176. blogg

„Amen, kúmen, sémen" sagði formaður félagsins og lamdi með spýtu á öxlina á viðkomandi þegar nýr meðlimur var vígður í leynifélagið okkar.

Það var kallað „Njósnafélagið" og við Siggi í Fagrahvammi stofnuðum það einhvern tíma ásamt fleirum og það átti einkum að njósna um félaga í öðru leynifélagi sem við héldum að væri starfandi í Hveragerði og héti „Stóra þjófafélagið". Ég held að starfsemi þessa félags hafi aldrei orðið mikil og man satt að segja ekki eftir nema einum fundi í því fyrir utan einhverjar vígsluafthafnir, en á þessum fundi vorum við Siggi, ásamt fáeinum öðrum, niður við Varmá í kofa sem Siggi átti og þóttumst sjá meðlimi úr „Stóra þjófafélaginu" á vakki í kringum kofann.

Oft er talað um það fjálglega, bæði af stjórnmálamönnum og öðrum, að nauðsynlegt sé að skapa störf. Eða að einhver ákveðin framkvæmd skapi störf fyrir svo og svo marga. Mér leiðist þetta orðalag mjög. Langbest væri að engin störf væru nokkurn tíma sköpuð og enginn þyrfti að gera neitt, nema hann langaði mikið til þess. Ef framkvæmdir gerðu ekkert annað en að „skapa störf" til hvers væri þá að vera að þessu brölti. Aðaltilgangurinn er auðvitað allt annar. Nefnilega að græða. Og það er ekkert ljótt við það. Einhvern hvata þurfa menn til athafna. Sköpun starfa er oftast nær liðónýtur hvati.

Bókatíðindi eru ekki komin til mín ennþá, en ég hef einmitt séð marga blogga um það ágæta rit. Þarf ég að sækja þennan bækling eitthvert eða hvað? Ég vil að minnsta kosti vita hvort bókin hans Bjarna Valtýs Guðjónssonar er ekki þarna einhvers staðar. Áslaug lagði á sig mikið erfiði við að teikna kápumynd á þá bók. Ég held að bókin heiti: „Hólaborg - ævintýrið um langspil landsins", eða eitthvað þess háttar. Ekki á ég von á að þessi bók verði mjög vinsæl til jólagjafa, en bók er alltaf bók og ég er að minnsta kosti búinn að lesa hana.

Ómar Ragnarsson segir í sínu bloggi og er að tala um Jónas Hallgrímsson: Stærsti draumur hans sem fræðimanns var að ljúka sínu stóra verki um íslenska náttúru og um leið var það einn stærsti harmleikur lífs hans að falla frá langt um aldur fram og sjá þennan draum ekki rætast. Tilvitnun lýkur. Ég held satt að segja að „einn stærsti harmleikur" lífs hvers manns sé dauðinn. Auðvitað er þetta útúrsnúningur, en mér finnst hugsunin stundum hlaupa frá fólki þegar það vill vera sem hátíðlegast. Sigurður Þór Guðjónsson er alveg laus við þetta. Hans hugsun er svo jarðbundin og laus við hátíðleika að það getur jafnvel stuðað fólk á stundum. Væmni á hann heldur ekki til, en hún er ansi áberandi víða í bloggheimum.

Mín fyrsta hugsun, þegar hin mögnuðu tíðindi um árásina á tvíburaturnana í New York árið 2001 spurðust út, var að nú mundi þróunin í átt til lögregluríkis hraðast til mikilla muna á Vesturlöndum. Kannski hefur sú þróun ekki verið alveg eins hröð og ég átti von á, en hún er þarna. Þegar sú þróun verður komin á svipað stig og okkur er sagt að sé í Singapore, þá fyrst held ég að öfgasinnaðir hægri menn eins og Björn Bjarnason verði ánægðir. Líklega verð ég þá dauður, en einhverjir munu þurfa að búa við þetta og grípa eflaust til þeirra ráða að láta sem þetta sé gott og blessað. Og það verður það náttúrlega fyrir þá sem ekki fara útfyrir rammann. Spurningin er bara hvernig ramminn verður.

Fréttin um meistaratitil Bjarna er nú komin á mbl.is. Reyndar er hún bara afrit af grein Egils í Sunnlenska og segir nokkuð um vinnubrögð þeirra Moggamanna. Einnig er loksins sagt frá þessu á skak.is og linkað í sudurland.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var nú ansi mikið puð hjá þér líka að þýða "Latabæ"af ensku yfir á íslensku!!!!!!

                                      asben

asben 17.11.2007 kl. 08:53

2 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Jú, Bjarnaborg, nei afsakið, Hólaborg er í bókatíðindunum, á bls. 14. Þar er rakið nánast allt efni bókarinnar,en ekki getið um höfund bókarkápu! En miðað við bókatíðindin held ég að ekki ætti að verða tilfinnanlegur bókaskortur þessi jólin.

Hallmundur Kristinsson, 17.11.2007 kl. 10:58

3 identicon

Bjarni - ef þú lest þetta þá óska ég þér til hamingju með sigurinn á skákmótinu. Flott að vera nýkominn til landsins og strax orðinn landsmeistari.

Sæmundur - Það er gaman að þessum gömlu myndum. Koma fleiri?

Þetta með sköpun starfa er merkileg pæling. Hugsum okkur að stjórnmálamaður, t.d. Bjarni bróðir, taki hundraðkall af hverjum landsmanni í skatt (alls 30 miljónir króna) og noti þá peninga til að skapa störf, ræður t.d. umboðsmann sauðkindarinnar til viðbótar við umboðsmann hestsins. Hundraðkalli fátækari sleppi ég því að kaupa snúð með kaffinu og aðrir gera slíkt hið sama. Hefur stjórnmálamaðurinn þá ekki svipt bakara vinnunni um leið og hann skapaði starf fyrir umboðsmann kindarinnar?

Atli 17.11.2007 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband