996 - Afsagnir og önnur óáran

Nú hefur fjölgað þeim stöðum á Netinu sem ég þarf að kíkja á öðru hvoru. Þar á ég auðvitað við fésbókina. Læt samt kláðastillandi fótakremið eiga sig í bili. Bloggið mitt er í fyrsta sæti. Þangað lít ég oftast. Blogg-gáttina skoða ég líka talsvert oft. Póstinn öðru hvoru og annað svosem Google-readerinn eftir þörfum en samt of sjaldan. Sumt nálgast ég venjulega frá blogginu og undanfarna daga hef ég mikið horft á beinar útsendingar vefmyndavéla frá eldgosunum.

Nú segja menn af sér eins og þeim sé borgað fyrir. Er þeim kannski borgað fyrir það? Það eina í því sambandi sem veldur mér áhyggjum er að Jóhanna sjálf segi af sér líka. Auðvitað má hún fara eins og aðrir hrunverjar en það þyrfti að finna arftaka fyrst. Ekki líst mér á að vinstri grænir ráði öllu bara af því að þeir komust ekki að bankakötlunum. Hugsanlega eru þeir líka of vinstri sinnaðir.

Annars er rétta tækifærið núna til að endurnýja flokkakerfið. Fjórflokkurinn er úr sér spilltur og gegnrotinn en eitthvað verður að koma í staðinn. Stjórnlagaþingi var lofað á sínum tíma en Alþingismenn eru núna á harðahlaupum frá því loforði og tala helst ekki um það. Réttast væri að taka völdin með öllu af Alþingi. Þeir sem þar þenja sig eiga það skilið. Ólafur Ragnar er að reyna að hrifsa frá þeim völdin en er hann nokkuð betri sjálfur?

Er það gleði andskotans
umboðslaun og gróði
fémunir þá fátæks manns
fúna í ríkra sjóði.

Þessi vísa mun vera eftir Bólu-Hjálmar og á ekkert verr við núna en endranær. Hún var gerð um þá ónáttúru sumra manna og margra maurapúka að sanka að sér mat og geyma þar til hann skemmdist. Áður fyrr voru engar frystikistur og matur vildi eyðileggjast. Þeir sem auðsöfnun af þessu tagi aðhylltust þurftu ætíð að nota þann mat sem elstur var og geyma nýmetið þar til það var nánast ónýtt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég sé ekki betur en þessi vísa Bólu-Hjálmars eigi jafn vel við núna ef ekki betur en þegar hún var ort.

JÁ -- Hvað sagði auðmaðurinn  um daginn, maður sem mokaði milljarðatugum út úr íslenska hagkerfinu og guð má vita hvurt, þegar hann svo kom með milljarð inn í gamla fyrirtækið sitt sem hann fékk aftur á silfurfati og var spurður hvaðan sá milljarður kæmi? Jú, hann svaraði: Það kemur þér ekki við.

Sigurður Hreiðar, 20.4.2010 kl. 13:44

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Dómstólar götunnar dæma
dólga sem talað er um
Burt þrjóta við þurfum að flæma
og þingmenn á harðahlaupum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.4.2010 kl. 17:44

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Af stati-stikkinni að dæma
stoppa hér færri en fyrr
Hver Grefillinn kom fyrir Sæma?
Hví var ekki Steini kyrr?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.4.2010 kl. 18:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eitthvað færri innlit hér
ekki er því að leyna
er fýkur burtu feiknaher
fylgdarlið hans Steina.

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2010 kl. 23:32

5 identicon

Steini snýr aftur, sannið til ... og batna þá bloggheimar á ný.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 21.4.2010 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband