2344 - Sigmundur Davíð (nei, þetta er bara plat)

Hef komist að því eftir langa og stranga umhugsun að ég eigi bara að skrifa um það sem mig langar til. Ekki það sem ég held að lesendur vilji lesa. Þessvegna byrja ég á hugleiðingum um gönguferðir og megrun.

Í morgun (þriðjudag) fór ég í morgungöngu einsog flesta morgna. Fór vel af stað og var búinn að fara 433 metra eftir 5 mínútur. Hélt hraðanum nokkuð vel en undir lokin fór að draga af mér. Á endanun losaði klukkutíminn þó 5 kílómetrana. Fór 5,01 km á klst. Minnir að ég hafi farið 5,05 á klukkustund um daginn. Er þó ekki alveg viss. Nú er ég 104,5 kg en fór að mig minnir einu sinni eða tvisvar yfir 105 kg undanfarna daga. Á að setja punkt á eftir g-inu í kg?

Það er undarlegt með mig. Þegar einhverjum verður verulega á í íslenskunni hvað snertir  orðatiltæki eða þess háttar, þá er ég vís til að muna það endalaust. Man t.d. eins og það hefði gerst í gær þegar Vigdís sagði í sjónvarpsviðtali að hún hefði orðið „flemtri slegin“ yfir snjóflóðafréttum sem sjónvarpsfréttamaðurinn tíundaði. Einnig er mér í fersku minni sjónvarpsauglýsing þar sem greinilega kom fram að auglýsingasemjarinn hafði enga hugmynd um af hverju talað er um að láta „brýnnar síga“. Hélt greinilega að þar væri verið að tala um brýr. Svo er alveg klassískt þetta með kryddsíldina. Verð líka að gæta mín á að nota ekki málshætti þar sem skemmtilegur misskilningur kemur í ljós. Til dæmis á ég það til að segja að ekki sé „hundur í hættunni“ og ýmislegt þess háttar. Mínum eigin yfirsjónum gleymi ég þó yfirleitt samstundis.

Lafði Díana eða hékk hún?
Bölva formælendur mikið?
Er nunnunum í Hafnarfjarðarklaustri ábótavant?
Er það rétt að bókhaldarar fari gjarnan niður að tjörn til að láta endurskoða reikninga?
Eiga steggirnir á tjörninni erfitt um andardráttinn?

Já, það er margt sem ég velti fyrir mér og ekki allt gáfulegt. En nú er orðið svo langt síðan ég bloggaði að ég verð víst að láta þetta frá mér þó það sé í styttra lagi.

WP 20150620 14 47 03 ProSetið úti í blíðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæmundur. Var ekki kominn tími til að skrifa um það sem þig langaði til. Hvers vegna ættu þú og aðrir ekki einmitt að skrifa nákvæmlega frá eigin hjarta?

Vonandi gengur þú ekki fram af bjargbrún. Við erum víst of mörg sem gerum það, á lífsins misjöfnu og mislægu gatnamótanna gönguferðum.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.7.2015 kl. 21:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vitaskuld eru stjórnmálin ein allsherjar vitleysa en samt getur verið gaman að velta því fyrir sér hvað muni gerast þar næst.

Þetta með að skrifa eins og manni sjálfum líkar eð eftir því hvað lesendur vilja heyra er gömul dilemma sem allir verða einhvertíma að gera upp við sig. Kannsi hef ég verið seinn til þess. Auðvitað blandast þetta eitthvað saman.

Sæmundur Bjarnason, 11.7.2015 kl. 02:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband