1155 - Eitt og annað

Mér hættir til að segja of lítið þegar nánari útskýringa er kannski þörf. Þetta stafar af löngun minni og þörf til að vera stuttorður. Um daginn birti ég mynd á bloggi mínu af skilti einu þar sem stóð Seldalur. Undirskriftin minnir mig að hafi einfaldlega verið: Seldalur, hvað? Þetta átti samt að vera gagnrýni á bæjarstjórn Kópavogs. Þetta skilti og þessi órækt er einfaldlega í Kópavoginum miðjum og tölum ekki meira um það. 

Leiðindaveður er úti núna. Rok og rigning. Kannski skrepp ég samt út að labba. Eiginlega er ekkert veður vont ef maður klæðir sig bara rétt. Leiðist samt alltaf mikil rigning.

Hrunblogg eru alltaf jafnvinsæl. Auðvitað hefur fólk farið mjög misjafnlega illa útúr þessu öllu saman en við því er lítið að gera. Hugarfar fólks breytist þó og stjórnmálin og fjármálalífið verður kannski ögn manneskjulegra nú eftir að búið er að ákveða að ákæra Geir. Að öðru leyti er okkur sennilega hollast að halda bara áfram þar sem frá var horfið. Ég var t.d. byrjaður að blogga fyrir hrun og ætla að halda því áfram. Helst vil ég bara leiða hjá mér þessa fjárans Icesave-landsdóms-hrun vitleysu alla saman.

Er að lesa um þessar mundir bókina „Í fótspor afa míns." Það er einskonar framhald bókarinnar „Í húsi afa míns," sem ég las líka. Höfundur er Finnbogi Hermannsson og honum tekst ágætlega að lýsa andrúmslofti uppvaxtarára sinna uppúr 1950. Óx upp á Njálsgötunni og lýsir umhverfinu þar mjög vel og dregur fátt undan. Fyrri bókin var samt betri.

Þrjú boðorð hef ég uppgötvað í þessu bloggdedúi mínu undanfarin ár. Eitt: Engin leið er að lesa væntanleg blogg of oft yfir áður en þau eru send út í eterinn. Tvö: Hæfileg lengd á hverju bloggi er afar þýðingarmikil. Þrjú: Ekki sjá eftir því sem þú hefur einu sinni sett á blað. Ef það passar ekki hentu því þá sem allra fyrst.

Mikið er fjölyrt um návígisþáttinn Þórhalls Gunnarssonar þar sem hann ræddi við Lilju Mósesdóttur. Sá seinni hluta þess þáttar og í mínum huga er merkilegast við hann að vissum stíl var beitt. Myndirnar hafðar þannig að svipbrigði komi mjög vel fram og hugsanlegt er að allt öðru vísi hefði verið að hlusta á þáttinn í útvarpi. Lilja komst ágætlega frá þessu öllu en Þórhallur ekki. Hann glotti of mikið og virtist alls ekki taka þáttinn alvarlega þó málefnið væri það.

Var að enda við að horfa á Kiljuna hjá Agli Helga og fer ekki ofan af því að það er einn albesti þátturinn á dagskrá ríkissjónvarpsins. Bæði fróðlegur og skemmtilegur svo vitnað sé í lokaorðin í þættinum í kvöld.

IMG 3242Þó merkið á þessu húsi sé ansi Rotarylegt er eitthvað minnst á Skátafélagið Kópa þar ef ég man rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Flestir nota þennan miðil til að láta í ljós innibyrgða reiði þótt þú sért ekki í þeim hópi. Varðandi Þórhall Gunnarsson þá hefur mér alltaf fundist hann falskur og smeðjulegur síðan hann reyndi að fletta ofan af vændiskonunni í Hafnarfirði og notaði til þess falinn falda myndavél og birti svo allt í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 minnir mig. Þar fóru hann og aðstoðarkonan, Jóhanna Vilhjálmsdóttir,yfir strikið.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.9.2010 kl. 08:38

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Viðtalið við Lilju var greinilega klippt og örugglega ýmsu sleppt. Oft eru í svoleiðis viðtölum klippt inní myndum af spyrjandanum sem teknar eru sérstaklega sem verður gjarnan til þess að svipbrigði spyrjandans passa ekki alveg við það sem viðmælandinn er að fjalla um. Þetta útskýrir sennilega þetta óviðeigandi glott Þórhalls sumstaðar.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2010 kl. 09:34

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes. Mér fannst Þórhallur oft standa sig vel í Kastljósinu. Man ekki eftir þessum vændiskonuþætti. Jóhanna stóð sig líka oft vel og var áberandi betur undirbúin stundum en tíðkast þar.

Sæmundur Bjarnason, 30.9.2010 kl. 12:27

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Emil Hannes. Já, mér fannst þátturinn minna mig á þáttinn sem Eiríkur Jónsson var eitt sinn með á Stöð 2. Áherslan var kannski meiri þarna á viðmælandanum en Eiríkur reyndi oftast að gera þá hlægilega.

Sæmundur Bjarnason, 30.9.2010 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband