415. - Nenni eiginlega ekki að blogga - og þó

Var að koma heim af tveimur ættar- eða fjölskyldumótum og ekki meira um það núna. En þetta átti ég tilbúið að mestu leyti og best að koma því að:

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Tilraunin með vísnauppsetninguna um daginn gekk bara vel. Það er alltannað að sjá þetta svona. Kannski ég fari bara að henda inn vísum villt og galið. Nóg ætti ég að kunna af slíku.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að sinna vísnablogginu mínu (visur7.blog.is) en það var nokkuð sæmileg leið til vinsælda hér áður og fyrr að hrúga saman vísum um sem flestar fréttir (einkum þær vinsælustu) og linka í þær.

Ég minntist víst á Jóhannes úr Kötlum hér á blogginu mínu um daginn. Þegar ég var í skóla sat hann stundum yfir sem kallað var á vorprófum. Reffilegur og myndarlegur kall.

Einhverju sinni voru þeir Jóhannes og Kristmann Guðmundsson staddir á pósthúsinu í Hveragerði ásamt fleirum og voru meðal annars að tala um vísnagerð. Eikum sjaldgæfa bragarhætti og skemmtilegt rím. Meðal annars töluðu þeir um vísuna alkunnu sem er svona:

Getur ekkert gert vel
gengur þó með sperrt stél.
Bertel.

Allt í einu víkur Jóhannes sér að Kristmanni og segir:

Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann.
Kristmann.

Kristmann sem ekki þótti með hraðkvæðustu mönnum var fljótur að svara þessu:

Fleiri þó við ötlum
að farið hafi úr pjötlum
í Kötlum.

Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það en ég man að ég keypti þetta í einhverri af Ísoldabókun Kristmanns. Já, mig minnir að ég hafi lesið þær flestar á sínum tíma. Ísold hin bjarta, Ísold hin svarta og Ísold hin gullna minnir mig að þær heiti. Þetta eru sjálfsævisögulegar bækur sem Kristmann sendi frá sér á efri árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband