121. blogg

Það virðist útbreidd skoðun hjá þeim sem ekki blogga á Moggablogginu að þar sé um heldur klént fyrirbrigði að ræða.

Á Moggablogginu eru samt margir fínir bloggarar. Önnur bloggsetur eru ekkert merkilegri fyrir það eitt að vera eldri í hettunni. Hverjir stjórna bloggsetrum skiptir samt máli. Það skiptir líka máli hvernig um bloggin er hugsað. Hvort þar er auðvelt og þægilegt að blogga og hvort þar er boðið upp á allskyns fídusa eða ekki og hvernig þeir eru kynntir.

Þó bloggvinagerðin hjá Moggablogginu sé ágætis uppfinning finnst mér að þar þyrfti líka að vera hægt á auðveldan og þægilegan hátt að setja ákveðin blogg (Moggablogg og önnur) í einhvers konar minnislista án þess að bloggvinagerð með samþykki beggja aðila þurfi að koma til. Kannski er þetta hægt án þess að ég kunni það. Auðvitað er hægt að bookmarka, en maður er ekki alltaf í sömu tölvunni og ágætt væri að hafa aðgang að þessu án tillits til þess hvaðan maður nálgast bloggsetrið.

„Kristján biðst afsökunar" var fyrirsögn í einhverju blaðinu sem ég sá bregða fyrir núna áðan. Vel getur verið að núverandi samgönguráðherra hafði skárra pólitískt nef en Róbert Marshall en mér finnst ótrúlegt að hann sé búinn að bíta úr nálinni með þetta Grímseyjarferjumál þó hann haldi það kannski sjálfur.

Svo er maður hér á Moggablogginu sem heitir Kristján  B. Jónasson og bloggar oft um bækur og íslenska tungu af talsverðu viti. Ég bað hann um daginn að gerast bloggvinur minn og Sr. Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn les ég oft líka og er að hugsa um að betla vinskap hjá honum. Þá ber svo við að Kristján ræðst með offorsi á Baldur fyrir að mæla ensku bót. Þarna þykist ég nú vera dálítið á heimavelli og er eiginlega mjög svo sammála báðum. Sem er ekki mjög gott.

Harpa Hreinsdóttir á Akranesi hefur líka gott vit á íslensku og er að ég held ekkert hrædd við enskuna. Mér leiðist að hafa uppnefnt hana á blogginu mínu um daginn og bið hana hérmeð afsökunar á því. Það er ljótt að uppnefna fólk og hún átti það ekki skilið.

Hún hefur margt til síns máls í sambandi við þessar rollur sem drukknuðu. Þeir sem kommentuðu með henni á bloggið hjá Bjarna Harðarsyni voru leiðinlega orðljótir við hana. Kæruleysið við meðferð dýra er oft óskaplegt. Mönnum virðist t.d. vera nokkuð sama þó vitlaus lyf fari ofan í dýr bara af því að þau eru talin óæðri og að lemja og pína dýr er ekki einu sinni álitið afbrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband