Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 00:37
375. - Að vera álitinn tölvunörd og svolítið um bækur og sundkennslu
Í Grímsnesdvölinni las ég nokkrar bækur. Ein þeirra heitir Leikir og störf og er eftir Þórarinn Helgason. Gefin út af Almenna bókafélaginu 1976.
Þórarinn er fæddur og uppalinn í Landbrotinu snemma á síðustu öld. Í þessari bók segir hann frá uppvexti sínum og æsku og þó mörgum finnnist áreiðanlega að þarna sé verið að segja frá ósköp lítilvægum og ómerkilegum hlutum er bókin ótrúlega grípandi.
Ein eftirminnilegasta frásögnin þarna er af sundkennslu sem höfundurinn fékk ásamt fleirum eitt vorið og fór fram í æði misjöfnum veðrum. Kennt var í skítkaldri laug sem myndaðist við það að sett var fyrirstaða í læk. Ekki gátu menn synt lengi í hvert sinn vegna kulda. Hlupu þeir því um og tuskuðust þess á milli til að halda á sér hita. Höfðu líka aðgang að húsnæði sem bauð upp á aðstöðu til einhverskonar leikfimiæfinga. Einn af þeim hraustustu fór þó eitt sinn á einskonar eftirskjálftastig og varð máttlaus og þvoglumæltur. Hann var borinn og dreginn á næsta bæ og varð sífellt máttlausari og meira útúr heiminum á leiðinni. Þar var hann settur ofan í þurrt rúm ásamt heitum vatnsflöskum og allir bjuggust við að hann mundi einfaldlega deyja. Bókarhöfundur lýsir því síðan vel þegar sjúklingurinn fékk allt í einu öflugra skjálftakast en hann hafði áður séð. Þá fyrst fóru menn að eygja von.
Það er erfitt að vera álitinn nörd, en vera það alls ekki. Samt eru það að mörgu leyti mín örlög. Í dentid var nóg að kunna sitt DOS og segja að Makkar væru fyrir fávita. Tölvuheimurinn er orðinn svolítið flóknari núna en margt af því sem kallað er tölvuþekking er bara að kunna á einhver ákveðin forrit og í raun og veru eru stýrikerfi bara forrit. Windows er til dæmis stýrikerfi sem á sínum tíma tók við af DOS-inu.
Af því að ég lærði talsvert í DOS-i á sínum tíma fór ekki hjá því að ég væri álitinn vita heilmikið um tölvur. Ég hef reynt að viðhalda þessari villu, en það verður sífellt erfiðara. Eiginlega veit ég afar lítið um tölvur þó ég geti kraflað mig framúr ýmsu.
Ég á oft verst með að átta mig á hvernig netforritarar hugsa. Stundum lendi ég í einhverju á Vefnum sem á greinilega að vera sáraeinfalt en mér finnst hundflókið. Ég hugga mig við að það sé bara vegna þess að ég hugsa öðruvísi en aðrir. Hinn möguleikinn, sem er að ég sé bara svona vitlaus, er ekki nógu góður fyrir mig.
Ekki dugir að afneita tölvum og láta eins og þær séu ekki til. Netið er á margan hátt nýr heimur en í kjötheimum verðum við samt að lifa lífi okkar. Netlífið er bara gervilíf. Samt er það mikils virði og það er sífellt að verða mikilvægara. Þó Netið nýti sér bara tvö af skilningarvitunum fimm er furða hve mikið er hægt að gera þar. Aðallega gerist það með því að afneita hinum þremur skilningarvitunum og mikilvægi þeirra en líka með því að líkja eftir þeim.
Hér eru fáeinar myndir til viðbótar úr Grímsnesinu og nágrenni:
Það er dálítið svindl í þessari mynd. Þetta er bara líkan af bæ.
Þarna er verið að leika sér á Laugarvatni.
Þessi mynd er tekin við Kerið í Grímsnesinu.
Hér má sjá eina af afleiðingum jarðskjálftans í maí. Þetta er stærðar bjarg sem hrunið hefur úr Ingólfsfjalli skammt frá Tannastöðum.
Hafið við Stokkseyri. Þessi mynd minnir óneitanlega á málverk.
Þetta er fossinn Faxi í Tungufljóti.
Við nýja hverasvæðið hjá Reykjum í Ölfusi. Já, jörðin er heit. Þarna gæti komið upp hver von bráðar. Þeir koma víst og fara eftir því sem þeim sýnist þessa dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2008 | 07:30
374. - Er ég kom heim í Kópavog. - Var Auðbrekkan sundurgrafin
Þegar ég kom úr Grímsnesdvölinni var vatnslaust og harði diskurinn í tölvunni hruninn. Auðbrekkan að auki sundurgrafin og meiriháttar gestaþraut að komast heim. Síminn var þó í lagi og fartölvan dóttur minnar svo allt reddaðist þetta, eða gerir með tímanum. Bara reyna að halda kúlinu.
Svo bloggaði ég á laugardagskvöldið og gat ekki stillt mig um að pota aðeins í Vilhjálm Örn. Skítaslettu kallar hann það og mér er skítsama. Villi skrifar þó oft skemmtilega þó ég fyrirlíti sumar skoðanir hans.
Ferðu ekki brátt að taka köttinn frá andlitinu, svo ég geti séð framan í þig? Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá, eins og vinnuveitandi þinn sagði forðum."
Þarna er Villi greinilega að vísa til Silla og Valda. Það voru merkilegir karakterar og hver veit nema ég segi einhverntíma frá þeim.
Ég veit ekki hvort er betra að taka sér frí frá bloggskrifum eða blogglestri. Hvorttveggja er ágætt. Í veðri eins og verið hefur að undnaförnu skilur maður eiginlega ekki hvernig hægt er að festa hugann við að lesa blogg. Sjálfur nota ég tímann til að lesa bækur. Er það skárra? Jú, maður getur svosem farið með bækurnar hvert sem er. Jafnvel í heita pottinn. Sumir eiga samt ekki annan kost en að hanga inni í blíðunni.
Hvað er góður texti? Veit það ekki. Samt er ég alltaf að reyna. Hvað er gott blogg? Veit það ekki heldur. Kannski hæfilega langar hugleiðingar um allt og ekkert. Ný hugsun, til að fara með með inní daginn ásamt átján öðrum blogghugsunum.
Hraðar og snöggsoðnar íhuganir sem kvikna af fréttum dagsins eru oftast heldur klénar og ekki minn tebolli. Þá vil ég frekar marklitlar tónlistarpælingar eða veðurmas. Blogghugsanir geta verið með öllu móti. Ómerkilegir brandarar, sólarlagsmyndir, argasta bull, dýpsta speki og allt þar á milli. Er gott blogg líkt vinjettum a la Ármann Reynisson? Veit ekki. Kannski. Þó finnst mér að í bloggi megi vaða úr einu í annað en ekki í hinu.
Blogg er bara blogg af því að það lifir stutt og engum dettur í hug að prenta þessi ósköp út. Hvað þá að setja á bók. Bækur eru merkilegur hlutur. Samt alltaf að fjarlægjast nútímann. Hver nennir að sitja tímunum saman og lesa í bók?
Nú er allt orðið svo sjálfvirkt á blessuðum bókasöfnunum að þetta er eins og að fara kjörbúð. Kaupmanns á horninu fílingurinn farinn úr þessu. Að fara á bókasafn. Borga smásekt. Velja bækur. Dást að hve bókavarðan (bókavörður - kvenkyn) er fljót að afgreiða. Hlakka til að blaða í bókunum þegar heim er komið. Nei, nú er allt stílað uppá vinnusparnaðinn. Tölvur og strikamerkingar sjá um þetta allt. Þú rennir bara bókunum á réttan hátt í gegnum geislann og ferð út án þess að eiga samskipti við nokkurn mann.
En vei þér ef tölvan gerir athugassemdir. Öllu er trúað sem þessi vélaskrímsli segja. Þínar skoðanir eru alveg ómark. Ef tölvuskrattinn heldur fram einhverri vitleysu er það þitt að sannfæra tortrygginn yfirstarfsmann. Reynir kannski svolítið á sannfæringarkraftinn, en er ekki erfitt.
Andskotinn. Þetta er orðið alltof langt hjá mér. Svona er að hafa of mikinn tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.6.2008 | 00:08
373. - Vilhjálmur Örn við gamla heygarðshornið
Ég varð einu sinni þess heiðurs aðnjótandi að Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson helgaði mér heila bloggfærslu. Ekki var það til að hrósa mér fyrir góð skrif heldur til annars. Nú sé ég að hann er við líkt heygarðshorn og mér hefur oft fundist hann áður. Skoðananabróðir hans einn átelur hann fyrir að þurrka út athugasemdir þeirra sem ekki eru honum sammála. Ekki veit ég hvort þetta er rétt og mér er eiginlega sama. Ég held að Vilhjálmur lesi stundum bloggið mitt því hann er bloggvinur minn og ef hann vill láta svo lítið að kommenta í athugasemdakerfið hjá mér þá skal ég lofa að eyða færslunni ekki.
Meðal þess sem ég las í nýliðinni bloggútlegð minni var hin merka bók Agnars Þórðarsonar Kallað í Kremlarmúr" en þar segir hann frá ferð um Sovétríkin sumarið 1956 með Steini Steinar og fleirum. Ég hef oft heyrt sagt frá ýmsu sem gerðist í þessari ferð en ekki lesið bókina í heild fyrr. Þetta er stórmerk bók og þar er sagt frá ýmsu sem lýsir Steini vel. Ein frásögn af honum fannst mér sérlega athyglisverð.
Steinn Steinar og Páll Hafstað voru á ferð á Barðaströnd. Steinn vildi koma við á bæ einum þar sem föðursystir hans bjó með syni og tengdadóttur. Gamla konan var blind. Þegar þeir komu upp á loftið til hennar spurði hún hverjir þar væru á ferðinni. Steinn sagði til sín og heilsaði henni blíðlega.
-Nú ert þetta þú, Alli minn, sagði gamla konan. Hún fór fingrum um andlit hans og hár.
-Þú hefur mikið og gott hár, sagði hún.
-Já, og það er rauðleitt, sagði Steinn.
-Og þú ert fríðasti maður og líkur honum föður þínum.
-Já, ætli ég sé ekki líkur honum, sagði Steinn.
-En ósköp leiðist mér hvað sagt er um þig, sagði gamla konan.
-Nú eins og hvað?
-Æ, ég veit ekki hvað það er, ég reyni að hlusta ekki á það, en það stendur víst í blöðunum fyrir sunnan, þeir segja að það sé svo ljótt sem þú yrkir.
-Þú skalt ekki taka mark á því, sagði Steinn og lét hana heyra vísu eftir sig sem hann hvíslaði hljóðlega að henni.
Gamla konan hlustaði vel og það glaðnaði yfir svip hennar.
En þetta er svo falleg vísa, Alli minn, sagði gamla konan, Það er rím í henni.
-Ég held ég hafi aldrei ort órímaða vísu, svaraði þá Steinn.
-Guð minn góður, hvað ég er fegin að heyra þetta, sagði gamla konan, það er þá ekkert að marka hvað staðið hefur í blöðunum.
-Nei nei, svaraði Steinn, það er ekkert að marka blöðin, frænka mín.
Í lokin eru svo fáeinar myndir úr sveitasælunni:
Skýin geta verið mikilfengleg í Grímsnesinu, ekki síður en annars staðar.
Kýrin á þessari mynd gæti vel verið að hugsa með sér: Hvaða andskotans plast er þetta í nösunum á mér?"
Þessi hestur gæti verið segja: Svona nú. Reyndu að haga þér almennilega."
Það er ekki auðvelt að mynda fiðrildi á flögri og mislitu blettirnir efst á myndinni undirstrika það. Þeir komu alveg óvart.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.6.2008 | 18:27
372. - Kominn úr fríi. Blogg, blogg.
Nú hefur orðið langt bloggfall hjá mér. Ekki kemur það til af góðu, og þó. Satt að segja hef ég verið í fríi. Verið í sumarhúsi í Grímsnesinu og ekki haft aðgang að hinu merka Interneti. Ekki hefur samt alveg verið friður fyrir fótbolta og ísbjarnarfréttum en allt í hófi þó. Hef einkum fengist við heitapottstilraunir, sólböð og þessháttar enda veðrið með eindæmum gott. Eitthvað fengist líka við grillstarfsemi og lestur. Meira seinna og myndir úr sveitinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2008 | 00:54
371. - Áður og nú. Allir geta tekið myndir
Það er erfitt að blogga eitthvað af viti í þessari rjómablíðu sem er alla daga.
Skelfing hvað fjölmiðlun er orðin tætingsleg. Áður fyrr gat maður gengið útfrá því sem vísu að næstum allir á vinnustaðnum hefðu horft á sömu sápuna kvöldið áður og hafið umræður útfrá því. Nú eru það í mesta lagi ísbjarnarfréttir og Evrópumót í knattspyrnu sem geta sameinað þjóðina. Kosningar kannski líka.
Mér finnst oft að það sem ég gref upp á Netinu hljóti allir aðrir að vita líka. Auðvitað er ekki svo. Netið er alveg svívirðileg ruslakista og tímaþjófur en líka glóir þar margt svo fallegt að með ólíkindum er.
Í gamla daga var lífið talsvert einfaldara en núna. Það finnst manni að minnsta kosti. Þá var bara eitt ríkisútvarp, ekkert sjónvarp, ekkert Internet og farsímar þekktust ekki. En er lífið nokkuð betra þrátt fyrir öll þægindin og auðæfin? Eru menn ekki alveg eins neikvæðir og skömmóttir og vant er? Jú, maður getur étið á sig gat, tortímt sjálfum sér með rándýrum eiturlyfjum, farið oft á ári til útlanda, átt þrjá bíla og allt það, en er hláturinn betri, ástin sterkari, veröldin fegurri og fullnægingin kröftugri en var. Ég efast um það.
Það sem áður var erfitt og útheimti mikla fyrirhöfn er nú orðið svo auðvelt að gamalmenni geta fengist við það í hjáverkum. Mér datt þetta í hug þegar ég sá að nokkrir höfðu kommentað jákvætt á myndirnar sem ég setti hér á bloggið í gær. Það var erfitt að taka myndir í gamla daga en nú er þetta svo auðvelt og fyrirhafnarlítið að það er næstum hlægilegt.
Það eina sem þarf að athuga er að myndefnið kemur ekki til manns. Það þarf að sækja það. En vangaveltur um allan fjandann eins og hyperfókus, lýsingu og þess háttar er hægt að láta vélina sjá um. Ekki þarf að bíða vikum og mánuðum saman til að sjá árangurinn eins og var. Og í staðinn fyrir að vera rándýrt tómstundagaman kostar þetta í rauninni ekkert. Ef maður vill og nennir er líka hægt að doktora myndirnar til eftirá að vild með allskyns forritum. Bæta hlutum við, taka þá í burtu, breyta litum, skýrleika, upplausn og gera allt sem nöfnum tjáir að nefna.
Það er ekki bara auðvelt núorðið að taka myndir. Hver grefur skurð með skóflu og haka nútildags? Hver stritar við að moka sandi á bílpall, eða hræra steypu með höndunum? Hver gefur rétt til baka eftir að hafa slegið verðin inn á Hugin kassa eða leggur saman langar talnarunur í huganum?
Merkilegt hve fólk gat búið þröngt og sætt sig við lélegan aðbúnað áður fyrr. Hundrað fermetra íbúð fyrir átta manna fjölskyldu var þvílíkur lúxus að það var vel þess virði að strita mestalla ævina og eyðileggja heilsuna fyrir það.
Jæja, ekki dugir þetta. Þarf að fara að sofa. Nokkrar myndir í lokin bara af því ég get þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2008 | 00:14
370. - Myndablogg - Sólsetur, sólaruppkomur og undarleg birta
Undanfarið hefur sólin leikið við okkur Reykvíkinga. (og Kópavogsbúa jafnvel líka) Birtan er oft skemmtileg og skýjamyndanir merkilegar. Ég er að hugsa um að blogga ekki neitt en setja bara nokkrar myndir hérna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2008 | 00:25
369. - Um ísbirni og Evrópumót
Fór að ráðum Kristjönu frá Stakkhamri og setti uppáhaldsbloggin mín í Google Reader. Það gekk ágætlega en nú sé ég ekki hvort það eru einhverjar athugasemdir og get ekki lesið þær ef einhverjar eru. Gerir lítið til.
Enn á ný eru ísbjarnarfréttir allt að kaffæra. Varla hægt að halda uppá þjóðhátíðardaginn fyrir þessum ósköpum. Ekki veit ég hvað þeir aumingjar eiga að gera sem hvorki hafa áhuga á ísbjörnum né fótbolta. Þeir verða bara að láta sér góða veðrið nægja. Sem er ekki slæmt. Sólskin uppá hvern dag.
Samkvæmt fréttum var bangsi skotinn þegar hann reyndi að komast til sjávar. Mér finnst ekki stórfellt afbrot að reyna að komast undan kvölurum sínum. Óargadýr eru ísbirnir þó og dráp á undanvillingum sem þessum hafa engin áhrif á stofninn.
Ætli ég sé nokkuð að tefja menn meira frá uppbyggilegum verkefnum. Hér eru nokkrar ljósmyndir: Fyrstu tvær myndirnar eru af einhverjum hernaðarmannvirkjum í Öskjuhlíð sem ég kann lítil skil á. Þriðja myndin er tekin á Hjörleifshöfða og sýnir það sem gæti verið einhvers konar lendingarbraut fyrir geimför en er áreiðanlega eitthvað allt annað. Svo koma tvær myndir úr Nauthólsvíkinni. Þá ein af Hjörleifshöfða og ein af hreiðri í vegarkantinum við Ketilstaði í Mýrdal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2008 | 00:43
368. - Mbl.is, athugasemdir, myndir og fleira
Mitt motto er að linka ekki í einhverja vitleysu sem er að finna á mbl.is.
Betra er að búa vitleysuna til sjálfur en trúa öllu sem þar stendur. Hálfvitalegu og hálfkláruðu skrifin þar eru stundum vitlausari en ég gæti fundið uppá.
Um daginn var þar frétt um bíl sem gengi fyrir vatni. Ekki var beinlínis talað um eilífðarvélina frægu en greinilega var fréttin úr sömu skúffu. Sem minnir mig á skilningsleysi mitt. Ég gat aldrei skilið og skil ekki enn, hversvegna átti að breyta rafmagni fyrst í vetni og svo í rafmagn aftur og láta olíufélögin sjá um dreifingu á ósköpunum. Áreiðanlega verð ég dauður áður en slík vitleysa verður arðbær.
Næst á eftir því að fá margar heimsóknir á bloggnetinu er að fá mörg komment. Þó hægt sé að fela upplýsingar um aðsókn er erfiðara að ljúga til með athugasemdir. Líka er hægt að telja sér trú um og láta í veðri vaka að ekkert sé varið í að fá athugasemdir. Það hef ég reynt og gefist vel. Fáum finnst taka því að kommenta á bullið í mér. Samt er aðsóknin umtalsverð og í rauninni undarlega mikil.
Sennilega er gott að vera örlátur á athugasemdir til að fá þær sjálfur. Ég er afskaplega slakur við slíkt þó ég lesi mikið af bloggum. Stundum dettur mér meira að segja eitthvað í hug sem mér finnst skynsamlegt, en auðvelt er að telja sjálfum sér trú um að óþarfi sé að kommenta. Svo er það fyrirhöfn og erfitt að hætta. Kannski hægt að nota hugdettuna í eigið blogg seinna o.s.frv.
Sumir eiga kunningja sýnist mér sem hafa gaman af að kommenta. Þeir eru öfundsverðir af því að fá mörg komment sem stundum eru nú hálfþynnkuleg.
Eins og sjá má á grafi yfir heimsóknartölur hjá mér snarfjölgaði heimsóknum um miðjan mars þegar mér var skyndilega og óvænt lyft upp í hóp svokallaðra forsíðubloggara. Ekki veit ég hvar ég væri staddur án þess. Líklega væri ég þó enn að blogga en bara fyrir talsvert færri.
Svo eru hérna fáeinar sólskinsmyndir í lokin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2008 | 09:17
367. - Um blogg, vana, Vefritið og sitthvað fleira
Mestallt líf okkar er vani. Flestir sem slysast til að lesa þetta blogg gera það af vana. En hvernig myndast vani? Einhvern tíma verður allt fyrst. Auðvitað skiptir máli hvað skrifað er um. Til að fá lesendur þarf að skrifa þannig að einhverjir vilji gera það að vana sínum að skoða skrifin. Líka þarf maður að skrifa nokkuð oft svo það taki því að líta hingað fyrir þá sem hafa gert það að vana sínum. Ekki er verra að skrifin séu góð. Íslenskan í lagi og skrifað um eitthvað sem máli skiptir. Ekki geta skrifin orðið áhugaverð fyrir alla alltaf.
Fór um helgina á ættarmót að Ketilstöðum í Mýrdal. Þar var Gvendarkotsættin svonefnda að stórum hluta komin saman (sjá gvendarkot. tk). Þar þekkti ég talsvert marga af eldri kynslóðinni en sú yngri er mér að miklu leyti lokuð bók. Ég tók dálítið af myndum þarna en þær eiga varla erindi hér á bloggið.
Beturvitringur skrifar ágæta sögu um ímynduð viðskipti sín við lögregluna í Kópavogi og bíltík sem skilin hafði verið eftir einhvers staðar, eða ekki.
Ég gæti skrifað um hvernig ég held að hlutirnir gangi fyrir sig hjá vefritinu.is
Ritstjórinn: Þetta gengur ekkert hjá okkur. Það nennir enginn að lesa þessar greinar sem við erum að skrifa."
Skrifari: Já, ég held að fólk sé bara svona vitlaust."
Ritstjóri: Þetta megum við ekki segja. Við verðum að ímynda okkur að fólk viti vel hvað það er að gera."
Skrifari: Ekki getum við bara skrifað örstuttuar greinar eins og þessir bloggarar sem ekkert vita og ekkert skilja."
Ritstjóri: Það er nú meinið. Allir eru alltaf að lesa þessi andskotans blogg. Sem þó eru ekki neitt neitt."
Skrifari: Getum við bara ekki auglýst á þessu fjárans bloggi? Til dæmis Moggablogginu. Það kostar ekkert að vera þar."
Ritstjóri: Þú segir nokkuð. Ef við bjóðum öllum þar bloggvináttu og þefum uppi nýja bloggara líka, þá gæti verið að fólki dytti í hug að kíkja til okkar. Ég athuga hvernig er hægt að gera þetta. Kannski verða bara allir að bjóða bloggvináttu baki brotnu. Þá heldur fólk að það sé svo merkilegt. Þetta er ágæt hugmynd. "
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2008 | 00:33
366. - Þegar ég gekk Laugaveginn í fyrsta skipti
Það mun annaðhvort hafa verið árið 1991 eða árið 1992 sem ég fór Laugaveginn svokallaða í fyrsta sinn. Þetta er ekki Laugavegurinn sem liggur milli Bankastrætis og Kringlumýrarbrautar heldur sú gönguleið sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Því man ég þetta svona nákvæmlega að tveimur eða þremur árum seinna fór ég í eftirminnilega ferð um Hornstrandir og þá fórum við af stað daginn áður en úrslitaleikurinn í heimsmeistarakeppninni í fótbolta árið 1994 var leikinn. Við fréttum svo ekki fyrr en viku seinna, þegar við komum aftur til Reykjavíkur, hvernig sá leikur hefði farið. (Brassarnir unnu víst eins og venjulega) Menn höfðu um annað að hugsa en slíka smámuni á Hornströndum. Hittum við þó talsvert af fólki og kynntumst ýmsum.
Það er best að taka það fram strax að þetta er fremur löng bloggfærsla og ekki er sagt frá neinu hér nema ofangreindri ferð um Laugaveginn. Þeir sem ekki hafa áhuga á slíku geta því sér að skaðlausu hætt að lesa núna.
Ég hafði ekki farið í almennilega gönguferð þegar þetta var síðan ég þvældist á unglingsárunum fram og aftur um Hengilssvæðið einkum með Jóa á Grund og Jósef og Jóhannesi Skaftasonum. Það var Bjössi bróðir minn sem bauð mér með í þessa ferð en hann var að vinna á Heilsuhæli Náttúrlækningafélagsins um þessar mundir og starfsfólkið þar hafði ákveðið að fara þessa ferð. Bjössi var eiginlega sjálfsagður leiðsögumaður í ferðinni, þó hann hefði aldrei farið þessa leið áður frekar en aðrir í hópnum.
Við pöntuðum skálapláss í skálunum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og á Emstrum hjá Ferðafélagi Íslands og þá var ekki annað eftir en að koma sér í Landmannalaugar. Þar spurðum við skálaverði í hvaða átt Hrafntinnusker væri og héldum síðan af stað.
Við vorum þrettán í hópnum. Tvær þýskar hjúkrunarkonur, tvær norskar starfsstúlkur af hælinu, næringarráðgjafinn Anna Elísabet Ólafsdóttir (dóttir Ólafs Sverrissonar kaupfélagsstjóra í Borgarnesi og núverandi forstöðumaður Lýðheilsustofnunar) og maður hennar Viðar að nafni. Hjónin Gústi og Sigga með son sinn Jónas sem var svona á að giska tólf til fjórtán ára gamall þegar þetta var. Kona að nafni Svava Eiríksdóttir, Helga Haraldsdóttir fyrrverandi sunddrottning og við Bjössi. Góður hópur sem átti eftir að ná vel saman áður en yfir lauk.
Við héldum upp brattann frá Landmannalaugum og mættum fljótlega fáeinum örþreyttum ferðalöngum sem voru á ferð eftir Laugaveginum, en bara ekki í sömu átt og við. Við vorum svolítið óviss um hvar skálinn í Hrafntinnuskeri væri en héldum ótrauð áfram í þá átt sem við töldum líklegasta og fylgdum öllum þeim troðningum sem við fundum.
Þegar nær dró þeim fjöllum, sem við töldum líklegt að gætu verið Hrafntinnusker og fjöll þar í nágrenninu, fórum við að finna dálitlar hrúgur af hrafntinnu. Eins og kunnugt er minnir hrafntinna á dökkt eða næstum svart flöskugler nema hvað hana er að finna í allstórum hnullungum. Við gerðum okkur leik að því að mölva hrafntinnusteina með því að grýta þeim á hvern annan og var það mjög skemmtilegt.
Við fundum svo skálann í Hrafntinnuskeri og komumst að raun um að þar var einskonar hitaveita. Dæla þurfti vatninu upp í skálann með handdælu sem var þar. Ekki gekk okkur vel að fá heitt vatn í skálann og töldum að lokum að helst væri hita að fá með því að dæla lofti rösklega í dálítinn tíma eða þar til manni hitnaði aðeins.
Mér er minnisstætt að þegar við komum fyrst inn í skálann í Hrafntinnuskeri kannaðist ég strax við saggalyktina sem þar var. Hún var nákvæmlega eins og lyktin sem ávallt mætti okkur í skálanum í Klambragili þegar við vorum á ferðinni þar á leið okkar um fjöllin í nágrenninu.
Ekki voru allir svo þreyttir þegar við komum í skálann að þeir gætu ekki meir því fljótlega gengu nokkrir úr hópnum á fjall skammt frá skálanum sem mig minnir endilega að Söðull heiti. Nokkru seinna var svo farið að leita að hinum frægu íshellum sem eiga að vera í nágrenni við skálann. Við fórum upp á fjall það sem við töldum vera Hrafntinnusker og á þeirri hlið þess sem frá skálanum sneri var stór snjóskafl sem við fetuðum okkur niður eftir. Gallinn var bara sá að skaflinn varð sífellt brattari og brattari.
Einhvern vegin tókst okkur þó að komast niður af skaflinum og fórum þá að leita að íshellunum. Íshellarnir sem við fundum voru heldur tilkomulitlir og lá við að við næðum til lofts í þeim og urðum við að gefast upp við svo búið og halda heim í skálann aftur.
Morguninn eftir héldum við svo af stað að Álftavatni. Héldum beint áfram yfir skafla og ófærur uns við komum á fjallsbrúnina fyrir ofan Álftavatn. Þar niður af fjallinu var stígurinn sem við fórum nokkuð brattur en þrátt fyrir þar hlupum við Jónas þar niður og vorum langt á undan öllum öðrum niður fjallið. Biðum við síðan eftir hinum og gengum svo í átt til skálanna tveggja við Álftavatn. Sú leið reyndist drjúglöng þó okkur hefði sýnst hún stutt ofan af fjallinu.
Skálaverðir staðarins héldu til í öðrum skálanum, en hinn vorum við með á leigu. Norsku stelpurnar í hópnum vildu fá að vita hvort skálaverðirnir hefðu nokkuð heyrt um hvernig einhver leikur í kvennafótbolta hefði farið, en við höfðum ekki heyrt neinar fréttir né í fjölmiðlun síðan við fórum af stað. Þetta var einhver úrslitaleikur, jafnvel í heimsmeistarakeppni, þar sem norska landsliðið tók þátt, en skálaverðirnir höfðu ekki hugmynd um hvernig leikurinn hefði farið.
Næsti viðkomustaður var í skálanum í Emstrum og þangað komum við eftir langa og stranga göngu um sanda og eyðimerkur. Eftir að hafa fengið okkur smáhressingu fórum við að skoða Markarfljótsgljúfrin sem eru þarna skammt frá. Þótti okkur þau æði tilkomumikil og langaði lítið að detta þar niður.
Myndir voru einhverjar teknar í ferðalaginu og ég man eftir að hafa tekið eina mynd við Markarfljótsgljúfrin af Bjössa þar sem hann fór niður í slakka einn rétt við gljúfurbarminn. Ég sagði honum alltaf að fara neðar og neðar svo myndin yrði betri og hann spurði mig á endanum hvort ég væri að reyna að hrekja sig niður í gljúfrið. Það kom svo í ljós þegar myndirnar komu úr framköllun hvers vegna ég hafði verið að skipa Bjössa að fara neðar og neðar því á myndinni sést ofan á höfuðið á honum og með skarpskyggni má sjá að hárið er örlítið tekið að þynnast á hvirflinum.
Allir skálarnir sem við notuðum í ferðinni voru smíðaðir eftir sömu teikningunni og þar af leiðandi voru rúmstæðin eins í þeim öllum. Þau voru átta alls, fjórar lágkojur og fjórar efri kojur. Sextán manns gátu þannig gist í skálunum ef tveir voru í hverju rúmstæði. Við vorum þrettán og því gátu þrír verið einir í koju og komst strax eftir fyrstu nóttina regla á það hverjir sváfu saman. Mig minnir að ég hafi allar næturnar verið einn í koju, en man ekki gjörla hvernig mál skipuðust að öðru leyti.
Á kvöldin í skálunum var oft skemmtilegt. Helst skemmtum við okkur var að segja sögur og brandara. Fátt af því er minnisstætt, en ég man þó eftir að hafa sagt eftirfarandi sögu:
Ég hef verið þrettán ára gamall þegar Bjössi yngsti bróðir minn fæddist. Ég man að mér þótti heldur óviðkunnanlegt að mamma skyldi vera ólétt, komin á þennan aldur. Orðin meira en fertug. Hundgömul semsagt.
Þegar að því kom að mamma skyldi verða léttari, var hádagur en ekki nótt eins og á að vera þegar börn fæðast og ég hafði vanist. Ég lenti þessvegna í því að fara og sækja Magnús lækni. Mér er minnisstætt að Magnús spurði mig hvort vatnið væri komið. Ég vissi ekki til þess að verið hefði vatnslaust svo ég gat engu svarað honum um það og lét hann málið niður falla.
Þetta var rétt eftir hádegið og þegar pabbi kom í kaffið um hálf-fjögurleytið gat Vignir ekki stillt sig um að spyrja hann: Pabbi, pabbi. Hefðurðu séð það?" Við Ingibjörg notuðum þetta lengi til að stríða honum á, því hann hafði ekki athugað að spyrja hvers kyns barnið væri þegar honum var sýnt það, en það höfðum við Ingibjörg með snilli okkar fundið út að rétt væri að spyrja um.
Þessi frásögn fékk ágætar undirtektin einkum vegna þess að Bjössi var leiðtoginn í hópnum.
Eftirminnilegt atvik gerðist í skálanum við Emstrur. Það hafði rignt svolítið á leiðinni þangað og sumir höfðu sett bakpokana sína undir suðurvegginn á skálanum til að þurrka þá. Af einhverjum ástæðum þurfti ég að færa pokana til og greip í einn þeirra til að þeyta honum á annan stað. Þá vildi ekki betur til en svo að ég tók óvart í botninn á honum og þegar ég skutlaði honum á sinn stað hrundi allskyns dót úr honum. Helga Haraldsdóttir átti þennan poka og hafði séð til mín úr glugganum á skálanum og kom þjótandi út og spurði hvað þetta ætti eiginlega að þýða. Mér varð fátt um svör og sem betur fer lamdi Helga mig ekki fyrir tiltækið.
Mér er líka minnisstæð frásögn Helgu af því þegar hún var ung og að skemmta sér niður í bæ. Þá átti hún heima úti á Kársnesi í Kópavoginum og þegar hún fór heim til sín gekk hún sem leið lá út í Nauthólsvík og synti síðan yfir Fossvoginn að heimili sínu. Einhverju sinni kom lögreglan á báti á eftir henni og hún vissi ekki af þeim fyrr en þeir fóru að tala við hana.
Fjórði og síðasti dagurinn fór síðan í að komast frá Emstrum til Þórsmerkur og gekk það skaplega. Þröngá var samt nokkuð vatnsmikil og Kaldakvísl óhemju köld. Annars var það eitt sem fæst okkar höfðum með okkur, en telja má til mikilla nauðsynja á ferðalögum sem þessum. Það eru svokallaðir vaðiskór" sem venjulega eru aflóga strigaskór sem settir eru á bera fætur þegar farið er yfir ár. Laxapokar sem sumir voru með reyndust ekki vel. Í Þórsmörk var þessari eftirminnilegu ferð lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)