435. - Hver er mikilvægasti lesandi þessa bloggs?

Nú auðvitað ég sjálfur. Engir aðrir lesa það jafnoft og með eins mikilli athygli. Þó engir aðrir læsu það yfirleitt þá er það mér nokkurs virði. Aðrir geta haft allt á hornum sér útaf því sem hér er skrifað. Ekki ég. Mér finnst þetta bara nokkuð gott hjá mér.

Nú er ég búinn að setja yfir þrjátíu af mínum uppáhaldsbloggurum í Google Readerinn. Þetta er semsagt sá bloggrúntur sem ég þarf helst að komast yfir á hverjum degi. Sem betur fer blogga ekki allir mínir uppáhaldsbloggarar daglega og sumir eru ekki mikið fyrir löng blogg.

Mér er ljóst að þetta er talsvert lægri tala en fjöldi bloggvina minna er. Við því er lítið að gera. Ég vil ráða því sjálfur hvaða blogg ég les. Auðvitað les ég oft fleiri blogg en þau sem eru í Google Readernum og ég reyni yfirleitt að fylgjast eins vel með bloggvinum mínum og ég mögulega get. Ég get líka fækkað þeim sem eru í Readernum ef mér sýnist svo. Hann er einnig ágæt leið til að fylgjast með öðrum bloggurum en moggabloggurum. (Já, þeir eru til.)

Það er samt talsverður handleggur að komast yfir þetta allt og nú er ég semsagt að velta því fyrir mér hvort það telst heimsókn þegar ég les bloggin þeirra í Readernum mínum. Jú og auðvitað líka hvort það hætta að teljast heimsóknir hjá mér ef einhverjir setja mig í Google Readerinn sinn. Hmm. Æi, það tekur því ekki að vera að velta sér uppúr þessu.

Ríkisstjórnin glímir við ímyndarvanda. Líklega er Geir Haarde ekki nógu atkvæðamikill til að vera forsætisráðherra. Þorgerður Katrín er farin að skyggja á hann, bæði viljandi og óviljandi. Mér finnst Árni Mathiessen ekki vera nógu góður til að vera ímynd ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Ingibjörg Sólrún lætur ekki mikið á sér bera en væri hugsanlega betur fallin til þess en Geir að vera andlit ríkisstjórnarinnar. Minni bara á að það að vera umdeildur er ekki endilega verra í þessu tilfelli. Það sýndi Davíð Oddsson okkur á sínum tíma.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Án þess að ég hafi neitt fyrir mér í því þá grunar mig að Ingibjörg eigi eftir að sækja töluvert í sig veðrið eftir því sem líður á stjórnarsamstarfið. Það gæti jafnvel verið búið að ræða það nú þegar. Hún er búin að vera upptekin við að landa þessu sæti í öryggisráðinu og það hefur víst gengið nokkuð vel samkvæmt bestu heimildum.

Ef það gengur upp gæti hún öðlast allt annað og stærra hlutverk í ríkisstjórninni í kjölfarið. Í það minnsta sé ég það þannig fyrir mér. Utanríkisráðherra sem stýrir sendinefnd sem hefur sæti í öryggisráðinu er stór svanur í lítilli tjörn svo maður noti skrítinn frasa. 

Gunnar Hrafn Jónsson 30.8.2008 kl. 00:33

2 Smámynd: Arnþór Helgason

Stundum ráðlegg ég fólki, sem er haldið mikilli minnimáttarkennd að hrósa sjálfu sér end er sjálfslítilsvirðing það versta sem komið getur fyrir nokkurn mann.

Um daginn lá við að ég fylltist sjálfsvorkunn vegna þess að tímarit þau, sem skimuð hafa verið inn á Landsbókasafninu, eru hreint ekki aðgengileg þeim sem þurfa að reiða sig á skjálesara. Ég bloggaði víst um þetta en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Mér flýgur þetta í hug vegna þinnar ágætu Netútgáfu sem hefur því miður legið niðri í nokkur ár.

Eitt sinn fékk ég grein til leiðréttingar. Vitnaði höfundurinn óspart í íslendingasögurnar og það með slíkum ósköpuum að mér vafðist tunga um háls. Kom þá Netútgáfan ó góðar þarfir. Þessar leiðréttingar tókust svo vel að grandvar maður, sem vissi að greinarhöfundur var ekki víðlesinn, dáðist að því hvað hann hefði farið vel með efnið. Ánægðastur var þó höfundurinn sjálfur með tilvitnanirnar sínar enda veit hann ekki annað en þær hafi verið birtar orðréttar.

Ég vona svo, Sæmundur góður, að þú hafir jafngaman af að lesa bloggið þitt og sumir sem lesa það.

Arnþór Helgason, 30.8.2008 kl. 17:12

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Gaman að frétta að Google reader virkar vel hjá þér. Sjálf nota ég þetta mikið og finnst þetta gargandi snilld. Ég veit ekki hvernig þetta reiknast í heimsóknartölurnar. Sá sem kenndi mér á þetta taldi að þetta teldist inn sem heimsók, þ.e. ef maður skoðaði blogg í Google reader þá teldist það heimsókn á síðunni. Ég er bara alls ekki viss um að það sé nema maður opni bloggið gegnum Google reader en það gerir maður alls ekki alltaf.

Annars finnst mér það ekki skipta öllu, ég lít á þessar tölur sem viðmið um hve margir vita af mér en ekki sem heilaga tölu um hversu margir eru að lesa.

Kristjana Bjarnadóttir, 30.8.2008 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband