Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

216. - Melkorka og Brák ligeglade og íturvaxnar

Eins og allir sem Moggablogg lesa hljóta að vita bloggar Ómar Ragnarsson mikið og um flesta hluti.

Eftirfarandi klausa er frá honum:

"Vegna furðulegrar hindrunar sem birst hefur á mbl-vefnum við því að ég færi nýja bloggfærslu ætla ég að reyna að komast inn með því að breyta næstu færslu á undan en láta hana koma á eftir. Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld sagði Gísli Einarsson, vinur minn og félagi, að Brák væri frægasta ambátt Íslandssögunnar. Sá fjórðungur minn sem ættaður er úr Dölum vestur reis upp við dogg og spurði: Hvað um Melkorku?"

Ég segi bara: Látum Borgfirðinga og Dalamenn deila um hvort Egils saga sé merkilegri en Laxdæla. Við Sunnlendingar höfum okkar Njálu.

Mér finnst ekki skrítið þó Landnámssetrið í Borgarnesi og Gísli Einarsson hampi Brák. Frásagnir fornrita af kvenfólki eru merkilegt rannsóknarefni, en lýsa að sjálfsögðu einkum því hvernig ástandið í þessum málum var áður fyrr.

Ekki alls fyrir löngu sá ég einhvers staðar umfjöllun um danska orðið "ligeglad" og hvernig Íslendingar misskilji það gjarnan og haldi að það þýði kátur og til í tuskið en ekki það sem orðabækur segja að það þýði. Mér dettur í hug að þarna sé ef til vill um hægfara merkingarbreytingu að ræða hjá Dönum sjálfum.

Í þessu sambandi má geta þess að ég þykist hafa tekið eftir að íslenska orðið "íturvaxinn" sé smátt og smátt að breyta um merkingu. Mín skoðun á merkingu þess er sú að það merki vel vaxinn eða spengilegur. Ég dreg ekki í efa að sú merking sé í orðabókum. Merkingin feitlaginn eða jafnvel feitur virðist þó á einhvern hátt vera að öðlast þegnrétt í íslenskunni. Upphaflega hefur það eflaust átt að vera fyndið. Það að orð breyti um merkingu er alls ekki sjaldgæft. Oft er það þó svo að notkun orðsins í gömlu merkingunni hefur þá verið nánast horfin úr málinu.

Í dentíð þótti mikill lúxus að fá tómt skyr. Hræringur var venjan. Þá var afgangnum af hafragrautnum frá morgninum hrært saman við skyr. Úr þessu varð heldur ólystug blanda. Nú þykir ekki nóg að fá tómt skyr heldur þarf að vera óblandaður rjómi útá það. Einhvern tíma hefði það verið kallað óheyrilegt bruðl.

Sagt var frá því í fréttum að frestur til að mótmæla einhverju vegna álversins við Húsavík renni út næstkomandi þriðjudag. Gríðarlega er þetta langur frestur. Hann dugir mér þó alveg því ég ætla ekki að mótmæla neinu í þessu sambandi, en einhverjir gætu orðið fúlir.

Bjarni segir að nú sé svo kalt á Bahama að elstu menn muni ekki eftir öðru eins. Hitinn kominn niður í átta stig og peysur orðnar með vinsælustu flíkum.


215. - Einar klink um Breiðavíkurheimilið

Ætlaði að horfa á Breiðuvíkurmyndina um daginn, en gat það ekki vegna þess að ég var að vinna.

Ekki var boðið upp á að horfa á hana eftirá á Netinu svo ég á víst ekki eftir að sjá hana. Ég býst við að það séu höfundarréttarmál sem koma í veg fyrir að myndin sé sett á Netið. Auðvitað geta þá allir sem á annað borð eru tengdir Netinu horft á hana þar. Útlendingar mundu samt líklega ekki horfa í stórum stíl, en sölumöguleikarnir mundu minnka mikið ef hún færi á Netið.

Í bók sem út kom á vegum Hörpuútgáfunnar árið 1989 og heitir "Lífsreynsla" segir frá Einari klink í Vestmannaeyjum og ýmsum fleirum. Þetta er þriðja bindi bókarinnar og frásagnirnar eru rúmlega tíu og eftir ýmsa höfunda. Útgefandi og ritstjóri er Bragi Þórðarson. Sigurgeir Jónsson skrifar þáttinn um Einar, sem lenti í því á unglingsaldri að vera sendur á Breiðuvíkurheimilið og segir meðal annars um það í bókinni:

"Þarna vestra var ég í nærri tvö ár, fermdist þar meðal annars. Þessi vist átti víst að vera til betrunar fyrir mig og aðra sem þarna dvöldu en ég get ómögulega fundið að ég hafi orðið betri maður fyrir vikið né heldur þeir drengir aðrir sem þarna voru samtíða mér. Ég held að ég fari rétt með það að hver einasti þeirra, að okkur Vestmannaeyingunum undanskildum, hafi lent upp á kant við kerfið á lífsleiðinni og stór hluti þeirra verið tíðir gestir á Litla-Hrauni, svo ekki virðist dvölin í Breiðuvík hafa haft göfgandi áhrif."

Fljótlega eftir að Einar Sigurfinnsson kom aftur til Eyja byrjaði hann að drekka og drakk illa. Frelsaðist þó frá Bakkusi að lokum og ég efast ekki um að margir Vestmannaeyingar kannast við hann. Engin ástæða er til að ætla annað en að hvert orð sem hann segir um Breiðuvíkuheimilið sé satt.

Það er eins og sumir álíti að hlutir séu ekki til, ef ekki hefur verið minnst á þá í fréttum sjónvarpsstöðvanna eða fjallað um þá í Kastljósi eða svipuðum þáttum.

Og svo ætlar Ástþór ræfillinn í framboð einu sinni enn. Þetta er nú bara í auglýsingaskyni hjá honum og engin von til þess að hann nái umtalsverðum árangri. Á mig hefur hann helst þau áhrif að ólíklegra verður að ég kjósi.

Ég er feginn að snjórinn er að mestu farinn hér í Reykjavík. Hann er óttalega leiðinlegur. Slagveðursrigning er það svosem líka. Mér finnst umhverfið bara vera fljótara að jafna sig eftir rigningu en snjó. Myrkrið er þó mikið enn. Alveg skelfilega mikið.


214. - Hinn Alþjóðlegi Jafnréttisháskóli rís á Íslandi

Hlustaði áðan á útvarp Sögu. Það er oft kveikt á þeirri stöð á mínu heimili og umræður þar geta verið ansi fróðlegar. Sumu sem þar er sagt verður þó að taka með ákveðnum fyrirvara.

Verið var að ræða við Jens Guðmundsson og Jónu Á. Gísladóttur ofurbloggara. Segja má að bloggarar hafi vakið athygli á  árinu. Moggabloggið er eiginlega sérstakt fyrirbrigði. Aðrir bloggarar hafa gjarnan horn í síðu þess og það er í góðu lagi. Ekki geta allir verið ofurbloggarar og mér er alveg sama um það. Mér finnst gott að komast á Moggabloggslistann yfir 400 vinsælustu bloggana. Þangað kemst ég alltaf  öðru hvoru en dett síðan útaf honum aftur.

Fékk ágætis Canon myndavél í jólagjöf og er smám saman að læra á hana. Eitt er það sem mig vantar og það er hleðslutæki fyrir endurhlaðanleg battery. Myndavélin étur bókstaflega batteryin ef mikið er tekið af myndum og svo er nauðsynlegt að hafa kveikt á henni þegar maður er að læra á hana, sem er talsvert mál. Einn smábæklingur fylgdi með henni og tveir DVD diskar. Ég þarf að stúdera þetta allt þó ég sé, eða hafi a.m.k. löngum verið, eins og flestir karlmenn að líta ekki í leiðarvísa nema brýna nauðsyn beri til.

Íþróttir eru hættulegar. Knattspyrnumenn hrynja niður á vígvellinnum.  (afsakið ég meina knattspyrnuvellinum) Langhlauparar fá hjartaslag, skíðamenn missa stjórnina og steypast á höfuðið, hnefaleikamenn eru lamdir í spað og dugar þá ekki einu sinni að vinna. Antisportistar deyja reyndar líka. Kannski er allt best í hófi, líka íþróttaiðkun.

Samkvæmt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur stendur til að setja á fót hérlendis Alþjóðlegan Jafnréttisháskóla. Miklir  menn erum við Hrólfur minn. Alltaf er hægt að finna eitthvað sem við Íslendingar skörum framúr í. Ég vissi bara ekki að við værum í allra fremstu röð í jafnréttismálum. Ekki mundi ég vilja vinna á "Rannsóknarstofu í kynjafræðum". Þá gengi ég frekar í "Tröllaskoðunarfélag Evrópu".

Myndir sá ég á annarri hvorri sjónvarpsfréttastöðinni áðan. Þar gat að líta íslenska hermenn eða friðargæslumenn eins og þeir eru oft kallaðir. Ég hef áður séð myndir af þessu tagi, en það sem vekur jafnan athygli mína er að þeir eru oftast með íslenska fánann öfugan á handleggnum. Ég hélt að það væri meðfætt að vita að krossinn á að snúa til vinstri, en kannski hefur mér bara verið kennt það þegar ég var skáti.

Sigurður Þór er enn við það heygarðshornið að espa Jón Val upp og virðist þurfa lítið til. Mér finnst það reyndar ágætt hjá honum og trúmálaumræðurnar sem fram fara í svarhölum Sigurðar nægja mér alveg. Verst hvað umræðan er fljót að fara út um víðan völl. Bókstafstrú á borð við það sem Predikarinn svokallaði og Jón Valur boða er einfaldlega tímaskekkja.


213. - Myndagerð á Bifröst og bla bla í bloggheimum

Var að vinna um áramótin.

Tók þó flugeldamyndir héðan af MS-þakinu. Vídeó fyrst vélin leyfði það. Bálhvasst var þarna uppi, svo ég hélt mig innan glugga eftir fyrstu tilraunir. Sendi svo sýnishorn af fyrirbrigðinu "áramót á Íslandi" til Bahamaeyja. Þar vekja þær kannski athygli á skrýtnum Íslendingum.

Hátíðarnar hafa hjá mér að mestu liðið við lestur, sælgætisát og þess háttar eins og hjá mörgum öðrum. Blogga kannski seinna um bækur sem ég er búinn að lesa. Búinn með bæði Harðskafa og Himnaríki og helvíti. Næst er það bókin hans Hrafns. "Þar sem vegurinn endar", minnir mig að hún heiti.

Bla bla bla-ið í okkur bloggurum fékk svolitla umfjöllun í áramótaskaupinu. Og satt er það. Óskaplegt hve mikið er rausað hérna. Og engin leið að nokkur nenni að lesa þessi ósköp öll, hvað þá kommentin sem stundum fara alveg úr böndunum. Nei, takk. Þó ég gerði ekkert annað kæmist ég engan veginn yfir nema lítið brot af bloggheimum. Samt er þetta skárra en fjölmúlavílið, svei mér þá. Eini kosturinn við þetta rugl í vörpunum og blöðunum er að margir kannast við það, svo hægt er að vísa í það formálalaust. Reynt er að velja úr það sem líklegt er að sem flestir hafi áhuga á. Mistekst þó oftast. Í bloggheimum velja menn það sjálfir hverju þeir nenna að fylgjast með.

Þegar ég hóf nám á Bifröst árið 1959 hafði ég áður fiktað við að framkalla og kópíera myndir. Af því leiddi að ég var undireins kjörinn formaður í ljósmyndaklúbbi bekkjarins. Þar var fengist við að framkalla og kópíera myndir og þótti mér það spennandi. Klámblöð nokkur með myndum af allsberu kvenfólki átti ég til. Nú fundum við upp á því að taka myndir af stelpum í skólanum og skeyta andlitum þeirra við kroppana í klámblöðunum og taka síðan myndir af öllu saman.

Ég man eftir því að meðal annars gerðum við myndir af þessu tagi af Ingibjörgu nokkurri Bjarnadóttur sem sagt var að Kári Jónasson formaður ljósmyndaklúbbs eldri bekkjarins væri skotinn í. Kári, sem seinna varð fréttastjóri á ríkisútvarpinu og ritstjóri Fréttablaðsins, útmálaði fyrir mér af þessu tilefni hvað háttalag af þessu tagi gæti haft í för með sér. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég þurfti að gera, en málið lognaðist sem betur fer útaf.

Mig minnir að þessar myndir hjá okkur hafi verið svo illa gerðar að engin leið hafi verið að halda að þær væru raunverulegar. Nútildags er víst fátt auðveldara en að ljúga með ljósmyndum. Ég man ekki lengur hverjir voru með mér í þessu tiltæki en grunar að þar hafi Siggi Félló komið við sögu og líklega fleiri, jafnvel Kiddi á Hjarðarbóli og Gunnar Hallgrímssson.


212. - Áramótaspá og bloggvinir

Jæja, þá er komið nýtt ár. Ég ætla samt ekki að hafa þetta langt og stefni á að blogga frekar oft og lítið, en sjaldan og mikið á þessu ári.

Áslaug setti smá áramótaspá á vefsetrið sitt. Hér er linkur á það. Það er páfagaukurinn Papparass sem hefur orðið.

Verkefni mitt á nýju ári liggur nokkuð fyrir. Það er að skrifa svolítið um bloggvini mína og einkum hvernig mér finnst bloggin þeirra vera. Ég nenni samt ekki að byrja á því strax. Ég sagði rétt fyrir jólin að ég ætlaði að gera þetta og það er á margan hátt spennandi.

Út frá hvaða sjónarmiðum vel ég þá sem ég bið um að vera bloggvini mína?

Mest auðvitað með tilliti til þess að ég missi ekki af því sem þeir skrifa á bloggið sitt. Svo velti ég fyrir mér hvað þeim finnist um að ég sé alltaf með mín blogg ofarlega á þeirra bloggvinalista þegar þeir fara inn á stjórnborðið sitt. Það hlýtur að vera því ég blogga svo oft. Kannski verður það til þess að þeir fara frekar inn á mitt blogg en önnur. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að það auki lestur ef bloggað er oft. Sumir blogga reyndar oft á dag og þá einkum með linkum í fréttir á mbl.is. Ég veit ekki af hverju það er, en ég hef aldrei linkað í fréttir. Mér finnst það hálfgert svindl.

Svona til að vera eins og allir aðrir þá get ég svosem sagt eitthvað um Langjökulsævintýrið. Mér finnst þetta óttalegt glapræði að fara í svona ferð við þessar aðstæður. Ég þekki samt ekkert til málsins nema það sem komið hefur frá fréttamönnum. Svo heyrði ég líka í björgunarsveitarmanni í sjónvarpinu sem fordæmdi þetta flan sterklegar en þeir eru vanir að gera. Óskandi bara að sem flestir læri af þessu.

Verður þetta fuglaflensuár í fjölmiðlum? Margt bendir til þess. Við höfum sem betur fer verið blessunarlega laus við slíkar fréttir alllengi en líklega verður þar breyting á innan skamms og fjölmiðlar verða aftur undirlagðir fuglaflensufréttum.

Ég hef verið að spekúlera svolítið í myndinni frá Fagrahvammi sem ég setti hér upp um daginn og kemur vonandi hér aftur. Ég sagði þá og stend enn við það, að þetta er merkileg mynd. Við nánari athugun og samtöl við fólk hef ég orðið nokkurs vísari um hverjir eru á þessari mynd. Kannski veit Siggi þetta allt saman og er bara að prófa mig.

Jæja, byrjum þá. Fremsta röð frá vinstri. Inga Wium, Paul V. Michelsen, Bóbó Ásgerðar. (Líka oft kallaður Bóbó á hæðinni til aðgreiningar frá öðrum Bóbó sem bjó niður við þjóðveg - ég man bara ómögulega hans rétta nafn). Ég get ómögulega áttað mig á hver það er sem er á bak við Palla Mikk. Sitjandi á hrauknum fyrir framan röðina sem þar er: Vala í Björk (Valgerður Marteinsdóttir ??) Litli strákurinn með hendurnar fyrir andlitinu: Hugsanlega Siggi Ingimars. Síðan röðin sem hæst ber talið frá vinstri: Jóhannes Magnússon (læknis Ágústssonar) Óþekktur (hugsanlega Ólafur Unnsteinsson) Áróra Sigursteinsdóttir, Guðbjörg Kristjánsdóttir, Sigrún Ingimarsdóttir (Já, ég er þeirrar skoðunar að þetta sé líklega frekar Systa en Tóta).


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband