366. - Þegar ég gekk Laugaveginn í fyrsta skipti

Það mun annaðhvort hafa verið árið 1991 eða árið 1992 sem ég fór Laugaveginn svokallaða í fyrsta sinn. Þetta er ekki Laugavegurinn sem liggur milli Bankastrætis og Kringlumýrarbrautar heldur sú gönguleið sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. 

Því man ég þetta svona nákvæmlega að tveimur eða þremur árum seinna fór ég í eftirminnilega ferð um Hornstrandir og þá fórum við af stað daginn áður en úrslitaleikurinn í heimsmeistarakeppninni í fótbolta árið 1994 var leikinn. Við fréttum svo ekki fyrr en viku seinna, þegar við komum aftur til Reykjavíkur, hvernig sá leikur hefði farið. (Brassarnir unnu víst eins og venjulega) Menn höfðu um annað að hugsa en slíka smámuni á Hornströndum. Hittum við þó talsvert af fólki og kynntumst ýmsum.

Það er best að taka það fram strax að þetta er fremur löng bloggfærsla og ekki er sagt frá neinu hér nema ofangreindri ferð um Laugaveginn. Þeir sem ekki hafa áhuga á slíku geta því sér að skaðlausu hætt að lesa núna.

Ég hafði ekki farið í almennilega gönguferð þegar þetta var síðan ég þvældist á unglingsárunum fram og aftur um Hengilssvæðið einkum með Jóa á Grund og Jósef og Jóhannesi Skaftasonum. Það var Bjössi bróðir minn sem bauð mér með í þessa ferð en hann var að vinna á Heilsuhæli Náttúrlækningafélagsins um þessar mundir og starfsfólkið þar hafði ákveðið að fara þessa ferð. Bjössi var eiginlega sjálfsagður leiðsögumaður í ferðinni, þó hann hefði aldrei farið þessa leið áður frekar en aðrir í hópnum.

Við pöntuðum skálapláss í skálunum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og á Emstrum hjá Ferðafélagi Íslands og þá var ekki annað eftir en að koma sér í Landmannalaugar. Þar spurðum við skálaverði í hvaða átt Hrafntinnusker væri og héldum síðan af stað.

Við vorum þrettán í hópnum. Tvær þýskar hjúkrunarkonur, tvær norskar starfsstúlkur af hælinu, næringarráðgjafinn Anna Elísabet Ólafsdóttir (dóttir Ólafs Sverrissonar kaupfélagsstjóra í Borgarnesi og núverandi forstöðumaður Lýðheilsustofnunar) og maður hennar Viðar að nafni. Hjónin Gústi og Sigga með son sinn Jónas sem var svona á að giska tólf til fjórtán ára gamall þegar þetta var. Kona að nafni Svava Eiríksdóttir, Helga Haraldsdóttir fyrrverandi sunddrottning og við Bjössi. Góður hópur sem átti eftir að ná vel saman áður en yfir lauk.

Við héldum upp brattann frá Landmannalaugum og mættum fljótlega fáeinum örþreyttum ferðalöngum sem voru á ferð eftir Laugaveginum, en bara ekki í sömu átt og við. Við vorum svolítið óviss um hvar skálinn í Hrafntinnuskeri væri en héldum ótrauð áfram í þá átt sem við töldum líklegasta og fylgdum öllum þeim troðningum sem við fundum.

Þegar nær dró þeim fjöllum, sem við töldum líklegt að gætu verið Hrafntinnusker og fjöll þar í nágrenninu, fórum við að finna dálitlar hrúgur af hrafntinnu. Eins og kunnugt er minnir hrafntinna á dökkt eða næstum svart flöskugler nema hvað hana er að finna í allstórum hnullungum. Við gerðum okkur leik að því að mölva hrafntinnusteina með því að grýta þeim á hvern annan og var það mjög skemmtilegt.

Við fundum svo skálann í Hrafntinnuskeri og komumst að raun um að þar var einskonar hitaveita. Dæla þurfti vatninu upp í skálann með handdælu sem var þar. Ekki gekk okkur vel að fá heitt vatn í skálann og töldum að lokum að helst væri hita að fá með því að dæla lofti rösklega í dálítinn tíma eða þar til manni hitnaði aðeins.

Mér er minnisstætt að þegar við komum fyrst inn í skálann í Hrafntinnuskeri kannaðist ég strax við saggalyktina sem þar var. Hún var nákvæmlega eins og lyktin sem ávallt mætti okkur í skálanum í Klambragili þegar við vorum á ferðinni þar á leið okkar um fjöllin í nágrenninu.

Ekki voru allir svo þreyttir þegar við komum í skálann að þeir gætu ekki meir því fljótlega gengu nokkrir úr hópnum á fjall skammt frá skálanum sem mig minnir endilega að Söðull heiti. Nokkru seinna var svo farið að leita að hinum frægu íshellum sem eiga að vera í nágrenni við skálann. Við fórum upp á fjall það sem við töldum vera Hrafntinnusker og á þeirri hlið þess sem frá skálanum sneri var stór snjóskafl sem við fetuðum okkur niður eftir. Gallinn var bara sá að skaflinn varð sífellt brattari og brattari.

Einhvern vegin tókst okkur þó að komast niður af skaflinum og fórum þá að leita að íshellunum. Íshellarnir sem við fundum voru heldur tilkomulitlir og lá við að við næðum til lofts í þeim og urðum við að gefast upp við svo búið og halda heim í skálann aftur.

Morguninn eftir héldum við svo af stað að Álftavatni. Héldum beint áfram yfir skafla og ófærur uns við komum á fjallsbrúnina fyrir ofan Álftavatn. Þar niður af fjallinu var stígurinn sem við fórum nokkuð brattur en þrátt fyrir þar hlupum við Jónas þar niður og vorum langt á undan öllum öðrum niður fjallið. Biðum við síðan eftir hinum og gengum svo í átt til skálanna tveggja við Álftavatn. Sú leið reyndist drjúglöng þó okkur hefði sýnst hún stutt ofan af fjallinu.

Skálaverðir staðarins héldu til í öðrum skálanum, en hinn vorum við með á leigu. Norsku stelpurnar í hópnum vildu fá að vita hvort skálaverðirnir hefðu nokkuð heyrt um hvernig einhver leikur í kvennafótbolta hefði farið, en við höfðum ekki heyrt neinar fréttir né í fjölmiðlun síðan við fórum af stað. Þetta var einhver úrslitaleikur, jafnvel í heimsmeistarakeppni, þar sem norska landsliðið tók þátt, en skálaverðirnir höfðu ekki hugmynd um hvernig leikurinn hefði farið.

Næsti viðkomustaður var í skálanum í Emstrum og þangað komum við eftir langa og stranga göngu um sanda og eyðimerkur. Eftir að hafa fengið okkur smáhressingu fórum við að skoða Markarfljótsgljúfrin sem eru þarna skammt frá. Þótti okkur þau æði tilkomumikil og langaði lítið að detta þar niður.

Myndir voru einhverjar teknar í ferðalaginu og ég man eftir að hafa tekið eina mynd við Markarfljótsgljúfrin af Bjössa þar sem hann fór niður í slakka einn rétt við gljúfurbarminn. Ég sagði honum alltaf að fara neðar og neðar svo myndin yrði betri og hann spurði mig á endanum hvort ég væri að reyna að hrekja sig niður í gljúfrið. Það kom svo í ljós þegar myndirnar komu úr framköllun hvers vegna ég hafði verið að skipa Bjössa að fara neðar og neðar því á myndinni sést ofan á höfuðið á honum og með skarpskyggni má sjá að hárið er örlítið tekið að þynnast á hvirflinum.

Allir skálarnir sem við notuðum í ferðinni voru smíðaðir eftir sömu teikningunni og þar af leiðandi voru rúmstæðin eins í þeim öllum. Þau voru átta alls, fjórar lágkojur og fjórar efri kojur. Sextán manns gátu þannig gist í skálunum ef tveir voru í hverju rúmstæði. Við vorum þrettán og því gátu þrír verið einir í koju og komst strax eftir fyrstu nóttina regla á það hverjir sváfu saman. Mig minnir að ég hafi allar næturnar verið einn í koju, en man ekki gjörla hvernig mál skipuðust að öðru leyti.

Á kvöldin í skálunum var oft skemmtilegt. Helst skemmtum við okkur var að segja sögur og brandara. Fátt af því er minnisstætt, en ég man þó eftir að hafa sagt eftirfarandi sögu:

Ég hef verið þrettán ára gamall þegar Bjössi yngsti bróðir minn fæddist. Ég man að mér þótti heldur óviðkunnanlegt að mamma skyldi vera ólétt, komin á þennan aldur. Orðin meira en fertug. Hundgömul semsagt.

Þegar að því kom að mamma skyldi verða léttari, var hádagur en ekki nótt eins og á að vera þegar börn fæðast og ég hafði vanist. Ég lenti þessvegna í því að fara og sækja Magnús lækni. Mér er minnisstætt að Magnús spurði mig hvort vatnið væri komið. Ég vissi ekki til þess að verið hefði vatnslaust svo ég gat engu svarað honum um það og lét hann málið niður falla.

Þetta var rétt eftir hádegið og þegar pabbi kom í kaffið um hálf-fjögurleytið gat Vignir ekki stillt sig um að spyrja hann: „Pabbi, pabbi. Hefðurðu séð það?" Við Ingibjörg notuðum þetta lengi til að stríða honum á, því hann hafði ekki athugað að spyrja hvers kyns barnið væri þegar honum var sýnt það, en það höfðum við Ingibjörg með snilli okkar fundið út að rétt væri að spyrja um.

Þessi frásögn fékk ágætar undirtektin einkum vegna þess að Bjössi var leiðtoginn í hópnum.

Eftirminnilegt atvik gerðist í skálanum við Emstrur. Það hafði rignt svolítið á leiðinni þangað og sumir höfðu sett bakpokana sína undir suðurvegginn á skálanum til að þurrka þá. Af einhverjum ástæðum þurfti ég að færa pokana til og greip í einn þeirra til að þeyta honum á annan stað. Þá vildi ekki betur til en svo að ég tók óvart í botninn á honum og þegar ég skutlaði honum á sinn stað hrundi allskyns dót úr honum. Helga Haraldsdóttir átti þennan poka og hafði séð til mín úr glugganum á skálanum og kom þjótandi út og spurði hvað þetta ætti eiginlega að þýða. Mér varð fátt um svör og sem betur fer lamdi Helga mig ekki fyrir tiltækið.

Mér er líka minnisstæð frásögn Helgu af því þegar hún var ung og að skemmta sér niður í bæ. Þá átti hún heima úti á Kársnesi í Kópavoginum og þegar hún fór heim til sín gekk hún sem leið lá út í Nauthólsvík og synti síðan yfir Fossvoginn að heimili sínu. Einhverju sinni kom lögreglan á báti á eftir henni og hún vissi ekki af þeim fyrr en þeir fóru að tala við hana.

Fjórði og síðasti dagurinn fór síðan í að komast frá Emstrum til Þórsmerkur og gekk það skaplega. Þröngá var samt nokkuð vatnsmikil og Kaldakvísl óhemju köld. Annars var það eitt sem fæst okkar höfðum með okkur, en telja má til mikilla nauðsynja á ferðalögum sem þessum. Það eru svokallaðir „vaðiskór" sem venjulega eru aflóga strigaskór sem settir eru á bera fætur þegar farið er yfir ár. Laxapokar sem sumir voru með reyndust ekki vel. Í Þórsmörk var þessari eftirminnilegu ferð lokið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband