122. blogg

Er ritað mál ofmetið?

Já, ég er helst á því. Auðvitað samt ekki af öllum. Sumum finnst, eins og mér, að ritað mál sé upphaf og endir alls. Unga fólkið í dag held ég að kunni miklu betur að meta myndmálið en við sem eldri erum. Það er alþjóðlegt og myndir og hljóð af öllu mögulegu tagi verða fólki sífellt aðgengilegri.

Auðvitað er mikið skrifað enn þann dag í dag. Mörgum finnst jafnvel meira skrifað nú en áður, því ritað mál nú er miklu sýnilegra en var. Gallinn er bara sá að ótrúlega mikið af þessu ritaða máli er afar lélegur texti og hefði ekki komið fyrir margra augu áður fyrr. Okkur sem þykjumst geta skrifað sæmilegan texta finnst helvíti hart að ritað mál sé sífellt að láta undan síga. Samt er áreiðanlega svo.

Myndirnar og talaða málið munu leggja heiminn undir sig. Kannski verða örfá orð rituð til skýringa á milli mynda, en orðin verða ekki aðalatriðið. Fólk mun þó eflaust halda áfram að tala saman með orðum. Bara ekki skrifa þau niður, það er svo seinlegt.

Bókin sem ég er að byrja á núna heitir "Sunnefumálin" og er eftir Dominic Cooper. Þýðandi er Franzisca Gunnarsdóttir. Bókin er gefin út árið 1980.

Hún fjallar um hin frægu Sunnefumál (ég mundi nú frekar hafa þetta Sunnevumál) á Austurlandi á 18. öld og afskipti Hans Wium sýslumanns af þeim og seinna dómsmálum yfir honum.

Án þess að ég hafi kynnt mér það nokkuð sérstaklega held ég að þýðandi þessarar bókar sé áreiðanlega dóttir Gunnars Gunnarssonar skálds.

Þetta er söguleg skáldsaga og ég efa ekki að þar mun margt athyglisvert koma fram því ég veit ekki betur en sagan byggi á sönnum atburðum að langmestu leyti.

Ein vísa er mér ofarlega í huga í hvert skipti sem ég heyri minnst á Sunnevumálin en hún er svona:

Týnd er æra, töpuð sál.

Tungl veður í skýjum.

Sunnevunnar sýpur skál

sýslumaður Wium.

Önnur ljóðlínan í þessari vísu er það sem ég mundi kalla augljóst dæmi um hortitt. Samt er þetta góð vísa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband