Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

128. blogg

Merkilegt hve margir lesa bloggið mitt.

Auðvitað er þetta ekki merkilegt stuff, en samt reyni ég alltaf að vanda mig svolítið, því þetta er nánast það eina sem ég skrifa um þessar mundir. Tíminn sem í þetta fer er ekki mikill og alltaf að styttast. Minnstan tíma tekur að fimbulfamba um allt og ekkert eins og ég er að gera núna.

Ef ég er hinsvegar að rifja upp einhverjar gamlar minningar geta skrifin tekið meiri tíma. Stundum gengur samt vel og orðin renna á pappírinn. Er annars rétt að tala um pappír í þessu sambandi? Ég efast um það.

Til að ofgera ekki þeim lesendum sem ég hef, reyni ég alltaf að standa við að skrifa ekki nema einu sinni á dag og ekki óhóflega mikið í hvert sinn. Helst ekki nema svona rúmlega eina blaðsíðu í wordinu mínu með fonti 14.

Í heildina er þetta samt orðið gríðarlegt magn. Það er varla leggjandi á nokkurn mann að lesa þetta allt. Það hef ég þó gert og kannski fáeinir aðrir. Af því að lesendum mínum hefur verið að fjölga undanfarið getur vel verið að ég fari bráðum að endurnýta fyrri skrif.

Mér dettur t.d. í hug að ég gæti vel sameinað í eina færslu það sem ég á sínum tíma skrifaði um brunann á Bláfelli. Fleira minningatengt efni gæti vel komið til greina að endurnýta. Ég lofa því samt að lesendur mínir munu verða aðvaraðir þegar að þessu kemur.

Ég lærði að tefla þegar ég var svona fimm eða sex ára gamall. Þegar ég var 10 eða 12 ára var stofnað taflfélag í Hveragerði. Þar var Axel Magnússon á Reykjum aðalmaðurinn. Hann var besti skákmaðurinn og sá sem dreif þetta áfram. Ég man vel að á sínum tíma tefldu þarna meðal annarra Gestur Eyjólfsson, Hallgrímur Egilsson, Hans Gústafsson, Þórður Snæbjörnsson og einhverjir fleiri. Einnig vorum við þarna viðloðandi nokkrir strákar sem höfðum gaman af að tefla en gátum þó ekki mikið. Ég man samt eftir að hafa tvisvar eða þrisvar komist í úrvalslið þorpsins þegar teflt var á 10 borðum.

Á þessum árum var við lýði árleg skákkeppni milli skákfélaga í Árnessýslu og þó við Hvergerðingar værum langt frá því að vera meðal þeirra bestu tókum við þátt í þessari keppni í allmörg ár. Þarna var teflt á tíu borðum og þótti ekkert sérstaklega mikið. Mér er minnisstæð ein ferð sem við fórum austur að Þingborg til að tefla við Hraungerðishrepp. Kalli Magg keyrði okkur þangað á Garantinum sínum. Á heimleiðinni gaf kúplingin í bílnum upp öndina, en Kalli rak hann bara í gírana án þess að kúpla nokkuð og þannig komumst við heilir heim.

Þarna voru Selfyssingar, Stokkseyringar, Eyrbekkingar og Hraungerðishreppsbúar auk okkar Hvergerðinga og jafnvel einhverjir fleiri þó ég muni ekki eftir því. Selfyssingar og Stokkseyringar voru bestir og varla nema Axel á Reykjum úr okkar hópi sem hafði eitthvað í bestu menn þeirra að gera. Reyndar var einhver Sigurður Jónsson sem skyldur var þeim á Hrauni stundum með okkur og hann var mjög góður.

Meðal þeirra meistara sem ég man eftir úr þessum viðureignum voru t.d. Magnús í Haga, Vilhjálmur Pálsson, Siggi Gísla og svo náttúrulega bræðurnir frá Skipum þeir Sigtryggur og Hannes. Þorsteinn Sigurðsson sem útibússtjóri var hjá kaupfélaginu í Hveragerði um skeið á þessum árum var einnig ágætis skákmaður. Sömuleiðis man ég vel að Frímann fangavörður tefldi stundum fyrir þá Stokkseyringa.

Við vorum þrír strákar í Hveragerði sem stundum vorum kenndir við mæður okkar auk feðranna. Það voru: Mummi Gunnu Bjarna Tomm = Guðmundur Bjarnason sem lést fyrir nokkrum árum en stundaði sjóinn til margra ára. Maggi Klöru Kalla Magg = Magnús Karlsson sem fórst í snjóflóðinu á Flateyri um árið og svo ég sem stundum var kallaður Sæmi Rósu Bjarna Sæm og lifi enn.

Þetta þótti engum mikið í þá daga, þó nú sé óskapast mikið útaf uppnefnum. Menn voru bara fremur uppnefndir áður fyrr, einkum í minni plássum þar sem allir þekktu alla og götur, húsnúmer og húsanöfn voru svolítið á reiki.

 

Hans Haraldsson heitir Moggabloggari einn sem þeim Morgunblaðsmönnum hefur þótt ástæða til  að vekja sérstaka athygli  á. A.m.k. birtast blogg frá honum oft á forsíðu bloggsins.

Mér finnst skoðanir hans vera mjög öfgakenndar þó hann sé greinilega vel að sér  um suma hluti. Nýjustu færslu sinni hefur hann valið fyrirsögnina "Eigum við að ganga í Zimbabwe?" Ef þessi titill er einkennandi fyrir það sem Hans kallar vitræna umræðu þá verð ég  bara  að segja pass.


127. blogg

Eiginlega finnst mér að banna ætti með öllu að veita afslætti af vörum.

Manni finnst alltaf að maður sé að missa af einhverju í hvert skipti sem maður kaupir sér eitthvað. Ef manni tekst að kría út einhvern smáafslátt þá er maður með lífíð í lúkunum yfir að einhver annar hafi kannski fengið meiri afslátt og að maður hefði átt að segja eitthvað annað en maður sagði.

Það er alveg afleitt að hafa ekki bara eina ríkisverslun eða að minnsta kosti verðlagseftirlit eins og í gamla daga. Þá gat maður treyst því að engir fengu annað en sín franskbrauð eða heilhveitibrauð og fyrirbrigði eins og brauðdagar og kökudagar þekktust ekki.

Nú er svo komið að allt fer á annan endann í þjóðfélaginu ef maður gengur út úr bakaríinu frekar en að láta einhverjar asíudruslur afgreiða sig. Ég segi það satt. Ég skil þetta bara ekki.

Þó bakaríin séu slæm þá eru aðrir staðir verri. Ég nefni bara stórmarkaðina. Nú getur maður ekki einu sinni farið út í KRON og fengið sér hákarlsbita. Nei, maður verður að skakklappast út í Bónus og ef maður er heppinn þá finnur maður á endanum pínulitla plastkrús með örlitlum hákarlsbitum í og þegar maður ætlar að láta sig hafa það og kaupa samt þessa hungurlús, þá dynja á manni skammirnar á pólsku, þegar maður kemur að kassanum. Skammir hljóta það að vera eftir svipnum á manneskjunni að dæma. Ég skil reyndar ekki pólsku en ef hún er bara að spyrja hvort ég ætli ekki að loka dósinni aftur, þá er óþarfi að setja upp svona svip. Ekki er lyktin svo slæm. Eiginlega engin miðað við almennilegan hákarl.

Og lítið á hvernig komið er fyrir Símanum. Áður fyrr voru það bara stórgrósserar og síldarspekúlantar sem gátu leyft sér að hringja til útlanda. Venjulegir sérajónar urðu að láta sér nægja að hringja til Steinu frænku á Kópaskeri. Þá kostaði heilt húsverð að hringja til Ástralíu enda datt engum slík fjarstæða í hug.

En hvernig er þetta orðið núna? Venjulegt fólk flatmagar í sófanum með heyrnartæki á höfðinu og spallar um heima og geima við vinkonur sínar í Sierra Leone og segir að það kosti ekki krónu. Ja, heimur versnandi fer. Eina ráðið til að halda uppi skynsamlegu verði á símaþjónusu hefði verið að Síminn væri áfram í eigu ríkisins. Eins og nú er komið stefnir þetta lóðbeint til andskotans. Það mátti alltaf senda símskeyti ef mikið lá við. Núna kvartar fólk og kveinar ef það getur ekki hringt út um allar jarðir úr farsímanum sínum ef bíllinn bilar uppi á heiði.

Hver á svo að borga fyrir alla ljósleiðarana, farsímana, skiptistöðvarnar og allt það drasl þegar símafélögin eru komin á hausinn? Því þangað stefna þau öll með tölu með svona verðlagningu. Ég sé ekki betur en ríkið verði bara að leysa allt svínaríið til sín og þá væri kannski hægt að leiðrétta verðin svolítið.

Þegar ég skrifaði þetta fannst mér það svolítið fyndið.  Nú sé  ég að hugsanlegt er að einhverjir  taki þetta alvarlega  og haldi að ég meini þetta. Slíkt væri slæmt. En ætli ég láti þetta ekki bara flakka samt.

Þar til fyrir nokkrum árum notaði ég stundum strætó og þótt kerfið væri dálítið ruglingslegt var vel hægt að læra á eina eða tvær leiðir og hafa talsvert gagn af vögnunum. Þetta er liðin tíð. Mig minnir að það hafi verið um svipað leyti og Reykjavíkurstrætó sameinaðist Kópavogsstrætó og Hafnarfjarðarstrætó að kerfinu var gjörbreytt og gert óskiljanlegt öllu venjulegu fólki.

Nokkrum sinnum hef ég reynt að nota strætó eftir þetta en það hefur ekki gengið upp. Því miður virðast vagnstjórarnir flestir vera jafnmikið á móti þessu kerfi (og skilja jafn lítið í því) og hinn almenni notandi. Nú í vetur hefur verið gerð tilraun til þess að hafa ókeypis í strætó fyrir sumt skólafólk og vel getur verið að einhverjir tilteknir vagnar á tilteknum tímum, sem henta námsmönnum vel, séu talsvert notaðir. Að öðru leyti held ég að það sé að takast að gera allan almenning með öllu afhuga strætó. Jú, kannski nota Akurnesingar vagnana eitthvað eftir að ákveðið var að slátra Sæmundi Sigmundssyni, en eflaust verða ferðir þangað lagðar niður fljótlega fyrst þær eru notaðar eitthvað.


126. blogg

Það er þetta með íslensku krónuna og vextina.

Stýrivextir Seðlabankans hækka og hækka. Eftir því sem Davíð segir er það gert til þess að verðbólgan minnki. Hún minnkar samt ekkert. Ef verðbólgan minnkaði allt í einu mundu stýrivextirnir kannski fara smám saman að lækka. En ef það gerðist þá mundu jöklabréfin svokölluðu eflaust öllsömul verða seld í flýti og þar með gæti gengi krónunnar fallið einhver ósköp á nokkrum klukkutímum. Sennilega er því best allra hluta vegna að stýrivextirnir haldi bara áfram að hækka og hækka. Þegar þeir verða komnir yfir 100 prósent verða allir hvort eð er fyrir löngu hættir að taka mark á ruglinu í Dabba og halda bara áfram að kaupa í matinn fyrir sínar evrur.

Þetta er nú dálítið nöturleg framtíðarspá.

Ég spái því líka að þegar Ólafur Bölvar og Ragnar Grímsson hættir sem forseti þá fái hann sæmilega feitt embætti hjá Sameinuðu Þjóðunum, NATO eða Parliamentarians for Global Action. Sumum finnst sú spá áreiðanlega ennþá nöturlegri en sú fyrri. Svo þarf þó ekki að vera. Óli grís er alls ekki vitlaus og svo talar hann fína ensku.

Fyrir nokkrum árum var þessi vísa ort:

Úti í snjónum flokkur frýs

fána sviptur rauðum.

Ólafur Ragnar Grímsson grís

gekk af honum dauðum.

Asskoti er hann Jafet alltaf skynsamlegur þegar hann talar um fjármál og þess háttar vitleysu. Það liggur við að maður trúi honum. Aftur á móti trúi ég aldrei Ingva Hrafni hvað sem hann öskrar hátt og hve stórt sem hann tekur upp í sig. Þeir Jafet og hann eru samt nokkuð góðir saman. Svona næstum því eins góðir og Sigurður G. Tómasson og Guðmundur meiraprófsbílstjóri þegar þeir leiða saman hesta sína á Sögunni á föstudagsmorgnum.

Þeir fóstbræður hafa gaman af að tala illa um fólk og hlæja stundum ógeðslega þegar þeir eru sem kvikindislegastir. Annars eru þeir óneitanlega skemmtilegir saman og Sigurður G. Tómasson er indælis útvarpsmaður og það er sérlega gaman að hlusta á hann þegar hann les úr ritum afa síns.

Það er ekkert undarlegt þó þeir Guðmundur og Sigurður séu álitnir Rússlands-sérfræðingar fyrir það eitt að lesa uppúr dagblöðum þaðan að austan. Þegar skoðuð er heimsmynd hérlendra fjölmiðlamanna gæti virst sem við værum ein af smáeyjunum við Englandsstrendur. Þó undir talsverðum áhrifum frá Sámi frænda.

Og nú fer Alþingi að koma saman. Þá rifjast upp fyrir manni hverjir duttu útaf þingi í vor og hvaða nýjir þingmenn bætast nú í hópinn. Ég mun án efa fylgjast best með frænda mínum Bjarna Harðarsyni þó hann sé framsóknarmaður. Ég er víst skráður framsóknarmaður líka eftir að ég hjálpaði Bjarna í baráttunni við Vetnis-Hjálmar í prófkjörinu í vor. Ég fæ alltaf öðru hvoru tilkynningar í tölvupósti um framsókanrvist, fjallgöngur og þess háttar frá Framsóknarfélagi Kópavogs. En skítt með það, ég hef nú átt við erfiðari vágesti að fást um ævina en það.

Sennilega mætti kalla þetta vitleysisblogg, en svona gæti ég látið dæluna ganga endalaust og þá mundi Lára Hanna varla kalla bloggið mitt greindarlegt. Spurning er hversu jákvætt það er að vera greindarlegur. Eflaust betra en að vera heimskulegur. Best væri náttúrlega að vera töff.

Anna var að ráðleggja mér í kommenti að lesa einhverja bók eftir Þorgrím Þráinsson. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei lesið neitt eftir þann ágæta höfund. Þorgrímur bloggar reglulega á eyjunni. (thorgrimur.eyjan.is) Hingað til hefur Þorgrímur verið í "tár, bros og takkaskór" skúffunni hjá mér, auk þess sem ég hef heldur haft horn í síðu hans vegna antitóbaks trúboðsins.

Einu sinni sá ég lista sem unninn var uppúr einhverri könnun meðal skólafólks. Á þessum lista voru hundrað merkustu bækur sem samdar höfðu verið á 20. öldinni. Meðal tíu efstu bókanna á þessum lista voru tvær eða þrjár eftir Þorgrím Þráinsson. Það þótti mér furðulegt, en það bendir þó ótvírætt til þess að einhverjir kunni að meta hann, þó ég geri það ekki.

Kannski ætti ég að endurskoða álit mitt á honum og fara að lesa hann. Það er eiginlega helvíti hart að fordæma höfund án þess að hafa lesið nokkuð eftir hann.

Nýjasta innlegg Sigurðar Hreiðars (auto.blog.is) bloggvinar míns sem hann nefnir "Ómar að handan" er einhver fyndnasta bloggfærsla sem ég hef lesið. Ég ráðlegg öllum að kíkja á hana.


125. blogg

Málefni íslenskunnar eru mikið rædd um þessar mundir.

Meðal annars er rætt um það hvort æskilegt sé að afgreiðslufólk í stórmörkuðum tali önnur tungumál en íslensku og kunni hana ekki. Mér finnst ekki skipta neinu máli hvort fólk þar er mælt á íslensku eða ekki. Hinsvegar þarf nauðsynlega að vera hægt að kalla á íslenskumælandi fólk ef þörf krefur og ég efast ekki um að svo sé.

Fyrir nokkru tókst mér með mikilli snilld að læsa bíllykilinn minn inni í bílnum þó það eigi varla að vera hægt. Ég vissi af aukalykli heima svo ég ákvað að taka bara strætó heim og sækja hann. Þegar ég kom á Hlemm fór ég inn í vagn sem mér fannst líklegur til að fara í Kópavog og spurði vagnstjórann hvort hann færi þangað. Aumingja maðurinn skildi greinilega ekki orð í íslensku en svolítið í ensku svo ég komst fljótlega að því að hann hafði ekki hugmynd um hvort hann væri á leiðinni í Kópavog eða ekki. Þó hann væri alveg að fara af stað gaf hann mér kost á að fara inn og spyrja hvort þessi tiltekni vagn færi til Kópavogs. Svo var og þegar við komum þangað fór ég út og vagnstjórinn sagði undrandi við mig: "Is this Kópavogur?"

Ég hef nokkrum sinnum lent í því í Bónus að afgreiðslufólk þar á kössum kann hvorki íslensku né ensku. Slíkt getur hæglega valdið vandræðum og mér finnst að vinnufélagar og yfirmenn þessa fólks þurfi að gæta þess vel að fæla fólk ekki frá versluninni.

Mörður Árnason hélt því fram í Kastljósi rétt áðan að hvergi tíðkaðist erlendis að þjónusta færi fram á öðru máli en því sem ríkjandi væri í viðkomandi landi. Þetta er tómt bull. Sem betur fer er veruleikinn sjaldan sá sem hann heldur. Fyrir meira en 20 árum síðan lenti ég í því í Noregi að þjónn á veitingahúsi þar kunni enga norsku og enga ensku heldur. Frönsku kunni hann og eitthvert hrafl í þýsku, en það kom mér ekki að neinum notum. Þetta er einfaldlega nokkuð sem maður getur alltaf lent í.

Efast má um hvort rétt er að láta fólk sem ekki kann a.m.k. íslensku eða ensku vinna við afgreiðslu. Mér finnst samt að þetta sé atriði sem verslunareigendur verði að fá að ráða sjálfir. Nóg er nú ófrelsið samt.

Ég vara hinsvegar við því enn og aftur og mjög eindregið að tillögur Ágústs Ólafar Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar verði að veruleika. Að viðurkenna annað mál en íslensku við stjórnsýsluna er stórhættulegt og býður heim allskyns erfiðleikum. Þar að auki getur þetta orðið óheyrilega dýrt áður en við er litið.

Heyrði í útvarpinu í dag að einhver bátur ætti í erfiðleikum í Jökulfirði. Þetta fannst mér skrýtið enda er nú komið í ljós að sá sem skrifaði fréttina hefur verið óttalegur rugludallur. Það er a.m.k. enginn fjörður í Jökulfjörðum sem heitir Jökulfjörður.

Á sama hátt og mönnum þótti mjög ólíklegt fyrir ári síðan eða svo að Bandaríkjamenn mundu nokkurntíma ráðast inn í Íran, þá þótti mörgum líka ósennilegt á þeim tíma að Sjálfstæðisflokkurinn færi að berjast fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Nú er samt orðið augljóst að hvorttveggja á eftir að gerast áður en langt um líður.


124. blogg

Hver var Sunneva Jónsdóttir?

Hún fæddist á fyrri hluta 18. aldar. Faðir hennar dó áður en hún fæddist. Móðir hennar þegar hún var 8 ára. Bróðir hennar barnaði hana þegar hún var 15 eða 16 ára og sýslumaðurinn sem hafði hana í gæslu síðan aftur nokkru seinna og svo var henni drekkt. Eða var henni kannski ekki drekkt, ég man það ekki. Allavega stóð það til. Ég er ekki alveg búinn með bókina og veit ekki hver niðurstaðan er þar.

Þetta er í afar stuttu máli ævisaga aðalpersónu Sunnevumálanna svonefndu en auðvitað er margt fleira sem ástæða er til að segja frá. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þetta fræga mál. Ég var að enda við að lesa sögulega skáldsögu um það. Sú saga er skrifuð árðið 1978 og fyrst gefin út í London það sama ár undir nafninu "Men at Axlir".

Eiginlega er þetta frekar léleg bók, en efnið er áhugavert. Höfundurinn virðist á stöku stað ekki hafa alveg nógu góða þekkingu á íslensku samfélagi og síðan er alltaf öðru hvoru skotið inn rómantískum náttúrulýsingum sem mér finnst trufla frásögnina og í heild er sagan eins og hún hafi verið skrifuð fyrir mörgum öldum þó málfarið og stíllinn sé nokkurn vegin í nútímahorfi.

Lára Hanna skrifaði komment á síðustu bloggfærslu hjá mér og kallaði bloggið mitt greindarlegt og yfirvegað. Líklega er það alveg rétt hjá henni og vel getur verið að fleirum finnist svo vera. Sennilega hefði ég þó notað einhver önnur lýsingarorð ef ég hefði verið neyddur til að segja eitthvað um það sjálfur.

Það var svo sannarlega margt ágætisfólk sem ég kynntist á árunum mínum á Stöð 2 og Lára Hanna er þeirra á meðal. Auðvitað detta mér ýmsar þýðingarsögur í hug þegar ég hugsa til Láru Hönnu enda var hún yfirþýðandi á Stöð 2 um tíma.

Í Bond-myndinni "Octopussy" sem sýnd var eitt sinn á Stöð 2 sagði Bond við einhverja píu sem hann var að reyna við: "Would you like a nightcap?" Þetta var þýtt þannig að hann var látinn segja við aumingja stúlkuna: "Viltu nátthúfu?"

Í sjóræningjamynd sem átti að gerast fyrir mörg hundurð árum segir ein aðalpersónan: "My father is a pilot". Þetta var umsvifalaust þýtt með: "Pabbi minn er flugmaður".

Eflaust hef ég sagt frá þessu fyrr, en góð vísa er aldrei of oft kveðin og sjálfur hef ég eiginlega tekið upp þann sið að kalla það sem sumir kalla orðabókarþýðingar einfaldlega nátthúfuþýðingar.


123. blogg

Einföldun á merkingu hugtaka í pólitískri umræðu getur verið skemmtileg.

Ég man t.d. eftir því að mér þótti fróðleg sú skilgreining Bjarna Harðarsonar sem hann setti eitt sinn fram í þætti hjá Agli Helgasyni um að í grunninn væru allir Íslendingar annað hvort framsóknarmenn eða kratar. Samskonar hugsun þóttist ég seinna finna í greiningu Þorvaldar Gylfasonar í sama þætti þar sem hann hélt því fram að Íslendingar væru ýmist opingáttarmenn eða einangrunarsinnar.

Í þessari skilgreiningu flokka ég framsóknarmenn að sjálfsögðu sem einangrunarsinna. Umræða sú sem nú fer fram um íslenska tungu er mjög merkileg. Einangrunarsinnar vaða þar uppi með Kristján B. Jónasson og Pál Vilhjálmsson fremsta í flokki. Sr. Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn reynir að malda í móinn. Ég er mun meira sammála Baldri því ég tel að úr því íslensk tunga stóðst Dönum og dönskunni snúning þó Danir réðu hér lögum og lofum öldum saman, þá sé henni ekki hætt gagnvart enskunni nú á dögum.

Auðvitað gengur ekki að stórfyrirtæki hafi þetta eins og þeim sjálfum sýnist. Mér finnst virðingarvert hjá Sigurjóni Landsbankastjóra að segja að til greina komi að enska verði ríkjandi innan bankans. Tillögur Ágústs Ólafs Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar um að enskan verði gerð jafnrétthá íslenskunni í stjórnsýslu hérlendis finnst mér hinsvegar mjög varhugaverð.

Það er allt í lagi að flytja inn útlendinga til að vinna hér ýmis störf fyrir okkur. Það er líka í lagi að einfalda þá hluti sem snúa að fyrirtækjum sem mikil umsvif hafa erlendis, en varlega verður að fara þegar að stjórnsýslunni kemur. Þar má alls ekki slaka á, án þess að íhuga málið vel.

Auðvitað er virðingarvert að ferðast um heiminn og lyfta fólki. Hvort það ásamt svolitlum skammti af innhverfri íhugun og friðarhjali er nægilegt til að fá friðarverðlaun Nóbels er vafasamara. Ég þekki þó alltof lítið til starfa Sri Cimnoy til að geta tjáð mig meira um þetta mikilsverða mál.


122. blogg

Er ritað mál ofmetið?

Já, ég er helst á því. Auðvitað samt ekki af öllum. Sumum finnst, eins og mér, að ritað mál sé upphaf og endir alls. Unga fólkið í dag held ég að kunni miklu betur að meta myndmálið en við sem eldri erum. Það er alþjóðlegt og myndir og hljóð af öllu mögulegu tagi verða fólki sífellt aðgengilegri.

Auðvitað er mikið skrifað enn þann dag í dag. Mörgum finnst jafnvel meira skrifað nú en áður, því ritað mál nú er miklu sýnilegra en var. Gallinn er bara sá að ótrúlega mikið af þessu ritaða máli er afar lélegur texti og hefði ekki komið fyrir margra augu áður fyrr. Okkur sem þykjumst geta skrifað sæmilegan texta finnst helvíti hart að ritað mál sé sífellt að láta undan síga. Samt er áreiðanlega svo.

Myndirnar og talaða málið munu leggja heiminn undir sig. Kannski verða örfá orð rituð til skýringa á milli mynda, en orðin verða ekki aðalatriðið. Fólk mun þó eflaust halda áfram að tala saman með orðum. Bara ekki skrifa þau niður, það er svo seinlegt.

Bókin sem ég er að byrja á núna heitir "Sunnefumálin" og er eftir Dominic Cooper. Þýðandi er Franzisca Gunnarsdóttir. Bókin er gefin út árið 1980.

Hún fjallar um hin frægu Sunnefumál (ég mundi nú frekar hafa þetta Sunnevumál) á Austurlandi á 18. öld og afskipti Hans Wium sýslumanns af þeim og seinna dómsmálum yfir honum.

Án þess að ég hafi kynnt mér það nokkuð sérstaklega held ég að þýðandi þessarar bókar sé áreiðanlega dóttir Gunnars Gunnarssonar skálds.

Þetta er söguleg skáldsaga og ég efa ekki að þar mun margt athyglisvert koma fram því ég veit ekki betur en sagan byggi á sönnum atburðum að langmestu leyti.

Ein vísa er mér ofarlega í huga í hvert skipti sem ég heyri minnst á Sunnevumálin en hún er svona:

Týnd er æra, töpuð sál.

Tungl veður í skýjum.

Sunnevunnar sýpur skál

sýslumaður Wium.

Önnur ljóðlínan í þessari vísu er það sem ég mundi kalla augljóst dæmi um hortitt. Samt er þetta góð vísa.


121. blogg

Það virðist útbreidd skoðun hjá þeim sem ekki blogga á Moggablogginu að þar sé um heldur klént fyrirbrigði að ræða.

Á Moggablogginu eru samt margir fínir bloggarar. Önnur bloggsetur eru ekkert merkilegri fyrir það eitt að vera eldri í hettunni. Hverjir stjórna bloggsetrum skiptir samt máli. Það skiptir líka máli hvernig um bloggin er hugsað. Hvort þar er auðvelt og þægilegt að blogga og hvort þar er boðið upp á allskyns fídusa eða ekki og hvernig þeir eru kynntir.

Þó bloggvinagerðin hjá Moggablogginu sé ágætis uppfinning finnst mér að þar þyrfti líka að vera hægt á auðveldan og þægilegan hátt að setja ákveðin blogg (Moggablogg og önnur) í einhvers konar minnislista án þess að bloggvinagerð með samþykki beggja aðila þurfi að koma til. Kannski er þetta hægt án þess að ég kunni það. Auðvitað er hægt að bookmarka, en maður er ekki alltaf í sömu tölvunni og ágætt væri að hafa aðgang að þessu án tillits til þess hvaðan maður nálgast bloggsetrið.

„Kristján biðst afsökunar" var fyrirsögn í einhverju blaðinu sem ég sá bregða fyrir núna áðan. Vel getur verið að núverandi samgönguráðherra hafði skárra pólitískt nef en Róbert Marshall en mér finnst ótrúlegt að hann sé búinn að bíta úr nálinni með þetta Grímseyjarferjumál þó hann haldi það kannski sjálfur.

Svo er maður hér á Moggablogginu sem heitir Kristján  B. Jónasson og bloggar oft um bækur og íslenska tungu af talsverðu viti. Ég bað hann um daginn að gerast bloggvinur minn og Sr. Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn les ég oft líka og er að hugsa um að betla vinskap hjá honum. Þá ber svo við að Kristján ræðst með offorsi á Baldur fyrir að mæla ensku bót. Þarna þykist ég nú vera dálítið á heimavelli og er eiginlega mjög svo sammála báðum. Sem er ekki mjög gott.

Harpa Hreinsdóttir á Akranesi hefur líka gott vit á íslensku og er að ég held ekkert hrædd við enskuna. Mér leiðist að hafa uppnefnt hana á blogginu mínu um daginn og bið hana hérmeð afsökunar á því. Það er ljótt að uppnefna fólk og hún átti það ekki skilið.

Hún hefur margt til síns máls í sambandi við þessar rollur sem drukknuðu. Þeir sem kommentuðu með henni á bloggið hjá Bjarna Harðarsyni voru leiðinlega orðljótir við hana. Kæruleysið við meðferð dýra er oft óskaplegt. Mönnum virðist t.d. vera nokkuð sama þó vitlaus lyf fari ofan í dýr bara af því að þau eru talin óæðri og að lemja og pína dýr er ekki einu sinni álitið afbrot.


120. blogg

Margt og mikið mætti skrifa um bloggskrif og blogglestur, að ég tali nú ekki um bloggvini og önnur bloggsetur en Moggabloggsetrið.

Held að ég geri það samt ekki núna. Einhverjir gætu fonnemast.

Já, ég sé að dönskusletturnar eru mér oft eðlilegar. Fonnemast þýðir móðgast og er afbökun úr dönsku en þar er gjarnan sagt at blive fornærmet. Í mínu ungdæmi var þetta þó sagt svona. Krakkarnir mínir og sumir aðrir sem ég umgengst skilja stundum ekkert í þessum dönskuglósum mínum. Nú á dögum er það enskan sem öllu ríður á slig.

Verst hvað fáir lesa mitt eðla blogg. Þeir geta sjálfum sér um kennt og ekki get ég gert að því þó þeir missi af einhverju vel sögðu og góðum dönskuslettum.

Líka er hægt að skrifa um hvernig maður notar bloggið. Ég er t.d. nú nýlega búinn að uppgötva að miklu betra er að skrá sig inn á bloggið og skruna þar yfir nýjustu færslurnar hjá bloggvinunum en að gera þetta eins og ég var vanur. Þ.e. að klikka á myndirnar eða nafnið hjá þeim. Ég vil nefnilega gjarnan fylgjast með því hvað mínir bloggvinir skrifa. Með þessu móti getur það verið viss ókostur að eiga of marga bloggvini enda safna ég þeim ekki eins og frímerkjum líkt og sumir virðast gera.

Bjarni er búinn að fá pakkann sinn. Merkilegt nokk þá var hann alveg látinn í friði. Bjarni fékk því sinn harðfisk og sitt Ópal ósnert. Bahamabúar kunna ekki að meta svona góðgæti svo hann getur líklega setið að þessu einsamall. Annars er aukabrúðkaupsveisla hjá honum í dag. Vona að allt gangi vel þar.

Spjallaði talsvert við Bjarna í gær gegnum tölvuna, en slíkt kostar víst ekki neitt. Það er af sem áður var þegar maður tímdi helst ekki að tala í síma til útlanda því það var svo dýrt. Nú er aftur á móti orðið svo dýrt að senda pakka til útlandsins að það gerir maður helst ekki.

Auðvelt er að skrifa langt mál um lítið efni. Vonandi er þó ekki of seinlegt að lesa þetta raus.

Mundi skyndilega og óforvarendis  (dönskusletta enn og aftur) eftir einu bæjarnafni til viðbótar við þau sem ég greindi frá um daginn: Það er nafnið Bognibrestur.


119. blogg

Ég er að hugsa um að fréttablogga smá núna.

Þó ætla ég ekki að linka í fréttir á mbl.is. Það finnst mér vera hálfgert svindl. Ef menn hafa áhuga á að lesa rausið í mér þá gera þeir það væntanlega. Engin þörf að plata fólk hingað.

Það sem mér finnst langmerkilegast við þetta McCann mál sem tröllriðið hefur fjölmiðlum og bloggum hér á Íslandi í allt sumar er að það skuli vera svona óskaplega mikið í fréttum. Víst er þetta hið sorglegasta mál, en ég held samt að annað eins hafi nú gerst. Líklegasta skýringin finnst mér að fjölmiðlar hér séu að apa eftir fjölmiðlum á Englandi og fjölmiðlar þar fjalli svona mikið um þetta mál vegna þess að þeir hafi ekki um margt annað að skrifa um þessar mundir. Bloggarar hér draga svo áreiðanlega talsverðan dám af fjölmiðlaumræðunni sem aftur stjórnast að nokkru leyti af bloggum og þá er málið komið í hring og vindur sjálfkrafa uppá sig.

Í útvarpsfréttum var sagt frá því áðan að einhver auðhringur væri að skipuleggja mikla miðbæjarbyggð í eða að minnsta kosti nálægt Skuggahverfinu. Í viðtali lét talsmaður hringsins í það skína að langmikilvægasta markmiðið með þessu og jafnvel það eina væri að stuðla að fegurra mannlífi. Þetta finnst mér alls ekki trúverðugt. Auðhringur sem ekki vill kafna undir nafni hugsar að sjálfsögðu fyrst og fremst um peninga. Tilgangurinn með þessu öllu er eflaust sá að græða sem mest. Hitt getur svo sem best komið á eftir og vel getur verið að þetta sé gert af góðum hug. 

Undarlegt að vera með langt viðtal við mann sem svindlaði svo mikið að hann setti stóran og virðulegan banka á hausinn. Þó þeir séu eflaust margir sem gjarnan vildu setja banka á hausinn þá get ég ekki séð að peningaglæpir séu neitt merkilegri en aðrir glæpir. Sennilega er maðurinn bara að þessu í gróðaskyni. Skrítið af Þórhalli að gleypa við þessu rugli.

Mynd getur sagt meira en þúsund orð er oft sagt og víst er það rétt. Fáein orð geta líka sagt meira en þúsund myndir þó það sé sjaldgæfara. Mér er vel ljóst að myndmál í víðum skilningi er tungumál morgundagsins. Unglingar nútildags skilja það mál oft býsna vel án þess að hafa hugmynd um það. Ef horft er á það sem birtist manni á Netinu sést vel hve myndin er farin að skipta miklu máli. Einn af helstu kostum hennar er sá að hún er alþjóðleg. Það þarf ekki að kunna neitt sérstakt tungumál til að geta tileinkað sér það sem hún segir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband