109. blogg

Gíslína í Dal er hetja.

Með ólæknandi krabbamein bloggar hún eins og ekkert sé dag eftir dag. Ræðir um sjúkdóm sinn eins og um skáldsögupersónu sé að ræða. Hvernig hægt er að vera jákvæður og uppbyggjandi í svona stöðu er langt fyrir ofan minn skilning.

Ég les bloggið hennar reglulega. Hún er einn af þeim bloggurum sem ég vil síst missa af. Blogg hennar nálgast ég yfirleitt af bloggi Önnu Einarsdóttur í Holti sem er bloggvinur minn. Hún og Gíslína eru frænkur. Feður þeirra voru bræður og báðir frá Dal í Miklaholstshreppi. Ég kynntist þeim þegar ég var á Vegamótum. Anna er með sérstakan link á blogg Gíslínu, sem hefur stundum bloggað líka hér á Moggablogginu.

Hér er smákafli úr nýjasta bloggi Gíslínu:

= = = = = = = =

Hugmyndin er þessi. Á þriðjudaginn fyrir hádegi  milli 10 og 12 sendi allir öryrkjar, aldraðir og aðrir þeir sem vilja taka þátt  tölvupóst á netföng heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins með meðfylgjandi  texta: ....Ég skora hér með á íslensk stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör öryrkja og aldraðra til samræmis við íslenskan veruleika.... (hugmynd að texta).....undirskrifað af viðkomandi með kennitölu.

Þið sem lesið þetta setjið þetta á bloggsíðurnar ykkar og biðjið jafnframt aðra um að gera slíkt hið sama. Með einhverju svona átaki væri möguleiki að koma skilaboðum til stjórnvalda í verki og láta í ljós óánægju með ástandið.   Í stað þess að mæta niður á Austurvöll og mótmæla eins og í gamla daga (sem engin nennir lengur að gera), sletta skyri og láta öllum illum látum, þá notum við nútímatækni til að mynda öflugan þrýsting og höfum fjölmiðla með í för.

Hvernig líst ykkur á þessa hugmynd?

= = = = = = = = = = =

Mér líst  ágætlega á þessa hugmynd, en bæti því klassíska við: Hvað munar um mig?

Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný.

Ég er svo undarlega innréttaður að ég dáist að svona mönnum. Þegar útilokað er að menn taki rökum, er vel hægt að skilja að lítið annað sé eftir en sýna meiri þrjósku og einsýni en flestir aðrir.

Árið 1961 var haldið uppá 175 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Ég man vel eftir hátíðahöldunum af því tilefni. Fjölmenni var mikið og sýningar út um allt. Sjálfur man ég  eftir að hafa farið á sýningu í Melaskóla þar sem sýnd var nýjasta tækni þess tíma. Það sem þar var sýnt þætti ekki merkilegt í dag. Mig minnir að hægt hafi verið að fá mismunandi fyrirlestra í mismunandi heyrnartæki allt eftir því á hvaða hnapp var ýtt. Stórkostlegt.

Já og Snorri vann Hannes. Flott hjá honum. Það er alltaf gaman að lesa það sem Snorri Bergz skrifar þó stundum finnist manni vera óþarfa væll í honum. (hvala.blog.is) Svo fréttabloggar hann stundum helst til mikið fyrir minn smekk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Bankastarfsemi á Íslandi er skipulagt þrælahald og þessi s.k. heilbrigðisgeiri e.t.v. líka.

Gestur Gunnarsson , 3.9.2007 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband