268. - Moggabloggs-samfélagið og bloggið almennt

Moggabloggs-samfélagið er einstakt.

Ekki er furða þó aðrir bloggarar öfundi okkur á Moggablogginu og finni því flest til foráttu. Það gerir okkur ekkert til.

Kommentin eru sál bloggsins hvort sem þau eru mörg eða fá. Þeir bloggarar sem ekki lesa kommentin sín vegna þess hve mörg þau eru eiga alla mína samúð. Þeir eru að missa af miklu. Jafnvel þó kommentið sé ekki nema einfalt innlitskvitt er það nokkurs virði. Sjálfur kommenta ég alltof sjaldan, en er alltaf að hugsa um að bæta mig í því.

Einhvern tíma hef ég sagt á bloggi að ekki skuli spandera góðum hugmyndum í komment heldur reyna að nota þær (kannski auknar og endurbættar) í komandi blogg. Þetta má til sanns vegar færa að einhverju leyti því örugglega missa margir af kommentum á öðrum bloggum. Sá sem bloggið á hlýtur þó í flestum tilfellum að skoða þau.

Sigurður Þór (sem alltaf er mér ofarlega í huga þó ég kommenti sjaldan á bloggið hans) er að spyrja um elstu bloggara landsins. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér kynnum mínum af blogginu. Fyrst í stað skildi ég ekkert um hvað þetta snerist. Síðan rakst ég á grein um fyrirbrigðið eftir Salvöru Gissurardóttur og í framhaldi af því fór ég að fylgjsast með bloggum sem sett voru á nagportal.net. Þau voru ekki ýkja mörg en mig minnir að Már Örlygsson hafi verið þar. Allavega voru blogg þeirra Salvarar og Más meðal þeirra allra fyrstu sem ég fylgdist reglulega með.

Má kynntist ég líka vegna þess að hann sendi mér eitt sinn bréf og spurði mig hvernig í ósköpunum við fjármögnuðum Netútgáfuna. Svar mitt var á þá leið að hún væri ekki fjármögnuð með neinu öðru en fyrirhöfninni.

Í framhaldi af grein Salvarar og samkvæmt ábendingu hennar prófaði ég aðeins að blogga á pitas.com. Það var ekki lengi og ég lét engan vita af því og þar af leiðandi voru heimsóknir engar.

Ég veit ekki hvenær þetta var en líklega hefur það verið svona 1999 - 2000. Örugglega ekki seinna en 2001. Egill Helgason og Björn Bjarnason byrjuðu líka snemma að blogga þó þeir vilji kannski kalla sitt Netdaður eitthvað annað.

Það voru þónokkur blogg sem hægt var að nálgast í gegnum nagportal.net en ég man ekki eftir neinum nöfnum þar. Mér fannst þetta áhugavert en ekki neitt sérstaklega merkilegt. Á þessum tíma voru ekki mjög margir nettengdir og ekki kom ég auga á hina gríðarlegu möguleika bloggsins.

Það var svo ekki fyrr en seint á árinu 2006 þegar Moggabloggið fór að tröllríða bloggheimum sem ég byrjaði aftur að blogga. Upphaflega voru lesendur afskaplega fáir, en þeim hefur fjölgað hægt og sígandi síðan og einkum þó núna síðustu dagana.

Stundum set ég myndir á bloggið mitt, einkum gamlar myndir og ég reyni yfirleitt að hafa bloggin mín ekki óhóflega löng, en blogga þeim mun oftar. Nokkuð vel hefur til tekist í þessu og undanfarna mánuði hef ég bloggað flesta daga.

Héraðsdómur er nú genginn í D++ málinu og var hann Smáís í vil. Ég er satt að segja talsvert hallur undir þá í D++ að því leyti að mér finnst andstæðingar þeirra verðleggja vörur sínar alltof hátt og að því leyti kalla torrenta og þess háttar yfir sig. Auðvitað eiga menn samt að fylgja landslögum. Það þýðir ekkert fyrir þá að hallmæla dómurum ef dómar ganga gegn þeim. Þetta er aðferð sem fundin hefur verið upp til að jafna ágreining manna á milli og hávaði er ekki rétta leiðin til að breyta því.

Það er samt rétt að hamra járnið sem mest og reyna að benda á rök fyrir því gagnstæða. Á endanum hlýtur skynsemin að sigra. Geri hún það ekki er margt í hættu. Internetið er nýi tíminn og menn eru bara að berja höfðinu við steininn með því að viðurkenna það ekki.

Friðrik Skúlason (frisk.blog.is) viðhefur stór orð um þá istorrent-menn og heldur áfram að kalla þá þjófa. Ég er samt alls ekki viss um að hann sé jafnslæmur og rétthafar tónlistar og kvikmynda í verðlagningu vöru sinnar. Hann lendir bara þarna vegna þess að hagsmunir þeirra fara að talsverðu leyti saman. Úrslit þessara mála eru mjög áhugaverð, ekki bara hér á Íslandi heldur í vestrænum löndum öllum. Dómi héraðsdóms verður að líkindum áfrýjað svo ekki er hægt að segja að úrslit séu komin í málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Satt segirðu, Sæmundur - kommentin eru stundum sál bloggsins og mér hættir til að lesa alltaf öll komment hjá öllum bloggvinum mínum en er farin að læra að það tekur því ekki alltaf. Fer svolítið eftir um hvað færslan fjallar hvort kommentin eru þess virði að lesa þau.

Ég hef fulla samúð menn mönnum eins og Frisk sem lenda í því að hugverkum þeirra, sem þeir hafa jafnvel varið árum eða áratugum í að þróa og markaðssetja og er þeirra lifibrauð, er stolið og dreift ókeypis á netinu. Sjálf nota ég allt sem hann hefur gert fyrir almennan markað, Púkann, Lykla Pétur og Espólín - löglegar útgáfur að sjálfsögðu. Friðrik verðleggur framleiðslu sína hóflega og það ætti ekki að vera neinum ofraun að kaupa lögleg eintök af forritum hans. En ég sakna þess mikið að hann skuli ekki þróa Espólínið lengur. Það er dýrt og hann vantar fjármagn.

Ég hjálpa fólki oft með tölvurnar sínar, að hreinsa þær og verja, og hef látið vini og vandamenn kaupa vírusvarnarforritið Lykla Pétur - sem heitir F-Prot-Antivirus núna. Það hefur reynst öllum vel þar sem ég þekki til. Í fyrra kom mér þó á óvart að eftir að hafa látið vinkonu mínu kaupa það og sett það upp hjá henni kom ungur frændi hennar í heimsókn og henti því út. Hann var (er) við nám í tölvunarfræði við HR og uppástóð að þetta væri ruslforrit. Ekki man ég hvað hann setti inn hjá henni í staðinn en ég get engan veginn tekið undir þetta og svei mér ef mér sárnaði ekki!

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 10:50

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég les allar athugasemdir sem ég fæ og skil alltaf eftir spor hjá þeim sem skrifa athugasemd hjá mér.

Góður pistill eins og vant er.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.3.2008 kl. 11:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það getur vel verið að Friðrik Skúlason sé alls góðs maklegur, en hann hefur bundið trúss sitt við menn sem ég hef enga samúð með.

Ég lít fyrst og fremst á þetta mál allt sem neytendamál og það er gömul saga og ný að á þeim er troðið ef þeir bindast ekki samtökum um sín mál.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2008 kl. 12:19

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nú veit ég ekkert hvað þú átt við með trússinu sem FS bindur og við hvaða menn.

Hitt er annað mál að ef verið er að dreifa t.d. kvikmyndum á netinu með íslenskum texta er verið að brjóta höfundaréttarlög á þýðandanum meðal annars. Ef leyfa á dreifingu á netinu þarf að semja um það við þá sem sköpuðu hugverkið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 12:27

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Jú það er það sem gefur blogginu gildi að fá sjónarmið og skemmtileg innslög frá örðum. Þetta bara styrkir vináttu og samband við annað fólk. Ég hafði líka mjög gaman af þegar þú bauðst mér að verða bloggvinur þinn

Erna Bjarnadóttir, 4.3.2008 kl. 13:43

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lára Hanna, þér finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera anti-establishment í náttúruverndar- og umhverfismálum. Mér finnst eðlilegt að vera anti-establishment í höfundarréttar- og Internetmálum. Sem betur fer hugsum við ekki eins.

Annars eru höfundarréttarmál margflókin og ekkert eitt sjónarmið afgerandi réttast.

Þegar ég tala um þessa menn á ég einkum við dreifendur tónlistarefnis sem mér finnst hafa troðið á neytendum áratugum saman.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2008 kl. 13:50

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hmmm... ég hef aldrei litið á náttúru- og umhverfisvernd sem anti-establishment, en kannski er hún það, að minnsta kosti að einhverju leyti.

En ég held að málið sé ekki að við hugsum ekki eins, sem við gerum auðvitað ekki, heldur frekar að við séum að tala í kross.

Eins og þú segir réttilega eru höfundarréttarmál margflókin og ekkert eitt sjónarmið afgerandi réttast. En sem höfundarrétthafi sjálf segi ég fyrir mig að ég kæri mig ekkert um að texta sem ég þýði fyrir X og fæ borgað fyrir hjá honum, sé dreift út um allar trissur að mér forspurðri og án þóknunar til mín. Ef ég hef ekki skrifað undir samning þar sem ég leyfi það er það óheimilt og brot á höfundarréttarlögum. Það er alveg skýrt.

Ef menn vilja breyta þessu þarf að breyta lögunum og borga höfundum hugverka miðað við áætlaða dreifingu og notkun. Snerist ekki einmitt verkfall handritshöfunda í Hollywood um daginn um það? Þeir vildu fá greitt fyrir afnot af hugverkum sínum á netinu - eins og aðrar stéttir í þeim bransa höfðu fengið.

Rétthafar tónlistarefnis hafa mörg undanfarin ár farið offari, það viðurkenni ég fúslega. Krefja hópferðabíla, hárgreiðslustofur, verslanir og alls konar aðila um stef-gjöld fyrir það eitt að fá að hafa kveikt á útvarpi. Ekki er það heldur endilega í samráði við tónlistarmennina/höfundana eins og þessi litla saga sýnir:

Fyrir nokkrum árum var haldinn baráttufundur fyrir vissu málefni á Ingólfstorgi. Þangað var fenginn vinsæll tónlistarmaður til að flytja tvö eða þrjú lög. Hann var mjög hlynntur málefninu og neitaði að taka við greiðslu fyrir að koma fram þótt það hafi verið boðið. Skömmu seinna barst reikningur frá STEF fyrir höfundarréttargreiðslur vegna laganna sem tónlistarmaðurinn hafði flutt. Þegar málið var borið undir hann varð hann fjúkandi vondur og lét draga reikninginn til baka.

Mér finnst ekki sanngjarnt gagnvart öðrum höfundarrétthöfum að harkalegar aðfarir STEF undanfarin ár komi niður á þeim og þeirra hugverkum. Að minnsta kosti kæri ég mig ekki um að mínum hugverkum sé stolið á þeirri forsendu að hagsmunagæsluaðilar allt annarrar deildar hafi gengið of hart fram við sína innheimtu. Ég á engan málsvara sem gætir minna hagsmuna, það verð ég að gera sjálf af veikum mætti.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 14:47

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst þú tala dálítið eins og höfundarréttarlög séu sjálfsögð og eðlileg. Mér finnst vera víðsfjarri að svo sé og gæti nefnt mörg dæmi um það. Breytingar sem gerðar hafa verið undanfarið hafa flestar verið til bölvunar og gerðar að undirlagi höfundarrétthafa.

Ég er alls ekki að tala bara um STEF þegar ég er að tala um "þessa menn".

Annars finnst mér að þú ættir að blogga um þessi mál. Þú hefur margt að segja um þau þó þú haldir kannski annað. Aldrei er of mikið bloggað. Komment týnast og hverfa.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2008 kl. 15:29

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, ég er ekki að tala út frá því að höfundarréttarlög séu sjálfsögð og eðlileg. Ég hef ekkert mat lagt á tilverurétt þeirra til eða frá.

En höfundarréttarlög eru í gildi á Íslandi, svo einfalt er það. Vel má vera að hægt sé að færa rök fyrir tilgangsleysi þeirra, en væntanlega er líka hægt að færa rök fyrir tilgangi þeirra. Ég hætti mér ekki út í slíka umræðu, til þess er ég einfaldlega ekki nógu fróð um lögin, breytingar sem þú nefnir og hvernig þeim hefur verið framfylgt... eða ekki.

Kjarni málsins í mínum huga er, að þeir sem vilja höfundarréttarlögin burt hljóta að verða fara eftir lögformlegum leiðum og annað hvort að fá þau felld úr gildi eða þeim breytt á þann veg sem þeir yrðu sáttir við. Ekki að ráðast að þeim með því að brjóta þau í stórum stíl.

Ég var ekki kát þegar höfundarrétthafar tónlistar fengu því framgengt fyrir nokkrum árum að sérstakt gjald var lagt á óskrifaða geisladiska. Ég nota geisladiska mikið til að afrita tölvugögn, flytja og fleira og fannst þetta bitna að mörgu leyti á þeim sem síst skyldi.

Hvað sem höfundarréttarlögum líður hefur höfundarréttur aldrei verið mikils virtur eða metinn - nema þá kannski hjá rithöfundum. Enda endurspeglar dómurinn í þessu D++ máli það, þar sem höfuðpaurinn fær 30 daga skilorð en hinir sleppa án refsingar. Hvort sem lögin eru sjálfsögð og eðlileg eða ekki stendur eftir að þau voru brotin. Fólk hlýtur refsingu fyrir minni sakir, er ég hrædd um.

Ég treysti mér ekki til að blogga um þetta þótt það sem ég hef þegar skrifað hér í athugasemdakerfið þitt sé á við ágætlega langt blogg. En til þess finnst mér ég þurfa að hafa miklu yfirgripsmeiri þekkingu á málinu en ég hef. Þetta eru bara hugleiðingar mínar um málið út frá mínum sjónarhól og reynslu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 16:09

10 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Sæmundur, stendur þú á bakvið netútgáfuna? Það fyrirbæri er algjör snilld. Sem málfræðingur hefur sú síða reynst mér ómetanleg. Bara það að hafa þessa texta á tölvuformi hefur auðveldað mér vinnuna ótrúlega því ég get á örfáum mínútum fundið setningar sem mig vantar. Takk kærlega.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.3.2008 kl. 19:02

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lára Hanna. Ég átti nú ekki við að höfundarréttarlögin sem heild væru óeðlileg þó ég sjái núna að vel má skilja það sem ég sagði þannig. Ég átti við að margt í þeim væri óeðlilegt.

Einar. Já, mér finnst Moggabloggið vera snilldarlega uppsett og þjónustan er líka frábær.

Stína. Já, ég stóð að Netútgáfunni á sínum tíma ásamt börnunum mínum. Ekkert efni hefur samt bæst við þar nokkuð lengi. 

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2008 kl. 20:23

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég les talsvert af bloggi og er oft á tíðum búinn að fara marga hringi í umræðu um suma hluti eins og pólitík, höfundarréttarmál, trúmál og ótal margt fleira. Þetta er í mínum huga bara að hafa áhuga á lífinu og tilverunni.

Höfundargjald af geisladiskum er ranglát skattlagning til handa STEF og það er ekki eðlilegt að diskar séu skattlagðir þeim til handa með það í huga að bæta rétthöfum tjón vegna afritunar og lögsækja síðan þá sem það gera. Það heita axlabönd og belti eins og í lánamálunum bankanna.

Diskar eins og Lára Hanna og fleiri hafa bent á eru í gíslingu sérhagsmunahóps sem getur aldrei átt þennan rétt. Ekki frekar en að bændur eigi rétt á verndartollum til að neyða ofan í okkur allt of dýra matvöru, eða prestar eigi rétt á launum til að troða í okkur trúboði eða.... ok ég er hættur því tímaskekkjurnar eru mér of langar til að klára svona upptalningu.

Haukur Nikulásson, 4.3.2008 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband