221. - Ættarmót og jólabækur

Já, ég skal reyna að fara að blogga meira. Nógu margt dettur mér í hug.

Spurningin er bara hvað lesendur vilja fá. Ég veit lítið um það. Jú, Gunnar Helgi sonur Denna í Nóatúninu vill lesa um Gufuskála. Lára Hanna vill lesa allt, reikna ég með. Ættingjar vilja líklega helst lesa endurminningar. Hvergerðingar væntanlega um Hveragerði. Miklhreppingar eitthvað frá Vegamótaárunum. Sigurður Hreiðar vill lesa um eitthvað frá Bifröst og svona mætti lengi telja. Ætli ég setji bara ekki hér á blað það sem mér sýnist hverju sinni.

Nú er ég einna uppteknastur af ættarmótinu sem verður í sumar. Eitt sinn héldum við ættarmót á Gufuskálum. Það var eftirminnilegt. Auðvitað var það Denni sem útvegaði okkur aðstöðuna þar. Þá var að mestu búið að leggja loranstöðina niður og við gátum fengið til notkunar um ættarmótshelgina eins mikið af frábærum íbúðum og við kærðum okkur um.

Helgina 13. - 15. júní næstkomandi verður ættarmót í Mýrdalnum. Þar höfum við fengið aðstöðu í skóla einum sem er að Ketilstöðum. Gistingu er hægt að fá á Hótel Dyrhólaey sem er þarna í næsta nágrenni. Hér með vil ég skora á þá ættingja sem ekki hafa ennþá gert neitt í því að skipuleggja þátttöku í þessu ættarmóti að gera það sem fyrst. Þessi áskorun nær víst til mín sjálfs líka.

Ekki man ég hvort ég bloggaði eitthvað um Kalla Bjarna um daginn þegar hann var í Kastljósinu. Líklega ekki, því ég man ekki betur en ég hafi horft á viðtalið við hann á Netinu löngu eftir að umræðan var að mestu um garð gengin. En það er alltaf hægt að taka umræðu upp aftur á blogginu og henni lýkur ekki þar, fyrr en manni sjálfum sýnist.

Las blogg Salvarar og Ólínu um málið og var ekki sammála þeim nema að litlu leyti. Þær virtust báðar þeirrar skoðunar að kastljósið væri með þvi að birta þetta viðtal að taka undir sjónarmið Kalla. Ég lít ekki svo á. Kastljóstið á að koma sem víðast við og alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að kastljósfólkið sé að taka undir nein séstökt sjónarmið með því að birta eða birta ekki einhver ákveðin viðtöl eða þætti.

Ég sá einhvers staðar nýlega auglýsingu þar sem jólabækur frá í fyrra eru auglýstar og því haldið fram að þær séu ekkert verri núna en þær voru í fyrra. Auðvitað er það alveg rétt, en samt er það svo að fólk kaupir ekki gamlar bækur til gjafa og um þetta leyti kaupir fólk einmitt bækur fremur til að lesa þær en til gjafa. Fátæklingar eins og ég fara bara á bókasafnið og reyna að klófesta sæmilegar bækur þar.

Morgunn á New ProvidenceHér er mynd frá Nassau á Bahamaeyjum sem Bjarni tók. Prýðilega góð mynd finnst mér. Nei, þetta er hvorki sólin né tunglið þetta stóra þarna til vinsti. Þetta er bara einhver ljóskastari og myndin er tekin eldsnemma að morgni.

 

 

 

 

 

 

Ég er búinn að lesa fjórar nýútkomnar bækur núna eftir jólin og mig langar að blogga aðeins um þær. Þeir sem ekki kæra sig um að vita neitt um efni þessara bóka ættu bara að sleppa því að lesa það sem eftir er af þessu bloggi. Hinir fá bara óvenjulangt blogg að þessu sinni.

Fyrst ber að telja bókina „Harðskafi". Þessi bók er eins og kunnugt er eftir Arnald Indriðason. Mér finnst hún vera með betri bókum Arnaldar. Mun betri en Konungsbók sem kom út í fyrra og ég las fyrri stuttu. Í þessari bók er málið sem efni bókarinnar snýst um ekki aðalatriðið, heldur snýst bókin að verulegu leyti um persónur bókarinnar og einkum Erlend. Arnaldur er orðinn mjög vel sjóaður í krimmagerð og tök hans á viðfangsefninu eru góð.

„Himnaríki og helvíti". Þessi bók hefur hlotið mjög góða dóma og verðskuldar þá að mörgu leyti. Jón Kalmann er þó full væminn fyrir minn smekk og útmálar hlutina stundum meira en góðu hófi gegnir. Andrúmslofti sögunnar er þó komið mjög vel til skila og þó atburðarásin sé ekki ákaflega merkileg situr hún vel í manni. Einkum situr eftir minningin um róðurinn sem lýst er í upphafi bókarinnar og örlög Bárðar. Skáldskaparleg tök höfunarins á efninu eru aðdáunarverð.

„Þar sem vegurinn endar". Þessi bók eftir Hrafn Jökulsson lætur ekki mikið yfir sér. Það er eins og höfundurinn hafi sest niður og ákveðið að nú þyrfti hann að skrifa bók. Sumar æskuminningar hans eru mjög vel skrifaðar, en í heild er bókin talsverður samtíningur og minnir helst á stílæfingar. Endursögn á efni fornsagna og ýmsar upprifjanir á þjóðlegum fróðleik höfða eflaust til þeirra sem ekki kannast við efnið, en mér finnst þetta varla eiga erindi í bók af þessu tagi. Kannski er bókin bara alls ekki af því tagi sem ég tel hana vera.

„Grunnar grafir". Þessi krimmi hefur ekki hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Skáldlega sýn skortir höfundinn með öllu. Umfjöllun höfundar um söguefnið minnir um margt á skólaritgerð og segja má að það sé ein predikun út í gegn. Fléttan er allan tímann mjög fyrirsjáanleg og lýsingarnar margrar mjög endurtekningasamar. Flest í bókinni er annaðhvort svart eða hvítt. Margt er þar fróðlegt og þó bókin sé klisjukennd, hefur höfundur kynnt sér vel þau mál sem fjallað er um.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir er frá því í fyrra og heitir Með skör járntjaldsins og er eftir Jón Björnsson. Eftir því sem ég best fæ séð er þetta ferðabók í úrvalsflokki. Skrifa kannski meira um hana seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Það er gaman að lesa bloggið þitt, var að ég held skólasystir Vignirs í gamla daga. Kannast við mikið af fólki sem að þú nefnir, og sem að er frá Hveragerði.

Heiður Helgadóttir, 16.1.2008 kl. 04:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég man ekkert  eftir þér. Þú hlýtur að hafa skipt um nafn. Ég mundi muna eftir þessu nafni. Ég þekkti kannski ekki alla sem voru í bekk með Vigni, en flesta hugsa ég.

Alltaf gaman að fá komment. Takk fyrir það.

Sæmundur Bjarnason, 16.1.2008 kl. 04:51

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Arnaldur Indriðason = frábær.

Mér finnst mjög gaman að lesa það sem þú skrifar og sérstaklega þegar þú skrifar minningar sem tengdar eru mér á einhvern hátt  

Pabbi sendi mér boðskort um þetta ættarmót og ég var búinn að gleyma því. Vonandi er það ekki of seint en ég ætla kíkja á þetta og sjá hvort ég hafi möguleika á að koma.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.1.2008 kl. 08:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hann hver? Ég bara veit ekki hvað þú átt við.

Sæmundur Bjarnason, 16.1.2008 kl. 23:03

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps. Nú er ég búinn að lesa bloggið hennar Önnu og veit hvað þú átt við.

Nei, ég er ekki hann.

Sæmundur Bjarnason, 16.1.2008 kl. 23:15

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Alveg rétt hjá þér, Sæmi... ég vil lesa allt. Hef gaman af öllum þínum skrifum.

"Þær virtust báðar þeirrar skoðunar að kastljósið væri með þvi að birta þetta viðtal að taka undir sjónarmið Kalla." Þetta fannst mér ekki - ekki að Kastljósið tæki undir sjónarmið hans. Mér fannst hins vegar Kastljósið fara allt of mjúkum höndum um Kalla og myndatakan og klippingin ýta undir silkihanskagripið.

Eina bókin sem ég hef komist í af nýútgefnum er bókin hans Hrafns. Ég naut þess í botn að lesa hana og fannst þeir kaflar þar sem hann rifjar upp benskuárin og talar um sjálfan sig vera LANGbestu kaflarnir í bókinni. Hitt var fróðlegt en klippti svolítið í sundur samhengið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.1.2008 kl. 00:48

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er ekki viss  um að það hefði þýtt neitt að nota annað en silkihanskagripið. Af hverju hefði átt að nota eitthvað annað? Ég held að það hefði verið alveg tilgangslaust að reyna að fá hann til að segja meira en hann vildi segja fyrir dómstólunum.

Spyrjandinn setur tóninn fyrir viðtalið. Áttu stjórnendur Kastljóssins að neita að birta það vegna of mikillar silkihanskanotkunar?

Sæmundur Bjarnason, 17.1.2008 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband