1564 - Staðgöngumæðrun og landsdómur

Scan75Gamla myndin.
Við Vegamót. Hafursfellið sést vel á þessari mynd.

Mér finnst einkennilegar þær fréttir að til standi að flytja tillögu um að hætta málarekstri gegn Geir Haarde. Fæ ekki séð að neitt það hafi breyst sem til þess gæti orðið að þingmenn skiptu um skoðun í því máli. Minnir að flokkslínur hafi riðlast talsvert þegar greidd voru atkvæði um þetta á sínum tíma. Ef flutningsmenn hafa ekki tryggt sér öruggan meirihluta fyrirfram við slíka tillögu er hún aðeins málþófstaktík. Fjölmiðlar fjalla einkennilega um þessa hugmynd. Það er varla þeirra hlutverk að mynda þrýsting á þingmenn hvað þetta varðar.

Reynir Tómas Geirsson er prófessor í fæðinga- og kvensjúkdómafræði og yfirlæknir á Landsspítala. Hann mun vera einn helsti sérfræðingur landsins í slíkum fræðum og skrifaði nýlega grein í Fréttablaðið. Sú grein var um staðgöngumæðrun. Ekki ætla ég mér að deila við Reyni Tómas um þau mál sem hann hefur sérþekkingu á þó vel megi finna kafla í greininni sem orka tvímælis. Undir lok greinarinnar segir hann: Bloggheima og fésbækur þarf að forðast. Þarna opinberar hann augljósa fordóma og þekkingarleysi. Ekki er hægt að sjá annað en hann álíti Fréttablaðslega umfjöllun um mál annarri umfjöllun æðri. Blogg og Facebook þekkir hann örugglega ekki. Umfjöllun þar er miklu minna og jafnvel ekkert síuð eins og er á stóru fjömiðlunum. Margt er þar að finna miður fallegt eða fréttnæmt en það má engu að síður segja um stóru fjölmiðlana. Samt er það svo að þetta er hluti af tækni nútímans og á bloggi og fésbók er oft að finna það sem ekki er hægt að finna annars staðar.

Hulda á Mel var lærð ljósmóðir. Hún sagði oft: Pétur sagði, þegar læknisfræðileg mál bar á góma. Hún hafði lært hjá Pétri Jakobssyni og bar mikla og djúpa virðingu fyrir honum. Held að Pétur hafi verið fyrirrennari Reynis Tómasar í starfi og eflaust vill Reynir að borin sé virðing fyrir sér. Hann þarf þá að temja sér vandaðri vinnubrögð.

Las á fésbókinni í dag um að fésbókin hefði étið peningaveski einhvers eða farsíma með því að flokka póstinn eftir eigin höfði. Man ekki eftir að hafa lent í slíku með fésbókina enda er ég fésbókaróvinur og nota hana sem minnst. Lendi stundum í því með bloggið mitt að þar eru skrifuð einskonar bréf í gestabókina en ekki athugasemdirnar. Lít alltof sjaldan í hana og þessvegna getur liðið talsverður tími áður en ég uppgötva tilskrifið. Einnig á ég það til að kíkja alltof sjaldan í pósthólfið mitt á snerpa.is.

IMG 7464Ber.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er rétt hjá þér, Sæmuncdur, að fráleitt er að gefa sér, að umræða á vefnum, þ.e. á bloggslóðum, sé af sjálfri sér lakari að gæðum en blaðagreinar og fréttir. Hver umræða og umfjöllun hvers bloggara verður að dæmast efninu, efnistökum og upplýsingagildi, ekki með einhverjum fordómastimpli sem menn gamals vana skella á umræðu sem þeir hafa ekki sinnt.

Já, Reynir Tómas þarf að "temja sér vandaðri vinnubrögð," og það á við um fleiri mál en staðgöngumæðrun, s.s. fósturdeyðingar og hina falskt nefndu "neyðargetnaðarvörn"; um það síðarnefnda mál virti hann að vettugi grein, þótt í dagblaði væri –– og þó að sú grein afhjúpaði slæma aðkomu hans að því máli og arfaslök vinnubrögð.

En um staðgöngumæðrun er ekki hreinskilinn, þegar hann skrifar í Fréttablaðsgrein sinni: "Hér er um að ræða mjög fáar konur, eina á eins eða tveggja ára fresti" – og var þar að vísa til kvenna sem eru skapaðar án legs, missa leg sitt eða geta af öðrum heilsufarsástæðum ekki gengið sjálfar með barn – en sjálfur hefur hann í útvarpsviðtali talað um þetta sem "lausn" fyrir fleiri en konur í slíkum aðstæðum. Meðal þrýstihópa á (eða áhugasamra um) þetta mál mun einnig vera samkynhneigðir karlmenn, því að ekki geta þeir sjálfir gengið með barn, ólíkt lesbíum.

Það verður að horfa á stóru myndina, hvað hér er verið að opna á. Staðgöngumæðrun gerir konuna og tilfinningar hennar að verzlunarvöru og til lítils að halda því fram, að konur geri þetta af hugsjón eða manngæzku nema þá í mesta lagi fyrir systur sínar.

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 04:48

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

... En um staðgöngumæðrun er hannekki hreinskilinn ...

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 04:49

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held að staðgöngumæðrun geti í stöku tilfellum átt rétt á sér. Ef til vill er rétt að setja lög um þetta og tal þitt Jón Valur Jensson um samkynhneigð á ekki við lengur. Ég man þá tíð þegar sjálfsagt þótti að níðast á þeim minnihlutahóp en sú tíð er liðin. Skoðanir þínar í þessu efni eru þér til skamman Jón Valur og eiga sinn þátt í því að þú ert með réttu álitinn öfgamaður um flest.

Sæmundur Bjarnason, 17.12.2011 kl. 07:24

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég held að fleiri ættu að minnast þess sem Pétur sagði. Þar á meðal læknirinn sem þú nefnir. Sem virðist álíta sig flestum dauðlegum æðri og fremri. Það átti ekki við um Pétur. Pétur sagði eitthvað á þessa leið þar sem ég heyrði til: Maður er alla ævina að læra og það sem eru æðstu vísindi í dag er kannski orðið kerlingabækur á morgun. -- Pétur gerði á mér barnungnum læknisfræðilegt kraftaverk sem kom kvensjúkdómum og fæðingarhjálp ekkert við, enda var hann „bara kandídat“ þegar það gerðist. Ég segi ekki að ég minnist hans með hlýhug á hverjum degi, en altént nokkrum sinnum í viku.

Sigurður Hreiðar, 17.12.2011 kl. 09:56

5 identicon

Gaman þótti mér að sjá myndina frá Vegamótum. Planið framan við húsin eins og það er á myndinni er með því móti sem ég man eftir því sem unglingur. Maður fór þarna ansi oft um á þeim árum, eins og þú getur gert þér í hugarlund.

Ellismellur 17.12.2011 kl. 11:49

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er létt að þola gagnrýni, sem engin rök fylgja, og það á við um það, sem þú segir hér, Sæmundur, um tal mitt um samkynhneigð.

Staðgöngumæðrun telur þú í stöku tilfellum geta átt rétt á sér, en það er auðvelt að sjá fyrir sér, að hér eins og í mörgum öðrum siðferðislegum álitaefnum (ekki sízt gagnvart ófæddum börnum og þeirri stefnu að óvirða líf þeirra, ef það þykir ekki henta öðru hvoru foreldranna eða öðrum í ættinni) muni það gerast, að löggjöf um þetta verði það "slippery slope", sú hála brekka undan fæti, sem leiða muni til miklu fleiri tilvika en að var stefnt í upphafi. Ég spái hér verzlunarmennsku með líkama konunnar.

En ég ætla ekki að þræta við þig frekar um það, læt mér nægja að vísa á vefsíðu læknis, Guðmundar Pálssonar, sem hefur í allnokkrum greinum fjallað um þessi mál: gp.blog.is, og þeirra nýjust er þar efst: Ný tillaga um staðgöngumæðrun. Umsögn mín. Einnig hefur verið ritað um málið á vefsíðu Kristinna stjórnmálasamtaka (Krist.blog.is).

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 13:57

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er einnig vert að minna á, að sjálfur aðal-flutningsmaður frumvarpsins um staðgöngumæðrun, Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins (sem seint ætlar að losna við sína ofurfrjáshyggju), hefur opinberlega talað fyrir þvi máli, að staðgöngumæðrun eigi m.a. að vera leið fyrir samkynhneigða karmenn til að eignast barn. Ganga ber út frá þessu viðurkennda stefnumarki hennar, þegar rætt er um þetta mál, í stað þess að láta (eins og Reynir Tómas gerir) sem hér verði aðeins um örfá tilvik að ræða af heilsufarsástæðum örfárra kvenna.

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 14:03

8 identicon

Er óværan komin aftur?

Ólafur Sveinsson 17.12.2011 kl. 15:40

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Áttu við frjálshyggjuna, Ólafur Sveinsson?

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 16:24

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annars er frjálshyggja um margt góð og nauðsynleg. Öðru máli gegnir um ofurfrjálshyggju (hyperliberalism, excessive or extreme liberalism), hvort heldur er í viðskiptalífinu eða í siðferðisefnum.

Jón Valur Jensson, 17.12.2011 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband