Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
21.7.2008 | 00:10
395. - Ég nennti ekki að lesa ritgerðina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2008 | 00:19
394. - Meira nöldur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2008 | 00:08
393. - Nöldur og aftur nöldur. Ekkert nema eintómt nöldur
Yfirleitt er blogg ekkert annað en djöfulsins nöldur. Nöldur og tuð. Til hvers að vera að nöldra á bloggi? Það tekur enginn mark á þessu. Sínöldrarar eru sjálfum sér verstir. Þeir hætta með öllu að sjá annað en nöldurbloggin sín og annarra og telja sér trú um að lífið snúist um þetta. Að nöldra sí og æ. Daginn út og inn. Ef menn eru ekki sínöldrandi þá eru þeir að Lúkasast um eitthvað sem þeir vita hreint ekkert um. Og hafa ekkert vit á. Þykjast samt vera gáfaðri en nokkur annar. Væri ekki nær að vera svolítið jákvæður og tala um hvað veðrið hafi verið gott í dag og sólsetrið fallegt í gærkvöldi. Af hverju er ég að þessu fjandans nöldri? Getur ekki bara hver og einn nöldrað og Ramsesast útaf fyrir sig. Það væri best fyrir alla. Svo eru fréttamenn og blaðamenn búnir að smitast af þessari nöldur ónáttúru líka. Ekki má Geiri greyið segja fréttamanni í fullri vinsemd að hafa hægt um sig þá verður allt vitlaust og blaða- og fréttamenn nöldurspóla upp um alla veggi. Verst af öllu er pólitíkin. Þar nöldra menn hver í kapp við annan en verða þó að gæta þess að nöldra nokkurn vegin eins og flokkslínan segir. Stjórnarandstöðunöldur er auðveldast. Þá er nokkuð seif að vera bara á móti öllu. Þeir sem álpuðust til að styðja stjórnarflokkana í síðustu kosningum eiga ekki sjö dagana sæla. Allt er tóm tjara sem þeir segja. Ef þeir segja þá nokkuð. Auðveldast að taka bara þátt í nöldurkórnum. Pakkið sem mænir stöðug uppá stjórnina veit ekkert í sinn haus frekar en ráðherraræflarnir. Þegar nöldrinu linnir í bloggheimum taka kóararnir og hirðirnar við. Einhver hirðbloggarinn lætur ljós sitt skína og samstundis taka kommentasmiðirnir við og jesúsa sig yfir snilldinni og frábærunni. Alltaf þeir sömu. Mikið rosalega er þetta flott. Ég hef bara ekki heyrt frábærari brandara allt mitt líf. Snilldarlega sagt. Endalaust knús og kossar. Ég gæti ælt. Óskaplegt hvað hræsnin og mærðin getur orðið mikil í þessum athugasemdum hjá hirðfólkinu. Ég færi bara að gráta ef ég væri ekki svona eitilharður og afrenndur nöldrari. Nöldur og mærð. Í því eru bloggarar bestir. Hefur nokkurn tíma frést af bloggara sem bloggaði skynsamlega? Ekki hef ég heyrt um það. Í lokin eru svo fáeinar myndir. Allar teknar í dag í Elliðaárdalnum nema sólsetursmyndin. |





Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.7.2008 | 00:20
392. - Um náttúruvernd og fleira
Í gær leiðrétti ég það sem mér virtist vera misskilningur sumra varðandi svalaræktunina að Auðbrekku 29 en gleymdi að geta þess að konan mín Áslaug Benediktsdóttir bloggar öðru hvoru á heimasíðunni sinni sem er 123.is/asben. Í gær birti hún þar ljómandi fallega ljósmynd og fáein minningarorð um Indriða Indriðason ættfræðing. Siguður Hannesson á Villingavatni auglýsir jörðina sína í forsíðuauglýsingu í DV. Kannski á hann ekki sjálfur frumkvæðið að auglýsingunni og eflaust er hægt að selja jörðina fyrir mikið fé án auglýsingar en forsíðuauglýsing er forsíðuauglýsing. Þó kallinn sé ekki til í að selja jörðina akkúrat núna er það ekki nein forsíðufrétt og hann selur hana áreiðanlega fyrr eða síðar eða erfingjarnir er ekki vill betur. Nú er komið í ljós að allir segjast vilja gera allt fyrir heimilislausa. Búið er að kaupa einhverja gáma sem hægt er að nota sem íbúðir en þá vill bara svo til að hvergi er hægt að láta þá vera og því er jafn illa komið fyrir heimilisleysingjum og áður. Verr þó, ef eitthvað er, því fram að Guðmundarmálinu héldu sumir þeirra til í Byrginu áður en þeir voru reknir út á Guð og gaddinn. Þetta er eiginlega svona dæmigert Breiðuvíkurklúður. Kannski er öllum sama úrþví það bitnar ekki á börnum. Skrif um náttúruvernd, global warming, mengun og allt það hefur aukist alveg gríðarlega að undanförnu. Áhugi minn á þessum málum hefur ekki aukist nærri því eins mikið og afleiðingin er sú að minna og minna af því sem skrifað er um þessi mál nær til mín. Sú mettun sem orðin er varðandi þessi mál er atriði sem náttúruunnendur ættu að athuga alvarlega. Stuðningur við sjónarmið þeirra er gríðarlegur í skoðanankönnunum en skilar sér ekki í kosningum. Gamli fjórflokkurinn er alveg útfarinn í því að finna hvað það er sem kjósendur vilja helst heyra. Nýjabrumið af náttúruverndinni nær ekki inn í kjörklefana hvað sem veldur. Flokkarnir reyna líka að gera þessi mál að sínum og soga þannig til sín þann kraft og áræðni sem þar er að finna. Ég sé þó ekki betur en Ómar Ragnarsson ætli að reyna að þrauka fram að næstu kosningum í þeirri von að stuðningur við náttúruvernd fari vaxandi. Kannski verður nýtt þensluskeið hafið þegar næst verður kosið. Mikið er fjasað þessa dagana um aðgengi að kerinu í Grímsnesi og í framhaldi af því að öðrum náttúruperlum. Ég er hallur undir málflutning jarðeigenda en er þó hræddur um að peningaöflin ætli að vinna þetta mál með hægðinni. Þegar ferðamenn verða farir að sætta sig við að borga fyrir að sjá verður eftirleikurinn auðveldari. Svo eru nokkrar myndir í restina.
|
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2008 | 00:21
391. - Endurbirt blogg um dauðans óvissa tíma og eitthvað fleira
Fyrst um grænkálið og það allt saman. Einhverjir hafa kommentað um bláber, grænkál og sitthvað fleira sem vex á svölunum hjá okkur. Þeir virðast halda að ég eigi einhvern hlut að þessari ræktun. Svo er alls ekki. Það er konan mín sem hefur komið þessu á legg. Ég hef í mesta lagi þvælst fyrir. Lesendur mínir eru miklu fleiri nú orðið en áður var. Þess vegna hef ég stundum hyllst til þess að endurtaka það sem áður hefur verið skrifað hér. Ég man eftir að ég skrifaði einu sinni blogg sem ég vandaði mig dálítið við og kallaði: Um dauðans óvissa tíma." Þessa grein birti ég núna en áður birtist hún á blogginu mínu þann 4. ágúst 2007: Mér hefur alltaf staðið ógn af dauðanum. Einu sinni var ég sannfærður um að ég mundi deyja ungur. Nú er ljóst að svo verður ekki. Fyrir nokkru síðan var ég líka sannfærður um að ég mundi eiga stutt eftir. Í mesta lagi mánuði eða misseri. Þetta reyndist síðan einnig hin mesta firra. Já, það lifir lengst sem hjúum er leiðast, eins og segir í máltækinu. Bjarni í kaupfélaginu sagði mér einu sinni að hann væri svo hræddur við að deyja að hann hrykki stundum upp með andfælum um miðjar nætur við tilhugsunina eina saman. Þetta fannst mér merkilegt. Eins og margir vita þá byrjaði Hveragerði í raun að byggjast af krafti á stríðsárunum (1939 - 1945). Er virkilega ástæða til að setja þessi ártöl þarna? Ekki finnst mér það. Áður hafði einkum verið um að ræða sumarhúsabyggð þar. Það þótti góður kostur að hægt var að hita húsin þar með hveravatni á ódýran hátt. Pabbi var einn af frumbyggjunum þarna og flutti á þessum árum með fjölskylduna frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum til Hveragerðis. Bjarni Tómasson var einnig einn af frumbyggjunum í Hveragerði. Sonur hans, Óskar Bjarnason, var einn af kunningjum mínum en fáeinum árum eldri. Við tókum báðir þátt í knattspyrnuæfingum og kepptum í raun um þann heiður að fá að standa í marki hjá úrvalsliði Hveragerðis í fótbolta. Ég minnist leikja við t.d. Hvolsvöll. Sá leikur fór fram á nýslengnu túni þar sem ekki hafði verið leikin knattspyrna fyrr og mörkin voru bara tvær stengur. Einnig lékum við einhverju sinni við úrvalslið úr Arnarbælishverfi. Selfyssingar voru þó að sjálfsögðu aðalóvinurinn. Einhverju sinni lékum við gegn rökurum í Reykjavík á Háskólavellinum svonefnda. Seinna (líklega svona laust eftir 1960) lékum við svo við Hafnfirðinga í Hafnarfirði. Sá leikur fór illa. Ég man ekki betur en við höfum tapað 14:0 Guðmundur bróðir Óskars var bekkjarbróðir minn. Óskar dó ungur úr krabbameini. Hann dó heima. Guðmundur bróðir hans hafði sagt við einhvern sem spurði um líðan Óskars daginn sem hann dó: "Ja, hann dó nú í morgun." Guðjón Guðjónsson í Gufudal sem var hrekkjusvín mikið í skóla og ógnvaldur okkar hinna gerði grín að Mumma fyrir þetta og hermdi eftir honum. Mér fannst þetta óvirðing hin mesta og þótti honum hefnast fyrir það þegar hann dó sjálfur nokkru seinna. Á þessum árum dó einn af kennurum Barna- og Miðskólans í Hveragerði úr heilablóðfalli. Það var Hróðmar Sigurðsson. Þórhallur sonur hans var bekkjarbróðir minn. Mér er í fersku minni þegar Hróðmar dó og man enn uppnámið og lætin sem urðu þegar það uppgötvaðist að hann hafði fallið til jarðar skammt frá kaupfélginu á leiðinni heim. Daginn sem hann var jarðsettur var gefið frí í skólanum og þótti mér það sjálfsagt og eðlilegt. Nokkru fyrir jarðarförina vorum við nokkrir strákar staddir í Nýja Reykjafossi. Þórhallur sonur Hróðmars var þar á meðal. Ragnar kaupmaður í Reykjafossi var eitthvað að ræða við okkur og þar kom tali okkar að við sögðum honum að frí yrði í skólanum vegna jarðarfararinnar. "Hvað, eins og það taki því að vera að gefa frí þó einn kennari drepist," sagði Ragnar og hló við eins og hans var vani. Mér þótti þetta afar óvirðulega að orði komist og fannst Ragnari hefnast fyrir þetta þegar hann dó svo sjálfur ekki löngu seinna. Fyrsta afbrýðisemis morðið sem ég veit um hér á landi, átti sér stað á Reykjum í Ölfusi á sjötta áratug síðustu aldar. Svo vildi til að ég þekkti persónulega bæði morðingjann og hina myrtu. Það var Bjössi fjósamaður á Reykjabúinu sem skaut Concordiu Jónatansdóttur til bana með riffli. Að sjálfsögðu vakti þessi atburður gríðarlega athygli í litlu plássi eins og Hveragerði. Fjölmiðlar skrifuðu ekki svo ýkja mikið um þetta mál, en sögurnar sem maður heyrði voru þeim mun áhrifameiri. Ég var lengi að jafna mig á þessum atburði og hann hafði mikil áhrif á mig. Dauðinn hafði fram að þessu ekki verið neitt sem maður velti fyrir sér. Þó var hann alltaf nálægur og þó maður setti hann ekki í samband við sjálfan sig, vissi maður að hann beið í rólegheitum handan við hornið. Ekki man ég eftir því hvenær ég fór að gera mér grein fyrir því að dauðinn biði okkar allra. Mér er næst að halda að ég hafi alltaf vitað það þó ég hafi náttúrlega eins og flestir unglingar álitið sjálfan mig nánast ódauðlegan. Af þessu öllu má sjá að ég álít að sýna beri dauðanum virðingu og að mönnum hefnist fyrir léttúðugt og ábyrgðarlaust tal um hann. En eru þetta ekki léttúðug og ábyrgðarlaus skrif hjá mér? Mun mér hefnast fyrir þetta?" Mig minnti að þetta hefði ekki verið svona óralangt hjá mér en við því er lítið að gera. Ekki get ég farið að hluta þetta í sundur. Í lokin eru svo nokkrar myndir. Já, ég er eiginlega orðinn háður því líka. Ég veit ekki hvar þetta endar. Þessar myndir tók ég þegar ég rölti niður í bæ dag einn seinni partinn í júní. Skelfing verður þetta blogg langt. |









Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2008 | 00:08
390. - Dauðinn, Guð, Sigurður Þór og ýmislegt annað
"Miklar skoðanir eru fyrir einfeldninga og fífl. Og miklar skoðanir vaða alveg uppi á blogginu sem annars staðar."
Þetta segir Sigurður Þór á sínu bloggi og vissulega er mikið til í þessu hjá honum. Með mig verður skoðanaleysið samt stundum að allsherjar afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Sem er líka slæmt.
Sigurður Þór segir ennfremur:
Það verður víst alltaf fjandinn laus ef ég minnist á guð.
Og ég kíkti á nýjustu guðdómlegu færsluna hjá Sigga. Jú mikið rétt 140 athugasemdir. Ég bara byrja ekki á því að lesa svonalagað. Það er þetta sem ég á við þegar ég segi að langir svarhalar séu leiðinlegir. Svo leiðinlegir að ég nenni bara alls ekki að lesa þá. Vonandi verða svarhalar hjá mér aldrei svona langir. Af skyldurækni mundi ég samt sennilega lesa öll kommentin en ekki ætlast til þess af öðrum.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar" minnir mig að Einar Benediktsson hafi sagt í einhverju kvæði sínu. Einar var mikill spekingur en ég er samt að velta fyrir mér hvort aðgátinni eigi að vera lokið þegar sálin er farin.
Vangaveltur hafa verið á blogginu og víðar um líksýningar. Allt held ég að þetta hafi byrjað með því að stjórnendur ungmenna sem voru að vinna við kirkjugarðana ákváðu að sýna krökkunum lík.
Öll endum við sem lík og ég er ekki frá því að sú fjarlægð sem hið íslenska nútímaþjóðfélag hefur ákveðið að setja á dauðann sé í raun óheilbrigt að gera.
Auk þess að enda óhjákvæmilega sem lík þá komumst við öll einhverntíma á æfinni í kast við dauðann. Er nægilega heppilegt að hafa allt lífið fram að því afneitað dauðanum af miklu kappi? Ég er allsekki viss um það en þetta er umhugsunarefni.
Áfallahjálp er mikið í tísku um þessar mundir. Oft tengist hún dauðanum og slysförum og áföllum allskonar. Er þessi sífellda áfallahjálp aðferð umhverfisins til að halda dauðanum í burtu þannig að sem fæstir verði varir við hann. Kannski. Lát ástvina eru alltaf erfið. Stundum getur áfallahjálp gert hlutina léttbærari. Ekki efast ég um það en fer ekki ofan af því að fjarlægð sú sem við sköpum á dauðann og allskonar hættulega sjúkdóma sé dálítið varasöm.
Í bloggfærslu minni í gær kallaði ég Benedikt Henry frænda minn. Þetta er auðvitað alls ekki rétt. Hann er frændi konunnar minnar. Blogg eru yfirleitt ekki lesin eins nákvæmlega yfir og ég geri mér í hugarlund að bækur séu. Þetta er meðal annars sá munur sem ég sé á bloggi og bókum. Sama ætti auðvitað að gilda um dagblöð. Svo er þó greinilega ekki því vitleysur af öllu tagi vaða þar uppi. Auðvitað er ég með þessu bara að afsaka sjálfan mig og það er ekki nema mannlegt.
Svona eru bláberin orðin á svölunum hjá okkur.
Pepsi náði forystunni í sjálfsalastríðinu mikla þegar stigarnir fyrir litla fólkið fóru að fylgja með sem staðalbúnaður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.7.2008 | 00:17
389. - Álfafell, Topplistinn, safnadagurinn og fleira
Þegar ég vann í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni vann þar með mér lettneskur barón sem ég man ekki hvað hét. Hann talaði alveg sæmilega íslensku og vildi sem minnst gera úr þessum barónstitli sínum. Sagði að hann væri bara af einhverjum barónsættum og í samanburði við slíkar ættir væru allir Íslendingar af aðalsættum.
Hans Gústafsson vann líka þarna og sömuleiðis konan hans Eyva mín. Ég man ekki heldur hvað hún hét. Eyva mín var Eyjólfur sonur Svanborgar gömlu og konan hans var af þýskum ættum og hafði komið hingað í stríðslok til að vinna.
Á Vegamótum kynntist ég annarri þýskri eftirstríðsárakonu, Maríu í Hrísdal. Hún var mjög eftirminnileg og talaði betri og vandaðri íslensku en flestir þeir Íslendingar sem ég hef kynnst. Það er eftirtektarvert hversu margt vel menntað og hæfileikaríkt fólk settist að hér eftir stríðið. Kannski sýnir það okkur bara hvílíkt brjálæði stríð eru.
Topplistinn er gott framtak hjá frænda mínum Gunnari Helga Eysteinssyni og ég get óhræddur hvatt menn til að kíkja þangað. Auðvitað eiga menn síðan að nota tækifærið og skrá sig. Ef einhver á í vandræðum með skráninguna er Gunnar Helgi meira en tilbúinn til að hjálpa og ég get fullyrt að sú hjálp er við allra hæfi. Ég hef áður skrifað um Topplistann en vegna þess að Gunnar Helgi tekur ekkert fyrir að auglýsa menn upp þar er ekki ofverkið mitt að minnast öðru hvoru á hann. Þessi listi er alls ekki bara fyrir bloggsíður heldur hvers konar vefsíður og þar getur handverksfólk og hver sem er auðlýst sig og framleiðslu sína. Skoðið bara og sannfærist. Skráðar síður eru núna um hundrað.
Svo er að sjá sem ég sé á lista hjá allnokkrum bloggurum yfir kollega sem rétt sé að kíkja í heimsókn til öðru hvoru. Stundum láta þessir bloggarar ekkert á sér kræla lengi en halda þó vonandi lestrinum áfram. Blogglesarar eru þó samkvæmt könnunum snöggtum fleiri en bloggskrifarar.
Safnadagurinn var um helgina. Mig minnir að það hafi verið í safninu að Skógum í fyrra sem ég hitti Benedikt Henry frænda minn og ísbjarna-færara. Safnið á Skógum er orðið með allra fjöbreyttustu og stærstu söfnum landsins og þar er margt að sjá. Þórður Tómasson er þar oft og tekur menn gjarnan tali.
Auglýsingaáherslur í fjölmiðlum hér á landi eru oft ansi skrýtnar. Undanfarið hafa klósetthreinsiauglýsingar tröllriðið öllu. Milljónir slíkra brúsa hljóta að seljast hér í hverjum mánuði. Mér er þó ekki ljóst hverjir nota þetta svona óskaplega mikið. Fyrir nokkru voru dömubindaauglýsingar svo áleitnar að aðrar auglýsingar komust varla að. Ég man líka vel eftir því að fyrir alllöngu voru jafnan fjölmargar rakvéla eða rakblaðaaulýsingar á hverji kvöldi í sjónvarpinu misserum saman.
Í síðari hluta júnímánaðar fór ég í gönguferð niður í miðbæ Reykjavíkur. Ég var með myndavélina í eftirdragi og tók nokkrar myndir. Hér er sýnishorn af þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2008 | 00:42
388. - Um málfar, ljósmyndir og sitthvað fleira
Jæja, áfram með karlagrobbið í dulargervi endurminninga. Nei annars. Aðsóknartölur sýna mér að þetta er ekki það sem fólk vill lesa. Ég verð að sætta mig við það þó auðvitað vildi ég gjarnan segja frægðarsögur af sjálfum mér endalaust. Svona verður maður bara með aldrinum.
Í sjónvarpi allra landsmanna var um daginn tekið svo til orða að von væri á að einhverjir skúrir yrðu um helgina. Ég hef áður talað um rigningarskúrir og geymsluskúra hér á blogginu og fengið heldur bágt fyrir.
Nú geri ég mér alveg grein fyrir að kynferði skúra er mállýskuháð. Ef karlkynið á að ríkja eins og sagt er að það geri fyrir norðan af hverju var þá ekki sagt einhverjir skúrar"? Ef sunnlenskan á hinsvegar að blíva hvað snertir rigningarskúrir af hverju var þá ekki sagt einhverjar skúrir"? Er þetta kannski miðjumoð allra miðjumoða?
Sigurður Hreiðar HM hvar ertu nú með þínar hnífskörpu skilgreiningar? Nú þörfnumst við þín.
Núorðið er svo mikið tekið af ljósmyndum að afar fáir nenna að skoða myndir sem aðrir taka. Næstum því hver maður á sína eigin myndavél og enginn vafi er á að meira er tekið af myndum en áður hefur þekkst.
Þessvegna er það sem ég ligg núna á því lúalagi að setja oft á tíðum ljósmyndir aftast í bloggið mitt. Með þessu tekst mér kannski að fá álitlegan fjölda fólks til að skoða myndir sem því hefði annars ekki dottið í hug að skoða. Auðvitað tel ég svo sjálfum mér trú um að þetta séu frábærar myndir.
Annars er það svo með þetta ljósmyndakraðak að meirhluti þess mun í fyllingu tímans lenda í glatkistunni gaflalausu. Geymslumiðlum fer sífellt hrakandi. Ekkert geymist eins vel og gömlu glerplöturnar. Á sama hátt eru bækur þær sem prentaðar voru fyrir mörgum öldum mun líklegri til að varðveitast en þær bækur sem verið er að prenta nútildags á illa gerðan afgangspappír allskonar.
Guðmundur Magnússon skrifar í sinn bloggpistil hugleiðingar um Matthías Johannessen skáld og ritstjóra og segir í lokin:
Það er ekki gott að lesa langa texta Mattíasar á skjánum. Betra að þeir hefðu verið settir í pdf-skjal þannig að maður gæti prentað þetta út. Kannski spáir hann í það við tækifæri?"
Það er ef til vill rétt hjá Guðmundi að pdf-skjöl séu frekar prentuð út en html-skjöl en ég fæ ekki séð að pdf-sniðið sé eitthvert skilyrði fyrir útprentun. Vilji er allt sem þarf.
Eins og sjá má af myndum mínum frá í gær fórum við í grillveislu í sumarbústað. Sá bústaður er að Húsafelli og á leiðinni þangað sáum við tilsýndar það hús sem Bjarni og Charmaine eru búin að festa kaup á. (Fyrsta mynd)
Annars var aðalstjarnan í grillveislunni lítil stelpa að nafni Snædís Sól Ingimundardóttir og aftan við myndina af húsinu Bjarna og Charmaine eru fáeinar myndir af henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2008 | 01:40
387. - Meira um íþróttir
Áfram með íþróttirnar. Golf er ekki annað en göngutúrar sem reynt er að setja svolítið fútt í. Viðurkenni samt að myndataka í sjónvarpi af golfi er stundum flott. Hvernig fólk getur valið það sjálfviljugt að fara frekar sem áhorfandi á golfmót en að sjá það í sjónvarpi er gersamlega ofvaxið mínum skilningi.
Sund er eina íþróttin sem ég hef stundað að einhverju gagni. Þegar ég var unglingur fór ég oft svona þrisvar á dag í sund. Af því að ég hafði tekið afreksstig í skólanum og þóttist vera að æfa vegna yfirvofandi sundmóts Skarphéðins fékk ég ókeypis í laugina. Sundmót Skarphéðins voru haldin árlega. Mig minnir að þau hafi verið til skiptis í Hveragerði og á Flúðum. Aðallega þó í Hveragerði því laugin þar var alveg einstök. Eina 50 metra sundlaugin á landinu.
Ég náði aldrei lengra en að verða í öðru sæti á sundmóti Skarphéðins. Ég man að það var í 1000 metra sundi frjálsri aðferð. Langfyrstur var Palli Sigurþórs. Hann var líka með bestu mönnum landsins í greininni og synti bringusund. Ég og Örn Jóhannesson vorum jafnir í öðru til þriðja sæti mestalla leiðina. Þegar 25 metrar voru eftir skellti ég mér á skriðsund og Örn átti ekkert svar við því. Fjórði og langsíðastur var Erlendur yngri bróðir Palla Sigurþórs.
Einu sinni man ég að ég synti 10 kílómetra í einum rykk. Það tók mig reyndar nokkuð langan tíma. Þetta var í sundtíma og hann var alls ekki nógu langur fyrir þetta langsund. Eftir að tíminn var búinn skrapp Hjörtur niður í Hveragerði og þegar hann kom aftur var ég enn að synda. Reyndar synti einhver þetta sund með mér en ég man ómögulega hver það var. Það var ekki meira erfiði að synda en að ganga svo þetta var bara spurning um þolinmæði.
Þegar Bifröstungar töpuðu með eftirminnilegum hætti fyrir Reykjaskóla í Hrútafriði í samanlögðum ýmsum íþróttagreinum var ég í boðsundsliði Bifrastar og komst aldrei lengra í íþróttum þar. Ég synti síðasta sprettinn af fjórum og auðvitað töpuðum við.
Sundmót Skarphéðins í Laugarskarði og frjálsíþróttamótin á Þjórsártúni voru fastir liðir og óhemju skemmtileg. Ég man vel hve mikð ævintýri það var að koma á Þjórsártúnsmótið. Aldri náði ég svo langt að keppa þar og Hvergerðingar voru ekki nærri eins góðir í íþróttunum þar eins og í sundinu. Undantekningin sem sannaði regluna var Óli Unnsteins. Bjarni í kaupfélaginu var líka með þeim allra bestu í glímunni, en hann var eiginlega ekki ekta Hvergerðingur.
Félagið sem við kepptum fyrir var Ungmennafélag Ölfusinga og ég man ekki eftir að neinn hrepparígur hafði verið til staðar. Ekkert Ungmennfélag var heldur í Hveragerði. Taflfélagið sem stofnað var um þetta leyti hét samt Taflfélag Hveragerðis þó Ölfusingar væru að sjálfsögðu velkomnir í það.
Í lokin eru svo nokkrar myndir sem ég tók í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2008 | 00:12
386. - Íþróttir og ég
Lengi vel trúði ég því að íslenska landsliðið ynni alltaf leiki sína ef ég léti svo lítið að fara og horfa á þá. Framan af gekk þetta ágætlega. Ég sá íslenska landsliðið meðal annars sigra það bandaríska, Austur-þýska og norska. Svo reyndist ágætlega að sleppa því öðru hvoru að fara á landsleiki þó þeir væru leiknir á Laugardalsvellinum. Á endanum brást þetta þó og Íslendingar töpuðu óvænt fyrir Dönum af öllum mönnum. Eftir þetta missti ég að mestu áhugann á landsleikjum og nú orðið leiðist mér fótbolti frekar en hitt. Þrátt fyrir allan fjölmiðlavaðalinn gat ég ómögulega fengið áhuga á Evrópumótinu í sumar.
Svo ég haldi áfram að tala um fótbolta þá stundaði ég þá íþrótt auðvitað sem unglingur. Náði meira að segja svo langt að vera í markinu hjá úrvalsliði Hveragerðis. Þá var Golli á Reykjum líklega veikur eða eitthvað. Svo hélt ég með Leeds í enska boltanum því þeir voru bestir. Fataðist svo flugið (Leeds altsvo - ekki mér). Ég fann ekki nýtt enskt lið til að halda með fyrr en um það leyti sem Gaui Þórðar tók við Stoke. En það er önnur saga.
Eiginlega er fótbolti skelfing fáránlegur leikur. Sama er að segja um aðra boltaleiki. En af því þeir eru vinsælir þá stunda fjölmargir þetta og horfa á aðra gera það. Svo vaða félögin sem stunda þessa vitleysu í peningum sem vitanlega væri hægt að nota í eitthvað þarfara. Nú er af sú tíð þegar fótbolti var verkamannaíþrótt á Englandi. Allir horfa orðið á þennan fjára og fyrrum yfirstéttaríþróttir eru mest fyrir enska fjölmiðlamenn sem virðast geta fimbulfambað endalaust um þann ófögnuð sem krikkettið er þó Englendingar geti ekki rassgat í því.
Ég fylgdist líka með formúlunni meðan hún var á Eurosport. Skrifaði þeim svo þegar þeir hættu að sýna frá henni og spurði hvað þetta ætti að þýða. Merkilegt nokk þá svöruðu þeir mér og bentu mér á að horfa á tennis í staðinn. Eurosport eru ágætir í sambandi við tennisinn, en mega þó ekki sýna frá Wimbledon beint. Þar er BBC á fleti fyrir. Einu sinni var ég staddur í London þegar Wimbledon mótið fór fram. Ekki datt mér í hug að reyna að komast á leik þar enda rigndi að sjálfsögðu flesta dagana.
Á Bifröst var ég að auðvitað í antisportistafélaginu, en hljóp þó einstöku sinnum útundan mér og stundaði íþróttir þegar mikið lá við. Antisport-hugsjónina hef ég þó líklega fengið þar. Skákin taldist á þeim árum ekki til íþrótta þó hún sé það auðvitað í rauninni.
Einu sinni þegar ég var á Vegamótum vorum við að leika okkur með drengjakúlu sem af einhverjum ástæðum var þar stödd. Líklega hefur Sigurþór í Lynghaga haft eitthvað með hana að gera. Þorgrímur á Eiðhúsum kom þarna að á mjólkurbílnum og fór að reyna sig við okkur. Mér er minnisstætt að ég kastaði kúlunni lengra en Þorgrímur og er það einhver glæstasti frjálsíþróttasigur minn.
Og í lokin nokkrar myndir frá í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)