208. - Gleðileg jól, öllsömul

Ekki fá þeir sem lesa bloggið mitt reglulega frið þó nú sé aðfangadagur jóla. En ég reyni kannski að hafa þetta ekki óhóflega langt.

Nú sækir Mars að tunglinu óðfluga, (eins og óð fluga) eða var það tunglið sem sækir að Mars? Það er ekki oft sem maður fær að sjá svona sjónarspil á himninum, yfirleitt rigning og svoleiðis.

Las yfir frásögnina af Bjarna og Teit sem ég skrifaði fyrir nokkrum dögum og sé að ég hef lagt vitlaust saman. Auðvitað gerðist þetta árið 1981 og rigningartíðin núna undanfarið fellur alveg inn í þetta spádómsmunstur. Afsakið.

Horfði á spurningaþátt um daginn þar sem Hveragerði og Garðabær kepptu. Minn gamli fæðingarbær tapaði að vísu en við því er ekkert að gera. Athyglisvert fannst mér að í valflokkunum var eitt valið Matrix og var þar átt við samnefnda kvikmynd eða kvikmyndir. Engir gátu svarað neinum að þeim spurningum sem þar voru í boði og ekki hefði ég getað það. Aumingja spurningahöfundurinn hlýtur að hafa verið farinn að halda að hann væri sá eini sem hefði áhuga á þessari kvikmynd.

Áður fyrr var miklu meira um að vera á Þorláksmessu í Reykjavík. Nú eru menn bara rólegir og keppast við að eyða sem mestum peningum. Ég man t.d. eftir að hafa verðið í Austurstræti fyrir tíð allra Kringlna og Smáralinda. Þá var bílaumferð bönnuð, en samt var allt yfirfullt af fólki í götunni, fyllirí og læti. Sprengjur sprungu (kínverjar og rakettur) og það var eins gott að verða ekki fyrir einhverju slíku. Engir meiddust þó held ég.

Þetta gæti hafa verið um svipað leyti og Þorláksmessuslagurinn var (1968?) eða þegar hent var eggjum og allskyns rusli í rússneska sendiráðið í Garðastræti (Tékkneska vorið - Dubcech og Co). Þá sá ég lögregluþjón missa alveg stjórn á skapi sínu og ráðast að fólki sveiflandi kylfunni af offorsi í kringum sig. Sem betur fer var hann stöðvaður áður en í óefni var komið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Gleðileg jól Sæmi minn.

Eyþór Árnason, 26.12.2007 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband