274. - Dýrar bækur á bókamarkaði, íþróttamót á Þjórsártúni og ýmislegt annað

Í dag (sunnudag) fór ég á bókamarkaðinn í Perlunni. Þar var margt eigulegra bóka. Einkum meðal ævisagna, bóka um söguleg efni og ættfræðirita.

Sameiginlegt með öllum bókum þarna fannst mér þó að þær voru alltof dýrar. Samanburðurinn sem ég hef er auðvitað ekki alveg sanngjarn, því ég stunda af mikilli ástríðu bæði Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið.

Niðurstaðan varð því sú að ég keypti ekki eina einustu bók þarna, en hefði gjarnan viljað glugga í sumar þeirra sem ég sá. Skáldsögurnar sem boðið var uppá fannst mér ekki merkilegar. Það er kannski ekki að marka því ég er nánast hættur að lesa skáldsögur. Barnabækurnar voru margar og hafa sennilega verið ágætar. Að minnsta kosti var ekki svona mikið úrval af barnabókum þegar ég var ungur.

Labbaði svo í kringum Perluna og tók nokkrar myndir. Þar á meðal þá sem hér er fyrir ofan.

Í eina tíð hélt Héraðssambandið Skarphéðinn frjálsíþróttamót á Þjórsártúni á hverju sumri. Eitt sinn var ég á slíku móti. Keppni í 5000 metra hlaupi stóð yfir. Jón Guðlaugsson var náttúrulega langfyrstur. Hann var stundum kallaður Jón sterki og var pínulítið skrýtinn. Að minnsta kosti var skemmtilegt að stríða honum og þótti fínt.

Slangur af áhorfendum var handan við kaðal sem strengdur hafði verið rétt við hlaupabrautina. Þar vorum við nokkrir strákar úr Hveragerði meðal annarra og innan við kaðalinn voru fáeinir starfsmenn mótsins og þar var líka Sigurður Greipsson úr Haukadal.

Allt í einu hrópar Kalli Jóhanns sem stendur við hliðina á mér stríðnislega: "Jón Boli Tuddason" í áttina að Jóni Guðlaugssyni þegar hann hleypur framhjá okkur.

Sigurður Greipsson heyrir þetta og verður öskuvondur. Snýr sér að mér og skammar mig blóðugum skömmum. Ég man ekki hvað hann sagði en það var ekki fallegt.

Ég gat ekki sagt nokkurn skapaðan hlut, því ég var svo hissa á að Sigurður skyldi halda að ég hefði sagt þetta. Sigurður var svo æstur þegar hann var að skamma mig að munnvatnið frussaðist í allar áttir svo líklega var eins gott að ég gat ekki sagt neitt.

Mig minnir að Bjarni sonur Sigurðar hafi unnið glímuna á þessu móti og auðvitað þekkti ég hann vel, því hann átti heima í Hveragerði. Þeir bræður Bjarni, Greipur og Þórir unnu yfirleitt glímuna á Þjórsártúni á þessum árum.

Síminn stendur sig illa, segir Lýður Pálsson sem ekki aulýsir Lottóið. Jafnvel verr en Voðafónið sjálft. Ég er nú ekki vanur að gera upp á milli þessara fyrirtækja. Finnst þau bæði jafnslæm. Það getur þó vel verið að sendarnir þeirra séu misöflugir. Lýður lýsir því ágætlega þegar sambandið við farsímana er svo slæmt að annaðhvort þurfa menn að vera úti við eða halla sér vel útum glugga til að ná sambandi. Andskoti er þetta nú léleg þjónusta annars.

Um daginn var enn eitt megaklúðrið í Kastljósinu. Sýna átti auglýsingu frá frú Clinton en einhver misheppnaður útúrsnúningur um þá auglýsingur fór í loftið. Það var nú ekki meira en svo að sérfræðingarnir sem voru í sjónvarpssal áttuðu sig á þessu og þáttarstjórnandanum var greinilega skítsama um þetta. Kannski var þetta líka viljandi gert, hvað veit ég. Hefði litið illa út ef við værum hluti Bandaríkjanna eins og sumir virðast helst vilja. Líklega hefði Þórhallur fokið þá. Mér fannst þetta eiginlega bara fyndið.

Sagt er að Patrekur Svæsni sé með krabbamein og Britney ólétt. Auðvitað skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Það er að segja fyrir þau, en ekki fyrir mig þó DV og aðrir fjölmiðlar haldi það greinilega.

Haukur Nikulásson bloggvinur minn fjallar á sínu bloggi um það leiða ósið allmargra bloggara að leyfa ekki ótakmörkuð komment á sínum bloggsíðum. Ég geri ráð fyrir að fólk hafi yfirleitt einhverjar afsakanir fyrir háttalagi að þessu tagi, en samt er það alls ekki til fyrirmyndar og ætti ekki að þekkjast. Að minnsta kosti er óþarfi að leyfa fólki að banna komment með öllu. Við vissar kringumstæður geta samt vel skapast þannig aðstæður að bloggari þurfi að losna við komment um tíma og þá er að taka á því.

Auðvitað er ekki til fyrirmyndar að hafa fólk af þessu tagi meðal bloggvina sinna, en það gera nú samt margir. Ég hef tekið eftir því að einn af bloggvinum mínum virðist ekki þola komment og eftir því sem Haukur segir er einn annar vafasamur þó mér sýnist hann nú leyfa komment. Kannski væri ástæða fyrir mig að endurskoða þennan bloggvinskap, þó ekki væri nema prinsippsins vegna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Sumar bækurnar voru fremur dýrar en einnig var hægt að fá ágæstis bækur frá 300 til 500 kr, sem verður að teljast ódýrt.

Júlíus Valsson, 10.3.2008 kl. 12:24

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég fór alltaf á bókamarkaðinn, lét mig aldrei vanta. Fór út með fulla poka af bókum. En svo var það að mig minnir 2003 sem mér brá heldur betur í brún því bækurnar voru orðnar svo dýrar. Auðvitað voru innanum bækur á slikk, en það voru ekki endilega þær sem ég hafði áhuga á.

Fór aftur 2004 og gekk þá í fyrsta skipti tómhent út.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.3.2008 kl. 12:31

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Flottur pistill

Gunnar Helgi Eysteinsson, 10.3.2008 kl. 13:10

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lára Hanna, þetta er einmitt svona með bókamarkaðinn í Perlunni. Verðlagið þar er alveg vonlaust finnst mér. Að sumu leyti stafar þetta held ég af því að nýjar bækur eru eru orðnar mun ódýrari en áður og kannski eru afgangslagerar af bókum ekki nærri eins stórir núna og einu sinni var.

Sæmundur Bjarnason, 10.3.2008 kl. 16:46

5 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég fór á bókamarkaðinn og missti mig aðeins... kom heim með fullan poka. Flestar kostuðu 590 kr. - Kveðja.

Eyþór Árnason, 10.3.2008 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband