270. - Vódafón gambíturinn

Margir sem ekki tefla skák vita þó hvað gambítur er.

Það er byrjunarbragð í skák sem venjulega felur í sér fórn. Nýjasti gambíturinn er Vódafón gambíturinn svonefndi. Hann er stórhættulegur þó engu sé fórnað, en sem betur fer er auðvelt að verjast honum.

Nýjustu skákreglur segja að hringi farsími hjá öðrum hvorum keppanda eftir að skák er hafin skuli skákin umsvifalaust dæmd töpuð fyrir vörslumann farsímans. Þeir sem í þessu lenda eru sagðir hafa fengið á sig Vódafón gambítinn.

Liðsstjórar í sveitakeppni í skák hafa gjarnan meðal annars það hlutverk að prófa að hringja í farsíma allra keppenda í andstæðingasveitinni. Þannig er hugsanlegt að fá einhverja ódýra vinninga. Vörnin við þessum gambít felst að sjálfsögðu í því að gæta þess að slökkva á farsímanum áður en skákin hefst.

Ég er hræðilegur dellukarl. Einu sinni safnaði ég frímerkjum af svo mikilli áfergju að ekkert annað komst að hjá mér og ég eyddi öllum mínum peningum í þessa vitleysu. Þar á meðal man ég að ég keypti dýrum dómum heildarútgáfu af frímerkjum nýs ríkis í Afríku sem Ghana heitir. Forseti þess ríkis og helsta fyrirsæta á frímerkjum þaðan um þær mundir hét Kwame Nkrumah.  Sko, þetta man ég þó ennþá.

Ég var líka svo heillaður af skákinni á tímabili að ef ég kom á hellulagt svæði gat ég um ekkert annað hugsað en mannganginn. Dreymdi líka oft og einatt um skák. Þetta var þegar ég var um fermingu.

Svo var það fyrir rúmum áratug eða svo að ég fékk óstjórnlegan áhuga fyrir Formúlu 1. Þetta var um það leyti sem sjónvarpsútsendingar frá þessari keppni voru á Eurosport og mér fannst hlægilegt ef fólk þekkti ekki ökumenn á útliti hjálmanna. Að þekkja lið eftir lit á bílum var líkt og munurinn á hægri og vinstri. Nokkrum sinnum sá ég útsendingar frá formúlunni á Ríkissjónvarpinu eftir að rétturinn fór þangað og hneykslaðist mikið á fáfræði þeirra sem lýstu. Þá hafði rétturinn til útsendinga verið tekinn af Eurosport einu ári fyrr og uppúr því fór áhugi minn á þessu eðla sporti að dvína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Það féll einn fyrir Vódafón gambítnum á Rvk open í kvöld...

Snorri Bergz, 6.3.2008 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband