1158 - Bölvuð pólitíkin

Enn og aftur verð ég að skrifa allt frá grunni. Gerir lítið til. Alltaf gott samt að koma að bloggi dagsins hálfskrifuðu eða uppundir það. Er ekki frá því að mótmælin á Austurvelli í gær (fimmtudag) hafi verið harkalegri en ég bjóst við. Úr því að ekki sauð uppúr við þingsetninguna núna eða strax að henni lokinni hef ég ekki mikla trú á að ríkisstjórnin sé í hættu vegna óeirða. Það væri þá miklu fremur vegna væringanna í sambandi við ákæru Geirs Haarde sem búast mætti við slíku. Bjarni Benediktsson segir Sjálfstæðisflokkinn fyrir hvern mun vilja kosningar. Varla trúa því margir. Fjórflokkurinn óttast fátt meira en kosningar nú. Búast má samt við að sú verði raunin eftir svona rúmt ár.

Svanur Gísli Þorkelsson athugasemdast við síðasta blogg mitt og gerir það vel að vanda. Svaraði honum strax og vil nú bæta við nokkru sem ég gleymdi með öllu að minnast á í svarinu. Þessir sem Svanur kallar „fréttabloggara" hafa lengi farið í taugarnar á mér. Mest er það auðvitað vegna þess hve þeir fá margar heimsóknir. Sem betur fer hasast þeir gjarnan upp á þessari vinsældasókn en menn eins og ég halda áfram að blogga og blogga. Mest er það að sjálfsögðu um ekki neitt, en fólk vill fyrir hvern mun lesa slíkt og ég er alltaf jafnhissa á því.

Að einu leyti er ég undir svipaða sök seldur og þeir sem Svanur kallar fréttabloggara (með fyrirlitningu). Ég er afskaplega latur við að gera athugasemdir hjá öðrum. Finnst jafnvel stundum að ekki sé beðið eftir mínu áliti. (hmmm) Hins vegar hef ég reynt að haga mér líkt og Jens Guð og svara sem flestum sem láta svo lítið að skrifa athugasemdir við mitt blogg. Er ekki frá því að það auki vinsældir mínar.

Reiðin og biturleikinn í þjóðfélaginu er engin ímyndun. Auðvitað stafar það af því að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig sem skyldi. Hvers vegna brýst reiðin þá ekki út með ákveðnari hætti? Það er vegna þess að ekki er hægt að búast við skárri ríkisstjórn við núverandi aðstæður. Er þetta þá ekki andstaða við stjórnmálin í heild? Jú, einmitt. Það held ég að sé hin raunverulega ástæða. Og fólk vonast eftir breytingu. Við getum ekki þolað núverandi ástand endalaust.

IMG 3208Reyniber. (held ég)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Já, ég reyni ber líka :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.10.2010 kl. 11:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ef menn reyna eitthvað berir þá dettur mér náttúrlega í hug að um daginn var ég að lesa eitthvað um "viðreynslur" en las það sem viðrekstur og skildi ekki samhengið.

Sæmundur Bjarnason, 3.10.2010 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband