110. blogg

Meira grobb.

Um daginn kom gestur inn á bloggið mitt, kallaði sig nöldrara og kommentaði þar með tilvísum í Ecce Homo, en það var nokkurs konar árbók sem gefin var út á Bifröst á sínum tíma. Kannski hefur þetta verið Þórir E. Gunnarsson.

Við vorum bekkjarbræður og fljótlega eftir að við útskrifuðumst fórum við að skrifast á og létum ekki nægja neitt minna en ljóðabréf. Einnig tefldum við bréfskák samhliða. Ég man að svo langt gekk þetta að jafnvel dagsetningarnar, hvað þá leikirnir í skákinni, voru í bundnu máli. Ekki var þetta merkilegur skáldskapur að ég held og bréfaskiptin stóðu heldur ekki lengi.

Ég man þó eftir einni ágætri dagsetningarvísu sem Þórir setti saman. Einhvern tíma minntist ég á þessa vísu við Þóri og hann taldi lítinn sóma að henni. Væri ekki annað en bernskubrek. En svona er hún:

Í þjóðar vorrar þörfu krík,

þar sem heitir Reykjavík.

Sent er þetta sjötta mars.

Saltkjötið er betra en fars.

Hugsanlegt er að Þórir geti bannað mér að birta þessa vísu. En það er nú eiginlega orðið of seint. Höfundarrétturinn er samt tvímælalaust hans. Mér finnst þetta með saltkjötið og farsið vera skemmtilega út úr kú.

Í einu af fyrstu bréfunum sem okkur fóru á milli var meðal annars þessi vísa eftir mig:

Ofsalegt æfingaleysi

er mér til tafar um stund.

Á Pegasus þegar ég þeysi

á Þóris hins spaka fund.

Þó ég segi sjálfur frá þá er þetta sennilega ekkert afspyrnuslök vísa. Svo hafði ég líka verið að dunda við að setja saman sléttubandavísur og setti eina slíka í bréf til Þóris. Hún var nú svo ómerkileg og léleg að ég man hana ekki lengur og vil ekki muna. Aftur á móti man ég að mér þótti vissara að láta Þóri vita að þarna væri að finna sléttubandavísu og þá varð þessi til:

Sléttubandavísa var

valin hér í bréfið.

Gettu hvaða vísu var

vígorð þetta gefið?

Nú voru góð ráð dýr, því þetta er hvorki meira né minna en sléttubandavísa líka. Nú varð ég að bæta einni vísu við um þetta:

Óviljandi eru þær

orðnar fleiri en segi.

Því ég núna tel að tvær

töfra þessa eigi.

Annars hafa margir sagt að ekkert sé merkilegt við sléttubandavísur þó sumir haldi að það sé einhver dýrasti háttur sem um getur. Færa má rök fyrir því að ekki sé ýkja erfitt að gera slíkar vísur.

Einn hátt þekki ég sem er miklu dýrari (og erfiðari), en sléttubandaháttur, það er afhendingarháttur. Hann er þannig að seinni tvær hendingarnar myndast við það að taka fyrsta stafinn af hverju orði í fyrstu tveimur ljóðlínunum. Sem dæmi um þennan hátt er oft nefnd þessi vísa eftir Svein frá Elívogum:

Sléttum hróður teflum taflið,

teygjum þráðinn snúna.

Mér finnst þó vísan sem gjarnan er kölluð drósir ganga og er eftir Jóhannes úr Kötlum jafnvel vera betra dæmi um vel heppnaðan afhendingarhátt. Sú vísa er einhvern vegin svona:

Drósir ganga, dreyrinn niðar.

Drjúpa skúrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Flott vísa eftir Jóhannes. Ertu ekki með fleiri vísur ortar undir þessum hætti? Kveðja

Eyþór Árnason, 4.9.2007 kl. 20:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, ég man ekki eftir fleirum. Afhendingarhátturinn er bráðskemmtilegur en talsvert erfiður. Ég minnist þess að hafa einhvern tíma sett saman bragfræðilega rétta vísu undir þessum hætti, en þá var merkingin orðin tóm steypa.

Sléttubandavísur eru einkum skemmtilegar ef merkingin snýst við þegar vísan er lesin aftur á bak:

Stundar sóma, aldrei ann

örgu pretta táli.

Grundar dóma, hvergi hann

hallar réttu máli.

Sæmundur Bjarnason, 5.9.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband