1563 - Dumbur hefur konungur heitið

Scan70Gamla myndin.
Á hlaðinu við Vegamót. Benni er í rauða bolnum, aðra þekki ég ekki.

Kannski Vantrúarmálinu sé að ljúka. Er þetta ekki bara angi af biskupsmálinu? Eru það ekki trúmál sem alltaf vekja heitustu umræðurnar? Hrun-umræðurnar eru að verða dálítið þreyttar, en það má alltaf finna nýja fleti á trúmálunum. Ég þarf þó ekki að fylgja straumnum frekar en ég vil. Leiðist þetta mál svolítið.

Var að enda við að lesa kiljubók af bókasafninu sem heitir „Litháinn“. Þetta er svona ósköp venjulegur krimmi. Heldur manni alveg sæmilega við efnið en prófarkalesurinn hefði getað verið mun betri. Villurnar og misskilningurinn vaða uppi og stinga talsvert í augun. T.d. virðist höfundurinn ekki gera greinarmun á hurð og dyrum, en það finnst mér afspyrnu ljótt að sjá. Held að þetta sé ný bók og skil ekki af hverju hún er í kiljuformi. Vaninn hér á landi er að hafa slíkar bækur vandlega innbundnar þó ómerkilegar séu. Tilvísanir í fréttir dagsins eru margar í bókinni og gera hana stórum verri en annars væri.

Varðandi Icesave-málið, sem virðist vera að rakna úr rotinu núna, vil ég bara segja að líklega væri heillavænlegast að semja ef það er hægt. Hugsanlega þarf að gera það sem fyrst en satt að segja er ég ekki mjög hræddur um að þetta fari illa. Það hefur hingað til reynst okkur Íslendingum ágætlega að hunsa þá dómstóla sem okkur sýnist. ESB mun þó e.t.v. reyna að þvinga okkur til einhvers sem við héldum að við slyppum við. T.d. er hætta á að mismununin verði okkur mun þyngri í skauti en ríkisábyrgðin.

Í upphafi Bárðar sögu Snæfellsáss segir:

Dumbur hefir konungur heitið. Hann réð fyrir hafsbotnum þeim er ganga norður um Helluland og nú er kallað Dumbshaf og kennt var við Dumb konung. Hann var kominn af risakyni í föðurætt sína og er það vænna fólk og stærra en aðrir menn en móðir hans var komin af tröllaættum og brá því Dumbi í hvorutveggju ætt sína

Og Dumbur minnir mig að hafi verði pabbi Bárðar. Því minnist ég á þetta að Magnús Þór Hafsteinsson á Akranesi hefur skrifað bók sem hann nefnir „Dauðinn í Dumbshafi“ og er um skipalestirnar sem fóru til Murmansk og höfðu jafnan viðkomu í Hvalfirði. Einnig las ég fyrir skömmu bók eftir séra Róbert Jack sem hann skrifaði fyrst á ensku og fjallar um daglegt líf í Grímsey þegar hann var prestur þar. Sú bók var á íslensku kölluð „Dagar í Dumbshafi“.

Þetta sambland af gamni og alvöru sem ég hef tileinkað mér fellur greinilega einhverjum í geð. Sé ekki betur en lesendum mínum fari fjölgandi. Ekki dregur það úr pælingum mínum eða fjarlægir mig frá blogginu á neinn hátt.

IMG 7456Líkan af Sveitabæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við vildum báðir semja, á sínum tíma og ég hef ekkert skift um skoðun.

Ólafur Sveinsson 16.12.2011 kl. 08:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en aðstæður eru gjörbreyttar. Það að vilja samninga nú er ekki það sama og vilja samninga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sæmundur Bjarnason, 16.12.2011 kl. 10:24

3 identicon

Neibb.

Ólafur Sveinsson 16.12.2011 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband