126. blogg

Það er þetta með íslensku krónuna og vextina.

Stýrivextir Seðlabankans hækka og hækka. Eftir því sem Davíð segir er það gert til þess að verðbólgan minnki. Hún minnkar samt ekkert. Ef verðbólgan minnkaði allt í einu mundu stýrivextirnir kannski fara smám saman að lækka. En ef það gerðist þá mundu jöklabréfin svokölluðu eflaust öllsömul verða seld í flýti og þar með gæti gengi krónunnar fallið einhver ósköp á nokkrum klukkutímum. Sennilega er því best allra hluta vegna að stýrivextirnir haldi bara áfram að hækka og hækka. Þegar þeir verða komnir yfir 100 prósent verða allir hvort eð er fyrir löngu hættir að taka mark á ruglinu í Dabba og halda bara áfram að kaupa í matinn fyrir sínar evrur.

Þetta er nú dálítið nöturleg framtíðarspá.

Ég spái því líka að þegar Ólafur Bölvar og Ragnar Grímsson hættir sem forseti þá fái hann sæmilega feitt embætti hjá Sameinuðu Þjóðunum, NATO eða Parliamentarians for Global Action. Sumum finnst sú spá áreiðanlega ennþá nöturlegri en sú fyrri. Svo þarf þó ekki að vera. Óli grís er alls ekki vitlaus og svo talar hann fína ensku.

Fyrir nokkrum árum var þessi vísa ort:

Úti í snjónum flokkur frýs

fána sviptur rauðum.

Ólafur Ragnar Grímsson grís

gekk af honum dauðum.

Asskoti er hann Jafet alltaf skynsamlegur þegar hann talar um fjármál og þess háttar vitleysu. Það liggur við að maður trúi honum. Aftur á móti trúi ég aldrei Ingva Hrafni hvað sem hann öskrar hátt og hve stórt sem hann tekur upp í sig. Þeir Jafet og hann eru samt nokkuð góðir saman. Svona næstum því eins góðir og Sigurður G. Tómasson og Guðmundur meiraprófsbílstjóri þegar þeir leiða saman hesta sína á Sögunni á föstudagsmorgnum.

Þeir fóstbræður hafa gaman af að tala illa um fólk og hlæja stundum ógeðslega þegar þeir eru sem kvikindislegastir. Annars eru þeir óneitanlega skemmtilegir saman og Sigurður G. Tómasson er indælis útvarpsmaður og það er sérlega gaman að hlusta á hann þegar hann les úr ritum afa síns.

Það er ekkert undarlegt þó þeir Guðmundur og Sigurður séu álitnir Rússlands-sérfræðingar fyrir það eitt að lesa uppúr dagblöðum þaðan að austan. Þegar skoðuð er heimsmynd hérlendra fjölmiðlamanna gæti virst sem við værum ein af smáeyjunum við Englandsstrendur. Þó undir talsverðum áhrifum frá Sámi frænda.

Og nú fer Alþingi að koma saman. Þá rifjast upp fyrir manni hverjir duttu útaf þingi í vor og hvaða nýjir þingmenn bætast nú í hópinn. Ég mun án efa fylgjast best með frænda mínum Bjarna Harðarsyni þó hann sé framsóknarmaður. Ég er víst skráður framsóknarmaður líka eftir að ég hjálpaði Bjarna í baráttunni við Vetnis-Hjálmar í prófkjörinu í vor. Ég fæ alltaf öðru hvoru tilkynningar í tölvupósti um framsókanrvist, fjallgöngur og þess háttar frá Framsóknarfélagi Kópavogs. En skítt með það, ég hef nú átt við erfiðari vágesti að fást um ævina en það.

Sennilega mætti kalla þetta vitleysisblogg, en svona gæti ég látið dæluna ganga endalaust og þá mundi Lára Hanna varla kalla bloggið mitt greindarlegt. Spurning er hversu jákvætt það er að vera greindarlegur. Eflaust betra en að vera heimskulegur. Best væri náttúrlega að vera töff.

Anna var að ráðleggja mér í kommenti að lesa einhverja bók eftir Þorgrím Þráinsson. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei lesið neitt eftir þann ágæta höfund. Þorgrímur bloggar reglulega á eyjunni. (thorgrimur.eyjan.is) Hingað til hefur Þorgrímur verið í "tár, bros og takkaskór" skúffunni hjá mér, auk þess sem ég hef heldur haft horn í síðu hans vegna antitóbaks trúboðsins.

Einu sinni sá ég lista sem unninn var uppúr einhverri könnun meðal skólafólks. Á þessum lista voru hundrað merkustu bækur sem samdar höfðu verið á 20. öldinni. Meðal tíu efstu bókanna á þessum lista voru tvær eða þrjár eftir Þorgrím Þráinsson. Það þótti mér furðulegt, en það bendir þó ótvírætt til þess að einhverjir kunni að meta hann, þó ég geri það ekki.

Kannski ætti ég að endurskoða álit mitt á honum og fara að lesa hann. Það er eiginlega helvíti hart að fordæma höfund án þess að hafa lesið nokkuð eftir hann.

Nýjasta innlegg Sigurðar Hreiðars (auto.blog.is) bloggvinar míns sem hann nefnir "Ómar að handan" er einhver fyndnasta bloggfærsla sem ég hef lesið. Ég ráðlegg öllum að kíkja á hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband