210. - Bloggfréttir og fréttablogg

Áfram held ég að láta ljós mitt skína.

Meðan einhverjir lesa þetta, er engin ástæða til að hætta. Svolítið er þetta gloppóttara en verið hefur. Samt er nóg til að skrifa um. Fáeinar jólabækur er ég búinn að lesa, en vil ekkert vera að ræða um þær hér, því einhverjir lesendur kunna að eiga eftir að lesa sömu bækur og ekki vil ég eyðileggja fyrir þeim.

Á mbl.is stendur í einhverri frétt að Pervez Musharaf hafi verið að vinna að því að koma á lýðræði í Pakistan í mörg ár. Það er enginn fyrirvari á þessu, þannig að greinilega er þetta skoðun Morgunblaðsins. Musharaf er eflaust sjálfur á sömu skoðun og líklega fáanlegur til að vinna að þessu í nokkra áratugi í viðbót, þannig að þeir Morgunblaðsmenn ættu að geta sofið rólegir. Verst ef það eru margir á annarri skoðun.

Íranir eru sagðir hættir allri úra-nauðgun, svo nú geta úrsmiðir þar verið rólegir. Þetta er svona fimmaurabrandari að hætti Hallgríms Helgasonar og Sverris Stormskers. Þeir hrúga bröndurum af þessu tagi stundum í tugatali á sömu blaðsíðuna, en ekki er ég fær um það.

Nú keppast allir við að lýsa jólagjöfunum sínum og ekki ætla ég að láta mitt eftir liggja í því. Í staðinn fyrir að telja upp hvað ég fékk um þessi jól er ég meira að velta fyrir mér eftir hvaða jólagjöfum ég man frá því í eldgamla daga. Í allmörg ár fékk ég bækur um Tom Swift og Bláu bækurnar svokölluðu. Af þeim síðarnefndu man ég einkum eftir bókum sem hétu „Gunnar og leynifélagið" og „Sigmundur og kappar Karls konungs". Ég man að sú síðarnefnda gerðist í grárri forneskju, því þessi Karl konungur var hinn franski Karlamangús sem uppi var fyrir meira en þúsund árum.

Ég man ekki eftir mörgum jólagjöfum en því betur eftir hlutum sem ég keypti sjálfur fyrir mína peninga, en ef til vill með einhverri hjálp frá öðrum. Þar man ég best eftir reiðhjóli af Royal gerð sem mér þótti afspyrnu flott og miklu betra en Möve druslurnar sem sumir létu sér nægja. Einnig keypti ég safn af fyrstu frímerkjum sem gefin voru út í Ghana sem þá var fyrsta og eina lýðræðisríkið í Afríku og undir stjórn Kwame Nkruma. Nú og svo keypti ég auðvitað seinna í félagi við Vigni bróðir Fólksvagninn X-374 af Gunnari í Álfafelli.

Jólasveinarnir hjá Áslaugu týna nú tölunni jafnt og þétt. Allt eftir forskriftinni. Nú hverfa þeir til fjalla í sömu röð og þeir komu. Og svo er hún farin að blogga a.m.k. svona öðru hvoru.

Einhvern tíma á næstunni ætla ég að blogga um hina mörgu og aðskiljanlegu bloggvini mína og aðra þá bloggara sem ég heimsæki reglulega. Þetta verður mikið prójekt því þegar að blogginu kemur á ég í erfitt með að vera stuttorður. Bloggið sem slíkt er mér endalaus uppspretta allskyns pælinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það verður gaman að lesa um bloggvini þína

Gunnar Helgi Eysteinsson, 31.12.2007 kl. 15:41

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hlakka mikið til að lesa pistilinn um bloggarana.

Sendi þér og þínum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir endurnýjuð og skemmtileg kynni hér á blogginu. Megi þau vara sem lengst.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.12.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband