1633 - Svona á að blogga

Scan9Gamla myndin.
Kristín Þóra Harðardóttir og Bjarni Sæmundsson.

 

Nei, ég er ekki hættur að blogga. Bara að minnka það svolítið, enda ekki vanþörf á. Þó ekki væri annað þarf ég endilega að koma myndunum mínum einhvervegin að. Mér finnst þetta góð aðferð til þess. Hef líka lúmskt gaman af að skrifa. Það er jafnvel enn betra og skemmtilegra eftir að ég hætti að láta dagatalið ráða svona miklu um skrifin.

Með þindarlausu bloggi í mörg ár er ég búinn að koma mér upp blogg-ég-i sem á ekkert (eða a.m.k. mjög lítið) sameiginlegt með mér sjálfum. Þetta er frekar leiðinlegur gaur sem allt þykist vita. (Viðurkennir jafnvel ekki að hann þurfi oft að gúgla einföldustu staðreyndir.) Hann er í stuttu máli sagt fremur óþolandi. Samt er þetta pár lesið og ekki þýðir fyrir mig (Sæmund sjálfan) að segja mikið við því. Tek lesendum bara vara fyrir því að þetta er alls ekki ég. Það var með naumindum að mér tókst að skjóta þessari málsgrein inn. Sennilega verður henni hent út ef Skrif-ég sér þetta.

402575 10150534904296964 756351963 8985883 1314099498 nÞessari mynd stal ég af fésbókinni. Það er ekki ýkja erfitt að lesa þetta ef maður skilur ensku sæmilega. Tölustafirnir tákna yfirleitt þá bókstafi sem þeir líkjast mest. Best er sennilega að fara hratt yfir þetta í fyrstu því við endurtekinn lestur verður sífellt auðveldara að skilja þetta.

Mér var að detta svolítið frábært í hug áðan. Ég er að hugsa um að skrifa bók sem á að heita „Hvernig á að blogga?“ Þetta á að vera kyndilbók, þ.e.a.s. það á að vera hægt að lesa hana í kyndiltölvu og reyndar allskonar lesvélum líka. Þar á að vera hægt að velja sér font og stærð á honum eins og venjulega og allt þessháttar. Kannski ég leyfi textanum að vera pdf líka. Er bara ekki búinn að finna út hvenig ég geri það. Ég er að hugsa um að hafa bókina ókeypis. Þá vilja ábyggilega flestir kíkja í hana. Hinn möguleikinn er að hafa hana rándýra en ókeypis kynningu og sýnishorn.

Ég er búinn að hugsa heilmikið um þetta en á bara eftir að skrifa bókina. Það getur varla verið mikið mál. Best að vinda sér í það. Kannski get ég notað gömul blogg til að koma mér af stað. Athuga það.

Á meðan ætla ég bara að blogga smá. Eitt atriðið í bókinni gæti verið að benda á að það er alveg óhætt að blogga um hvað sem er. Hér er t.d. pínulítið leikrit sem ég var að enda við að semja. (Í huganum reyndar og kannski tekur það sig ekki eins vel út á prenti.)


A: Þegar ég baða mig nota ég alltaf 1313 bakteríudrepandi handsápu.

B: Þorirðu það alveg?

A: Hvað áttu við? Heldurðu að ég sé einhver baktería?

B: Nei, en þið eruð soldið lík. Heldurðu að sápan finni alltaf mismuninn?

A: Huh.

B: Þetta er nú samt ágætur brandari hjá mér.

A: Já, kannski.


Svona getur nú verið einfalt að blogga. Um að gera að láta ekki fréttir dagsins flækjast of mikið fyrir sér. Auðvitað má alltaf reyna að sýnast voða gáfaður með því að kommenta á þann hátt um þær.

IMG 8036Nei, annars. Sennilega er þetta ekki sýningaríbúð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkileg mynd að tarna, maður verður bara ánægður með sjálfan sig að geta lesið þetta, næstum eins fullur sjálfsálits og þegar maður hefur sig í gegn um ruslpóstvörnina. ;-)

81a3ni 9unnlau9u3 14.3.2012 kl. 10:43

2 identicon

Fyndið örpínuleikrit.  Og flott mynd.  Myndin er lika einskonar örpínusaga finnst mér.

asben 15.3.2012 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband