963 - Mórar og skottur

Nú eru mottuvísur í tísku, held ég. Hér er ein: 

Eitt sinn tefldi skák við Skottu
skrauti búinn meistarinn.
Nú er hann með mikla mottu.
Munninn hylur vöxturinn.

Datt í hug að spyrjast fyrir um það á skákhorninu hvort sögur væru til um að Skotta hefði fengið vinning á skákmóti, en er að hugsa um að semja bara svörin sjálfur.

Fyrirspurn: Eru til sögur um það að Skotta hafi einhverntíma fengið vinning á skákmóti?

Svar: Já. Eitt sinn á Grensásveginum kom skákmeistari dálítið seint til leiks. Fyrsta umferðin var langt komin og þar sem þátttakendafjöldinn stóð á stöku var Skotta meðal keppenda. Skákstjórinn vildi endilega að meistarinn tæki þátt og bjó í snarhasti til aðra skottu sem skákmeistarinn var sagður hafa unnið í fyrstu umferð. Þegar leið á skákmótið vildi ekki betur til en svo að þær vinkonurnar lentu í því að tefla hvor við aðra. Sú viðureign var hörð og tvísýn en lyktaði með jafntefli eftir snarpa viðureign.

Svar2: Þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Ég man vel eftir þessu móti og það var Skotta 2 sem vann.

Svar: Nú, var það? Ég hélt að Skotta 1 væri miklu betri. Hún er að minnsta kosti með meiri reynslu.

Horfði um daginn á viðtal Egils Helgasonar við Guðberg Bergsson í Kiljunni. Þeir voru í Grindavík. Dáðist að Guðbergi fyrir hve rólegur og yfirvegaður hann var. Las á sínum tíma bókina „Tómas Jónsson metsölubók," en hún er sem kunnugt er eftir Guðberg. Hef sjaldan hrifist eins mikið af einni bók. Margt í henni er mér enn minnisstætt. Eiginlega finnst mér síðan eins og allar bækur séu annað hvort skrifaðar áður en Tómas Jónsson kom út eða á eftir. Hef samt ekki lesið neitt sérstaklega mikið eftir Guðberg. Las þó næstu bækur hans en missti síðan áhugann á því sem hann hafði að segja.

Mér finnst að hver dagur sem líður án þess að einhver úrslit fáist í Ísbjargarvitleysuna sé okkur Íslendingum í óhag. Ekkert hef ég séð sem styrkir þá skoðun að Bretar og Hollendingar vilji flýta sér að leysa þetta mál og að samningsaðstaða Íslands hafi batnað við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Auðvitað hafa stjórnvöld sífellt verið að reyna að plata okkur. Sagt að allt fari til fjandans ef ekki er gert svona og svona. Geðheilsu okkar vegna held ég samt að ekki sé hægt að halda þrasinu um Icesave áfram endalaust. Fleira skiptir máli en það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér finnst aftur á móti eftir atkvæðagreiðsluna og fýlukastið hafi þau slakað á þessu máli og loksins farið að huga að okkur almenningi, þó eflaust megi þau gera mikið betur, þá eru þau þó allavega með hugan við íslenskan almenning en ekki ESB og Icesave, tilbreyting sem mér finnst til batnaðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2010 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband