1634 - Reglur um blogg

Scan10Gamla myndin.
Bjarni Harðarson og ég veit ekki hver.


Það er þrjár reglur sem þarf að hafa í huga til að geta bloggað með árangri. Því miður veit enginn hvernig þessar reglur eru. Ég fer venjulega eftir þeirri reglu einni, að það séu engar reglur til um það, enda kann ég ekkert að blogga. Yfirleitt eru allar reglur til þess eins að brjóta þær. Þetta vita allir. Samt er alltaf verið að hamast við að búa til reglur um allan fjárann. Best væri auðvitað að hætta því.

Sú breyting hefur orðið á Moggablogginu að innleggin þangað koma ekki í ljós alveg strax. (Sama hversu góð þau eru.) Þetta hefur orðið til þess að ég hef ekki fundið strax á Moggablogginu það sem ég þóttist þó hafa sent þangað. Þannig hefur mér með naumindum tekist að komast hjá því að tvítaka sum bloggin. Þau eru samt það góð (finnst mér) að þau hefðu alveg þolað það. Samt er þetta ekki sérlega góð hugmynd. Kannski er þetta bara vegna þess að ég blogga stundum á öðrum tímum en vanalega. Hvað sem því líður er þetta ekki alvarlegt. Hætti svo að hugsa um þetta. 1 2 og þrír.

Breiðfylkingin með aðstoð útvarps Sögu og Frjálslynda flokksins sáluga ætlar um næstu helgi að ljúka við að stofna sjálfa sig. Baráttan um atkvæði þeirra sem ekki vilja að fjórflokkurinn ráði áfram öllu hér á landi er hafin. Veit samt ekki hver er í forsetaframboði fyrir Breiðfylkinguna. Kannski á eftir að ákveða það.

„Það er nú svoleiðis með mig“, var Jón Eðvarð vanur að segja í gamla daga þegar kvennamál bar á góma (sem var nokkuð oft). Með þessu áttu tilheyrendur að álíta Jón Eðvarð öfugan. Þannig held ég að flestir hafi tekið þessu. Nú á ekki lengur að útrýma villtu fólki segir Snorri í Betel heldur reyna að leiða því villu síns vegar fyrir sjónir. Ef það er rétt að allt að því 10 prósent fólks sé í eðli sínu samkynhneigt er þetta varla vinnandi vegur.

Er ég að reyna samkeppni við Baggalút með því að gera grín að öllu? Ekki er það vitandi vits. Hugsun mín er bara svona takmörkuð. Á erfitt með að greina á milli alvöru og skops og er þess vegna yfirleitt fremur þungur á brúnina og álitinn fúllyndur mjög. Svo er bara að reyna að gera gott úr öllu saman, en það gengur misjafnlega.

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Þetta held ég að ég hafi einhverntíma sett saman sjálfur og man ekki eftir að hafa fyrr bloggað um það. Ekki er þetta merkilegur kveðskapur, en í lagi þó.

Ekki held ég að umræðan um Evrópusambandsaðild verði stuðningsmönnum slíkrar inngöngu erfið ef andstæðingunum er alvara með að láta Vigdísi Hauksdóttur og Ásmund Einar Daðasons vera áfram helstu talsmenn andstöðunnar við aðild. Sú held ég raunar ekki að verði niðurstaðan og munu þau eflaust kalla það einelti.

Samkvæmt skoðanakönnunum er þó augljóst að andstaðan við aðild er talsvert mikil. Á þann hraðferðarvagn vil ég þó ekki stökkva. Aðild Íslands að ESB mun einhverntíma verða staðreynd. Hagstæðasti tíminn fyrir upptöku slíkrar aðildar er löngu liðinn og ef við Íslendingar bíðum enn með það mun hlutur okkar halda áfram að versna, nema ESB breytist að öllu leyti í samræmi við vonir andstæðinga þess.

Svo enn sé höggvið í sama pólitíska knérunninn og fyrr, þá sé ég endalok núverandi ríkisstjórnarsamstarfs verða með þeim hætti að þingflokkur VG ákveði að slíta því. Sennilega verður það með tilvísun til ESB og Jóhanna mun líklega svara því með að boða til alþingiskosninga. Þetta gæti orðið í vetur eða vor. Frekar þó næsta haust. Punktur og Pasta.Hsldkjasdflaskdjf

IMG 8053Tveir steinar í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jón EÐVALD heitir vor ágæti skólabróðir. Kvæntur henni Svanhildi Árnýju Vilhjálmsdóttur í  fimmtíu ár og er orðinn margfaldur afi. Hann var sko ekki hinsegin, en vildi gjarna að fólk teldi hann náttúrulausan.

Ellismellur 15.3.2012 kl. 08:18

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ellismellur. Ég skrifaði þetta bara eftir minni. Leiðinlegast þykir mér að hafa haft nafnið hans vitlaust, en þetta er alveg rétt hjá þér. Ég trúði því aldrei að hann væri náttúrulaus til kvenna svo ég tók frekar hina skýringuna þó hann segði aldrei neitt í þá veru beinlínis. Takk aftur fyrir leiðréttinguna. Hún er vel þegin.

Sæmundur Bjarnason, 15.3.2012 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband