Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

426. - Gúglað úr glerhúsi. (Æ, þetta hljómaði bara svo vel)

Ég man vel eftir því að þegar ég var forstöðumaður vídeókerfisins í Borgarnesi sem landsfrægt varð á sínum tíma var mér eitt sinn boðið á ráðstefnu um fjölmiðlamál sem haldin var í Ölfusborgum á vegum þáverandi Alþýðubandalags.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði eða sá um daginn viðtal við Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðing.

Með mér í för var Björgvin Óskar Bjarnason þáverandi stjórnarmaður í ÚSVB (Útvarps- sjónvarps- og videofélagi Borgarness) og áður leikmaður með meistaraflokksliði Víkings í knattspyrnu og forstjóri Húfugerðarinnar í Borgarnesi.

Á þessari ráðstefnu flutti ég erindi um starfsemi videókerfisins. Við gerðum fleira en að fá kvikmyndir á videóleigum og sýna þær í kerfinu. Við áttum sjónvarpstökuvél í félagi við Leikfélag Borgarness og gerðum ýmislegt sem ekki er algengt að svo lítil samfélög sem þetta geri.

Vilborg Harðardóttir tók fréttum af félaginu mjög vel og sagði okkur vera að gera góða hluti. Mér er líka minnisstætt að Þorbjörn Broddason flutti erindi á ráðstefnunni og kallaði okkur videókerfismenn "misgerðamenn ríkisútvarpsins" sem mér fannst vel að orði komist hjá honum. Þetta mun hafa verið svona um 1982 - 1985

Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson voru líka á þessari ráðstefnu en ég minnist þess ekki að þeir hafi látið neitt í sér heyra um þessi mál.

Sennilega hefði ég getað sleppt þessari færslu með öllu. Ég hélt ekki að ég væri farinn að endurtaka mig svona mikið. Fékk nefnilega þá snilldarhugmynd að gúgla þetta og þá sé ég að ég hef víst sagt eitthvað frá þessu í bloggi nr. 113 frá því í september í fyrra. (Loksins koma þessi blessuð bloggnúmer mín að einhverju gagni)

En ég nenni ekki að fara að fitja uppá nýju bloggi núna. Fer bara frekar að sofa. Fyrirsögnin er líka svo góð að hún afsakar þetta næstum.


425. - Um bókina "Í öðru landi" eftir Eddu Andrésdóttur

Las um daginn bókina "Í öðru landi" eftir Eddu Andrésdóttur. Merkileg bók en alls ekki gallalaus að mínum dómi. Í bókinni segir Edda frá föður sínum, sjúkdómnum sem hann gekk með (Alzheimer) og láti hans. Kannski hafa bækur af þessu tagi ekki oft verið skrifaðar á íslensku. Mér finnst einn helsti galli hennar hvað hún er sundurlaus. Alls ekki er fjallað faglega um Alzheimer sjúkdóminn og afbrigði hans og ekki heldur um dauðann sjálfan.

Öðrum þræði er bók þessi æviminningar enda ekki auðvelt að skrifa heila bók á þann hátt sem lýst er hér að framan án þess að fleira komi til en Alzheimer og dauði. Í æviminningunum sérstaklega og reyndar i bókinni allri er mikið reynt að túlka skáldlega sýn á tilveruna. Þetta finnst mér Edda ekki ráða nógu vel við og varð ósjálfrátt hugsað til bókar Jóns Kalmans Stefánssonar "Himnaríki og helvíti" til samanburðar. Fyrri hluti þeirrar bókar er eitt það áhrifamesta og skáldlegasta sem ég hef lesið í seinni tíð.

Sjálfsævisögur er án nokkurs vafa erfitt að skrifa og í fljótu bragði man ég ekki eftir nema einni sjálfsævisögu sem mér fannst virkilega góð. Það er bókin "Í verum" eftir Theodór Friðriksson. Ég man að ég týndi mér gjörsamlega þegar ég las þá bók og tel mig hafa miklu betri skilning eftir en áður á fyrri hluta tuttugustu aldar hér á landi. Líklega væru æviminningar Eddu betri ef þær væru skrifaðar af öðrum en henni sjálfri.


424. - Ólympíuleikar, Ólympíuleikar, Ólympíuleikar

Einu sinni þótti mér allt stórmerkilegt sem gerðist á Ólympíuleikum en ekki lengur. Núna finnst mér varla taka því að fylgjast með því sem fram fer á Ólympíuleikunum í Kína. Það er samt spennandi að horfa á leiki Íslendinga í handboltanum.

Fyrstu Ólympíuleikarnir sem ég fylgdist eitthvað með voru leikarnir 1952 í Helsinki en þó aðallega eftir leikana. Ég man eftir umfjöllun um Örn Clausen (eða Hauk bróðir hans) í einhverju blaði skömmu eftir leikana.

Þar var frá því sagt að í Helsinki hafi hann ætlað að lyfta ferðatösku sem hann hélt að væri níðþung en var þá galtóm og fislétt. Við þetta tognaði hann svo illilega í handleggnum að hann var settur á sjúkralista og gat ekkert keppt sem þó var ætlunin. Hann vildi þá meina að hann gæti verið fram eftir kvöldi að skemmta sér með öðrum Íslendingum sem ekki voru að fara að keppa í neinu. Þetta vildi íþróttaforystan ekki fallast á og deilur milli hennar og Clausenbræðra mögnuðust upp og þeir hættu íþróttaiðkun alltof snemma.

Svo var það á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 að Villi stökk í þremur stökkum svo eftirminnilega inn í íslensku þjóðarsálina að þaðan hefur hann ekki farið síðan.

Á fjögurra ára fresti var leikurinn svo endurtekinn. Oftast urðum við Íslendingar fyrir vonbrigðum. Það var svo aftur í Ástralíu en að þessu sinni í Sidney sem Vala Flosadóttir stökk á stöng eins og Sveinbjörn og Valbjörn forðum og vann til verðlauna. Svo má auðvitað ekki gleyma handboltalandsliðinu sem alltaf gerir það gott öðru hvoru og Bjarni júdókappi vann einhverntíma til verðlauna.

 

423. - Bloggað um blogg. Enn heldur sýndarviðtalið áfram. Ég get ekki stoppað

Svei mér þá. Viðtalsformið er svo skemmtilegt að ég held að ég haldi bara áfram. 

BMB: Blaðamaður Moggabloggstíðinda.

SB: Ég sjálfur.

Nota Bene. Þetta er ímyndað viðtal (en kannski ekkert verra fyrir það)

BMB: Nú eru fleiri bloggveitur á landinu en moggabloggið. Hvað gerir það svona sérstakt?

SB: Það er svo margt. Fyrir það fyrsta elska allir að hata það. Aðrir bloggarar telja það lágmenningu hina verstu og vilja helst ekkert af því vita. Það er svo einfalt og auðvelt að blogga hér að það hálfa væri nóg eins og stundum er sagt.

BMB: Bloggarar eru oft sagðir ansi dómgjarnir. Hvað viltu segja um það.

SB: Ég held að moggabloggarar séu ekkert verri en aðrir hvað það snertir. Sumir bloggarar eru oft á tíðum tilbúnir að dæma um flóknustu mál og byggja vitneskju sína stundum á örstuttum fréttafrásögnum. Þessi dómgirni finnst mér oft galli á annars góðum bloggum. En blogg eru líka oft mjög fræðandi. Sem dæmi um hve heppinn ég er í þessum efnum get ég nefnt að ég er nýbúinn að uppgötva hve fræðandi margt er á Orkublogginu sem Ketill Sigurjónsson hefur haldið úti alllengi en nú tilkynnir hann að hann ætli að hætta. Að minnsta kosti í bili.

BMB: Mér skilst að moggabloggarar séu nokkuð margir.

SB: Já þeir eru eflaust margir og eftir því sem er að sjá á moggablogginu sjálfu er þeim alltaf að fjölga. Þeir geta þó ekki allir verið mjög virkir. Eftir tölum að dæma sem kommnar eru frá stjórnendum moggabloggsins virðist þurfa að fá 400 til 500 innlit á viku til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggarana á moggablogginu. Það er alveg heilmikið og ég held að þessi tala hafi lengi verið svipuð. Ég man eftir að áður en ég var dubbaður upp í að vera forsíðubloggari var ég ekkert öruggur um að vera á þessum lista.

BMB: En er ekki nokkuð einfalt að gera bara eins og stjórnendur moggabloggsins?

SB: Það hefur verið reynt en gengið illa. Eyjan.is reyndi að lokka til sín alla bestu bloggarana héðan og visir.is reynir að ég held að líkja eftir þessari bloggveitu. Samt virðist moggabloggið halda sínu striki. Sjálft orðið moggabloggari er að öðlast sérstaka merkingu i tungunni.

BMB: Nú er grunnþjónusta moggabloggsins alveg ókeypis. Heldurðu að það hafi áhrif?

SB: Örugglega. Vegna þess að Mogginn bauð uppá ókeypis blogg og góða þjónustu á því sviði á réttum tíma náði bloggið þeirra svona mikilli útbreiðslu öðrum og reyndari bloggurum á landinu til sárrar gremju. Mbl.is hafði lengi verið vinsælasti Netmiðillinn og með því að auglýsa upp moggabloggið og leggja áherslu á að sem flestir blogguðu þar voru vinsældir mbl.is tryggðar eitthvað til frambúðar og þar af leiðandi hægt að selja auglýsingar.

BMB: Mbl.is er oft gagnrýnt. Jafnvel af moggabloggurum sjálfum.

SB: Sem er engin furða. Fréttir þar eru stundum illa skrifaðar. Það er engu líkara en þetta sé notað sem einhvers konar æfingavöllur fyrir tilvonandi blaðamenn. Það þyrfti að laga.

BMB: Ég skal skila því til ritstjórans. Má ég bera þig fyrir því?

SB: Já, já. En nú held ég að þetta viðtal geti ekki orðið lengra. Þetta eru orðin heil þrjú blogg.

 

422. - Ímyndunarviðtalið heldur áfram

Samtalsformið er skemmtilegt. Kannski ég láti viðtalið bara halda áfram. (NB þetta er ímyndað viðtal.)

BMB = blaðamaður Moggabloggstíðinda.

SB = Ég sjálfur.

BMB: Hvað er það sem rekur þig áfram með bloggið? Fyrir hverja ertu eiginlega að þessu?

SB: Margir bloggararr virðast líta svo á að þeir þurfi að láta í ljós álit sitt á því sem hæst ber í fréttum hverju sinni. Að minnsta kosti á því sem þeim sjálfum þykir merkilegt. Þessu er ekki svo farið með mig. Mér finnst að ég þurfi bara að blogga um það sem mér finnst skemmtilegast að blogga um. Hvort einhverjum öðrum finnist að ég ætti að láta í ljós skoðun mína á einhverju tilteknu máli truflar mig ekki. Ég tala bara um það sem mér dettur í hug. Og svo blogga ég náttúrlega líka fyrir stórfjöskylduna og segi frá því helsta sem á daga okkar hjóna og krakkanna drífur.

BMB: Sem er?

SB: Fyrir utan yfirvofandi flutninga og húsakaup er það helst að segja að fjölskyldan virðist vera orðin Flickr-óð. Allir eru komnir með Flickr síður. Meira að segja ég sjálfur. Aðgengismál á Flickr.com eru reyndar svo flókin að ég reyni varla að skilja þau. Sjálfur fer ég yfirleitt á Flickrið í gegnum 123.is síðu konunnar minnar (123.is/asben). Síðan held ég að það fari eftir ýmsu hvaða myndir hver og einn getur séð. Já og svo vil ég bara minna á ljósmyndasýningu Bjössa bróður á Bókasafninu í Hveragerði sem ég held að standi enn.

BMB: Hvað er um bloggvinina að segja? Þetta fyrirkomulag vekur talsverða athygli margra.

SB: Já, þetta með bloggvinina er merkilegt. Hægt væri að skrifa mörg blogg um það. Sjálfur fann ég fljótt út á moggablogginu hvernig á að biðja fólk um að gerast bloggvinir sínir. Sumir eru með fjöldamarga slíka og virðast safna þeim af ákafa. Sjálfur er ég að mestu hættur að bjóða öðrum bloggvináttu. Samt fjölgar þeim. Ég hef oft bloggað um bloggvini. Í rauninni eru þetta bara "favorities" en þó óháð tölvum og hægt að fá fyrirsögn og smáágrip af bloggbyrjuninni án þess að eyða miklum tíma. Það getur semsagt skipt töluverðu máli hvernig fyrirsagnir og fyrstu línur eru í bloggum.

BMB: Það er dálítið átak að blogga svona á hverjum degi er það ekki?

SB: Ekki finnst mér það. Ég er orðinn svo vanur þessu að ég get hæglega fimbulfambað eitthvað án þess að segja nokkuð. Nei, það er alltaf eitthvað til að skrifa um og engin hætta á að verða þurrausinn. Sumir bloggarar virðast hafa einsett sér að vera alltaf með eitthvað fræðandi og myndskreytt efni og vel getur verið að þeim finnist stundum frá litlu að segja.

BMB: Hvernig finnst þér Moggabloggsguðirnir standa sig?

SB: Bara þrælvel. Nýja fúnksjónin með að taka öryggisafrit af blogginu sínu virkar fínt hjá mér. En mikið skelfing er þetta lítið að vöxtum sem maður er búinn að vera að rembast við að skrifa í allan þennan tíma. Reyndar er þetta víst þjappað svo ekki er að furða þó skráin sé litil. Ég er ánægðastur með að athugasemdirnar skuli vera með. Mjög fljótlegt er að hala þetta niður og skoða þegar best hentar en hver er ekki nettengdur allan daginn nú orðið?

 

421. Ímyndað viðtal við ímyndaðan ofurbloggara

Blaðamaður Moggabloggstíðinda tók nýlega viðtal við bloggarann Sæmund Bjarnason og fer það hér á eftir:

BMB: Nú ert þú búinn að blogga manna lengst hér á moggablogginu. Hvenær byrjaðirðu á þessu og hvernig stóð á því?

SB: Það er tæpast rétt hjá þér að ég hafi bloggað manna lengst hér. Mig minnir að ég hafi byrjað í árslok 2006. Ástæðan var aðallega sú að ég hafði gengið lengi með þetta í maganum og ákvað að prófa þegar ég sá hve einfalt og auðvelt þetta er. Nú er þetta orðið að einskonar ávana.

BMB: Urlið hjá þér er: saemi7.blog.is. Hvaða sjö eru þetta?

SB: Sjö er bara mín uppáhaldstala. Mig minnir líka að tölustafslaus saemi hafi verið frátekinn þegar ég byrjaði.

BMB: Hvaða fólk er þetta á hausmyndinni hjá þér?

SB: Já það. Þetta er gömul mynd tekin í Hveragerði. Gunnar Helgi gerði þessa mynd fyrir mig og þarna er til dæmis pabbi hans. Einnig Bergþóra Árnadóttir og fleiri. Viltu vita nöfnin á öllum?

BMB: Já, því ekki það.

SB: Talið frá vinstri: Björgvin Bjarnason, Margrét Árnadóttir, Eysteinn Gunnarsson, Bergþóra Árnadóttir, Vignir Bjarnason og Jón Sverrir Árnason. Annars getur vel verið að ég setji nýja hausmynd einhvern tíma. Myndin af mér sjálfum er heldur ekki góð. En ég myndast nú alltaf svo illa.

BMB: Takk fyrir þetta. Ég hef tekið eftir því að þú bloggar langmest um blogg. Er hægt að blogga endalaust um blogg?

SB: Já, líklega er það hægt. Þetta er hvorki meira né minna en nýr samskiptamáti og engin hætta á að hann hverfi fljótlega.

BMB: En lestu mikið af bloggum annarra?

SB: Talsvert. Ég er aftur á móti næstum hættur að lesa dagblöð. Les bækur, horfi svolítið á sjónvarp og vafra um á Netinu. Fjölmiðla- og Netneysla fólks hér á landi er með ólíkindum mikil. Þetta með Netið er svolítið eins og að ganga í björg. Hjá flestum hljóta samskiptin í kjötheimum að minnka eftir því sem Netsamskiptin aukast. Það er ekki bara moggabloggið eða blogg yfirleitt sem vex sífellt. Önnur samskipti á Netinu fara líka sívaxandi. Leikjafíkn þar getur orðið verulegt vandamál. Einhverja frétt sá ég um daginn þar sem sagt var frá því að fólk skíti jafnvel í pizzukassa til að þurfa ekki að yfirgefa tölvuna augnablik. Vonandi verða bloggarar aldrei svona.

BMB: En er ekki hægt að ganga of langt í þessu eins og flestu öðru?

SB: Jú, eflaust. Þegar fólk situr kannski við tölvu í vinnunni og fer svo beint í heimatölvuna og eyðir þar mestöllum vökutímanum sem eftir er, þá er hætta á ferðum.

BMB: Hvað ertu lengi að skrifa hvert blogg?

SB: Það er ákaflega misjafnt. Stundum er ég skotfljótur en stundum óralengi. Ég er þó svo heppinn að ég get oft eytt tímanum í vinnunni í þessi ósköp. Ég er nefnilega næturvörður. Ég ímynda mér oft að ég geti minnkað þann tíma sem ég eyði í annað net-tengt ef ég er lengi að blogga en auðvitað er það misskilningur. Ég þarf að lesa önnur blogg og ýmsar síður, leika í bréfskákum, lesa netmiðla, kommenta hjá öðrum og svo framvegis og framvegis og tíminn flýgur. Annars er þetta komið hátt á aðra síðu hjá okkur og bloggin mín mega helst ekki vera lengri en þetta. Sjáumst seinna.

Þar með var ofurbloggarinn rokinn til að setja þetta viðtal á bloggið sitt.

 

420. - Orðljótir bloggarar

Margir bloggarar eru bæði orðhvatir og orðljótir. Ég reyni að vera það ekki. Þó á ég það til að kveða fast að orði og sé jafnvel eftir því stundum. Stjórnmál kalla oft á ljót orð. Stjórnmálamenn eru breyskir og oft er auðvelt að vera vitur eftirá. 

Mér finnst sjálfsagt að reyna að segja á mínu bloggi annað en nokkurnvegin það sama og flestir aðrir. Það er bara svo fjandi erfitt. Hugsa ekki flestir næstum því eins? Það hefur mér fundist. Og skrifa þá ekki flestir eins líka? Jú, auðvitað. En

Enginn gerir svo öllum líki
og ekki Guð í himnaríki

Margt er það á moggablogginu sem ekki tekur því að fylgjast með. Gagnrýni frá einhverjum sem ekki treysta sér til að gefa upp sitt rétta nafn er að litlu hafandi og sjaldnast svaraverð. Ef ástæðan fyrir nafnleyndinni er augljós er allt í lagi með hana. En oft er nafnleyndin bara skálkaskjól fyrir menn sem eru að reyna að sýnast merkilegir og æsa aðra upp.

Töluð orð og tapaður meydómur verða ekki aftur tekin var einhvern tíma sagt. Verðfelling á skoðunum með alltof sterkum orðum er því miður of algeng.

Svo ég láti aðeins ljós mitt skína varðandi borgarmálefnin þá er það ljóst í mínum huga að Sjálfstæðismenn ætluðu sér aldrei að halda samkomulagið við Ólaf F. Magnússon til loka kjörtímabilsins. Þetta vissu líklega allir nema Ólafur og því er óþarft að láta eins og það komi á óvart. Ég er líka þeirrar skoðunar að það fólk sem er í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins eigi enga framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Hugsanlega þó Hanna Birna og Gisli Marteinn en örugglega ekki aðrir.

Í útvarpsfréttum RUV í tengslum við væntanlegt óperuhús í Kópavogi var talað um ljós sem sést vel í myrkri. Ég veit ekki hvaða ljós það eru sem sjást illa í myrkri. Kannski eru þau þó til.

Í útvarpsfréttum kom einnig fram að rafhlöður muni taka við af olíunni. Þetta finnst mér ekki merkilegar fréttir. Samt eru sumir enn með vetnisglýju í augunum. Þar til nú hefur mest áhersla á allri orkuþróun verið á olíunni. Vatnsafl og jarðhiti getur komið að gagni en meginmálið er þó geymsla orkunnar og meðfærileiki. Þegar bensín margfaldast í verði verða aðrir orkugjafar samkeppnisfærir.

 

419. - Þann 4. ágúst bloggaði ég smá um Ólaf borgarstjóra og minntist á hann í fyrirsögninni. Það dugði

Flettingar hjá mér urðu á þriðja þúsund þann daginn. Sem er met. Þetta sýnir að áhugi fólks á borgarmálefnum og stjórnmálum yfirleitt er mikill.

Fyrirsögnin var svohljóðandi: „Ég hef áhyggjur af Ólafi. Ég verð bara að segja það." Auðvitað var fyrirsögnin sneið til framsóknarmanna en mér datt ekki í hug að þeir kæmu svona fljótt til hjálpar Sjálfstæðismönnum. Áhrif þessa gjörnings sem nú er orðin staðreynd á fylgi framsókarflokksins bæði í Reykjavík og á landsvísu eru áhugaverð. Guðni gæti grætt á þessu og hangið lengur við völd þar en ella hefði orðið. Björn Ingi hlýtur að vera svolítið hugsi.

Pistill minn þennan dag fjallaði samt ekki mikið um Ólaf borgarstjóra. Einkum var ég að gagnrýna hann fyrir framkomu sína við Helga Seljan í Kastljósinu og eftir það. Mér dettur ekki í hug að halda að ég hafi átt einhvern þátt í þeirri atburðarás sem nú er orðin.

Ég ætla heldur ekki að blogga mikið um tíðindi dagsins að þessu sinni. Til þess eru aðrir færari en ég. Betra er fyrir mig að vaða bara elginn um allt og ekkert eins og ég er vanur.

Hvort er betra að blogga oft og illa eða sjaldan og vel. Veit það ekki og þetta þarf ekki að skiptast svona. Jafnvel er hægt að blogga oft og vel eða sjaldan og illa. Markmið fólks eru líka misjöfn með blogginu. Vinsældablogg, fréttablogg, fyrirsagnablogg, linkablogg, stjórnmálablogg, fjölskyldublogg, íþróttablogg, bókmenntablogg, minningablogg, brandarablogg, náttúruverndarblogg, nöldurblogg, málfarsblogg, myndablogg, ferðablogg og þannig mætti lengi áfram telja.

Ég reyni að blanda þessu öllu saman og blogga á hverjum degi ef ég get. Mér finnst það nokkuð mikið en ekki er víst að öllum finnist það. Margir blogga oft á dag. Ég reyni að fara ekki með hvert blogg mikið yfir eina vélritaða Word-síðu en bæti þó stundum nokkrum myndum við.

Langmest gaman finnst mér að blogga um blogg. Það er endalaust hægt að fjölyrða um þetta merkilega fyrirbrigði sem margir elska að hata.

Ég forðast frekar en hitt að blogga um fréttatengt efni. Þó er ekki alltaf hægt að stilla sig. Það er samt ekkert keppikefli að hafa fyrirsagnir þannig að sem flestir skoði bloggið en auðvitað kitlar það hégómagirndina þegar svo er.

Í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld í smáhléi frá borarstjórnarfréttum var örstutt viðtal við Gísla Kjartansson sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu. Greinilegt er að hluti af því sem mun gerast í málefnum Sparisjóðsins er að hann verður neyddur til að segja af sér. En hvað leysir það? Ekkert að mínum dómi.

 

418. - Enginn veit allt og fáir vita flest. Sumir þó sitt lítið af hverju

Enginn veit allt og fáir vita flest. Margir þykjast þó vita ansi mikið. Sjálfur var ég einu sinni í þeim hópi en er ekki lengur. Aldurinn fleytti mér yfir þá hindrun.

Hvergi er þetta meira áberandi en í tæknimálum. Þar er alltaf eitthvað eftir sem maður skilur alls ekki nógu vel. Snemma lærði ég inná að oft er betra að þykjast vita minna en maður þó veit. Margir eru samt því marki brenndir að þykjast vita meira en þeir gera og þó það geti fleytt mönnum áfram á sumum sviðum getur það líka verið til mikilla trafala.

Þetta var mjög áberandi hér áður fyrr við bílaskoðun. Skoðunarmennirnir voru greinilega oft orðnir hundleiðir á að þræta við alls kyns besservissera í bílamálum og ef maður vildi fá fljóta og góða þjónustu var um að gera að hafa sem minnst vit á bílum.

Þessu ráði má stundum beita í tölvumálum. Það sem oft er kallað tölvuþekking er gjarnan ekki annað en það að hafa vanist ákveðnum forritum. Það langmikilvægasta í þessu öllu er að spyrja réttu spurninganna. Sannleikurinn er nefnilega sá að spurningin þarf að henta þeim sem spurður er.

Svörin geta auðvitað oft hjálpað en stundum eru þau samt einskis virði hvort sem þau eru rétt eða röng. Röng svör geta veitt mikla hjálp þó ekki sé nema til þess að spyrja réttu spurninganna.

Nú er talað um hve hættulegur vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss sé. Einu sinni gekk ég hann allan með Ingibjörgu systur minni. Þá var hann ekki hættulegur og umferð á honum lítil. Hættulegasti kaflinn var líklega skammt frá Kotströnd. Þar voru tvær einbreiðar trébrýr. Malbikaðir eða olíubornir vegir þekktust ekki á þessum tíma.

Þegar þetta var höfðum við verið í sveit í Eystri Garðsauka hjá Hvolsvelli og umtalað var en þó ekki frágengið að við færum heimleiðis á ákveðnum tíma. Við fórum með mjólkurbílnum að Selfossi en höfðum ekki meiri peninga en fyrir farinu þangað svo ekki var um annað að ræða en labba út í Hveragerði. Ég hef líklega verið 10 ára og Ingibjörg 12 þegar þetta var.

Nú er Stebbi yfir-blogg-fréttaskýrandi að hætta segir hann. Fréttaskýringarblogg með mörgum linkum á dag eru stundum hálfleiðinleg en geta verið ágæt til síns brúks. Maður var farinn að venjast Stebba dálítið og saknar hans kannski. Það kemur í ljós. Einhver hlýtur að taka við.

Hafdís og Jói buðu í íbúð á Akranesi. Því var tekið og flytjast þau líklega þangað í nóvember. Bjarni og Carmaine munu flytjast í húsið sitt í byrjun september.

Í lokin eru svo þrjár myndir sem ég tók nýlega. Eitthvað er búið að eiga við þær (sumar eða allar) þó ég viti ekki nákvæmlega hvað. Konan mín er miklu flinkari en ég í slíku.

Img 2133Ekki man ég hvar ég hitti þessa ófreskju. Líklega er þetta þó frekar Reykvíkingur en Grímsnesingur.

IMG 2214Þessi mynd gæti heitið Strætóskýli á villigötum. Ég er samt ekkert viss um að það sé á villigötum. Kannski bara ljósmyndarinn.

steinarÉg heiti Sæmundur Steinar og vissulega eru þetta steinar.

 

417. - Um þorskastríð og þessháttar

Í einhverju þorskastríðinu skaut íslenskt varðskip nokkrum fallbyssuskotum að breska togaranum Everton. Skeði þetta fyrir norðan land. Sagt var frá þessu í fréttum og ég man að fjölmiðlar og allir sem eitthvað fjölluðu opinberlega um þetta mál voru innilega sammála í bretahatrinu. Mér varð hugsað með hryllingi til þess þá hve lítið þarf í raun og veru að gera til að trylla heila þjóð og æsa til óhæfuverka. Ef við hefðum ekki verið svo stálheppin að hafa alveg óvitlausa skipherra á varðskipunum gæti ég vel trúað að til mannvíga hefði komið.

Mér datt þetta svona í hug í tilefni af Ossetíumálinu. Ekki ætla ég mér þá dul að segja til um hvort Georgíumenn eða Rússar hafi rétt fyrir sér í því. Mér finnst bara ótrúlegt að Rússar geri þetta af einhverri ást á uppreisnarmönnum. Annað hlýtur að hanga á spýtunni. Hugsanlega olía eða aðgangur að henni. Svo er ekkert skrítið þó Rússar vilji fara sínu fram úr því Bandaríkjamenn komast hæglega upp með það.

Las um daginn smásagnasafn eftir Einar Kárason. Einar er oft bráðskemmtilegur og mikill sagnamaður. Meðal annars segir hann frá einhverju rithöfundasammenkomsti í Noregi þar sem Margit Sandemo var meðal annarra og hún var allt öðru vísi en Einar hafði búist við. Sagði til dæmis ósköpin öll af tvíræðum bröndurum eins og um Texasbúann sem fór til Alaska. Einar endursegir þann eldgamla brandara og þó staðfræðin og nöfnin séu öðruvísi er þetta greinilega sami brandarinn. Mér datt þetta í hug af því að nú er ég kominn með nýjan bloggvin (ladyelin.blog.is) sem er mikill aðdáandi ísfólksins hennar Sandemo.

Í einni sögunni í bókinni er minnst á þá Búbónisbræður en samt aðallega fjallað um Jónas Árnason. Ég man mjög vel eftir honum og þessvegna er mér sagan minnisstæðari en ella. Skrifa kannski meira um Jónas seinna.

Flestir þéttbýlisstaðir landsins hafa einhverja sérstaka hátið núorðið. Blómstrandi dagar verða í Hveragerði um næstu helgi. Bjössi bróðir verður með ljósmyndasýningu á Bókasafninu í Hveragerði í tilefni hátíðarinnar og eitthvað lengur að ég held. Hann var með einskonar forsýningu heima hjá sér fyrir okkur systkinin á sunnudagskvöldið og þá fengum við okkur líka að borða öll saman í Þrastalundi.

Á laugardagskvöldið vorum við Áslaug aftur á móti á nokkurs konar ættarmóti að Smáratúni í Fljótshlíð.

Var að horfa á kastljósið áðan þar sem fullyrt var að brunarústirnar í miðbænum verði horfnar fyrir lok árs 2009 og ný hús komin í staðinn. Ég er alveg viss um að þetta mun ekki standast. Plús tvö ár - kannski.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband