436. - Monty Python, Matthías Jóh, Færeyjar og Óli Stef

Á sínum tíma voru þeir Monty Python gaurar í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Húmör þeirra var óhefðbundinn og þeir höfðu greinilega gaman af því sjálfir sem þeir voru að gera. Einn af þeim lék síðan ef ég man rétt í myndaflokki sem kallaður var "Faulty Towers" og var bráðfyndinn. Löngu seinna las ég bók sem heitir "Pole to Pole" og er eftir annan úr genginu. Michael Palin heitir hann og hefur verið með ferðamyndaseríur í sjónvarpinu að undanförnu og er nokkuð skemmtilegur.

Fjarskyldur ættingi hans hefur nú komist í fréttirnar vestur í bandaríkjahreppi og verður í framboði í kosningakeppni sem fara mun fram í haust. Þetta ætti að geta orðið hin skemmtilegasta keppni og verður líklega allsekki eins ójöfn og margir bjuggust við.

Ég er búinn að vera að fresta því eins og ég get að lesa dagbækurnar hans Matthíasar á Netinu. Líklega kemst ég samt ekki hjá því að líta á þessi ósköp. Verst hvað mér hefur alltaf þótt Matthías leiðinlegur. Samtalsbækurnar voru samt sumar ágætar. Mig minnir að hann hafi í bókum rætt bæði við Pál Ísólfsson og Þórberg Þórðarson. Þessar bækur las ég á sínum tíma og eflaust hef ég lesið margt eftir hann í Mogganum. Ljóðin hans hafa mér samt alltaf þótt afleit.

Margt er fyndið í færeyskunni. Um daginn sá ég eftirfarandi utanáskrift á bréfi:

Meginfelag Búnaðarmanna
PO Box XXXX
Vegurinn Langi
FO-110 FÖROYAR

Einu sinni hef ég komið til Færeyja. Stórt ljósaskilti við höfnina vakti athygli mína. Þar var "VANLUKKUTRYGGINGIN" til húsa. Í búðarglugga einum voru "sílapilkar" auglýstir til sölu. Með því að rannsaka hvað var að finna í glugganum komst ég að því að þarna var um veiðistengur að ræða. Heiti á einni búð var líka athyglisvert. Hún hét "GÁFUBÚÐIN". Eftir vöruúrvalinu þar að dæma hefði þessi búð líklega verið kölluð "Gjafabúðin" hér uppi á stóra skerinu. Þegar ég skrapp á Hótel Hafnia og fékk molasopa og reikning fyrir því þá stóð á honum "Goldið" þar sem á gullaldarmálinu hefði líklega staðið "Greitt". Að lesa færeysku dagblöðin getur verið meinfyndið. Og svo líta þeir upp til okkar!!

DV gerir grín að Bíp-heimspeki Ólafs Stefánssonar. Ég man að ég las um tíma blogg eftir Ólaf og fannst það dálítið torskilið. Opinberar persónur mega búast við hverju sem er. Auðvelt er að gagnrýna og finna að. Mér finnst Þorgerður Katrín hafa farið yfir strikið með því að fara tvívegis til Kína og nota skattpeningana okkar dýrmætu í það og Barack Obama er með messíasarkomplex segja sumir.

Nei annars. Fyrr má nú vaða úr einu í annað en að blanda öllu saman í óskiljanlegan hrærigraut. Ég er hættur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Mér finnst gaman þegar þú hrærir öllu saman Sæmi minn. En mér finnst ljóðin hans Matta oft flott. Kveðja.

Eyþór Árnason, 31.8.2008 kl. 00:24

2 identicon

Þáttaröðin sem Cleese lék í hét reyndar Fawlty Towers. Rétt skal vera rétt.

Gunnhildur 31.8.2008 kl. 14:10

3 identicon

amm, skemmtilegur grautur.

Skammirnar á DV að gera grín að Ólafi! Gat það nú verið. 

alva 31.8.2008 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband