Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

385. - Eru fyrirsagnir ekki mesti óþarfi og vandaverk þar að auki?

Ég fæ meiri og jákvæðari komment á myndirnar mínar en skrifin. Kannski ég snúi mér frekar að því að taka myndir en að skrifa. Segi bara svona. Ætli ég haldi ekki áfram að gera hvorttveggja. Þetta er ágætt saman. Mér þykir reglulega gaman að taka myndir ekki síður en að skrifa. Veðrið er bara svoleiðis núna að það er engu líkt að rölta um og taka myndir af hinu og þessu. Að vera í fríi um hádaginn í svona sól og blíðu og nota ekki tímann til að fara eitthvað og taka myndir er eiginlega ómögulegt. 

Mamma las sjaldan en var þó áskrifandi að Nýja Kvennablaðinu sem gefið var út á þeim árum. Ástæðan fyrir því að hún las sjaldan held ég hafi einkum verið sú að það var alltaf nóg að gera. Ef ekki var verið að argast í krakkaskaranum og elda og sauma þá var verið að reyna að afla tekna. Með prjónavél. Með flatkökubakstri og kleinugerð. Eða bara einhverju öðru. Einu sinni man ég þó að hún sökkti sér niður í bók sem ég fann á bókamarkaði og gaf henni. Sú bók heitir: „Þúsund ára sveitaþorp" og er eftir Árna Óla. Mamma var einmitt ættuð úr Þykkvabænum.

Kaupmaður einn í Reykjavik þurfti að fara til útlanda. Konan hans átti von á barni og kom þeim saman um að hún mundi senda honum símskeyti (já, þetta var á þeim tíma) þegar hún yrði léttari, en ekki mætti koma fram í því hvað um væri að ræða. Í fyllingu tímans kom símskeytið til kaupmannsins en eitthvað var það öðru vísi en hann hafði búist við. Svona hljóðaði það: "Kaffikönnurnar eru komnar, önnur með stút, en hin stútlaus."

Önnur símskeytasaga. Fatakaupmaður var í útlöndum. Hafði áður beðið skrifstofumann sinn að láta sig vita hvernig gengi í búðinni. Nú fór kona kaupmannsins að halda framhjá og skrifstofumaðurinn vildi láta hann vita án þess að augljóst væri hvað hann ætti við. Skeytið var svona: "Pils hækkandi, buxur lækkandi, mikil hreyfing á skinnavörum."

Í lokin er svo dálítið sýnishorn af afrakstri dagsins í myndum. Myndirnar eru allar teknar í nágrenni Hvassahrauns.

IMG 1737Þetta sem er á bakvið skelina er skarfakál ímynda ég mér. En það getur vel verið vitleysa.IMG 1744

Þessi tjörn er rétt við sjóinn og líklega er vatnið í henni salt. Það gæti verið skýringin á því hvað gróðurinn næst bakkanum er fölur. Mér finnst samt merkilegast við myndina hvað botninn á tjörninni sést vel.

IMG 1757Aldrei er umhverfið svo slæmt að ekki megi reyna. Einhver verður líka að vera fyrstur.

IMG 1763Reisulegt hús. Skyldu hestarnir eiga heima þarna?

IMG 1766Ekki veit ég hvað þessi fugl heitir. Fallegur er hann samt með sína áberandi fætur.

IMG 1769Þarna er gróðurinn búinn að ná sér betur á strik en á myndinni hér fyrir ofan.


384. - Er stóra Ramsesarmálinu nú loksins að ljúka?

OK ég skoða stundum vinsældalistann og er auðvitað því ánægðari sem ég er ofar á honum. Nú er ég til dæmis á milli Ásthildar Þórðardóttur á Ísafirði og Guðbjargar Hildar og líður vel þar. Stundum hef ég komist á topp 50 en aldrei mjög ofarlega. Vonandi fer ég samt ekki neðarlega á topp 400 meðan ég er forsíðubloggari.

Stóra Ramsesarmálið virðist vera að leysast. Ég hef afar lítið skrifað um þetta mál fyrir utan eina litla klausu um daginn. Í þessari klausu sagði ég eitthvað á þá leið að mér fyndist Ramsesarmálið hafa viss Lúkasareinkenni. Sigurður Þór atyrti mig fyrir að taka svona til orða en ég átti nú bara við að sumir bloggarar virðast næstum hafa sleppt sér útaf þessu máli. Sama skilst mér að hafi átt sér stað um Lúkasarmálið.

Mér finnst margir bloggarar hafa skrifað óhóflega mikið um þetta mál. Og æsingurinn er töluverður. Ég held að það sé heillavænlegra fyrir alla að reyna að halda ró sinni. Hef aldrei skilið þá bloggara sem virðast halda að því orðljótari og andstyggilegri sem þeir séu því betra. Ég sé samt eftir þessari klausu sem ég skrifaði því útúr henni má lesa að ég sé heldur fylgjandi því sem útlendingastofnum gerði og álíti hana gera rétt. Svo er þó alls ekki og þeir sem þekkja mig gera áreiðanlega ekki ráð fyrir því. Ég hef staðið í ströggli við þessa stofnun og veit hvernig hún starfar.

Unndórsrímur eru nokkuð þekktar klámvísur einkum vegna þess að það var Kristján Eldjárn Þórarinsson síðar forseti Íslands sem orti þær á sínum yngri árum. Þar eru til dæmis þessar tvær vísur:

Orðstý jóku afreksmanns

ótal bókaskræður

en mestan tóku tíma hans

tittlings hrókaræður.

 

Lærði dúka liljum hjá

lærði á mjúka skrokka

lærði að strjúka lærði að slá

lærði að brúka smokka.

Ekki held ég þetta þætti ekki mjög gróft nútildags.

Athyglisvert er að báðar eru vísurnar hringhendur og þannig er reyndar ríman öll (18 vísur). Ég man ekki eftir að hafa heyrt nema eina rímu þrátt fyrir nafnið.

Í lokin eru svo fáeinar myndir sem ég tók uppi við Rauðavatn í dag.

IMG 1692IMG 1700IMG 1709IMG 1717


383. - Ljósmyndasýningar hjá ungum stelpum

Einhvern tíma fyrir nokkru var ég að fjasa um forsíðubloggara og þess háttar hér á blogginu mínu. Einhver komment fékk ég á það blogg og meðal annars eitt frá 14 ára stelpu á Hornafirði. Hún heitir Róslín Alma og vildi fá að vita hvernig maður yrði forsíðubloggari. Ég benti henni bara á að hafa samband við stjórnendur bloggsins og það hefur hún eflaust gert. Ég held að hún hafi lent í einhverju smáþrasi við þá en fyrr en varði var hún orðin forsíðubloggari og virðist alveg eiga það skilið.

Svo er hún bara komin með ljósmyndasýningu á Hornafirði og sömuleiðis er önnur stelpa einu eða tveimur árum eldri með ljósmyndasýningu í Borgarnesi. Fréttir um báðar þessar sýningar held ég að hafi komið í Morgunblaðinu og eflaust í fleiri fjölmiðlum.

Oft krota ég eitthvað hjá mér og reyni að fella það inn í bloggið seinna meir þegar að því kemur að gera eitthvað tilbúið til sendingar. Þetta krot hjá mér er samt sérstakt að því leyti að ég hendi því inn í ákveðið Word-skjal og með því að bæta við í skjalið og laga það svolítið til verður bloggið mitt til. Svo er ég farinn að taka talsvert af myndum uppá síðkastið og vel stundum það skásta úr þeim til að setja hér á bloggið. Ég er samt svo sparsamur að ég minnka myndirnar mikið áður en ég sendi þær upp og er ekki ennþá búinn að nota það pláss sem Mogga-guðirnir úthlutuðu mér ókeypis fyrir slíkt.

Eiginlega finnst mér eins og ég sé að verða að einhvers konar dagblaði. Fyrirsögnin og fyrstu línurnar í hverju bloggi eru líka ef til vill með því mikilvægasta sem ég skrifa því fleiri sjá það en annað í blogginu.

Ég hef verið að hugsa um náttúrvernd og mengunarvarnir. Eiginlega er það sitt hvað þó sumir vilji slá því saman. Að vera á móti einhverju (t.d. virkjun) bara vegna þess að hún spillir landslaginu og breytir því finnst mér alveg út í hött. Manngert landslag finnst mér oft jafnfallegt og annað. Fyrir utan að það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt og allt það. Mengun finnst mér vera allt annar hlutur. Ef hægt er að sanna eða leiða sterkar líkur að því að einhver starfsemi hafi einhvers konar eituráhrif er það mjög slæmt.

Sjónmegun svokölluð finnst mér vera miklu réttlægri en önnur mengun. Ástæðulaust er þó að valda meira umróti en nauðsynlegt er og oft má auðveldlega komast hjá sjónmengun eða laga hana talsvert. En að eitthvert landslag verði minna virði bara vegna þess að frá ákveðnu sjónarhorni megi sjá eitthvað manngert finnst mér fjarstæða.

Svo eru hérna þrjár myndir sem ég tók í dag.

IMG 1628IMG 1661IMG 1674


382. - Er vídjóblogg kannski framtíðin? Allir að kjafta á fullu

Horfði í fyrrinótt á vaktinni á vídjóblogg Heklu Elísabetar Aðalsteinsdóttur (3 stykki) og það var skemmtileg tilbreyting frá öllu skrifelsinu sem maður er búinn að vera að lesa undanfarið. Áfram Hekla, flott hjá þér. Ástæðan fyrir að ég skoðaði það var að það kom nokkuð seint og úrdrátturinn var enginn þegar nýjustu blogg voru skoðuð.

Mér finnst hugfró í því að setja orð á blað. Ég er samt hræddur um að mig mundi bresta þolinmæði sem rithöfundur. Það er gott að sjá samsetninginn fara næstum daglega frá sér og svo þarf maður ekki að hafa áhyggjur af honum meir. Þegar ég er búinn að senda hið daglega blogg frá mér er það farið og ég er laus við það. Endanlega. Stundum eru hlutar af því búnir að veltast fyrir mér í heilan dag þegar það loksins hverfur mér út á Netið. Þetta undarlega fyrirbrigði sem allt gleypir.

Því er ekki að neita að margar stuttar greinar sem ég set hér á bloggið eru þess eðlis að þær ættu vel heima sem kommment við greinar hjá öðrum. Ég kommenta alltaf lítið og það má vel kalla það sparsemi. Þegar ég les blogg hugsa ég yfirleitt mest um að klára lesturinn sem fyrst. Skynsamlegu kommentin sem ég hefði getað skrifað koma ekki upp í hugan fyrr en seinna. Þá er líka upplagt að nota þau í sitt eigið blogg. Eða það finnst mér.

Mér virðist að forsíðubloggurum hér á Moggablogginu sé að fjölga. Það gæti orðið til þess að heimsóknum hjá mér og öðrum sem verið hafa hér nokkuð lengi fækkaði eitthvað en það gerir lítið til.

Blogg um blogg eru mínar ær og kýr. Hvernig komst ég af áður en ég byrjaði að blogga? Hvað eru blaðagreinar og fréttir annað en blogg. Skrifararnir alltaf að reyna að sýnast gáfaðir og skrifa þannig að eftir sé tekið. Með því að rotta sig saman má gera úr þessum æfingum blað. Jafnvel dagblað. En núna þegar allir eru farnir að blogga er þessum vesalingum ógnað.


381. - Um Gunnar Helga og ýmislegt annað

Gunnar Helgi Eysteinsson er engum líkur. Hann bjó til hausmynd á bloggið mitt án þess að ég bæði hann um það. Topplistann hans ættu menn endilega að athuga. Ég var líka búinn að fikta í stjórnkerfinu og rugla blogginu mínu án þess að vita hvernig ætti að laga það aftur. Hann gerði við það eins og ekkert væri.

Það er þreytandi að þykjast alltaf vera rosagáfaður, en vera samt frekar vitlaus. Þetta er samt enginn vandi. Maður passar sig bara á að skrifa helst ekki um annað en það sem maður hefur sæmilegt vit á, þá koma gloppurnar síður í ljós. Þó maður hætti sér stundum í að skrifa um eitthvað sem maður hefur takmarkað vit á er hægur vandi að skrifa fram hjá gáfnaskortinum. Ef allt um þrýtur er hægt að reyna að vera fyndinn og svo sakar auðvitað ekki að vera sæmilega laginn við að skrifa og hafa gaman af því.

Í Fréttablaðinu var um daginn sagt frá tilraunum í Vestmannaeyjum með að bera fiskúrgang á tún. Sagt var að grasspretta yrði góð af því. Það er ekki nýjung að nota slor á þennan hátt. Í mínu ungdæmi var talið nokkuð gott að nota slor sem áburð en aldrei hefur lyktin þótt góð. Ég man að pabbi fékk einhvern tíma slor til að bera á kartöflugarðinn heima en mörgum þótti það ógeð hið mesta.

Ég man vel eftir því að á sínum tíma í Hveragerði leit maður mikið upp til stráka eins og Nonna á Sunnuhvoli, Hannesar Sigurgeirs, Sverris á Ljósalandi, Óla Unnsteins og fleiri.

Pabbi Nonna hét Eggert og var kallaður Kalli. Hann vann hjá hreppnum og var verkstjóri þar. Einhverju sinni var hann ásamt fleirum við einhverjar framkvæmdir. Einhver í flokknum (kannski Unnar bróðir Gunnars Benediktssonar) þurfti að sjá til Kalla og bað okkur nokkra krakka sem þarna vorum að þvælast fyrir að færa okkur. Þá sagði ég: "Farið frá svo hann sjái ekkert!" Allir vissu náttúrulega að Kalli hét Eggert. Þetta þótti bráðfyndið en ég man fyrst og fremst eftir þessu vegna þess hve mér sjálfum þótti þessi brandari ómerkilegur og var hissa á að nokkur skyldi hlæja að þessari vitleysu.

Nonni og Hannes voru miklir töffarar. Sverrir á Ljósalandi var meðal bestu sundmanna landsins og Óli Unnsteins hafði gríðarlegan áhuga á frjálsum íþróttum. Smalli (Reynir Helgason) rakaði á sér lappirnar til að líkjast honum sem mest og það var gaman að fylgjast með Óla þegar hann var að æfa sig. Sem var mjög oft. Hann náði nokkuð langt í ýmsum greinum og ennþá lengra seinna sem þjálfari en dó langt um aldur fram.

Picture 198Þetta er gamla brúin á Tungufljóti. Það tíðkaðist í eina tíð að hafa beygjur við brýr svo síður væri farið hratt yfir þær.

Picture 296Jú, það er alveg rétt. Þetta er gerviblóm.

Picture 303Picture 303En þetta blóm er ekta.

Picture 310Gámurinn er líka ekta þó hann sé ekkert sérlega fallegur.


380. - Frekar stutt blogg. Eru ekki allir að fara úr bænum?

Ég var á bókasafninu um daginn og þurfti meðal annars að endurnýja kortið mitt. Strákurinn sem afgreiddi mig sagði um leið og hann rétti mér kortið aftur:

"Þetta er í síðasta skipti sem þú þarft að gera þetta."

"Nú." sagði ég. "Á þetta að fara að verða ókeypis?"

"Nei, en þú þarft áreiðanlega ekki að borga oftar."

Ég hef áreiðanlega litið út eins og spurningarmerki í svolitla stund en svo áttaði ég mig. Hann hafði séð á kortinu nákvæmlega hve gamall ég er og það er semsagt ekki nema rúmt ár þangað til ég verð löggilt gamalmenni. Ég er ekki enn farinn að venjast þessari tilhugsun en það kemur.

Auglýsing til útigangsmanna: Komið og hreiðrið um ykkur hér á Njarðargötunni. Hér er nóg pláss og enginn hefur búið í húsinu í 17 ár. Ósköp þarf að bíða lengi eftir ykkur. Þetta er úr Morgunblaðinu og mér er alveg hulin ráðgáta hvers vegna þarf að auglýsa þetta. Sjálfur sleppti ég húsnúmerinu viljandi en það er að sjálfsögðu að finna í Morgunblaðsfréttinni.

Þetta Ramsesarmál sem allir eru að trompast yfir hefur nokkur Lúkasareinkenni. Undanlegast finnst mér að maðurinn skuli ekki tjá sig neitt um þetta sjálfur. Gerðir Útlendingastofnunar líta yfirleitt illa út og svo er greinilega að þessu sinni. Ef einhverntíma var ástæða til að horfa framhjá ströngustu reglum þá var það í þessu máli.

Í fréttum í dag var sagt frá umferðarslysi sem orðið hefði við bæinn Langholt í Staðarsveit. Sá bær er ekki til. Langholt er holtið hjá Staðastað og Tröðum samt oft kallað að ég held.

Og svo nokkrar myndir:

IMG 1600Þetta er einskonar auglýsing fyrir Twinings te. Óseld.

IMG 1601Höfðabakki í morgunsól. En hvar eru bílarnir?

IMG 1604Hvað er nú þetta? Augljóslega smátimburbútar sem búið er að raða upp.


379. - Bloggað um blogg rétt einu sinni og lítið annað

Er annars nokkuð eins ómerkilegt og að blogga um blogg?

Mörgum þykja blogg fremur ómerkileg. Ég held samt að það séu einkum bloggarar sem óskapast yfir því. Flestir leiða fremur en hitt hjá sér umræðu um það. Lesa það samt í laumi. Ímyndum við bloggarar okkur að minnsta kosti. Annars eru alhæfingar um blogg alveg jafnvitlausar og aðrar alhæfingar. Blogg getur verið allur fjárinn.

Mér finnst mjög skiljanlegt að Víkverji Morgunblaðsins skuli ala á fordómum í garð bloggara. Allt sem er ókeypis ógnar Morgunblaðsveldinu. Maður gæti haldið að Ingibjörg Sólrún væri ókeypis miðað við hvernig Moggamenn tala um hana. Samt gefa þeir út ókeypis blað og standa jafnvel betur að dreifingu á því en Fréttablaðsmafían á sínu blaði. Svo er Moggabloggið í boði Moggans. Þetta er allt saman dálítið skrítið. En er nokkuð ókeypis ef grannt er skoðað.

Er ég ekki að vinna fyrir Moggann með þessu streði mínu? Auðvelda honum að auka sínar auglýsingatekjur. Svo eiga menn þar til að taka mín blogg traustataki og birta eins og ekkert sé í Mogganum. Kannski hef ég með aðgerðarleysi gefið þeim einhvern rétt til þess. En ekki meðvitað og af sjálfsdáðum. Ef ég væri spurður væri Mogginn síðasta blaðið sem ég mundi vilja að birti efni eftir mig.

Allmargir þeirra sem kommenta reglulega hér á bloggið mitt hljóta að vera nokkuð reglulegir lesendur þess. Þar fyrir utan veit ég um nokkra sem aldrei kommenta þó þeir lesi bloggið mitt reglulega. Vegna þess að ég er forsíðubloggari koma síðan á hverjum degi einhverjir tugir eða hundruð að kíkja á þetta undarlega fyrirbrigði. Þetta segja mér vinsældatölurnar. Ef þessum sem kíkja óvart líkar sæmilega það sem þeir sjá eru líkur á að þeir verði reglulegir lesendur með tímanum. Þessvegna reyni ég yfirleitt að vanda mig svolítið.

Undanfarna mánuði hef ég bloggað flestalla daga og í seinni tíð oft og einatt sent myndir líka. Allmörg komment hef ég fengið þar sem myndunum er hrósað svo ég reikna með að halda áfram að blanda þessu saman.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að umhverfisráðherra hefði tekið fyrstu skóflustunguna að nýju náttúrugripasafni sem reyndar er kallað eitthvað annað. Húsið á að vera tilbúið í lok árs 2009. Einhvern vegin er það svo með mig að ég trúi því ekki að þetta standist.

Mér er minnisstætt að nokkru eftir miðjan síðasta áratug síðustu aldar fór ég á sýningu í Þjóðminjasafninu sem þá var verið að loka. Þar var auglýsing um að öfugt við það sem oft væri með framkvæmdir hér á landi þá væri nú ákveðið að örugglega mundi þjóðminjasafnið verða opnað aftur þann 17. júní árið 2000 í nýuppgerðu húsi og ekkert gæti breytt því vegna þess að búið væri að gera nákvæma áætlun um verkið allt og fjármögnun þess. Þetta stóðst ekki.


378. - Víkverji og ummæli hans um moggabloggið

Lára Hanna skrifaði Víkverja Morgunblaðsins bréf vegna skrifa hans um blogg. Hún birtir bæði grein Víkverja og bréf sitt á blogginu sínu. Mig langar að lýsa hér í stuttu máli hvernig ég held að hlutirnir gangi fyrir sig á Morgunblaðinu.

Moggabloggið var fundið upp vegna þess að tölvumennirnir á Mogganum höfðu ekki sérstaklega mikið að gera og auk þess er gott fyrir auglýsingasölu að umferð um tölvulén moggans sé sem allra mest.

Byrjendur í blaðamennsku eru látnir þýða og skrifa fréttir og setja síðan á mbl.is. Ekki er að sjá að það sem þeir láta þar sé neitt lesið yfir. Bloggarar sjá um að gera athugasemdir við fúskið sem óneitanlega sést þar ansi oft.

Aðeins nokkuð reyndir blaðamenn fá að skrifa pistla undir nafninu Víkverji. Pistillinn sem Lára Hanna vitnar til er ágætlega skrifaður og til þess ætlaður að æsa bloggara upp og líka til að ala á fordómum í fólki gagnvart bloggi. Líklega til að fólk kaupi frekar Moggaræfilinn en lesi ókeypis blogg. Auðvitað er hann skrifaður í gríni en samt á þann hátt að vel er hægt að taka hann alvarlega. Sumir munu gera það.

Lára Hanna sér grínið og ákveður að ganga bara lengra í vitleysunni. Með því að birta bréf Láru Hönnu athugasemdalaust gerir Víkverji dagsins tvennt. Hann sýnir Láru Hönnu og öðrum sem fatta grínið að hann skilur þetta alveg líka. Með því að fella niður hluta af undirskrift hennar heldur hann áfram að hlaða undir fordómana í garð bloggsins. Það er nefnilega mögulegt fyrir ókunnuga að halda að Lára Hanna sé að tala í alvöru.

Það sem sjónvarpsfréttir hafa framyfir útvarpið er að fréttamenn geta myndskreytt fréttir samkvæmt hugmyndaflugi sínu. Stundum er myndefnið í boði annarra en yfirleitt ekki merkilegt ef grannt er skoðað.

Ég minnist þess að þegar ég vann uppi á Stöð 2 sagði Marínó Ólafsson hljóðmeistari mér einu sinni að athyglisvert væri að þegar upptökuhópar færu til að taka upp fréttir væri það jafnan svo að myndin skipti í raun engu máli þó mest væri eftir henni tekið. Ef hljóðið væri gallað væri fréttaupptakan hins vegar ónýt.

Eitt sinn þegar Balkanstríðin stóðu sem hæst voru fréttir af flóttafólki í sjónvarpinu á hverju kvöldi. Eitt sinn sneri tökumaður nokkur vél sinni öfugt smástund svo hýenupakkið sem sá um að koma fréttunum til okkar sófa-kartaflnanna blasti við í nokkrar sekúndur. Þessi mynd er mér ofar í minni en allir þeir útbelgdu svöngu magar sem ýtt hefur verið að okkur á skjánum undanfarin ár.

Eftirminnilegasta fréttaskotið frá ísbjarnarveiðunum hjá Hrauni á Skaga er í mínum huga þegar mynd var tekin af öllu liðinu sem safnast hafði þarna saman. Daninn sem fenginn var til landsins hefur eflaust verið sérfræðingur í einhverju. Líklega samt ekki í því að fanga ísbirni. Þá fannst mér nú Benedikt Henry vera skynsamlegri í sjónvarpsfréttunum um daginn.

Í lokin eru svo fjórar ljósmyndir.

IMG 1574Þetta er nýjasta Krónubúðin. Hún er skammt frá Smáratorgi og er nokkuð flott. Á flestan hátt tekur hún fram Bónus búðinni sem er rétt hjá. Veit samt ekki með verðin. Líklega væri best að spyrja okur-Gunna um þau. Þarna var ég staddur þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir um daginn og fann hann ekki.

IMG 1585Þetta er sólarlagsmynd frá Reykjavík. Tekin í gær eða fyrradag. Ef vel er að gáð má sjá saklausa ljósastaura innan um grenitrén.

IMG 1591Svífa yfir Esjunni... - eldrauður himinn og kannski einhver sólroðin ský líka.

IMG 1594Þetta held ég að sé Gullregn. Þó veit ég það svosem ekki. Mér finnst þetta bara fallegt tré. Það stendur við Auðbrekkuna í Kópavogi og er auðvitað haft á bak við hús eins venjan er með svonalagað.


377. - Virkjanir eða virkjanir ekki, það er verkurinn

Það er enginn vafi á því í mínum huga að umhverfismál, náttúrvernd og auðlindamál verða þau mál sem skilgreina fólk einkum í stjórnmálaflokka í framtíðinni. Að því leyti til finnst mér hægri og vinstri skilgreiningar vera orðnar dálítið úreltar þó vel megi nota þær í sambandi við almenn efnahagsmál, samskipti launþega og atvinnurekenda og jafnvel samskipti stjórnvalda og þegna.

Skoðanir fólks á náttúruvernd fara alls ekki eftir almennum stjórnmálaskoðunum þess. Vinstri menn hafa haft tilhneigingu til að eigna sér öll mál af þessu tagi hægri mönnum til sárrar gremju. Mín skoðun er sú að hægri menn geti sem best verið öflugir náttúruverndarmenn og vinstri menn á sama hátt virkjanasinnar.

Gamla skilgreiningin um vinstri og hægri á ekki við þegar kemur að þessum málum og það veldur því líka að stjórnmálamenn geta ekki með árangri fjallað um þau eins og nú er komið. Málflutningur þeirra verður ótrúverðugur vegna þess að sem pólitíkusar verða þeir að dragnast með og afsaka gerðir flokka sinna í þeim málum sem um ræðir.

Umræða um náttúruvernd hefur verið mikil að undanförnu. Grasrótarsamtök hafa unnið mikilvæga sigra í viðureign við stjórnvöld og hálfopinber fyrirtæki. Enginn efi er á að þetta mun hafa áhrif. Orkufyrirtæki munu gæta þess að vaða ekki með ofbeldi yfir þá sem eru á móti þeim og þeirra gerðum. Hvorugur aðili mun ná öllu sínu fram en við sem á horfum getum bara vonað að niðurstaðan verði ásættanleg.

Öflugir náttúruverndarsinnar eins og Lára Hanna Einarsdóttir ættu að forðast að blanda flokkspólitík í þessi mál. Sama er um andstæðinga hennar að segja og þá færist heitasta umræðan um þetta út fyrir flokkspólitíkina. Sem er mjög gott. En fyrr eða síðar leitar hún þangað aftur og þegar nær dregur kosningum verða þessi mál jafnt og þétt flokkspólitískari.

Ég er einn þeirra sem á í vandræðum með að ákveða hvor hópurinn er meira sannfærandi, náttúruverndarmenn eða virkjanasinnar. Nauðsynlegar og hlutlausar upplýsingar um þessi mál liggja ekki alltaf á lausu og þó þeim sem hópunum fylgja af einlægni sýnist oft auðvelt að ákveða sig er alls ekki svo og ég er viss um að fleiri en ég eiga í vandræðum með þetta.

Það er veikleiki minn og hefur verið lengi að ég les allt of mikið af bloggum. Þar er mörg vitleysan sögð en einnig má þar finna margan fróðleik um þessi mál og önnur. Satt að segja er það einkum einn bloggari sem stundum tjáir sig um auðlindir landsins og þessi mál öll með þeim hætti sem mér hugnast sífellt betur og betur.

Þessi bloggari er Anna K. Kristjánsdóttir. Hún er eflaust vinstrisinnuð eins og kvenfólk er oft, en það skiptir mig engu máli. Ég hallast mjög að viðhorfum hennar til náttúruverndar og stóriðju. Hún hefur að ég held lýst yfir stuðningi við álver og jafnvel Bitruvirkjun og Þjórsárvirkjanir en er mótfallin olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum með rökum sem mér finnst vera skynsamleg.

Nú er ég líklega kominnn lengra í pólitískum hráskinnaleik en ég ætlaði mér. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson líkti mér í kommenti um daginn við öskrandi ísbjörn útaf Tjörnesi. Meinti líklega að ég væri sífellt að öskra á sig án þess að vera nokkurn hlut hættulegur. Kannski rataðist þar kjöftugum satt á munn því mér þykir einmitt gaman að láta í mér heyra.


376. - Æ, þetta er óttalegt píp og jafnvel makalaust málæði líka

Líf okkar stjórnast að miklu leyti af pípi. Reykskynjarar pípa þegar þeim leiðist. Kaffivélar pípa og hverskyns raftæki einnig. Það er meiriháttar stúdía að þekkja öll þessi píp í sundur. Maður hrekkur í kút þegar maður heyrir píp sem maður veit ekki hvaðan kemur og átti alls ekki von á. Bíllinn gæti verið að pípa, eða farsíminn eða eitthvað annað sem maður þyrfti helst að athuga. Svo gæti pípið verið eitthvað sem manni kemur ekkert við. Sjónvarpið er líka stundum sípípandi. Dyrabjöllur hringja þar og farsímar og sú gáfa að geta staðsett hljóð sparar mörg sporin. En stundum bregst manni bogalistin og það er óttalega vandræðalegt að þjóta til dyra þegar enginn er þar.

Þessu ótengt er mér minnisstæð svarthvít ljósmynd sem ég sá fyrir mörgum árum. Mig minnir að ég hafi séð hana hjá Kollu í Álfafelli. Hún hafði verið tekin löngu fyrr í skólaferðalagi sem við höfðum farið í. Myndin var tekin í tómri sundlaug einhvers staðar í Lundarreykjadalnum. Þangað höfum við eflaust komið um Uxahryggi frá Þingvöllum þó ég muni ekki vel eftir því eða hvert við fórum úr Lundarreykjadalnum.

Á myndinni vorum við Jósef Skaftason og Erla Traustadóttir að leika okkur ofan í tómri lauginni. Einhver (kannski Kolla) hafði skrifað aftan á myndina. Sæmi sniðugi, Erla sæta og Jobbi gáfaði. Líklega hefur höfundi þessara orða fundist þetta. Ég er ekkert ósáttur við það. Ég gæti vel trúað að á þessum tíma hafi það verið einkenni á mér hvað ég var óhræddur við að segja það sem mér datt í hug. Þessi náttúra er ef til vill að endurtaka sig hér á blogginu núna, eftir að ég hef áratugum saman verið frekar lokaður og lítið sagt. Ókey, sumum hefur eflaust fundist að ég talaði full mikið.

Einhver var að segja frá því á bloggi að hann hefði farið yfir Fimmvörðuháls og það hefði verið næstum óslitin röð af fólki frá Skógum að Básum. Ekki var nú ástandið þannig þegar ég fór yfir Fimmvörðuháls um árið. Mér er nær að halda að við höfum ekki séð lifandi kvikindi á leiðinni.

Þetta var annars ágætisferð. Ég, Bjössi bróðir og Benni sonur minn fórum saman í þessa ferð ef ég man rétt. Tókum rútu að Skógum á laugardegi og röltum af stað. Leiðin upp á hálsinn var ansi hlykkjótt og löng því við fylgdum árbakkanum. Á einum stað var minningarskjöldur um mann sem hafði drukknað við að detta í ána.

Þegar upp kom var komin þoka. Fyrst komum við að svonefndum Fúkka, en leist ekki á að gista þar. Þóttumst vita í hvaða átt nýji skálinn Útivistar væri og héldum þangað.

Morguninn eftir var svartaþoka og héldum við af stað upp í skarðið milli jöklanna. Þar týndum við slóðinni en fundum hana aftur fljótlega fyrir algjöra tilviljun. Þegar niður kom fórum við þvert yfir Mörkina og í aðsetur Austurleiðar og fengum rútuferð til baka.

Þessi ferðasaga gæti auðvitað verið miklu lengri en ég vil ekki þreyta lesendur mína með því.

Í lokin vil ég benda þeim sem gaman hafa af löngum svarhölum á að þeir virðast vera að vaxa úr hömlu hjá mér við blogg sem skrifuð eru síðan ég kom úr útlegðinni í Grímsnesi. Missið ekki af þessum spennandi skoðanaskiptum. Það geri ég ekki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband