434. - Veraldar-Vefurinn er vissulega vafasamur

Vefur er til að veiða í. Fólk festist í því sem fyrir því er haft. Gengur í bloggbjörgin eða verður einhverju öðru að bráð. Hvort sem það er Moggablogg, einhver önnur bloggveita, Flickr, Facebook, Ebay, YouTube, MSN, leikir eða eitthvað annað þá er það markmið og ósk stjórnvalda að ræna frá þér tíma svo þú gerir ekki eitthvað af þér. Allir eiga að vera auðsveipir og fyrirsjáanlegir. Þá er hægt að prógrammera okkur til að gera allan andskotann. Jafnvel fara í stríð við ímyndaða óvini sem engu eira og eru með öllu óalandi og óferjandi.  

Í mínum huga er það verulegt vafamál hvort bloggið færir okkur nær hóphyggju eða einstaklingsfrelsi. Ég sveiflast að minnsta kosti milli þess að trúa hvoru sem er. Eitt er þó víst og það er að bloggið er ný vídd í mannlegum samskiptum og stjórnmálamenn óttast þetta fyrirbrigði mjög.

Sigurður Hreiðar biður mig að finna þeim orðum mínum stað að Ólafur forseti hafi farið með tómt fleipur þegar hann talaði um mesta íþróttaafrek allra tíma. Auk þess að vísa í kommentin við síðustu færslu mína má nefna blogg Ómars Ragnarssonar þar sem hann fjallar um afrek Íslendinga á Evrópumeistaramótinu 1950. Einnig má minnast á að sumir telja fleira íþróttir en svokallaðar ólympískar íþróttir. Þar má til dæmis nefna skák og bridge. (Bermúdaskál - einhver) Já og íbúar í Lichtenstein eru rúmlega 30 þúsund. Bahamabúar eru hinsvegar álíka margir og við Íslendingar.

Sigurður segir líka réttilega að svona upplýsingar eigi betur heima á blogginu sjálfu en í athugasemdum svo hér eru endurteknar nokkrar upplýsingar þaðan. Lichtenststein - 2 gull, 2 silfur, 5 brons. Bahama - 3 gull, 3 silfur, 4 brons á Ólympíuleikum. Bahama auk þess heimsmeistara í hástökki nýlega.

Annars var það málið með fyrirlitningu RUV á þeim sem horfa á útsendingar þeirra á Vefnum sem ég var frekar að vona að yrðu tilefni athugasemda en fjasið í Ólafi Ragnari.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka þér fyrir. Svona upplýsingar eru nauðsynlegar þegar idjót í íþróttamálum eins og ég eiga í hlut.

Kannski pirraði það mig ofboðlítið að mér finnst ómaklega vegið að Ólafi Ragnari sem mér finnst almennt séð hafa staðið sig prýðilega sem forseti.

kv

Sigurður Hreiðar, 29.8.2008 kl. 12:37

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég ætla einhvern tíma að tjá mig um vef RUV og beinar eða óbeinar útsendingar þar. Þar sem ég nota vefinn mjög mikið - bæði til að horfa beint og eftir á, svo og til að taka upp, þá hef ég mjög mikla reynslu af honum.

Sú reynsla er að gera mig gráhærða - því sem næst. Ástandið hefur versnað mjög upp á síðkastið. Einnig finnst mér að efnið mætti vera miklu, miklu lengur inni en í hálfan mánuð - a.m.k. fréttir, Kastljós, Vikulokin, Silfur Egils og fleiri þættir á Rás 1.

Rás 1 er eðalútvarpsstöð með frábæru dagskrárgerðarfólki og mjög fróðlegu og skemmtilegu efni. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.8.2008 kl. 14:15

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Sigurður. Mér líkar vel við Ólaf að mörgu leyti og finnst hann oft verða fyrir ómaklegum árásum. Hann er samt of mikið fyrir að tala bara til þess að tala og er haldinn sömu firru og margir blaðamenn að sagan sé bara það sem hann man eftir í svipinn.

Og Lára Hann mér finnst að RUV-menn sinni Netinu illa og þurfi að bæta sig mikið þar. Þeim sem fylgjast með afurðum þeirra á Netinu fjölgar stöðugt.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2008 kl. 14:38

4 Smámynd: Þröstur Unnar

En þú ert ekki að hafa rétt eftir forsetanum hérna.

Þröstur Unnar, 29.8.2008 kl. 15:34

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú. Hvað sagði hann þá?

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2008 kl. 16:43

6 identicon

Vissulega er oft vesen á þessari útsendingu. Fann mikið fyrir því þegar ég bjó úti og hafði enga aðra leið til að ná fréttatímanum að heiman. Nú þegar ég er sjónvarpslaus finn ég aftur fyrir því að netið á það til að klikka þegar síst skildi, en líklega er það að hluta til vegna mikils álags og lítillar fjárfestingar í kerfinu sjálfu. Svo er líka oft erfitt að hafa nógu marga og reynda menn á vakt í tæknimálunum. 

Það var reyndar verið að gera breytingar á skipulagi vefsins, nýr vefstjóri sem færist undir útvarpið í stað þess að vera einn í einhverju limbóí. Vonandi batnar þetta eitthvað.

Gunnar Hrafn Jónsson 29.8.2008 kl. 18:36

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

nei Sæmi minn. við skulum ekki missa okkur alveg. seint flokkast félagsvist, lúdó og svartipétur undir íþróttir

brids og skák? líklega ágætis afþreyging fyrir þá sem nenna að spila

Brjánn Guðjónsson, 29.8.2008 kl. 19:50

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

RÚV 'cappar', (það er slítur reglubundið), útsendíngu sína, til þess að koma í veg fyrir að þeir sem að ekki eru áskrifendur sitji við sama borð & þeir sem að borga þrælnauðugir & óviljugir áskriftargjöldin.  Á sama hátt & þeir senda útsendíngu sína um 'gervihnetti' erlendis, ruglað.  Skák & Bridge eru almennt þekktari & 'útbreiddari íþróttagreinar' en 'Team Handball'.

Forsetinn hefur vaxið í starfi sem fyrirmenni foldarinnar & frauka hans er fín.

Steingrímur Helgason, 29.8.2008 kl. 21:32

9 Smámynd: Þröstur Unnar

Þarna hefur þú það Sæmundur, í því sem Kanny segir. Forsetinn talaði um liðið frá smáþjóðinni, en ekki mesta íþróttaafrek einstaklings eins og þú gefur til kynna.

Þröstur Unnar, 30.8.2008 kl. 09:41

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í því sem ég vitnaði í að Ólafur Ragnar hefði sagt talaði hann ekki neitt um lið. Það hefur hann samt kannski ætlað að gera. Samt er þetta ekki rétt því í boðhlaupum keppa einnig lið en ekki einstaklingar. Ef skilgreind er ákveðin stærð og gerð liða fer þetta kannski að standast. Þannig er það oft þegar deilt er að viðkomandi skilja ekki hvorn annan og meina allt annað en þeir segja.

Sæmundur Bjarnason, 30.8.2008 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband