946 - Þeir þora ekki

Icesave er skítugt mál. Ætla samt að skrifa um það eins og fleiri gera. 

Eins mikið og ríkisstjórnina og líklega alla stjórnmálamenn landsins langar að koma í veg fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu hef ég enga trú á að þeir þori að framkvæma slíkt.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi stjórnmálamaður er þeirrar skoðunar að koma beri í veg fyrir hana og skorar nú á sína fyrrum félaga að sjá um að hún fari ekki fram.

Almenningur í þessu landi mun ekki láta bjóða sér slíkt. Þjóðaratkvæðagreiðslan þarf að fara fram. Þó það sé eiginlega bara til þess að hún fari fram. Þeir sem barist hafa gegn Icesave-samkomulaginu og hinir sem hafa verið gagnstæðrar skoðunar ættu vel að geta verið sammála um það. Tími er til kominn að almenningur fái að tala.

Svokallaðir stjórnmálamenn hafa reynst óhæfir til alls. Verstir eru þeir sem sitja á Alþingi. Lýðræði er það að lýðurinn ráði en ekki sjálfskipaðir varðhundar fjórflokksins.

Mikil þáttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun setja Alþingismenn og ríkisstjórn til hliðar. Það getur orðið upphafið að siðvæðingu stjórnmála á Íslandi.

Bretar og Hollendingar munu gera það sem þeir geta til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Óþarfi er að láta þá komast upp með það. Úr því sem komið er liggur alls ekkert á að semja um Icesave fyrir atkvæðagreiðsluna. Líklegast er þó að semja verði.

Sumir vilja þó komast hjá öllum samningum og líður best í þverúðinni og afneituninni. Ekki þarf þó að láta það hindra kröfu um atkvæðagreiðsluna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenskur lýður ófríður,
ætíð í duftinu skríður,
svörðinn oftast hann svíður,
í svartholum gestur er tíður.

Þorsteinn Briem, 1.3.2010 kl. 04:52

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Við erum bara komin í svo fáránlega stöðu með þetta Icesave dæmi.  Um hvað eigum við eiginlega að kjósa ?  Að samþykkja samning sem er orðinn verri en samningur sem við getum fengið í dag ?  Ég vildi klára þetta Icesave mál fyrir löngu síðan og að við snerum okkur að uppbyggingu landsins - Nota Bene án útrásarvíkinga í aðalhlutverkum.  Nú er ég farin að óttast annað hrun.  Heimilin geta ekki greitt stökkbreytt lán í það óendanlega og atvinnuleysið er ekki beinlínis að hjálpa fólki. 

Ég vildi á sínum tíma að forsetinn skrifaði undir...... ég vil ekki verri samning frekar en betri samning.... ég trúi því að Indefence sé áróðursbragð stjórnarandstöðu...... og hvað er þá eftir fyrir mig að kjósa um ? 

Anna Einarsdóttir, 1.3.2010 kl. 11:01

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Við getum notað tækifærið og kosið um fleiri gömul mál eins og EES-samninginn eða útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur, nú eða líka afnám áfengisbannsins … eða var kannski búið að kjósa um það?

Emil Hannes Valgeirsson, 1.3.2010 kl. 11:36

4 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég ætla að afrita hingað niðurlagið úr síðasta pistli mínum og vona að mér fyrirgefist það.

Þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni er eitt af því sem hávær krafa hefur verið um undanfarin ár, og nú loksins fáum við þá fyrstu á Lýðveldistímanum - bindandi þar að auki, en ekki ráðgefandi eins og þau lagafrumvörp sem nú liggja fyrir á þingi.  Það er því óskiljanlegt að horfa á marga þá sem hafa barist fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum gera lítið úr henni og hafa jafnvel sagst ætla ekki að mæta á kjörstað.  Ég hvet þá, sem og alla aðra, til þess að mæta í sína kjördeild næstkomandi laugardag og sýna lýðræðisást sína í verki.

Axel Þór Kolbeinsson, 1.3.2010 kl. 12:16

5 Smámynd: Kama Sutra

Ég er farin að hafa það á tilfinningunni að flestir sem ætla að mæta á kjörstað geri það til að reyna að sparka í Breta og Hollendinga.  Það vita allir að þessar kosningar eru orðnar marklausar.

Kama Sutra, 1.3.2010 kl. 14:10

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll. Hef eiginlega engu við það að bæta sem ég sagði í pistlinum. Fannst hann bara nokkuð góður hjá mér.

Sæmundur Bjarnason, 1.3.2010 kl. 14:49

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps, gleymdi yrkingunum. Steini er skemmilegur. Nota rímorðin hans. Án ábyrgðar.

Steini er ætíð stríður
stynur í duftinu og skríður.
Sumum þó finnist ófríður
freklega tími hans líður.
En efalaust blessun hans bíður
og bláleiti frakkinn hans síður.
Mærir hann þröskuldur þýður
og þykir hann sjúklega fríður.

Sæmundur Bjarnason, 1.3.2010 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband