202. - Að þora eða þora ekki

Kannski ég reyni að blogga smá núna. Reyndar hef ég næsta lítið að segja. Djöfulsins læti í veðrinu einn ganginn enn. Mér leiðist jafnvel meira að hafa þessa eilífu rigningu með rokinu. Svei mér ef það væri ekki bara betra að hafa svolítinn snjó og frost.

Nú eru jólasveinarnir orðnir sjö hjá Áslaugu og ég hvet alla til að líta á síðuna hennar. Sums staðar eru athugasemdir sem allir geta lesið og jafnvel lagt sjálfir orð í belg, ef þeir mega missa eitt og eitt.

Mikið er fjargviðrast yfir því að menn þori ekki að segja skoðanir sínar opinberlega og fundið er að nafnlausum skrifum. Mest finnst mér náttúruverndarsinnar hafa sig í frammi útaf þessu og margir þeirra gefa hiklaust í skyn að flestallir sem ekki fylgja þeim að málum geri það vegna þess að þeir þori ekki að láta skoðanir sínar í ljós. Þetta finnst mér aumur málflutningur og ekki til sóma.

Nafnlaus skrif eru oft til mikillar bölvunar. Þau eru hinsvegar stundum nauðsynleg og alls ekki er hægt að banna þau með öllu. Þeir sem þau leyfa í útbreiddum fjölmiðlum verða þó að gæta mikils hófs. Þegar

Morgunblaðið leyfði ökumanni jeppabifreiðar sem lent hafði í árekstri að skýra sín sjónarmið í nafnlausu bréfi var gengið mjög langt.

Jens Guð sem svo kallar sig á Moggablogginu hafði haldið þvi fram á sínu bloggi að jeppabifreiðin hefði verið að reyna framúrakstur þegar slysið varð. Þetta gerði hann þó undir nafni og ökumaður jeppans hefði átt að svara honum fullum hálsi undir nafni líka.

Mér finnst náttúruverndarfólk oft vera afskaplega einstrengingslegt í skoðunum. Þegar Ómar Ragnarsson hélt því fram síðastliðið sumar, eftir að búið var að reisa Kárahnjúkastífluna, að best væri að hætta við að nota hana og flytja bara orku annars staðar frá til álverksmiðjunnar við Reyðarfjörð, það kostaði næstum ekkert og tæki enga stund, þá hætti ég alveg að hafa trú á skoðunum hans.

Ég man vel þann tíma þegar Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar komu út. Bókin vakti miklu meiri athygli en ljóðabækur gera yfirleitt. Kannski var þetta reyndar bara einhver endurútgáfa í kiljuformi. Ég man samt vel að margir lásu þetta. Ég las Davíð ekki síður en aðrir. Í seinni tíð hefur mér fundist ljóð hans einkennast af því að hann lætur rímið stundum yrkja fyrir sig. Skáldskapurinn er ekki alltaf merikilegur. Hann má þó eiga það að ljóð hans skilja allir, en ekki er hægt að segja það sama um t.d. Jónas Hallgrímsson sem menn skilja ekki almennilega enn þann dag í dag og misskilja jafnvel stundum.

Þessi mynd er dálítið óskýr. Þarna eru greinilega þrjár skátastúlkur í sínum einkennisbúningum og myndin er tekin í Hveragerði laust eftir miðja síðustu öld. Sigrún Helgadóttir er lengst til vinstri, síðan Ingibjörg og sú til hægri var alltaf kölluð Dúa, en ég man eiginlega engin deili á henni önnur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er Vignir. Einbeittur á svip og með snúinn fót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmundur! Af því ég veit hvenær þú ert fæddur, þá langar mig að spyrja þig hvenær Svartar fjaðrir komu út?

Ellismellur 18.12.2007 kl. 05:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þegar ég hugsa mig betur um, þá held ég að þessi útgáfa sem ég man eftir af "Svörtum fjöðrum" hafi áreiðanlega ekki verið frumútgáfa. Líklega hefur Almenna Bókafélagið gefið hana út í kiljuformi á árunuim 1957 - 60. Ég man vel eftir bókinni og á hana líklega. Grænleit á litinn með mynd af fjöður, lin spjöld. Annars hugsa ég að hægt sé að gúgla þetta og Wikipedia á hugsanlega líka upplýsingar um það.

Sæmundur Bjarnason, 18.12.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband