227. - Að græða á daginn og grilla á kvöldin

Hlutabréf bæði hér og erlendis hafa verið að lækka undanfarið.

Í dag virðist fallið þó hafa verið meira en fyrr og hugsanlegt er að hlutabréfabólan sé að springa. Ég hefði þó haldið að slíkur hvellur væri það sem bankar og verðbréfafyrirtæki um víða veröld vildu síst sjá og reyndu með öllum ráðum að koma í veg fyrir. Vonandi tekst þeim það, því djúp og löng kreppa gæti komið flestum illa.

Var í mesta sakleysi í dag að lesa bloggið hennar Ólínu Þorvarðardóttur þar sem hún vitnar í Hannes Hólmstein Gissurarson og ummæli hans um Sjálfstæðisflokkinnn. Hún minntist líka á það sem Lára Hanna hafði sagt um þetta mál og allt í einu segi ég við sjálfan mig: "Vá, þetta stuðlar bara alveg og enginn vandi að finna rímorð."

Og áður en ég vissi af var ég búinn að setja saman vísukorn um þetta í huganum. Mín fyrsta hugsun var hvað ég ætti að gera við vísuna. Blýant og blað fann ég fljótlega og páraði vísuna á það svo hún týndist ekki. Svo fór ég að hugsa um að fleiri mættu svosem sjá þetta og í framhaldinu hugsaði ég sem svo að allir vísnavinir hlytu að kíkja reglulega á síðuna hans Hallmundar Kristinssonar. Ég þangað og skellti vísunni þar í athugasemd.

Eftirá séð sýnist mér að vísan ætti ekki að eiga það á hættu að týnast í kommentakerfi eins og athugasemdir gera stundum. Þess vegna set ég hana hér.

Geiri minn grillar á kvöldin

og græðir um miðjan dag.

Hamingjan hefur nú völdin

og Hannes er kominn í lag.

Annað er ekki að heyra en að nýr borgarstjórnarmeirihluti sé að myndast. Þetta fer nú að verða slíkur farsi að ekki er hægt að likja því við neitt. Ólafur frjálslyndi er alls góðs maklegur en mér sýnist þó að hann sé búinn að fá flugvöllinn í Vatnsmýrinni á heilann.

Svo virðist samkvæmt fréttum að Norðmenn hafi verið á svipaðri braut og við Íslendingar varðandi fjölda háskóla. Nú segjast þeir ætla að fækka þeim úr 38 í 8. Sú tíð kann að koma hér á landi að háskólum hætti að fjölga. Þeim á samt eflaust eftir að fjölga nokkuð enn og fráleitt er annað en allir landshlutar fái sinn háskóla.

Enn heldur hann áfram að koma á óvart þó hann sé búinn að vera dauður í nokkra daga. Hver hefði búist við að hann vildi láta grafa sig í Flóanum? Þetta var snjall leikur í mjög erfiðri stöðu. Ég sé fyrir mér að þarna verði í framtíðinni reist minnismerki og þangað muni áhugafólk um skáksögu koma til að berja augum staðinn sem Fischer vildi hafa fyrir sinn lokastað á jörðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband