395. - Ég nennti ekki að lesa ritgerðina

Harpa Hreinsdóttir sem er gift frænda mínum Atla Harðarsyni hélt úti bloggi til margra ára en hætti allt í einu fyrir skemmstu. Bloggið hennar var eitt af fáum sem ég las að staðaldri í mörg ár. Þar sníkjubloggaði ég oft á tímabili og Harpa lét sér það vel líka. Ég sé að það er heldur að bætast við í athugasemdakerfið hjá henni og hugsanlega er ráðið til að fá hana til að halda áfram að blogga að reyna að skrifast á við hana þar.

Eftirfarandi klausu eftir hana sjálfa er að finna í einni af nýjustu athugasemdafærslunum: "Þetta tókst allt í tæka tíð (áður en ég yrði alveg stjörf) og um leið og ritgerðinni hafði verið skilað fór ég í þriggja vikna raflostmeðferð, sem þrátt yfir að vera einskauta + ennisblað í þetta sinn, strokaði ritgerðina og þá vinnu nokkurn veginn alveg út. Ég kíkt á þessa ritgerð þegar ég var að laga til í hillum einhvern tíma í vor og sýndist hún sosum allt í lagi - þótt ég hafi ekki nennt að lesa hana."

"Þótt ég hafi ekki nennt að lesa hana," Vel sagt og Hörpu líkt. Enginn sló hana út í hreinskilni þegar hún var uppá sitt besta og ef einhverjum finnst ég kunna að blogga þá er það allt frá Hörpu komið.

Þó ég láti oft ólíkindalega yfir svarhölum er því ekki að neita að ég spegla mig mikið í þeim. Þeir hafa umtalsverð áhrif á mig og ég les þá alltaf. Miklu frekar en allt annað efni. Mér finnst mikill fengur í því þegar nýjir aðilar koma með athugasemdir á blogginu mínu. Ég safna þeim kannski ekki með sama ákafa og ég safnaði einu sinni bloggvinum en mér finnst ég alltaf þekkja þá miklu betur eftir en áður sem láta svo lítið að kommenta á skrifin mín.

Að þessu sögðu var nöldurfærslan um daginn nokkuð vel heppnuð. Nýir aðilar komu inn í athugasemdakerfið og ég heyrði frá nokkrum gömlum sem ég var farinn að sakna. Merkilegt hvað ég kommenta lítið sjálfur þó mig langi oft til þess.

Björn Bjarnason sagði kotroskinn mjög í sjónvarpsviðtali um daginn að þeir hjá Þingvallanefnd réðu því hvort steypan í nýju húsin þar yrði flutt í þyrlum eða með hjólbörum. Svona eru stjórnmálin að verða. Stjórnmálamenn ráða bara yfirleitt ósköp litlu. Ekki ráða þeir neitt við efnahagsástandið, ekki ráða þeir hvort álver rísa eða ekki og ekki ráða þeir hvort Ramses fær að vera eða ekki. Lýðræðislegar ákvarðanir eru oft fjarskalega óskynsamlegar. Bráðum verður alveg nóg að leyfa stjórnmálamönnum að ráða hve mikið loft verður haft í hjólbörudekkinu.

Yfirleitt finnst mér Gísli Tryggvason bloggvinur minn og talsmaður neytenda ekkert sérstaklega fyndinn. Færslan sem hann nefnir „Sérstaklega ekki maskara," finnst mér þó með því fyndnara sem ég hef heyrt lengi.

Og svo í lokin fáeinar myndir.

IMG 1997Þetta mun vera Jónatan Livingstone mávur. Orðinn þreyttur eftir langar og strangar æfingar.

IMG 2004Hér er Esjan ofar skýjum.

IMG 2002Watergate trónir enn á toppnum.

IMG 1988Egill Skallagrímsson kom við á þyrlunni sinni á leið á Þingvelli þar sem hann ætlaði að dreifa alvöru-Evrum yfir lýðinn. (Það er víst ölgerðin hans sem er að láta byggja þarna)

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sakna líka bloggsins hennar Hörpu. 

asben 21.7.2008 kl. 16:58

2 identicon

Það er svo sem aldrei að vita nema Harpa byrji aftur að blogga með haustinu :) Sem stendur kemst hún ekki yfir meira en sólböð og "minningarbækur", þ.e. að búa til úrklippubækur ("scrap") á tölvutæku formi úr eldgömlum myndum sem sótt er eftir af hörku!  Ættin mín er svoddan afleggjari að hún kemst ekki í prentaðar bækur að gagni og ég er sumsé að bæta úr því, með myndum, skrauti, úrlklippum af timarit.is o.frv. Nýjasta nýtt í  þeim efnum er hjúskaparvottorð ömmu og afa sem er í vörslu bróður míns ...

Þetta er skemmtileg handavinna en nokkuð tímafrek - og á meðan er í hæsta lagi tími fyrir sníkjublogg :)

Harpa 21.7.2008 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband