127. blogg

Eiginlega finnst mér að banna ætti með öllu að veita afslætti af vörum.

Manni finnst alltaf að maður sé að missa af einhverju í hvert skipti sem maður kaupir sér eitthvað. Ef manni tekst að kría út einhvern smáafslátt þá er maður með lífíð í lúkunum yfir að einhver annar hafi kannski fengið meiri afslátt og að maður hefði átt að segja eitthvað annað en maður sagði.

Það er alveg afleitt að hafa ekki bara eina ríkisverslun eða að minnsta kosti verðlagseftirlit eins og í gamla daga. Þá gat maður treyst því að engir fengu annað en sín franskbrauð eða heilhveitibrauð og fyrirbrigði eins og brauðdagar og kökudagar þekktust ekki.

Nú er svo komið að allt fer á annan endann í þjóðfélaginu ef maður gengur út úr bakaríinu frekar en að láta einhverjar asíudruslur afgreiða sig. Ég segi það satt. Ég skil þetta bara ekki.

Þó bakaríin séu slæm þá eru aðrir staðir verri. Ég nefni bara stórmarkaðina. Nú getur maður ekki einu sinni farið út í KRON og fengið sér hákarlsbita. Nei, maður verður að skakklappast út í Bónus og ef maður er heppinn þá finnur maður á endanum pínulitla plastkrús með örlitlum hákarlsbitum í og þegar maður ætlar að láta sig hafa það og kaupa samt þessa hungurlús, þá dynja á manni skammirnar á pólsku, þegar maður kemur að kassanum. Skammir hljóta það að vera eftir svipnum á manneskjunni að dæma. Ég skil reyndar ekki pólsku en ef hún er bara að spyrja hvort ég ætli ekki að loka dósinni aftur, þá er óþarfi að setja upp svona svip. Ekki er lyktin svo slæm. Eiginlega engin miðað við almennilegan hákarl.

Og lítið á hvernig komið er fyrir Símanum. Áður fyrr voru það bara stórgrósserar og síldarspekúlantar sem gátu leyft sér að hringja til útlanda. Venjulegir sérajónar urðu að láta sér nægja að hringja til Steinu frænku á Kópaskeri. Þá kostaði heilt húsverð að hringja til Ástralíu enda datt engum slík fjarstæða í hug.

En hvernig er þetta orðið núna? Venjulegt fólk flatmagar í sófanum með heyrnartæki á höfðinu og spallar um heima og geima við vinkonur sínar í Sierra Leone og segir að það kosti ekki krónu. Ja, heimur versnandi fer. Eina ráðið til að halda uppi skynsamlegu verði á símaþjónusu hefði verið að Síminn væri áfram í eigu ríkisins. Eins og nú er komið stefnir þetta lóðbeint til andskotans. Það mátti alltaf senda símskeyti ef mikið lá við. Núna kvartar fólk og kveinar ef það getur ekki hringt út um allar jarðir úr farsímanum sínum ef bíllinn bilar uppi á heiði.

Hver á svo að borga fyrir alla ljósleiðarana, farsímana, skiptistöðvarnar og allt það drasl þegar símafélögin eru komin á hausinn? Því þangað stefna þau öll með tölu með svona verðlagningu. Ég sé ekki betur en ríkið verði bara að leysa allt svínaríið til sín og þá væri kannski hægt að leiðrétta verðin svolítið.

Þegar ég skrifaði þetta fannst mér það svolítið fyndið.  Nú sé  ég að hugsanlegt er að einhverjir  taki þetta alvarlega  og haldi að ég meini þetta. Slíkt væri slæmt. En ætli ég láti þetta ekki bara flakka samt.

Þar til fyrir nokkrum árum notaði ég stundum strætó og þótt kerfið væri dálítið ruglingslegt var vel hægt að læra á eina eða tvær leiðir og hafa talsvert gagn af vögnunum. Þetta er liðin tíð. Mig minnir að það hafi verið um svipað leyti og Reykjavíkurstrætó sameinaðist Kópavogsstrætó og Hafnarfjarðarstrætó að kerfinu var gjörbreytt og gert óskiljanlegt öllu venjulegu fólki.

Nokkrum sinnum hef ég reynt að nota strætó eftir þetta en það hefur ekki gengið upp. Því miður virðast vagnstjórarnir flestir vera jafnmikið á móti þessu kerfi (og skilja jafn lítið í því) og hinn almenni notandi. Nú í vetur hefur verið gerð tilraun til þess að hafa ókeypis í strætó fyrir sumt skólafólk og vel getur verið að einhverjir tilteknir vagnar á tilteknum tímum, sem henta námsmönnum vel, séu talsvert notaðir. Að öðru leyti held ég að það sé að takast að gera allan almenning með öllu afhuga strætó. Jú, kannski nota Akurnesingar vagnana eitthvað eftir að ákveðið var að slátra Sæmundi Sigmundssyni, en eflaust verða ferðir þangað lagðar niður fljótlega fyrst þær eru notaðar eitthvað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband