Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

436. - Monty Python, Matthías Jóh, Færeyjar og Óli Stef

Á sínum tíma voru þeir Monty Python gaurar í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Húmör þeirra var óhefðbundinn og þeir höfðu greinilega gaman af því sjálfir sem þeir voru að gera. Einn af þeim lék síðan ef ég man rétt í myndaflokki sem kallaður var "Faulty Towers" og var bráðfyndinn. Löngu seinna las ég bók sem heitir "Pole to Pole" og er eftir annan úr genginu. Michael Palin heitir hann og hefur verið með ferðamyndaseríur í sjónvarpinu að undanförnu og er nokkuð skemmtilegur.

Fjarskyldur ættingi hans hefur nú komist í fréttirnar vestur í bandaríkjahreppi og verður í framboði í kosningakeppni sem fara mun fram í haust. Þetta ætti að geta orðið hin skemmtilegasta keppni og verður líklega allsekki eins ójöfn og margir bjuggust við.

Ég er búinn að vera að fresta því eins og ég get að lesa dagbækurnar hans Matthíasar á Netinu. Líklega kemst ég samt ekki hjá því að líta á þessi ósköp. Verst hvað mér hefur alltaf þótt Matthías leiðinlegur. Samtalsbækurnar voru samt sumar ágætar. Mig minnir að hann hafi í bókum rætt bæði við Pál Ísólfsson og Þórberg Þórðarson. Þessar bækur las ég á sínum tíma og eflaust hef ég lesið margt eftir hann í Mogganum. Ljóðin hans hafa mér samt alltaf þótt afleit.

Margt er fyndið í færeyskunni. Um daginn sá ég eftirfarandi utanáskrift á bréfi:

Meginfelag Búnaðarmanna
PO Box XXXX
Vegurinn Langi
FO-110 FÖROYAR

Einu sinni hef ég komið til Færeyja. Stórt ljósaskilti við höfnina vakti athygli mína. Þar var "VANLUKKUTRYGGINGIN" til húsa. Í búðarglugga einum voru "sílapilkar" auglýstir til sölu. Með því að rannsaka hvað var að finna í glugganum komst ég að því að þarna var um veiðistengur að ræða. Heiti á einni búð var líka athyglisvert. Hún hét "GÁFUBÚÐIN". Eftir vöruúrvalinu þar að dæma hefði þessi búð líklega verið kölluð "Gjafabúðin" hér uppi á stóra skerinu. Þegar ég skrapp á Hótel Hafnia og fékk molasopa og reikning fyrir því þá stóð á honum "Goldið" þar sem á gullaldarmálinu hefði líklega staðið "Greitt". Að lesa færeysku dagblöðin getur verið meinfyndið. Og svo líta þeir upp til okkar!!

DV gerir grín að Bíp-heimspeki Ólafs Stefánssonar. Ég man að ég las um tíma blogg eftir Ólaf og fannst það dálítið torskilið. Opinberar persónur mega búast við hverju sem er. Auðvelt er að gagnrýna og finna að. Mér finnst Þorgerður Katrín hafa farið yfir strikið með því að fara tvívegis til Kína og nota skattpeningana okkar dýrmætu í það og Barack Obama er með messíasarkomplex segja sumir.

Nei annars. Fyrr má nú vaða úr einu í annað en að blanda öllu saman í óskiljanlegan hrærigraut. Ég er hættur.

 

435. - Hver er mikilvægasti lesandi þessa bloggs?

Nú auðvitað ég sjálfur. Engir aðrir lesa það jafnoft og með eins mikilli athygli. Þó engir aðrir læsu það yfirleitt þá er það mér nokkurs virði. Aðrir geta haft allt á hornum sér útaf því sem hér er skrifað. Ekki ég. Mér finnst þetta bara nokkuð gott hjá mér.

Nú er ég búinn að setja yfir þrjátíu af mínum uppáhaldsbloggurum í Google Readerinn. Þetta er semsagt sá bloggrúntur sem ég þarf helst að komast yfir á hverjum degi. Sem betur fer blogga ekki allir mínir uppáhaldsbloggarar daglega og sumir eru ekki mikið fyrir löng blogg.

Mér er ljóst að þetta er talsvert lægri tala en fjöldi bloggvina minna er. Við því er lítið að gera. Ég vil ráða því sjálfur hvaða blogg ég les. Auðvitað les ég oft fleiri blogg en þau sem eru í Google Readernum og ég reyni yfirleitt að fylgjast eins vel með bloggvinum mínum og ég mögulega get. Ég get líka fækkað þeim sem eru í Readernum ef mér sýnist svo. Hann er einnig ágæt leið til að fylgjast með öðrum bloggurum en moggabloggurum. (Já, þeir eru til.)

Það er samt talsverður handleggur að komast yfir þetta allt og nú er ég semsagt að velta því fyrir mér hvort það telst heimsókn þegar ég les bloggin þeirra í Readernum mínum. Jú og auðvitað líka hvort það hætta að teljast heimsóknir hjá mér ef einhverjir setja mig í Google Readerinn sinn. Hmm. Æi, það tekur því ekki að vera að velta sér uppúr þessu.

Ríkisstjórnin glímir við ímyndarvanda. Líklega er Geir Haarde ekki nógu atkvæðamikill til að vera forsætisráðherra. Þorgerður Katrín er farin að skyggja á hann, bæði viljandi og óviljandi. Mér finnst Árni Mathiessen ekki vera nógu góður til að vera ímynd ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Ingibjörg Sólrún lætur ekki mikið á sér bera en væri hugsanlega betur fallin til þess en Geir að vera andlit ríkisstjórnarinnar. Minni bara á að það að vera umdeildur er ekki endilega verra í þessu tilfelli. Það sýndi Davíð Oddsson okkur á sínum tíma.

 

434. - Veraldar-Vefurinn er vissulega vafasamur

Vefur er til að veiða í. Fólk festist í því sem fyrir því er haft. Gengur í bloggbjörgin eða verður einhverju öðru að bráð. Hvort sem það er Moggablogg, einhver önnur bloggveita, Flickr, Facebook, Ebay, YouTube, MSN, leikir eða eitthvað annað þá er það markmið og ósk stjórnvalda að ræna frá þér tíma svo þú gerir ekki eitthvað af þér. Allir eiga að vera auðsveipir og fyrirsjáanlegir. Þá er hægt að prógrammera okkur til að gera allan andskotann. Jafnvel fara í stríð við ímyndaða óvini sem engu eira og eru með öllu óalandi og óferjandi.  

Í mínum huga er það verulegt vafamál hvort bloggið færir okkur nær hóphyggju eða einstaklingsfrelsi. Ég sveiflast að minnsta kosti milli þess að trúa hvoru sem er. Eitt er þó víst og það er að bloggið er ný vídd í mannlegum samskiptum og stjórnmálamenn óttast þetta fyrirbrigði mjög.

Sigurður Hreiðar biður mig að finna þeim orðum mínum stað að Ólafur forseti hafi farið með tómt fleipur þegar hann talaði um mesta íþróttaafrek allra tíma. Auk þess að vísa í kommentin við síðustu færslu mína má nefna blogg Ómars Ragnarssonar þar sem hann fjallar um afrek Íslendinga á Evrópumeistaramótinu 1950. Einnig má minnast á að sumir telja fleira íþróttir en svokallaðar ólympískar íþróttir. Þar má til dæmis nefna skák og bridge. (Bermúdaskál - einhver) Já og íbúar í Lichtenstein eru rúmlega 30 þúsund. Bahamabúar eru hinsvegar álíka margir og við Íslendingar.

Sigurður segir líka réttilega að svona upplýsingar eigi betur heima á blogginu sjálfu en í athugasemdum svo hér eru endurteknar nokkrar upplýsingar þaðan. Lichtenststein - 2 gull, 2 silfur, 5 brons. Bahama - 3 gull, 3 silfur, 4 brons á Ólympíuleikum. Bahama auk þess heimsmeistara í hástökki nýlega.

Annars var það málið með fyrirlitningu RUV á þeim sem horfa á útsendingar þeirra á Vefnum sem ég var frekar að vona að yrðu tilefni athugasemda en fjasið í Ólafi Ragnari.

 

433. - Beinar sjónvarpsútsendingar RUV á Netinu eru til skammar

Undanfarin misseri hef ég vinnu minnar vegna talsvert fylgst með fréttum og öðrum beinum útsendingum í sjónvarpi gegnum Netið. Kannski eru þeir ekkert margir sem það gera en þó býst ég við að til dæmis Íslendingar erlendis eigi ekki margra annarra kosta völ. Það er skiljanlegt að erfitt geti verið vegna réttindamála að senda út á Netinu alla dagskrána. Fréttir, auglýsingar og fréttatengt efni ætti þó að vera hægt að setja þangað skammlaust. 

Útsendingar RUV á Netinu eru þó greinilega og hafa alla tíð verið algjört aukaatriði hjá þeim sem einhverju ráða hjá þessari stofnun. Útsendingar eru rofnar fyrirvaralaust og engar skýringar gefnar. Helst er hægt að ímynda sér að klukkur ráði þarna meiru en fólk. Ef dagskrá tefst eða eitthvað kemur fyrir er greinilegt að það á að bitna á áhorfendum. Sumt efni virðist ekki mega fara á Netið. Að minnsta kosti er sífellt verið að kveikja og slökkva á þessum möguleika og erfitt að sjá hversvegna.

Augljóst er að þeir sem á þessar útsendingar horfa eiga bara að þakka fyrir að fá að sjá eitthvað og halda sér svo saman. Nenni ekki að tína til einstök dæmi um þetta. Mikinn fjölda væri þó auðvelt að finna. Óvenju slæmt hefur þetta verið að undanförnu og þar eiga Ólympíuleikarnir eflaust sinn þátt. En það er alveg óþarfi að sætta sig við þessa meðferð. Þeir sem horfa á útsendingar þessar eru fólk eins og aðrir.

Stefán Pálsson ofurbloggari með meiru gerir að umtalsefni á sínu bloggi hvar næstu stríðsátök verði líklega. Hann vill meina að þau verði ekki á Abkasíu-Ossetíu-Georgíu svæðinu heldur á milli Azerbadjan og Ngorno Karabak. Það kann vel að vera. Ég verð að játa að þessi nöfn flest eru hálfgerð latína fyrir mér. Man bara eftir því að Ngorno Karabak var oft í fréttum fyrir nokkrum árum eflaust vegna einhverra átaka og mér datt þá alltaf í hug ævintýrið um Stígvélaða Köttinn. Man nefnilega ekki betur en eigandi hans hafi verið greifinn af Karabak.

Ég verð að taka undir með séra Baldri. Ég óttast að greyið Obama tapi í haust. Frúin hefði hugsanlega unnið en strákurinn gerir allt á vitlausan hátt á meðan stríðshetjan er með strategíuna á hreinu. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á bandarískum stjórnmálum og satt að segja getur allt gerst þar. Sú ímynd sem bandarískt kosningakerfi hefur hjá mörgum eftir Floridaklúðrið um árið er alls ekki sanngjörn.

Mesta afrek smáþjóðar í heimssögu íþrótta sagði Ólafur Ragnar Grímsson. Þvílíkt endemis bull. Það liggur við að ég missi allt álit á Ólafi sem forseta við þetta. Þó hef ég hingað til stutt hann og kaus hann á sínum tíma. Honum er kannski vorkunn. Eflaust er ekki auðvelt að vera í hringiðu atburða og hrífast ekki með. Vissulega stóðu handboltamennirnir sig vel en það er óþarfi að missa sig.

 

432. - Bloggarar, væmni og vald fjölmiðla. Einnig minnst á málblómið um stórasta land í heimi

Mér finnst merkilegt hve bloggarar almennt og ekkert frekar moggabloggarar en aðrir sveiflast eftir því hvernig og hvort sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar fjalla um mál. Vald fjölmiðlanna felst einkum í því hvaða mál eru sett á dagskrá. Ef sjónvarpið t.d. minnist á eitthvað mál eru bloggarar undireins farnir að keppast við að blogga um það sama. Oft er það samt svo að ómerkilegar tilviljanir ráða því hvaða mál fjallað er um í sjónvarpi. Sama er að segja um aðra fjölmiðla. 

Einnig fer væmni og hvers kyns tilfinningasemi mjög vaxandi í fjölmiðlum og auglýsingum og þessvegna í bloggi líka.

Bloggarar geta oft kaffært mál eða náð úr hálfgerðu kafi fréttum sem fjölmiðlar vilja svæfa. Í þessu er vald þeirra einkum fólgið og fjöldi þeirra er svo mikill að fjölmiðlastjórnendur eru farnir að óttast þá. Ótti þeirra kemur einkum fram í því að þeir nota hvert tækifæri sem gefst til að sverta bloggara almennt í augum sem flestra.

Svona þegar handboltavíman rennur af fólki þá væri kannski ágætt að athuga betur þetta Orkuveituveiðimál. Var Gulli Þórðar löggu ásamt einhverjumm fleirum eitthvað að mistaka sig á spillingarmálum? Ekki veit ég það en gott væri að fá þetta á hreint.

Bloggarar eru oft óþarflega stórorðir í sínum bloggum. Einkum á þetta við um stjórnmálablogg. Fjölmiðlar eiga líka oft erfitt með að ákveða hvað skuli fjallað um. Ég tók til dæmis eftir því að ríkissjónvarpið auglýsti grimmt í kvöld boli með áletrun um "stórasta" land í heimi. Þeir vildu koma þessu ágæta málblómi á framfæri og í fréttirnar og ákváðu að gera það svona.

Já auðvitað er best að mótmæla í laumi. Sá frétt um þetta á mbl.is og ætlaði jafnvel að linka í hana en týndi henni svo. Dönsk blöð sögðu að allir sem notuðu eitthvað appelsínugult væru að mótmæla leynilega einhverju í sambandi við framkvæmd Ólympíuleikanna. Verst ef mótmælendurnir vissu ekki af þessu sjálfir.

 

431. - Hlynur Þór Magnússon er orðinn Moggabloggari aftur - hthmagn.blog.is

Ég sé að Hlynur Þór Magnússon er farinn að blogga aftur á Moggablogginu. Að þessu sinni ekki undir maple123.is heldur hthmagn.blog.is og líklega er hann ekki orðinn forsíðubloggari ennþá en varla verður þess lengi að bíða.

Gamla myndin af honum er samt ennþá á bloggvinalistanum mínum úti í kuldanum. Ég bauð honum áðan bloggvináttu og hann þáði hana. Ef ég logga mig inn og skoða bloggvinalistann þar eru bæði hthmagn og maple123 þar. Ég skil þetta ekki almennilega.

Morgen morgen nur nicht heute
sagen alle faulen leute

Þetta var mér einhverntím kennt og sagt að væri þýska. Vel getur það verið en betri útgáfu af þessum málshætti kenndi Hörður Haraldsson spretthlaupari og þýskukennari mér eitt sinn þegar ég var við nám á Bifröst. Sú útgáfa er á íslensku og hljómar þannig: Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinn daginn. Venjulega held ég samt að þessi málsháttur sé þýddur með þeim íslenska sem er þannig: Á morgun segir sá lati.

Ég er semsagt tekinn upp á því að blogga oftar en einu sinni á dag til að koma sem mestum skrifum að. Veit samt ekkert hvort ég held því áfram.

 

430. Líf í alheimi og að bíta í verðlaunapeninga

Listinn hans Bjarna frá í gær um mannfjölda bakvið verðlaun á Ólympíuleikum leiddi mig að áhugaverðri grein eftir Herman De Wael um líf í alheimi. Greinin er að vísu gömul og bláþráðótt en athyglisverð samt. Hvernig standa þessi mál núna? Ég man ekki eftir að hafa lesið nýlega og áhugaverða grein um þetta efni nú í seinni tíð. Hvernig nennir fólk eiginlega að hugsa um annað en þetta? Er SETI verkefnið enn í gangi?

Eftirminnilegast úr sjónvarpssýningum frá handboltanum á OL var þegar Guðjón Valur Sigurðsson lamdi hvað eftir annað með krepptum hnefum í hausinn á sér eftir að hafa skorað mark. Þá hafði hann klikkað nokkrum sinnum í dauðafærum.

Siðurinn að bíta í verðlaunapeninga er líklega frá Bobby Fischer kominn. Mér er minnisstætt að þegar hann varð heimsmeistari í skák árið 1972 og Max Euwe afhenti honum verðlaunapening til sönnunar um það var Fischer mikið að velta því fyrir sér og ræða við Euwe hvort peningurinn væri úr ekta gulli eða ekki. Gott ef hann beit ekki í peninginn til að athuga það.

Smátt og smátt ágerðist það að bíta í verðlaunapeninga og mér fannst alltaf eins og fólk væri með því að draga í efa að þeir væru ekta og finnst það enn. Vala Flosadóttir beit í sinn bronspening frá Sidney og ekki sé ég betur en að handboltamennirnir bíti með tilþrifum í sína silfurpeninga. Asnalegur siður.


429. - Um Ólympíuleika og smáþjóðir

Bjarni Sæmundsson veit ýmislegt um Ólympíleika og smáþjóðir og bloggar dálítið um það á nýjasta blogginu sínu. Ekki ætla ég að fara að endurtaka það en bendi bara á linkinn á bloggið hans (lampshadow.blog.is). Blaðamenn og aðrir hafa sannarlega farið offari um margt í þessu sambandi að undanförnu. Kíkið endilega líka á myndirnar hans í flickrinu. Hann tekur skemmtilegar og flottar myndir.

Bloggin mín hafa verið í styttra lagi undanfarið og kannski er það bara gott. Það er óþarfi að vera að blogga um hvað sem er bara til að blogga. Álnarlangar útskýringar eru einskis virði ef enginn nennir að lesa þær.

Sigurður Þór Guðjónsson hefur lag á að blogga um áhugaverða hluti. Nú vill hann skipta um nafn á Íslandi. Gott og vel. Kannski eru margir honum sammála en auðvitað verður aldrei af því. Orð eru þó til alls fyrst og að sjálfsögðu á ekki að bannna umræður um nokkurn skapaðan hlut. Ekkert er svo heilagt að ekki megi ræða það.

Það var skemmtileg skrípamynd af ofurbloggara í 24 stundum um daginn. (19. ágúst að mig minnir). Svona líta þeir nú út í margra augum.

 

428. - Jæja, þá er þessum Ólympíulátum að ljúka

Auðvitað fögnum við samt strákunum þegar þeir koma og afreks þeirra verður lengi minnst í íþróttasögunni.

Það sem uppúr stendur að loknum þessum Ólympíuleikum er hvort þeir treystu valdhafa í Kína í sessi eða ekki. Er það sem við Vesturlandabúar skilgreinum sem mannréttindi eitthvað absolútt eða eitthvað sem okkur finnst? Kannski skilja sumir Kínverjar ekki hvað við eigum við þegar við tölum um mannréttindi en margt er þó líkt með ofurvaldi ríkisins í Kína nútímans og þriðja ríki Hitlers.

Sú mikla umræða sem orðið hefur um mannréttindabrot í Kína einmitt vegna Ólympíuleikanna kann að hafa talsverð áhrif á almenningsálitið í heiminum en kannski eru áhrifin innan Kína meira í átt við það sem valdhafarnir vildu og stefndu að.

Endalaust má deila um þetta og örugglega verða menn ekki á eitt sáttir. En nú er þó hægt að fara að tala um önnur mál.


427. - Handboltasérfræðingurinn segir... hvað sagði hann nú aftur?

Það tekur því eiginlega ekki að blogga núna. Allir eru sérfræðingar í handbolta í dag og ég hef lítið til mála að leggja um það efni.

Auðvitað horfði ég á leikinn þó ég sé almennt orðinn enn meiri antisportisti en fyrrum og einu sinni var. Fékk mér kaffisopa þegar seinni hálfleikur stóð yfir og þá sá ég að ég var mun skjálfhentari en venjulega svo líklega hefur spennan verið einhversstaðar þó ég vilji ekki viðurkenna hana.

Auðvitað missa menn sig svolítið í fagnaðarlátunum, en því ekki það. Kannski verður ekki miklu að fagna á sunnudaginn en samt er möguleikinn þarna og geiflar sig framan í okkur.

Að sjálfsögðu ætla ég svo að horfa á gullúrslitaleikinn á sunnudaginn og jafnvel að blogga eitthvað fram að því. Er bara ekki í neinu stuði núna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband