1156 - Skipt um dekk með hraði

Merkilegt með mig. Aldrei þreytist ég á að blogga. Fátt er mér betur gefið en gæta þess að senda daglega einhver skrif (mismerkileg þó) á Moggabloggið. Mér er sagt af Moggablogginu sjálfu að ég hafi byrjað á þessu í desember 2006. Þá var ég alllengi búinn að fylgjast með ýmsum bloggum þó ég tæki ekki stóra stökkið fyrr en þá. Fyrst var þetta nú dálítið stopult en það er samt býsna langt síðan ég byrjaði að blogga nokkurn vegin á hverjum degi og nú get ég ekki hætt.

Gott ef mér finnst ég ekki eldast hægar með því að blogga svona eins og vitlaus maður. Kannski er það einkum hin andlega hrönun sem ég hægi á eða kem í veg fyrir með þessu stöðuga og óstöðvandi bloggelsi. Endurminningar og þessháttar er skemmtilegast að skrifa en bæði er erfitt og fremur seinlegt að standa í slíku í miklum mæli.

Einu sinni datt okkur Bjarna í Kaupfélaginu og einhverjum fleirum í hug að skjótast til Reykjavíkur á landsleik í knattspyrnu. Sá leikur fór fram á Laugardalsvellinum og var líklega við Norðmenn. Auðvitað væri hægt að gúgla það en ég nenni því ekki.

Ekki er að orðlengja það að athafnir fylgdu orðum og strax og vinnu lauk steðjuðum við til Reykjavíkur og komumst klakklaust upp Kambana á svarta fína ameríska bílnum hans Bjarna. Á Hellisheiðinni sprakk hinsvegar dekk. Við vorum þegar orðnir nokkuð seinir svo við flýttum okkur allt hvað af tók við skiptin og rákum hver á eftir öðrum og einhverjum okkar hugkvæmdist að taka tímann. Eftir tvær mínútur sléttar vorum við komnir af stað aftur og búnir að skipta um dekk.

Aldrei, hvorki fyrr né síðar, hef ég skipt um dekk með öðrum eins látum og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar ég fór að fylgjast með Formúlu eitt að ég sá að fleiri höfðu tileinkað sér margar af þeim hugmyndum sem við fengum við þessi dekkjaskipti.

Einu sinni var kona sem sjaldan eða aldrei var kölluð annað en Síðkastið. Af því spunnust margir ágætir brandarar. Einu sinni var framhaldsþáttur í ríkissjónvarpinu (líklega spurningaþáttur) sem útheimti það að farið var á ýmsa staði á landinu. Stúlka í hópnum hét Heiður (gott ef hún taldi ekki stigin) Til að komast á suma staðina þurfti að fara yfir fjöll og heiðar. Af því spunnust ýmsir svipaðir brandarar sem sumir kalla fimmaurabrandara en öðrum þykja skemmtilegir mjög. Þá sönglaði einhver:

Ekkert uppá heiði hef
hingað til ég farið.
Ætíð mína greddu gref
það get ég alveg svarið.

IMG 3213Fallstykki, eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband