðist skrifa aðallega þeirra vegna. Mest er um vert að hafa eitthvað að segja og vera ekki einatt að bergmála aðra.

Ef einkum er verið að blogga fyrir vini og vandamenn er fullkomlega eðlilegt að blogga aðallega um sjálfan sig og það sem á dagana drífur. Sumir gera það reyndar svo skínandi vel að skrifin eiga vissulega erindi til annarra.

En þegar menn eru óforvarendis gerðir að forsíðubloggurum, eins og ég hef leyft mér að kalla aðalinn hér á moggablogginu, þá leggur það viðkomandi vissar skyldur á herðar. Þannig lít ég að minnsta kosti á.

Það er merkilegt hvað maður endist til að skrifa uppá því sem næst hvern einasta dag. Sárasjaldan tekst mér að skrifa fyrirfram þó oft ætli ég mér það.

Fréttaskýringar og að oft sé linkað í fréttir á hverjum degi hugnast mér lítt. Öðrum getur þó líkað það vel og oft getur verið fengur að því að fá sjónarmeð ákveðinna aðila á heitustu fréttirnar.


409. - Ég hef áhyggjur af Ólafi. Ég verð bara að segja það

"Ég hef áhyggjur af því sem læknir og heilbrigðisstarfsmaður ef fagmennska og heiðarleg vinnubrögð eru ekki hluti af leikreglunum hjá fjölmiðlamönnum eins og Helga."

Að maður sem kallar sig borgarstjóra skuli geta látið útúr sér aðra eins steypu og augljósar aðdróttanir er með ólíkindum. Og Hanna Birna og hinir aularnir í svonefndum borgarstjórnarflokki virðast ætla að láta þetta yfir sig ganga. Auðvitað er Helgi Seljan ekki allra en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Einu sinni sá ég á bókasafni lista sem gerður hafði verið eftir einhverri könnum um merkilegustu bækur sem skrifaðar hefðu verið á íslensku. Flest voru þetta bækur sem maður kannaðist við en þó ekki allar. Þegar ég var búinn að lesa nöfnin á 10 til 12 vinsælustu bókunum voru komnar 2 eða 3 bækur eftir Þorgrím Þráinsson sem ég kannaðist ekkert við. Við svo búið hætti ég að lesa.

Oft og einatt (einkum þó á Bókasafni Kópavogs) finn ég bækur sem ég hafði ekki hugmuynd um að væru til. Það er með ólíkindum hve mikið hefur verið gefið út af bókum á Íslandi. Einkum núna seinni árin. Það er líka orðið svo ódýrt að gefa út bækur og forlögin svo mörg. Ég er svolítið hræddur um að þetta verði til þess að bækur verði ekki eins vandaðar og áður var. Hef samt ekki orðið var við neitt slíkt. Sé bara mjög mörg dæmi þess að blogg, vefrit og allskyns blaðarusl er oft á tíðum svo óvandað að undarlegt er að sjá ósköpin.

Gallinn við íslenska bókaútgáfu er sá að auglýsingar, afslættir og allskyns sölubrellur eru farnar að skipta meira máli en efni bókanna. Þetta er skaði því vel getur þetta orðið til þess að áhugaverðar bækur fari með öllu framhjá manni. Ég veit ekki hvar ég væri staddur ef ég hefði ekki bókasöfn við að styðjast. Svo gerir mitt fólk óspart grín að mér fyrir að geyma gömul bókatíðindi. Mér er til efs að annars staðar sé að finna jafntæmandi upplýsingar um íslenskar bækur.

Margt má auðvitað að bókatíðindum finna og einkum það að þar er endurútgáfum af ýmsu tagi gert jafnhátt undir höfði og frumútgáfum. Svo eru náttúrlega auglýsingarnar þar að tröllríða öllu eins og annars staðar.

Sá fyrstu tvo geitunga sumarsins um daginn. Annar þeirra lenti í glasi og átti ekki afturkvæmt þaðan en hinn fór líklega út aftur. Ég man hvað ég var ánægður með frétt í Mogganum fyrir nokkrum árum þar sem sagði frá því að geitungastofninn virtist hafa hrunið. Farið hefur fé betra. Ég hef aldrei verið bitinn af geitungi en er samt afar illa við þá.

 

408. - Ef tunglið væri úr tómum osti....

Segja má að hingað til hafi mannkynið einungis átt þess kost að rannsaka að einhverju marki þrjá himinhnetti utan sólna: Jörðina, Tunglið og Mars. Nær fullvíst má telja að á tveimur þessara himinhnatta hafi einhverntíma einhverskonar ljóstillífun átt sér stað. Þarna er ég að tala um Jörðina og Mars. Ef til vill er uppruni tunglsins allt annar en annarra himinhnatta og þess vegna ekki við því að búast að ummerki um líf finnist þar.

Að halda því svo fram að öruggt sé að hvergi annars staðar í alheiminum geti hafa átt sér stað neins konar ljóstillífun er hreinlega móðgun við heilbrigða skynsemi. Þetta þarf að hafa í huga í hvert sinn sem spurningunni um geimverur er svarað.

Ég trúi ekki á geimverur í þeim skilningi að þær séu á sífelldu vafstri hér á Jörðinni en trúi því að þær séu einhvers staðar til. Um þetta má að sjálfsögðu endalaust bollaleggja. Mér finnst margt í þeim bollaleggingum mun áhugaverðara en þær trúmálaþrætur sem gjarnan blossa upp hér í bloggheimum.

Ég er búinn að skrá mig á Flickr og setja nokkrar myndir þar. Áslaug er á Flickr og er búin að senda heilmikið af myndum þangað. Bjarni er á Flickr með fullt  af myndum. Kom líka í kvöld með talsvert af kopíeruðum myndum. Ég kann eiginlega ekkert á þetta dót en get kannski lært það svona smám saman. Já og Atli Harðarson er líka á Flickr með fullt af góðum myndum. Sjáumst seinna.

Annars er ég að hugsa um að blogga mjög stutt núna svona í tilefni dagsins eða dagnna. Hverjir nenna að lesa blogg í fínu veðri á mestu umferðarhelgi ársins?

Bíð eftir að heyra þátt Stormskersins með viðtalinu við Guðna. Hann lofar að birta hann á vefsetrinu sínu eftir helgi.

 

407. - Sólin ekki sinna verka sakna lætur

Að undanförnu hafa sólarlög og sólaruppkomur verið með þeim hætti að manni fallast algjörlega hendur. Vinna mín er þannig að ég á nokkuð auðvelt með að fylgjast með þessum fyrirbrigðum. Myndavélin mín fær að kenna á því. Ég hef tekið svo mikið af myndum af þessu að ég hef enga hugmynd um hvað ég á að gera við þær. Einhverjar hef ég birt hér á blogginu mínu en það eru bara sýnishorn. Eflaust finnst sumum þær vera allar eins. Þessvegna birti ég nokkrar núna en hætti því svo líklega.

Svo eru menn að tala um veður og veðurmet. Ég veit ekki betur en sólin stjórni þessu öllu eins og henni sýnist. Ég missti reyndar af sólmyrkvanum um daginn en það verður að hafa það. Minningar mínar tengjast mjög gjarnan sólmyrkvum hvernig sem á því stendur. Sennilega hef ég verið sóldýrkandi í fyrra lífi. Tunglmyrkvar eru miklu ómerkari. Eiginlega bara fyrirbrigði á himni og ekkert framyfir það. Sólmyrkvar eru hins vegar náttúrufyrirbrigði.

Þetta með Guðna Ágústsson og Sverri Stormsker er að verða meiri háttar mál. Nú langar mann svo til að hlusta á þennan útvarpsþátt að maður reynir að gúgla hann og hvaðeina. Hvað er málið eiginlega? Á ekki að endurflytja þáttinn eins og aðra slíka? Ætlar Sverrir ekki að setja hann á síðuna sína? Ég bíð.

Fór með gömul dagblöð og auglýsingapésa í grenndargám áðan og kveikti á útvarpinu í bílnum á meðan. Þar var verið að óskapast útaf lokun vörubílstjóra á veginum í Elliðaárbrekku. Snerti mig lítið og svo komst ég að því að þetta var eitthvert plat í auglýsingaskyni. Verst ef einhverjir hafa hætt við að fara úr bænum útaf þessu. Kannski brottför hafi bara frestast og menn séu jafnvel enn ánægðari með lífið eftir en áður. Vonum það.

Núna er ég að lesa bók eftir Kristin Snæland: Diddasögur - Reykjavíkurstrákur segir frá. Vestfirska forlagið gaf út árið 2007. Merkileg bók og enn merkilegra að ég skuli ekki hafa heyrt á hana minnst fyrr. Höfundur er fæddur nokkru fyrir 1940 og lýsir mannlífi og atburðum á styrjaldarárunum og fyrstu árunum þar á eftir af stakri snilld. Eflaust hefur þessi bók ekki verið auglýst eins vel og vert hefði verið.

Sumurin 1950 og 1951 vann Kristinn við síldarverksmiðjuna á Djúpuvík. Síðan segir hann: "Verksmiðjan var starfrækt lítilsháttar næsta sumar en síðan ekki meir. Næst komst hún rækilega í fréttir þegar kvikmyndin Blóðrautt sólarlag var tekin þar nokkrum árum síðar." Þetta er ekki alveg rétt hjá Kristni. Það var löngu seinna sem myndin Bóðrautt sólarlag var tekin. Ef ég man rétt var heldur ekki um kvikmynd að ræða heldur sjónvarpsþátt.

Það var Hrafn Gunnlaugsson sem stjórnaði myndinni og Helgi Skúlason sem lék aðalhlutverkið. Myndin fjallaði um hóp manna sem fór til Djúpuvíkur til að komast á fyllerí. Ældu þar og ólmuðust og myndin hneykslaði á sínum tíma marga en mundi ekki þykja mjög merkileg að því leyti núna.

Sjálfur á ég þá minningu helsta um Djúpuvík að skólasystkini min Ágúst Guðmundsson og Kamilla systir hans eða frænka voru sögð vera þaðan.

Kannski finnst mér bók Kristins Snælands svona góð af því að hún er eins og blogg. Höfundurinn er kannski að vanda sig en ekki með neinar skáldagrillur. Maður trúir flestu af því sem hann segir frá einmitt þess vegna.

 

 
IMG 2169IMG 2174IMG 2179IMG 2181IMG 2182IMG 2183

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband