119. blogg

Ég er að hugsa um að fréttablogga smá núna.

Þó ætla ég ekki að linka í fréttir á mbl.is. Það finnst mér vera hálfgert svindl. Ef menn hafa áhuga á að lesa rausið í mér þá gera þeir það væntanlega. Engin þörf að plata fólk hingað.

Það sem mér finnst langmerkilegast við þetta McCann mál sem tröllriðið hefur fjölmiðlum og bloggum hér á Íslandi í allt sumar er að það skuli vera svona óskaplega mikið í fréttum. Víst er þetta hið sorglegasta mál, en ég held samt að annað eins hafi nú gerst. Líklegasta skýringin finnst mér að fjölmiðlar hér séu að apa eftir fjölmiðlum á Englandi og fjölmiðlar þar fjalli svona mikið um þetta mál vegna þess að þeir hafi ekki um margt annað að skrifa um þessar mundir. Bloggarar hér draga svo áreiðanlega talsverðan dám af fjölmiðlaumræðunni sem aftur stjórnast að nokkru leyti af bloggum og þá er málið komið í hring og vindur sjálfkrafa uppá sig.

Í útvarpsfréttum var sagt frá því áðan að einhver auðhringur væri að skipuleggja mikla miðbæjarbyggð í eða að minnsta kosti nálægt Skuggahverfinu. Í viðtali lét talsmaður hringsins í það skína að langmikilvægasta markmiðið með þessu og jafnvel það eina væri að stuðla að fegurra mannlífi. Þetta finnst mér alls ekki trúverðugt. Auðhringur sem ekki vill kafna undir nafni hugsar að sjálfsögðu fyrst og fremst um peninga. Tilgangurinn með þessu öllu er eflaust sá að græða sem mest. Hitt getur svo sem best komið á eftir og vel getur verið að þetta sé gert af góðum hug. 

Undarlegt að vera með langt viðtal við mann sem svindlaði svo mikið að hann setti stóran og virðulegan banka á hausinn. Þó þeir séu eflaust margir sem gjarnan vildu setja banka á hausinn þá get ég ekki séð að peningaglæpir séu neitt merkilegri en aðrir glæpir. Sennilega er maðurinn bara að þessu í gróðaskyni. Skrítið af Þórhalli að gleypa við þessu rugli.

Mynd getur sagt meira en þúsund orð er oft sagt og víst er það rétt. Fáein orð geta líka sagt meira en þúsund myndir þó það sé sjaldgæfara. Mér er vel ljóst að myndmál í víðum skilningi er tungumál morgundagsins. Unglingar nútildags skilja það mál oft býsna vel án þess að hafa hugmynd um það. Ef horft er á það sem birtist manni á Netinu sést vel hve myndin er farin að skipta miklu máli. Einn af helstu kostum hennar er sá að hún er alþjóðleg. Það þarf ekki að kunna neitt sérstakt tungumál til að geta tileinkað sér það sem hún segir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband