271. - Morðið við Kolviðarhól (þar sem Hellisheiðarvirkjun er núna)

Í ágústmánuði árið 1881 var 28 ára gamall maður, Kristmann Jónsson að nafni, drepinn skammt frá gistihúsinu á Kolviðarhóli.

Það stóð skammt frá þeim stað þar sem Hellisheiðarvirkjun er núna. Síðastliðið sumar kom ég þangað og sá rústirnar af þessu mikla og merkilega húsi. Grafreiturinn í túninu skammt sunnan við bæinn þar sem þau hjónin Valgerður Þórðardóttir og Sigurður Daníelsson eru grafin er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá virkjuninni nýju.

Þetta hús sem margir þekktu og var síðast skíðaskáli og hafði síðan staðið autt um tíma, var brennt til grunna fyrir allnokkrum árum. Það stóð við Hellisskarð sem liggur uppá Hellisheiðina milli Reykjafells og Skarðsmýrarfjalls skammt frá Sleggjubeinsskarði.

Kristmann var í útreiðartúr með þremur öðrum, tveimur karlmönnum og einni konu nokkuð fyrir norðan Kolviðarhól og fengust aldrei áreiðanlegar fréttir af því hvað raunverulega kom fyrir, en lík hans var illa leikið þegar veitingamaðurinn á Kolvíðarhóli kom þar að. Guðmundur og Sigurþór ferðafélagar Kristmanns voru báðir nokkuð drukknir þegar þetta gerðist en Kristmann líklega ekki.

Mál þetta var á sínum tíma mjög umtalað og kallað Kristmannsmálið. Aldrei fékkst neinn botn í það hver morðinginn var og rannsókn yfirvalda var öll í skötulíki. Ýmsar heimildir eru til um þetta mál, meðal annars er stór og þykk bók um 300 blaðsíður á Þjóðskjalasafninu um það og Kristmann Guðmundsson rithöfundur ritaði frásögn um þetta sem á sínum tíma birtist í Lesbók Morgunblaðsins. (30. árgangi 26. tbl.)

Lesbókina er hægt að nálgast á vefsetrinu timarit.is og kynna sér þetta mál betur ef áhugi er fyrir hendi.

Mín frásögn af þessu er byggð á bókinni Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason sem út kom á Selfossi árið 1959.

Margt fleira merkilegt er í þessari bók og mun ég ef til vill skýra frá einhverju af því seinna. Mamma vann eitt sinn um tíma á Kolviðarhóli og ég man vel eftir Valgerði Þórðardóttur eiginkonu Sigurðar Daníelssonar síðasta veitingamannsins þar.

Valgerður bjó síðust árin sem hún lifði í Hveragerði og mamma kallaði hana alltaf Völu á Hól og gætti virðingar í rómnum þegar hún talaði um hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband