Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

226. - Brandarar, vísur og myndir

Færslan sem Pálmi Gunnarsson setti á sitt blogg þann 5. janúar s.l. (og var nýjasta færslan á því bloggi síðast þegar ég vissi) var lítt merkileg endursögn á gömlum brandara. Ég man einn brandara sem mér þótti meinfyndinn þegar ég heyrði hann fyrst. Þetta er algjör karlrembu- og rasista-brandari og ég held að ég hafi heyrt hann í fyrsta skipti áður en ég fór á Bifröst. Hann er semsagt ævagamall.

Ég man eftir að hafa, í skólaferðalagi með félögunum frá Bifröst, verið að segja þennan brandara blindfullur á hóteli einhversstaðar þegar ferðafélagi sem kom inn sagði: "Nú, það er bara svona hérna," og labbaði út.

Brandarinn er svona: Einu sinni var Texasbúi sem fór til Alaska. Þar var honum sagt að til þess að teljast maður með mönnum á þessum stað yrði hann að gera þrennt. Skjóta bjarndýr, ríða indíánakerlingu og drekka úr fullri brennivínsflösku í einum teig.

Texasbúinn vildi reyna þetta og byrjaði á brennivínsflöskunni. Síðan fékk hann byssu og labbaði út í skóg. Alllöngu seinna kom hann aftur, allur rifinn og tættur, fötin í henglum og hann alblóðugur og krambúleraður. Sagði þó með drafandi röddu: "Hvar... hérna.. hikk. hvar er, hikk, eiginlega, hikk... þessi índíánakerling sem ég átti að skjóta?"

Mér finnst umræðurnar um legstað Fischers vera með ólíkindum. Ég get ekki séð að hann eigi nokkurt erindi á Þingvelli. Skrípaleikurinn í kringum hinn svokallaða þjóðargrafreit þar er slíkur að ekki er á hann bætandi. Hins vegar fæ ég með engu móti séð hvað mælir á móti því að Fischer verði jarðsettur hér á Íslandi. Hér fékk hann griðastað á ævikvöldinu og ég get ekki skilið á hvaða forsendum menn ættu að hafa á móti því að hann verði grafinn hér. Ef ættingjar hans og aðstandendur aftur á móti setja sig upp á móti því, þá er ekki mikið við því að segja. Þeir hljóta að ráða.

Varðandi fatapóker framsóknar vil ég bara vekja athygli á því sem hagyrðingar hér á Moggablogginu og annarsstaðar hafa um þetta að segja:

 

Ómar Ragnarsson segir hér á Moggablogginu:

 

Rædd er þörf til rannsóknar.

Ræðuþörfin brennandi.

Fatapóker framsóknar

fer að verða spennandi.

 

Hallmundur Kristinsson segir eftirfarandi á sama stað:

 

Allir borða á sig göt

eins og helst þeir torga.

Eftir þetta fá sér föt

sem framsókn þarf að borga.

 

Og páfagaukurinn Papparass segir á 123.is/asben:

 

Framagosinn fágaði,

fagurlega dressaði,

glæsilegi og gáfaði,

Guðjón Ólaf stressaði.

 

Ekki er hægt annað en að gera grín að þessu. Framsóknarmönnum finnst þetta kannski sorglegt, en aðrir fyllast líklega Þórðargleði.

Reiknivélar af þessu tagi þóttu úrvalstæki áður fyrr. Nú er þessi vél ósköp fornfáleg.

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona uppstillingar þykja mér alltaf skemmtilegar. Ekki veit ég hvað er hægt að skrúfa með þessu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þetta er snjófjall sem búið er að ýta af bílaplani einu. Líklega verður það við lýði fram á vor.


225. - Myndir, íslenska, auglýsingar og fleira

Canon myndavélin sem ég fékk í jólagjöf er hið mesta þing. Hún skilar alveg þokkalegum myndum, þar sem gamla voigtlander vélin mín og jafnvel Ashai Pentax reflex vélin sem ég var með í láni frá Vigni í mörg ár, hefðu fúlsað við og alls ekki talið næga birtu til að taka mynd. Svo er líka alveg ómetanlegt að geta strax séð hvernig til hefur tekist. Skil ekki hvernig maður gat beðið vikum eða jafnvel mánuðum saman til að sjá hvernig myndatökur hefðu tekist.

Þessi mynd er af hringstiga og erfitt er að sjá hve langur hann er eða hvert hann liggur. Það er ekkert merkilegt við þessa mynd en hún gæti verið af einhverju allt öðru.

 

 

 

Þetta er mynd sem sýnir hvernig farið getur fyrir farartækjum í veðurfarinu eins og það hefur verið að undanförnu.

 

 

 

 

 

 

 

Þarna er nýi Ford fusioninn skíthræddur í myrkrinu og bíður eftir eiganda sínum.

 

 

 

 

 

 

"Ef þú ert tryggður, þá færðu það bætt", glymur nú við í öllum miðlum og með ýmisskonar myndskreytingum. Þetta er á góðri leið með að ná sömu hæðum og "öruggur staður til að vera á." sem tröllreið öllu fyrir einhverju síðan og gerir kannski enn. Mér finnst þetta nýja slagorð vera álíka fáránlegt og vitlaust og það og jafnléleg íslenska. Er einhver ástæða til að bæta mönnum þann asnaskap að tryggja hjá tryggingafélagi sem eyðir peningum í svona heimskulegar auglýsingar? Og hver á svosem að bæta það?

Spurningaþátturinn Útsvar er mjög vel heppnaður. Einkum vegna þess hve létt er yfir honum. Án ef eiga stjórnendur hans mestan þátt í því. Einnig eru spurningarnar yfirleitt góðar, en þátttakendurnir dálítið misjafnir.

Ég minntist á fráfall Bobby Fischers í gær. Strax eru menn farnir að rífast um hvar á að jarða hann. Ja, fussumfei. Hann var ekki bara mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið. Glæstir sigrar hans og ódauðlegar skákir munu halda nafni hans á lofti um alla eilífð. Hann bauð líka stórveldinu byrginn og sigraði það. Að minnsta kosti álitu margir hann hafa sigrað stórveldið Bandaríkin þegar hann gerðist íslenskur ríkisborgari og fluttist til Reykjavíkur.

Annar mikill íþróttamaður og nánast jafnaldri Fischers var Muhammed Ali. Hann bauð einnig stórveldinu byrginn og neitaði með öllu að gegna herþjónustu og sat í fangelsi fyrir þær sakir. Hann sigraði stórveldið sömuleiðis með því að bogna ekki undan ofurþunga ríkisvaldsins. Að bandarísk stjórnvöld skuli á þennan hátt ofsækja suma af sínum bestu sonum er þeim til ævarandi skammar.

Ég skrifaði líka eitthvað um framsóknarföt í gær. Ég get eiginlega ekki fundið neina aðra skýringu á þessari furðulegu uppákomu en þá að reynslan sýnir bara að litlir flokkar eiga miklu oftar við innbyrðis átök að stríða en þeir stóru, hvernig sem á því stendur. Þetta er margsannað og sýnir líklega helst að þegar þrengist um frammámenn flokksins þá snúast þeir hver gegn öðrum. Þetta er það sem við mér blasir en alls ekki það, að ég vorkenni framsóknarflokknum frekar en öðrum flokkum.


224. - Fischer, framsóknarföt og Svíagrýla

Þá er Bobby allur. Ég bloggaði eitthvað um daginn um veikindi hans en þau fóru samt ekki sérlega hátt. Auðvitað vissu flestir skákáhugamenn að hann var mjög alvarlega veikur. Í mínum huga var hann mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið og ekkert meira um það að segja. Gallar hans voru líka talsverðir, en algjör óþarfi er að tíunda þá hér.

Ég hef verið að velta fyrir mér að setja hér á bloggið myndir sem ég tek. Kannski myndir sem ég tek eftir gömlum myndum. Gallinn er bara sá að þær eru nokkuð stórar og ég hef verið að gera smátilraunir með að minnka þær. Ef það hefur tekist bærilega þá er hérna mynd af skákmeistara Bahamaeyja þar sem hann mætir í fyrsta skipti til vinnu sinnar við Doctors Hospital í Nassau. Nú er svo komið að líklegt er að Bjarni flytji fljótlega til Íslands aftur og hefji störf á verkstæði Opinna Kerfa.

Austurlandaegill er orðinn bloggvinur minn. Hann er nú staddur á Indlandi og ætlar að flækjast um Asíu næsta hálfa árið eða svo. Líklega hefur hann flökkueðlið frá pabba sínum. Það verður gaman að fylgjast með honum. Ég fylgdist líka með Mána Atlasyni þegar hann var í Kenya um árið og las bloggið hans reglulega. Heimurinn er svo sannarlega orðinn miklu minni en hann var í mínu ungdæmi og samskipti manna orðin svo einföld að með ólíkindum er.

Guðjón Ólafur Jónsson sem er með þekktari framsóknarmönnum og hefur meðal annars setið á þingi fyrir þá hefur nú gengið framfyrir skjöldu og sakað félaga sína um að ganga í framsóknarfötum. Björn Ingi Hrafnsson vill ekki mikið um málið segja en spyr þó hvað flokkur sem eigi slíka vini sem Guðjón Ólaf hafi við andstæðinga að gera.

Svíagrýlan lifir góðu lífi ennþá. Mér finnst eftirtektarvert að aldrei hafa Íslendingar átt markvörð í heimsklassa, en Svíar eiga þá á lager. Sænska liðið var fremur lélegt þótti mér, en markvörðurinn aftur á móti mjög góður. Svo er bara að gleyma þessum leik sem fyrst.

Bjarni Harðarson kommentaði á það sem ég skrifaði um daginn, en af því ég veit að komment vilja týnast og þar að auki kommenta þingmenn ekki á mín skrif dagsdaglega, þá er ég að hugsa um að birta kommentið hér.

Ekki vissi ég það að þú hétir eftir Steinunni - en eins og mér hefur verið sögð sagan þá fór sú heiðurskona suður í ljósmæðranám og á meðan varð afi minn og faðir þinn til. Reyndar held ég að Rannveig hafi lengi verið vinnukona hjá þeim hjónum og ekki bara þennan vetrarpart sem Steinunn stundaði ljósmæðranám og eru til af þessum ástarþríhyrningi í Langagerði margskonar sögur. Einhverntíma á Steina að hafa laumast í fleti systur sinnar þegar sú var frá og lá sem dauð en nokkru seinna kom karl hennar og fór að ýta við mágkonu sinni en sagði þegar hún engu ansaði, - þú mátt ekki vera eins og Steina!

Ég er viss um að frásögn Bjarna af þessu máli er miklu réttari en mín. Fyrstu setninguna er þó hægt að misskilja. Hvort vissi Bjarni ekki að ég heiti Sæmundur Steinar eða hélt að ég héti Steinar eftir einhverjum öðrum? Ég veit ekki hver það ætti að vera, en man ekki betur en mamma hafi einhvertíma sagt mér að ég bæri nöfn þeirra Garðsaukahjóna.

Önnur saga er líka til um nafn mitt. Fyrst eftir að ég fæddist var ekkert búið að ákveða um nafnið. Einhver í fjölskyldunni spurði pabba hvað ég ætti að heita. Hann sagði að ég ætti að heita nafni þess fyrsta karlmanns sem að garði bæri. Sá reyndist vera Óli Bjarna málari. Ekki er að orðlengja að ég var eftir þetta kallaður Óli. Sagt er að áður áminnst Steinunn hafi spurt einhvern kunnugan hvað ég væri kallaður því hún vissi að ég var fæddur. Henni var sagt að ég væri kallaður Óli og hefur mér verið sagt að það hefði valdið henni vonbrigðum. Þegar að skírn kom var hinsvegar Óla nafninu ekki haldið til streitu.


223. - Hugleiðingar um bloggskrif og fleira

Enn er ég að hugsa um ættarmót Gvendarkotsættarinnar.

Ég heyrði minnst á að gaman væri að eiga á einum stað á Netinu samantekt um öll ættarmót sem þessi fræga ætt hefur staðið fyrir. Jafnvel mætti hugsa sér að fleiri gætu átt þar innhlaup. Mér finnst þetta prýðileg hugmynd. Þarna gætu líka verið myndir og ýmislegt annað, sem ættinni tengist. Varpa þessu bara svona fram. Þetta mætti ræða á ættarmótinu í sumar.

Alveg er ég að verða óstöðvandi í vaðlinum. Ekki er ég fyrr búinn að setja síðustu bloggfærslu á sinn stað en ég er byrjaður á þeirri næstu. Svona á það að vera. Ekkert að stoppa. Halda bara áfram fram í rauðan dauðann. Það er ágætt að leggja einhver drög að næstu færslu strax og sú síðasta er farin á vit feðra sinna. Úps, þetta var nú heldur hátíðlegt hjá mér. Jæja, kannski áar hennar séu á Moggablogginu. Og kannski þurrka ég þetta allt út. Kannski, kannski.

Svo líður og bíður. Tunglið gengur undir. Sólin kemur upp. Nennir samt ekki að vera á lofti nema stutta stund. Kvöldsett verður, ekki snjóar mjög mikið, kalt þó. Og nú er nýtt kvöld hafið og ég bíð þess að klukkan verði tólf á miðnætti svo ég geti klárað þessi skrif og skellt þeim á bloggsetrið.

Allt hefur sinn tíma. Líka bloggskrif. Best gengur mér að festa orð á blað þegar allt er á fullu. Fréttir í sjónvarpinu. Nóg að lesa. Bók sem bíður. Allt á ferð og flugi. Svo þegar um hægist þá er ég gjarnan orðinn þreyttur og syfjaður.

Þetta með að skrifa er einskonar árátta. Það er bæði hvíld og áskorun. Hvíld frá amstri dagsins og ávallt áskorun um að gera aðeins betur. Þegar maður verður orðinn ánægður með það sem maður skrifar er áreiðanlega stutt í endalokin.

Ef lesendur mínir væru fjölmargir gæti það orðið óbærileg pressa. Pressa um að gera sífellt betur en ég raunverulega get. Frá því sjónarmiði séð er ég ánægður með að ekki skuli fleiri lesa þessi skrif mín en þó er. Eiginlega get ég leyft mér allan fjárann. Þessi hópur sem ég þarf að geðjast með skrifum mínum er hvort eð er svo lítill. Og þó í honum fækkaði þá yrðu samt alltaf einhverjir eftir, held ég.

Sagt er að Lilli klifurmús hafi farið fram á húsleit hjá hæstarétti. Úrskurði um það verður líklega áfrýjað, en óvíst er hvert. Fíknó er í starholunum með að krefjast húsleitar hjá forsætisráðherra í tilefni af skipun Þorsteins. Ekki er ljóst hversvegna.

Hvað er það sem hoppar og skoppar um Heljarbrú, með mannabein í maganum og gettu nú? Þetta þótti ágæt gáta í eina tíð, en eins og allir sjá er þarna um skip að ræða. Finna má því stað í goðafræði að brúin til Heljar sé hafið og hitt er svosem augljóst. Gátur af þessu tagi þóttu ágæt dægrastytting hér áður fyrr, en nú þykir svonalagað ekki merkilegt. Ýmislegt af þessu tagi geri ég ráð fyrir að ég gæti rifjað upp, en hvort það er einhvers virði er annað mál.


222. - Nýi stíllinn í bloggskrifum

Nú er þetta að koma hjá mér.

Blogg eftir blogg. Ekkert minna. Bara skrifa eitthvað. Það les þetta hvort eð er enginn. En til hvers er ég þá að þessu? Jú, auðvitað lesa einhverjir þetta. Og því skyldi ég ekki blogga eins og mér sýnist, þó sumum þyki það ekki merkileg iðja.

Bloggið er að taka yfir hlutverk annarra miðla. Það er ég sannfærður um. Hraðinn eykst. Skrifin verða óvandaðri. Skoðanirnar fleiri og sundurleitari. Lesendum fækkar. Skrifendum fjölgar. En hvar í ósköpunum endar þetta allt saman? Eitt blogg á mann og hver og einn skrifar fyrir sig. Nei, annars. Ekki munu allir blogga. Kannski talsvert margir. Þeir sem blogga verða líka að standa sig við lesturinn. Annars endar þetta með ósköpum. Lesendur verða að vera talsvert fleiri en skrifendur. Annað gengur ekki.

En hvað verður af gömlu miðlunum. YouTube í stað alls sjónvarps, bloggið fyrir útvarp og prentmiðla, stuttmyndir á Netinu í stað bíómynda. Meira að segja Netmiðlarnir eru að fara á hausinn og hætta unnvörpum. Bloggið er betra. Það leggur allt undir sig. Blaðamenn og fréttamenn ekki lengur til. Eða verða allir bloggarar blaðamenn og fréttamenn? Netið verður í vasa allra. Sími, tölva, myndavél og hvað sem manni dettur í hug. Eitt lítið og handhægt tæki. Enginn nennir að keyra eigin bíl. Strætisvagnar á tveggja mínútna fresti á hverju götuhorni. Fáeinir leigubílar fyrir þá sem aldrei geta lært á strætó.

Margt er mannanna bölið og misjafnt drukkið ölið var kveðið í eina tíð. Alveg er ég hissa hvað fólk nennir að hafa miklar áhyggjur af því að allt sé að fara til fjandans. Hefur ekki alltaf allt verið að fara til fjandans? Samt reddast þetta. Það rætist bara furðanlega úr þessum misheppnuðu unglingum til dæmis.

Þetta er nýr stíll. Hugrenningastíll. Ekkert stenst hann. Endalaus skrif. Óstöðvandi. Bara punktur og svo haldið áfram. Þegar ekki er hægt að segja meira, er bara byrjað á nýrri málsgrein.

Ekki veit ég hvers vegna það kom svona ítarlegt bil á eftir myndinni frá Bjarna í blogginu í gær. Kannski er það bara ágætt. Nenni ekki að breyta því. Enda óþarfi.

Merkileg frétt um daginn um stolnar bækur úr dánarbúi. Til hvers að vera að safna bókum. Skiptir nokkuð máli nema það sem í þeim stendur. Er ekki leikur einn að skanna það og gera öllum aðgengilegt. Til þess er Netið. Bókasöfnun er eins og hver önnur söfnun. Fíflaleg. Einu sinni var Vignir í vandræðum með að finna eitthvað frumlegt til að safna og fór að safna yddi frekar en engu. Við Ingibjörg vorum víst að safna einhverju merkilegu. Kannski var ég að safna frímerkjum þá og Ingibjörg servíettum. Það þótti mjög kúl einu sinni.

Já, bókasöfnun er fíflaleg. Það er líka fíflalegt að brugga fíflavín. Það reyndi ég einu sinni en mistókst. Tómur fíflagangur.

"Ef ég fer, þá fer ég ber. Annars ekki." Sungu þeir Haukur prestsins og Dóri Höskulds. Þetta var í Hveragerði á árum kalda stríðsins. Ekki veit ég hvað átt var við með þessum úrvalstexta. Þeir fóstbræður sungu þetta með mikilli tilfinningu. Því segi ég þetta að fyrirsögn í þessum dúr er á bloggi hjá Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyndi fornleifafræðingi í Kaupmannahöfn.

"Ert þú hann?" Var ég spurður með hálfgerðu þjósti á kommentakerfinu mínu. Ekki hafði ég mér vitanlega gefið tilefni til svona ásakana. Bendi bara á að lesa kommentin frá í gær.


221. - Ættarmót og jólabækur

Já, ég skal reyna að fara að blogga meira. Nógu margt dettur mér í hug.

Spurningin er bara hvað lesendur vilja fá. Ég veit lítið um það. Jú, Gunnar Helgi sonur Denna í Nóatúninu vill lesa um Gufuskála. Lára Hanna vill lesa allt, reikna ég með. Ættingjar vilja líklega helst lesa endurminningar. Hvergerðingar væntanlega um Hveragerði. Miklhreppingar eitthvað frá Vegamótaárunum. Sigurður Hreiðar vill lesa um eitthvað frá Bifröst og svona mætti lengi telja. Ætli ég setji bara ekki hér á blað það sem mér sýnist hverju sinni.

Nú er ég einna uppteknastur af ættarmótinu sem verður í sumar. Eitt sinn héldum við ættarmót á Gufuskálum. Það var eftirminnilegt. Auðvitað var það Denni sem útvegaði okkur aðstöðuna þar. Þá var að mestu búið að leggja loranstöðina niður og við gátum fengið til notkunar um ættarmótshelgina eins mikið af frábærum íbúðum og við kærðum okkur um.

Helgina 13. - 15. júní næstkomandi verður ættarmót í Mýrdalnum. Þar höfum við fengið aðstöðu í skóla einum sem er að Ketilstöðum. Gistingu er hægt að fá á Hótel Dyrhólaey sem er þarna í næsta nágrenni. Hér með vil ég skora á þá ættingja sem ekki hafa ennþá gert neitt í því að skipuleggja þátttöku í þessu ættarmóti að gera það sem fyrst. Þessi áskorun nær víst til mín sjálfs líka.

Ekki man ég hvort ég bloggaði eitthvað um Kalla Bjarna um daginn þegar hann var í Kastljósinu. Líklega ekki, því ég man ekki betur en ég hafi horft á viðtalið við hann á Netinu löngu eftir að umræðan var að mestu um garð gengin. En það er alltaf hægt að taka umræðu upp aftur á blogginu og henni lýkur ekki þar, fyrr en manni sjálfum sýnist.

Las blogg Salvarar og Ólínu um málið og var ekki sammála þeim nema að litlu leyti. Þær virtust báðar þeirrar skoðunar að kastljósið væri með þvi að birta þetta viðtal að taka undir sjónarmið Kalla. Ég lít ekki svo á. Kastljóstið á að koma sem víðast við og alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að kastljósfólkið sé að taka undir nein séstökt sjónarmið með því að birta eða birta ekki einhver ákveðin viðtöl eða þætti.

Ég sá einhvers staðar nýlega auglýsingu þar sem jólabækur frá í fyrra eru auglýstar og því haldið fram að þær séu ekkert verri núna en þær voru í fyrra. Auðvitað er það alveg rétt, en samt er það svo að fólk kaupir ekki gamlar bækur til gjafa og um þetta leyti kaupir fólk einmitt bækur fremur til að lesa þær en til gjafa. Fátæklingar eins og ég fara bara á bókasafnið og reyna að klófesta sæmilegar bækur þar.

Morgunn á New ProvidenceHér er mynd frá Nassau á Bahamaeyjum sem Bjarni tók. Prýðilega góð mynd finnst mér. Nei, þetta er hvorki sólin né tunglið þetta stóra þarna til vinsti. Þetta er bara einhver ljóskastari og myndin er tekin eldsnemma að morgni.

 

 

 

 

 

 

Ég er búinn að lesa fjórar nýútkomnar bækur núna eftir jólin og mig langar að blogga aðeins um þær. Þeir sem ekki kæra sig um að vita neitt um efni þessara bóka ættu bara að sleppa því að lesa það sem eftir er af þessu bloggi. Hinir fá bara óvenjulangt blogg að þessu sinni.

Fyrst ber að telja bókina „Harðskafi". Þessi bók er eins og kunnugt er eftir Arnald Indriðason. Mér finnst hún vera með betri bókum Arnaldar. Mun betri en Konungsbók sem kom út í fyrra og ég las fyrri stuttu. Í þessari bók er málið sem efni bókarinnar snýst um ekki aðalatriðið, heldur snýst bókin að verulegu leyti um persónur bókarinnar og einkum Erlend. Arnaldur er orðinn mjög vel sjóaður í krimmagerð og tök hans á viðfangsefninu eru góð.

„Himnaríki og helvíti". Þessi bók hefur hlotið mjög góða dóma og verðskuldar þá að mörgu leyti. Jón Kalmann er þó full væminn fyrir minn smekk og útmálar hlutina stundum meira en góðu hófi gegnir. Andrúmslofti sögunnar er þó komið mjög vel til skila og þó atburðarásin sé ekki ákaflega merkileg situr hún vel í manni. Einkum situr eftir minningin um róðurinn sem lýst er í upphafi bókarinnar og örlög Bárðar. Skáldskaparleg tök höfunarins á efninu eru aðdáunarverð.

„Þar sem vegurinn endar". Þessi bók eftir Hrafn Jökulsson lætur ekki mikið yfir sér. Það er eins og höfundurinn hafi sest niður og ákveðið að nú þyrfti hann að skrifa bók. Sumar æskuminningar hans eru mjög vel skrifaðar, en í heild er bókin talsverður samtíningur og minnir helst á stílæfingar. Endursögn á efni fornsagna og ýmsar upprifjanir á þjóðlegum fróðleik höfða eflaust til þeirra sem ekki kannast við efnið, en mér finnst þetta varla eiga erindi í bók af þessu tagi. Kannski er bókin bara alls ekki af því tagi sem ég tel hana vera.

„Grunnar grafir". Þessi krimmi hefur ekki hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Skáldlega sýn skortir höfundinn með öllu. Umfjöllun höfundar um söguefnið minnir um margt á skólaritgerð og segja má að það sé ein predikun út í gegn. Fléttan er allan tímann mjög fyrirsjáanleg og lýsingarnar margrar mjög endurtekningasamar. Flest í bókinni er annaðhvort svart eða hvítt. Margt er þar fróðlegt og þó bókin sé klisjukennd, hefur höfundur kynnt sér vel þau mál sem fjallað er um.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir er frá því í fyrra og heitir Með skör járntjaldsins og er eftir Jón Björnsson. Eftir því sem ég best fæ séð er þetta ferðabók í úrvalsflokki. Skrifa kannski meira um hana seinna.


220. - Alvarleg slagsmál að Görðum - einn drepinn

Mér gengur illa að komast í blogg-gírinn.

Ennþá líður ansi langt milli blogga. Kannski fer þetta bráðum að skána.

Á föstudaginn var keyptum við okkur nýjan bíl. Ford Fusion árgerð 2007. Bílinn keyptum við hjá Toyota umboðinu og líkar ágætlega við hann. Margt mætti svosem um hann skrifa en það verður að bíða.

Á léninu domaraskipan.net er hægt að mótmæla síðustu afreksverkum Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Þótt villur séu í ávarpinu og röðunin á undirskrifendum svo mikill bastarður að vel er hægt að efast um að sá sem setti þetta upp kunni stafrófið er ég að hugsa um að skrifa undir. Það þýðir ekki að vera alltaf svona neikvæður. Auðvitað eru ekki allir fullkomnir, ekki einu sinni ég sjálfur.

Einhverju sinni vorum við nokkrir nemendur á gangi í útivistartíma á Bifröst. Til umræðu kom hve misþung nöfn væru og voru margar gáfulegar kenningar settar fram um það mál. Meðal annars ræddum við um nöfn okkar sjálfra og þyngd þeirra. Einnig voru fáeinir í hópnum sem hétu tveimur nöfnum. Sjálfur þurfti ég að viðurkenna að ég héti ekki einungis Sæmundur heldur einnig Steinar. Öllum kom saman um að það væri afar þungt nafn og fór ég mjög halloka í þessari umræðu og kom litlum vörnum við.

Afi minn í föðurætt hét Sæmundur Oddsson og var frá Sámsstöðum í Fljótshlíð. Kona hans hét Steinunn en hún var ekki amma mín, heldur var það systir hennar, Rannveig, sem var amma mín í föðurætt. Hún var fengin á heimilið þegar Steinunn þurfti að dvelja á sjúkrahúsi um tíma. Nöfn mín sæki ég engu að síður til þeirra heiðurshjóna í Eystri-Garðsauka.

Oft er hér í umræðu hve slagsmál séu orðin illvíg upp á síðkastið. Hér held ég að fjölmiðlar eigi nokkra sök. Það var einfaldlega ekki til siðs áður fyrr að tíunda áverka manna í fjölmiðlum eins og nú er gert. Fólki hættir oft til að álíta fjölmiðla eins konar spegilmynd af því sem gerist á hverjum tíma en það er ekki rétt. Það er miklu réttara að segja að efni fjölmiðla spegli skoðanir sem ríkjandi eru.

Sem dæmi um illvíg slagsmál áður fyrr get ég nefnt eftirfarandi sögu. Hana sagði mér Þórður Gíslason bóndi á Ölkeldu.

Það mun hafa verið um 1950 sem loranmastrið á Gufuskálum var reist. Ekki hentar það öllum að vinna í svo mikilli hæð. Útlendingar sem ekki þekktu til lofthræðslu voru fengnir til að vinna sum erfiðustu verkin.

Eitt sinn var haldið ball að Görðum í Staðarsveit. Þangað komu margir og meðal annars útlendingar sem unnu við að reisa mastrið á Gufuskálum. Ungir og hraustir menn úr sveitinni voru fengnir til löggæslustarfa á ballinu og þeirra á meðal áðurnefndur Þórður á Ölkeldu. Hópslagsmál brutust út þegar leið á kvöldið og meðal þess sem þar gerðist var að einn útlendingurinn stakk annan til ólífis með hnífi og sljákkaði þá nokkuð í verstu ólátabelgjunum. Þórður sagðist aldrei hafa orðið eins hræddur á æfinni eins og meðan á slagsmálunum stóð.


219. - Vits er þörf.......

Vits er þörf, þeim er vargnum sinnir.

Mér finnst þetta eiga við dýralækninn í ríkisstjórninni en öðrum kann að finnast annað. Að hluta til er þetta úr Hávamálum en ég prjónaði nokkur orð aftan við alkunna setningu þaðan.

Greinargerð fjármálaráðherra ber það með sér að honum er vits þörf. Þar er margt tínt til, nefndarstörf og annað og jafnvel það að aumingja Þorsteinn hafi verið varamaður í einhverri tiltekinni nefnd. Hversu langt er hægt að ganga í vitleysunni? Auðvitað er það hart aðgöngu fyrir Þorstein að þurfa að vera svona á milli tannanna á fólki, eingöngu vegna föður síns. Það er þó Árni blessaður Mathiessen sem hefur komið honum í þessa stöðu og alveg óþarfi fyrir þá sem andvígir eru skipuninni að þegja af hlífisemi við Þorstein.

Ef nefndin hefði nú bara úrskurðað Þorstein óhæfan. Það var örugglega það sem þeir áttu við með því að skipta umsækjendum í flokka með þessum hætti. Hefði Árni skipað hann samt? Varla. En kannski úrskurðar nefndin menn aldrei óhæfa. Þetta er nú meiri vitleysan allt saman.

Ég man vel eftir því þegar Pétur Kr. Hafstein fór í forsetaframboð á móti Ólafi Ragnari Grímssyni og fleirum. Þá voru margir einna ósáttastur við þá ákvörðum Péturs að fara til fundar við Davíð Oddsson áður en hann tilkynnti um framboð sitt. Það var eins og hann væri að spyrja Davíð hvort hann mætti fara í framboð. Forsetakosningarnar á sínum tíma geta þó ómögulega haft áhrif á skoðanir Péturs í dag. Slíkt væri barnaskapur hinn mesti.  

En af hverju skyldi dýralæknirinn vera að sinna varginum? Heldur hann að það gæti skilað einhverju í framtíðinni að koma sér í mjúkinn hjá honum? Er hann kannski bara að reyna að kasta ryki í augu þeirra sem einblína á peningamaskínuna sem verið er að byggja á Keflavíkurflugvelli? Ekki gott að segja.

Já og svo er kvótakerfið ekki bara meingallað heldur kolólöglegt að auki. Samt á það sinn mikla þátt í þeirri gliðnun sem orðin er milli strjálbýlis og þéttbýlis. Þetta getur allt orðið hið mesta klúður. Íslenskir dómstólar hafa hvað eftir annað fengið leiðbeiningar utanlands frá. Ég veit ekki á hvaða stigi þeir væru ef svo væri ekki.

Einu sinni man ég að Hæstiréttur tilnefndi það sem ástæðu til þess að dæma ríkinu í vil í einhverju gjaldtökumáli landbúnaðarmafíunnar að það yrði mjög fyrirhafnarsamt fyrir ríkið að leiðrétta oftekin gjöld. Furðuleg röksemdafærsla það.


218. - Tómatar, lóranmastur og farsímar

Undarlegt með tómatana í Bónus þessa dagana. Allir sem eru óskemmdir og íslenskir eru sérvaldir.

Ég mundi gjarnan vilja fá ósérvalda (jafnvel ósérhlífna) tómata þar, en þeir eru ekki á boðstólum. Verðið er þó ekki hærra en búast má við á þessum árstíma. Ég man vel þá tíð þegar tómatar fengust alls ekki á Íslandi yfir vetrartímann. Til að halda verðinu uppi (og tryggja að lítið seldist) var tómötum hent í stórum stíl yfir hásumarið þegar framleiðslan var sem mest.

Það var oft fróðlegt að vinna uppi á Stöð 2. Einu sinni sagði Varði tökumaður (Þorvarður Björgúlfsson) okkur frá því í kaffitíma þegar hann og Ómar Ragnarsson fóru upp í mastrið á Gufuskálum. Það var um það bil 420 metra hátt minnir mig. Ómar getur nú aldrei staðist það sem álitið er hættulegt og erfitt og Varði sá þarna upplagt tækifæri til þess að mynda umhverfið nánast úr lofti. Það vantaði líka peru í ljós þarna uppi og Ómar og hann buðust til að skipta um hana í leiðinni og var það þegið.

Varði útmálaði það fyrir okkur hvernig hefði gengið á uppleiðinni og svo lýsti hann því þegar hann tók að mynda efst í mastrinu. Hann sagði að þar hefði verið smápallur og handrið svona í hnéhæð yst á honum. Hann lýsti því fyrir okkur hvernig hann hefði þurft að nota báðar hendurnar á tökuvélina og fetta sig og bretta til að ná sem bestum myndum þarna á pallinum með hnéháu grindverki í kring og í 420 metra hæð. Svo mögnuð var lýsing hans á þessu, að ég man að ég fékk verk í hnén.

Í annað skipti var það uppi á Stöð 2 að Siggi Hlö hafði fengið sér stóran og mikinn farsíma og í hádeginu stillti hann honum upp á borðið hjá sér. Þetta var í upphafi farsímabyltingarinnar miklu og sárafáir sem áttu farsíma. Siggi var náttúrulega bara að auglýsa það að hann væri einn af þessum sárafáu. Nema hvað allt í einu hringir síminn öllum að óvörum. Allir í matsalnum sem áreiðanlega voru nokkrir tugir manna lustu upp fagnaðrópi og klöppuðu lengi og innilega. Siggi stóð upp og hneigði sig virðulega og svaraði svo í símann. Þetta var ógleymanlegt móment.

Önnur farsímasaga gerðist um svipað leyti. Ég var uppi á Bæjarhálsi að bíða eftir rútunni til Hveragerðis og annar maður einnig. Hann var með talsverðan farangur. Töskur, pinkla og poka. Um svipað leyti og rútan er að nálgast okkur byrjar sími að hringja í farangrinum. Maðurinn byrjar að hamast við að leita að símanum, opnar poka og töskur en finnur ekki símann. Rútan kemur og stoppar hjá okkur og í sama mund finnur maðurinn símann sem nú er hættur að hringja. Maðurinn reynir nokkrum sinnum í miklu fáti að svara í símann en hendir honum svo ofan í poka aftur og kemur hlaupandi í rútuna.

Enn einni símasögu man ég eftir sem gerðist þegar við gáfum út Borgarblaðið í Borgarnesi. Við höfðum skrifstofuherbergi í kjallaranum á gömlu prentsmiðjunni og sími var þar meðal annars. Eitt sinn þegar við vorum að undirbúa eitt af fyrstu tölublöðunum og allt var á rúi og stúi á skrifstofunni byrjaði síminn allt í einu að hringja. Yfirleitt gerist svona bara í kvikmyndum. Við litum hver á annan og enginn okkar mundi hvar í ósköpunum síminn var. Hvert sem litið var voru bara pappírar, bækur og blöð. Það tók okkur talsverðan tíma að finna símafjandann því við hlógum svo mikið.


217. - Pólitík og fyrirsagnir

Þetta gengur ekki. Ég verð að fara að blogga.

Þó ekki væri nema til að halda mér í æfingu. Annars hef ég verið mjög tímanaumur að undanförnu af ýmsum ástæðum.

Mér gengur illa að finna tíma til að lesa blogg allra minna bloggvina enda eru þeir orðnir nokkuð margir. Og að ætla líka að lesa önnur blogg ásamt dagblöðum og horfa á sjónvarpsfréttir er bara fullmikið með öllu öðru. Sjáum samt til.

Einhver var að blogga um fyrirsagnir. Ég er einn þeirra sem oft misskil fyrirsagnir. T.d. var ein fyrirsögn á bloggi hjá Ómari Ragnarssyni um daginn sem var svona: „Kallar á sæstreng". Mér fannst mjög einkennilegt að heyra um kalla sem hímdu á sæstreng en auðvitað þýddi þetta alltannað.

Arfleifð Sjálfstæðisflokksins er að hafa aukið part ríkisins af þjóðarkökunni úr 41 prósenti í 48 prósent. Hvernig stendur á þessu? Er frasinn „Báknið burt" fokinn út í veður og vind? Spyr sá sem ekki veit. Kannski framsóknarmenn geti svarað þessu. Þeir virðast hafa svör við öllu þessa dagana.

Það er að verða spennandi að fylgjast með forkosningum í USA núna. Þær verða víða á næstu vikum. Svo verða flokksþingin og útnefningarnar í sumar og sjálfar forsetakosningarnar í nóvember næsta haust. Ég er hræddur um að stuðningurinn við Íraksstríðið verði frú Clinton þungur í skauti. Ekki er ótrúlegt að svipað sé að gerast með almenningsálitið í þessu Guðseiginlandi og gerðist hvað VietNamstríðið snerti á sínum tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband