123. blogg

Einföldun á merkingu hugtaka í pólitískri umræðu getur verið skemmtileg.

Ég man t.d. eftir því að mér þótti fróðleg sú skilgreining Bjarna Harðarsonar sem hann setti eitt sinn fram í þætti hjá Agli Helgasyni um að í grunninn væru allir Íslendingar annað hvort framsóknarmenn eða kratar. Samskonar hugsun þóttist ég seinna finna í greiningu Þorvaldar Gylfasonar í sama þætti þar sem hann hélt því fram að Íslendingar væru ýmist opingáttarmenn eða einangrunarsinnar.

Í þessari skilgreiningu flokka ég framsóknarmenn að sjálfsögðu sem einangrunarsinna. Umræða sú sem nú fer fram um íslenska tungu er mjög merkileg. Einangrunarsinnar vaða þar uppi með Kristján B. Jónasson og Pál Vilhjálmsson fremsta í flokki. Sr. Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn reynir að malda í móinn. Ég er mun meira sammála Baldri því ég tel að úr því íslensk tunga stóðst Dönum og dönskunni snúning þó Danir réðu hér lögum og lofum öldum saman, þá sé henni ekki hætt gagnvart enskunni nú á dögum.

Auðvitað gengur ekki að stórfyrirtæki hafi þetta eins og þeim sjálfum sýnist. Mér finnst virðingarvert hjá Sigurjóni Landsbankastjóra að segja að til greina komi að enska verði ríkjandi innan bankans. Tillögur Ágústs Ólafs Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar um að enskan verði gerð jafnrétthá íslenskunni í stjórnsýslu hérlendis finnst mér hinsvegar mjög varhugaverð.

Það er allt í lagi að flytja inn útlendinga til að vinna hér ýmis störf fyrir okkur. Það er líka í lagi að einfalda þá hluti sem snúa að fyrirtækjum sem mikil umsvif hafa erlendis, en varlega verður að fara þegar að stjórnsýslunni kemur. Þar má alls ekki slaka á, án þess að íhuga málið vel.

Auðvitað er virðingarvert að ferðast um heiminn og lyfta fólki. Hvort það ásamt svolitlum skammti af innhverfri íhugun og friðarhjali er nægilegt til að fá friðarverðlaun Nóbels er vafasamara. Ég þekki þó alltof lítið til starfa Sri Cimnoy til að geta tjáð mig meira um þetta mikilsverða mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamli vinur og vinnufélagi,

Vildi bara láta þig vita að ég les bloggið þitt á hverjum degi
síðan ég uppgötvaði það.

Stundum er ég sammála þér, stundum ósammála.
Það er lífsins gangur.
En alltaf finnst mér gaman að lesa það sem þú skrifar,
skrif þín eru greindarleg og yfirveguð - eins og þín er von og vísa.

Bestu kveðjur,
Lára Hanna

Lára Hanna 26.9.2007 kl. 02:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband