209. - Blogg og aumingja DV-ið

Jæja, þá eru þessi jól liðin að mestu leyti og ekki annað að gera en að bíða eftir áramótunum.

Meira hvað alltaf er til að góðgæti um jólin. Þetta er ekki normal að háma svona í sig allt það sem maður veit að er óhollt og fitandi.

150 þúsund krónur fær sá sem vill kaupa einhvern ákveðinn bíl og taka yfir lánin, sem á honum hvíla og nema semsagt meiru en bílverðinu. Þetta las ég einhvern staðar og trúi eins og nýju neti. Þegar upphæðin sem boðin er á þennan hátt er orðin jafnhá bílaláninu, fer ég að hugsa minn gang.

Alltaf er gaman að gúgla sjálfan sig og ég hvet þá fjölmörgu sem þetta lesa til að prófa það. Áreiðanlega kemur eitthvað á óvart. Kannski gera flestir þetta öðru hvoru og þá er þessi áskorum bara ómark.

Ég er alltaf dálítið upptekinn af því að hafa bloggin mín hæfilega löng. Lengdin skiptir máli. Ég get til dæmis ekki fengið af mér að skrifa langhunda á borð við það sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir reglulega. Líklega væri ég heldur ekki fær um það. Nei, ef bloggin mín eru ekki alltof löng, þá ímynda ég mér að fleiri lesi þau, því auðvitað vilja allir bloggarar hafa sem flesta lesendur. Betra er að láta sér detta eitthvað í hug á hverjum degi, en að teygja lopann sem lengst og tyggja það sama upp aftur og aftur með örlítið breyttu orðalagi.

Las nýlega Konungsbókina. Krimmann frá í fyrra eftir Arnald. Mér fannst hann fara ágætlega af stað og efnið er mér nokkuð hugleikið. Því miður fannst mér þessvegna að hann færi óþarflega ítarlega í sjálfsagða og einfalda hluti. Þegar á leið bókina fannst mér hún hins vegar leysast upp í tóma vitleysu. Í lokin var hún farina að minna á lélega ameríska spennumynd þar sem skot hlaupa úr byssum og í réttu mennina. Menn þola ótrúlegustu pínslir með bros á vör og bjargast alltaf á síðustu stundu.

Dómarar þessa lands virðast hafa mikla andúð á DV og dæma þeim í óhag ef þeir mögulega geta. Magnús, sem einu sinni var sjónvarpsstjóri á skjá einum fékk það t.d. dæmt sem meiðyrði að sjá mátti í fyrirsögn í DV sem var við hliðina á mynd af Magnúsi orðin „geðþekkur geðsjúklingur". Hvernig þetta geta verið meiðyrði er mér alveg hulið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband