254. - Alvöru NOVA blogg. Burt með þennan andskota

Ég er ekki einn af þeim sem hef hingað til haft sem hæst útaf þessari NOVA auglýsingu.

Vissulega fer hún í taugarnar á mér, en við verðum að viðurkenna að það er lúxus að geta bloggað fjandann ráðalausan alveg ókeypis og fá að auki úrvals góða þjónustu eins og ég tel að við Moggabloggarar höfum fengið. Ég hef ekki hótað því að hætta að blogga útaf þessu eins og sumir, enda er ég sannfærður um að það mundi ekki hafa nokkur minnstu áhrif.

Það er hreyfingin og gauragangurinn í kringum þessa auglýsingu sem mér líkar verst við. Það vantar ekkert nema skerandi ískur. Það eru hávaðaauglýsingarnar sem fara verst í mig. Ég hrekk venjulega í kút þegar tölvan gefur frá sér hljóð sem ég á ekki von á. Slíkum auglýsingum fer sem betur fer fækkandi, því eflaust er fleirum líkt farið og mér að hljóðið í tölvunni hefur mikil áhrif á þá. En af hverju ætli hávaðaauglýsingar séu orðnar minna áberandi en áður var. Mér segir svo hugur að það sé vegna þess að fólk hefur flúið þau vefsetur sem fætur toga, sem boðið hafa upp á slík ósköp.

Allmargir hafa skrifað á sín blogg að þeir vilji gjarnan borga eitthvað fyrir að fá að blogga, ef þeir sleppa í staðinn við auglýsingarnar. Ég get ekki séð að það sé nein lausn. Þá losna þeir bloggarar við að sjá auglýsingar, en þeir sem lesa bloggin þeirra halda áfram að vera truflaðir af þessum fjanda. Það er reyndar ósköp einfalt að koma í veg fyrir að maður sjái þessar auglýsingar, en ekki gera allir það og auk þess missir maður þá oftast af einhverju öðru líka.

Málið horfir allt öðru vísi við ef þeir Moggabloggsmenn geta tryggt að þeir sem skoða viðkomandi borgunarblogg þurfi ekki að sjá neinar auglýsingar. Slíkt er áreiðanlega tæknilega mögulegt en ég hef ekki séð að boðið sé upp á neitt af því tagi og er alls ekki viss um að auglýsendur eða Moggabloggsmenn kæri sig um slíkt.

Meðan þeir Moggabloggsmenn þegja þunnu hljóði þegar þeir eru spurðir útí þetta, sé ég ekki annað en við bloggarar verðum að þreyja Þorrann og Góuna og blogga eins og við erum vanir. Auðvitað má mótmæla þessu og góð hugmynd er að láta í sér heyra í kommentakerfinu á kerfi.blog.is þó ég hafi nú ekki gert það ennþá. Flestum lætur nefnilega betur að tuða bara í sínu horni eins og ég er að gera núna eða gera bara alls ekki neitt.

Spurningarnar sem mér finnst að við Moggabloggarar eigum rétt á að fá svör við eru einkum þær sem ég setti fram á mínu bloggi í gær. Það er hvenær þessu ljúki og hver sé framtíðarstefnan í þessum málum.

Já og Guðbjörg Hildur Kolbeins er nú komin aftur á Moggabloggið eftir að hafa flutt sig sem snöggvast yfir á blogspot.com. Svonalagað skil ég nú bara ekki. Ekki er Sigurður Þór farinn að blogga aftur eftir því sem ég best veit. Lætur í mesta lagi ljós sitt skína í kommentum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nú er hægt að kaupa sig frá auglýsingunni - sjá hér.  Látið ganga þar til við fáum póst frá þeim. Vonandi gera þetta sem allra flestir svo maður losni alveg við þessa pest.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.2.2008 kl. 15:13

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta virðist vera rétt. Nú getur maður séð hverjir vilja borga fyrir að fá að blogga ótruflað. Ég er ekki búinn að ákveða mig enn.

Sæmundur Bjarnason, 19.2.2008 kl. 16:06

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er búin að því og Siggi Guðjóns líka, virðist vera. Þú getur séð muninn núna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.2.2008 kl. 16:11

4 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Búinn!

Hallmundur Kristinsson, 19.2.2008 kl. 18:25

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ljósið er nú aðallega villuljós!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.2.2008 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband