964 - Skrópað í mannkynssögutíma

Einhverntíma að vori til vorum við öll í þriðja bekk Miðskólans í Hveragerði úti á skólatúni í fótbolta þegar hringt var inn í tíma. Að sjálfsögðu vorum við í þriðja bekk yfir aðra í skólanum hafin og vorum ekkert að flýta okkur inn þó hringt væri. Kom svo saman um að fara bara ekkert í tíma en halda áfram í fótbolta því veðrið var svo gott. Þetta átti líka að vera hundleiðinlegur mannkynssögutími hjá séra Helga Sveinssyni.

Ekki voru kannski allir sammála um að gera þetta en þeir frekustu réðu eins og vanalega. Seint og um síðir mættum við svo í tíma. Vissum auðvitað fullvel að séra Helgi mundi ekki æsa sig mikið útaf þessu. Við höfðum aldrei gert þetta fyrr og hann bað okkur um að gera þetta ekki aftur og það gerðum við náttúrulega ekki. Vorum alls ekki vön að gera svona nokkuð og eflaust man ég svona vel eftir þessu vegna þess að atvikið var einstakt.

Eitt af þeim sparnaðarráðum sem við tókum upp í byrjun kreppunnar var að nota alltaf hálfa töflu í uppþvottavélina. Víst er þetta heimskulegt sparnaðarráð en það minnir mann þó oft á að vissulega er þörf á að spara. Hver sparar á sinn hátt og það sem einum finnst sparnaður finnst öðrum hin mesta óspilunarsemi. Leirtauið sem kemur úr uppþvottavélinni er alveg nógu hreint þó aðeins sé notuð hálf tafla en sparnaðurinn er samt afar lítill er ég hræddur um að sumum finnist.

Fór á bókasöfnin í dag og fékk meðal annars lánaða á Bókasafni Kópavogs bókina „Eve online," eftir Óla Gneista Sóleyjarson. Þessa bók hef ég í hyggju að lesa spaldanna á milli enda finnst mér efnið mjög áhugavert. Spilaði á sínum tíma talsvert leikinn VGA planets sem að sumu leyti minnir á Eve Online. Ekki skemmir heldur að ég kannast við nafn höfundarins héðan úr bloggheimum.

Spilaði líka á sínum tíma leikinn Hattrick og þar voru það ekki bara hinir vikulegu leikir sem voru spennandi heldur líka kaup og sala á leikmönnum sem minnir á margan hátt á Ebay-uppboð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

fréttir bárust í dag af því að Ólína væri komin með leitarhund, þá varð mér að orði:

Stundum er strembið að finna
ef stefnan týnist um stund
þeim áhyggjum ætti að linna
því Ólína' er komin með hund

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.3.2010 kl. 23:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þó Ólína hafi nú hund
og hlaði upp beinum á disk.
Hún stefnunni týndi um stund
og stalst til að veiða fisk.

Sæmundur Bjarnason, 20.3.2010 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband