Færsluflokkur: Bloggar
4.5.2020 | 06:35
2949 - Sólskin og hiti á Sunnudagsmorgni
Dagurinn í dag er talsverður hátíðisdagur. Þetta er vonandi upphafið að því að við losnum við veiruskrattann. Í gærmorgun eftir að ég var búinn að blogga svolítið, fór ég í 5 kílómetra langa morgungöngu. Hún var næstum of löng fyrir mig. Var dauðþreyttur eftir hana. Venjulega fer ég ekki nema 3 kílómetra. Alltaf hrekkur maður jafnmikið við þegar mávahláturinn skellur á manni eða brjálað hjólreiðafólk þeysir framúr manni á 60 til 70 kílómetra hraða, þegar maður heldur sig vera einan í heiminum. Auðvitað er maður það ekki.
Í flestum hefðbundnum distópíusögum eru faraldrar yfirleitt mun mannskæðari en þessi Covid-19 virðist vera. Oftast verða stjórnvöld alveg óvirk o.s.frv. og býður það heim hvers konar mótmælum og óaldarflokkum. Þessi faraldur er samt alveg nógu skæður. Ég fellst allsekki á að hann sé eins og hver önnur flensa. Hve há dánartalan er í raun og veru og hve alvarlega fólk veikist sem fær þessa veiki á að mestu eftir að koma í ljós.
Það er alls ekki rétt að Svíar hafi ekki gert neitt til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og vernda þá sem veikastir voru. Aðferðir þeirra voru kannski mun afslappaðri en flestra annarra. Samt er talið að þeir hafi ekki náð nema um 30% ónæmi. Það er ekki nærri nógu mikið til að kallast almennilegt hjarðónæmi eftir því sem Þórólfur æðstiprestur segir. Það væri kannski í lagi ef bóluefni gegn þessum sjúkdómi væri fyrir hendi. Ekki er loku fyrir það skotið að fordæmi þeirra verði fylgt í framtíðinni þegar búið er að hanna nógu gott bóluefni. Ef það kemur fljótlega er við því að búast að slegist verði um það. Den tid, den sorg.
Gísli Ásgeirsson er ágætis bloggari og er reyndur þýðandi með sérstakt vefsetur sem hann kallar Málbeinið, Að mörgu leyti má segja að hann hafi orðið fyrir barðinu á fésbókinni en kannski hefur hann aldrei bloggað á Moggablogginu. Stefán Pálsson sagnfræðinur og Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur voru á sínum tíma líka öflugir bloggarar og ég er ekki frá því að ég hafi lært talsvert af þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2020 | 07:42
2948 - Kórónufaraldurinn og afleiðingar hans
Þessi blessaður kórónuveiki faraldur mun á margan hátt breyta öllu. Persónulega hefur hann samt nær engu breytt hjá mér. Ferðalög og fjöldasamkomur munu verða lengi að ná sér að nýju. Afreksíþróttir munu seint bíða hans bætur og þannig mætti lengi telja.
Á margan hátt er skjól í þeim lifnaðarháttum sem við höfum tamið okkur. T.d. hefðum við hjónin, sem einstaklingar vel getað farið illa útúr kórónuveirufaraldrinum ef við hefðum ekki haft skjól af íbúðinni okkar og afkomendum. Hjá öllum okkar blundar ævintýraþrá. Hvað ef við hefðum nú gert þetta eða hitt. Þegar komið er á efri ár verður okkur ljóst að það hefði verið hægt að lifa lífinu allt öðru vísi.
Nú fer ég víst bráðum að útskrifast úr skóla lífsins. Ekki svo að skilja að ég sé að drepast. Maður er bara alltaf, alveg fram á gamalsaldur, að læra eitthvað nýtt. Eiginlega er ég dauðfeginn að veiruskrattinn skuli hafa komið núna eftir að ég er hættur að vinna. Allt sem maður þó lærir af Þórólfi og þeim í þríeykinu er fullseint að komast að núna. Jú jú, Trump er svosem vitlaus þó þau vilji ekki viðurkenna það. En af hverju er hann vitlaus? Er það vegna þess að Pressan er á móti honum. Stundum er hann hafður fyrir rangri sök. Annars ætla ég ekki að fjölyrða mikið um hann núna. Eiginlega er hann núll og nix. Pólitíkin líka.
Einhverntíma var ort svo um Sölva Helgason, sem oft var á ferðinni sem umrenningur:
Heimspkekingur hér kom einn á húsgangsklæðum.
Með gleraugu hann gekk á skíðum.
Gæfuleysið féll að síðum.
Þetta er vel sagt. Hálfkæringur og hótfyndni nútímas nær þessu ekkert betur. Allir, og ég meðtalinn, reyna að sýnast voða gáfaðir, en eru það ekki. Sumir hafa sína Jósefínu til að taka á sig allar vitleysurnar og skammsýnina og svo eru sumir áhrifavaldar í smátíma, þó þeir hafi ekkert (eða lítið) til þess unnið. Auglýsendur verða einhvernvegin að koma sínum boðskap að. Sumir eru alla sína tíð gangandi sundlaugar án þess að vita það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2020 | 06:09
2947 - Aldís Hafsteinsdóttir
Segja má að það sé ráðherraígildi að vera formaður Sambands Sveitarfélaga á landinu. Aldís hans Hafsteins í Ísgerðinni í Hveragerði er nú komin í það óeftirsóknarverða embætti. Strax lendir þeim saman henni og Sólveigu dóttur hans Jóns Múla Árnasonar sem ég held að sé sannfærður sósíalisti. Voru þeir það ekki bræðurnir hann og Jónas? Ekki ætla ég mér að taka afstöðu í því máli sem þær deila um, þekki það einfaldlega ekki nógu vel til þess, en fróðlegt verður að fylgjast með því. 1.maí var víst í gær og það og veirufaraldurinn gera þetta mál sennilega athylisverðara en ella. Almennt tek ég þó fremur afststöðu með launafólki en atvinnurekendum. Litlar framfarir í verkalýðsmálum hefðu orðið hér á landi ef alltaf hefði verið farið eftir lögum og lögfræðiálitum. Þó veit ég ósköp vel að ekki eru allir vinnuveitendur slæmir.
Kannski er ég allur í ættfræðinni því einu sinni vann ég í Steingerði í afar stuttan tíma. Þar vann pabbi og Bjarni Tomm var verkstjóri þar. Man ekki betur en ísgerðin hafi fyrst verið til húsa í gamla og fræga frystihúsinu sem Holsteinaverksmiðjan var í, og sem Teitur frá Eyvindartungu stjórnaði. Já, ég er gamall Hvergerðingur og skammast mín ekki vitund fyrir það.
Kyndillinn minn eða spjaldtölvan er helsta samband mitt við umheiminn hvað bækur snertir. Og svo auðvitað bókasafnið, bækur kaupi ég helst ekki núorðið. Skáldsögur, svo ég tali nú ekki um krimma les ég helst ekki. Sagnfræði og almenn vísindi má segja að séu mitt aðaláhugamál. Þar er ég kannski sumsstaðar sæmilega heima. Pólitík leiðist mér yfirleitt. Les þó talsvert um bandarísk stjórnmál. Aðallega vegna þess að þau eru svo skrýtin.
Sumir eru snoknir fyrir langlokum. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson bloggar nú sem aldrei fyrr undir nafninu Fornleifur og langlokur henta honum bærilega. Það er allsekki hans veikleiki að bloggin hans eru yfirleitt löng. Þau eru oft mjög fróðleg og athyglisverð. Hann er samt leiðinlega mikill besservisser og að hans áliti eru allir aðrir óttalegir fábjánar. Sjálfsálit hans virðist vera a la Trump. Að vísu, og kannski sem betur fer, er hann aktívur á takmarkaðra sviði en Trumpsi. Bloggið hans er samt yfleitt alltaf neikvætt í garð annarra.
Það sem ég hef kannski komist spakmæli næst er þessi setning mín: Þú átt ekki að leita að fréttum, þær eiga að finna þig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2020 | 07:46
2946 - Krumminn hjá Byko
Nú er ég meira og minna að detta í þann gírinn að blogga daglega. Ekki er það efnilegt. Varla get ég stytt bloggin mín meira. Gæti jafnvel farið að skrifa á fésbókina, ef þetta heldur áfram svona. Segi bara svona. Held að ég sé ekki svoo langt leiddur. Meina ekkert með þessu. Man eftir vörubílstjóra sem skrifaði eitt sinn á Imbu. Imba var tölva á Menntanetinu. Sagðist hafa meirapróf. Kannski sagðist hann bara vera meiraprófsbílstjóri. Er ekki viss. Gott ef hann hét ekki (eða heitir) Guðmundur Ólafsson. Svo var líka einhver Þór Eysteinsson alltaf að flækjast þarna, á Imbunni hans Péturs á Kópaskeri. Páll Baldvin sagðist vera skólabróðir hans. Altsvo Péturs. Sennilega eru allir þessir menn skrifsjúkir eins og ég. Hvort sem þeir hafa eitthvað að segja eða ekki. Ekki hef ég neitt að segja. Samt er ég sískrifandi. Bloggskrifin lærði ég að mestu af Hörpu Hreins og Jónasi Kristjánssyni. Ýmsir fleiri komu þar við sögu.
Eiginlega er ekki á nokkurn mann leggjandi að skrifa eingöngu á fésbókina. Sjáið hvernig það hefur farið með efnilega menn eins og Björn Birgisson í Grindavík og Sigurð Þór Guðjónsson. Þeir eru greinilega báðir skrifsjúkir eins og fleiri og gera varla annað en skrifa á fésbókina. Ekki held ég að þeir hafi samt hent mér af vinalistanum. Það hlýtur bara að vera einhver yfirsjón. Sennilega væri mér hollast að hætta þessu name dropping. Er ekki nógu góður í því.
Íhaldshrókur afleitur
innan sviga graður.
Þrammar áfram þrefaldur
Þorsteinn kvæðamaður.
Það var að ég held Þór Benediksson (bróðir Áslaugar) sem kenndi mér þessa vísu. Veit ekkert eftir hvern hún er.Gæti samt sem best átt við Þorstein Siglaugsson sem hefur gert talsvert af því undanfarið að kommenta á þetta blogg hjá mér. Jafnvel Steina Briem, sem einu sinni kommentaði oft hjá mér, en er talsvert fælinn og fór víst eitthvert annað.
Krummi hjá Byko á Selfossi er búinn að unga út eggjunum sínum. Sá í gærmorgun að hann var að éta eggjaskurn og skömmu seinna sá ég að hann var að sinna einum fimm ungum, sem voru komnir í hreiðrið hjá honum. Nóg að gera við að finna einhverja fæðu handa þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2020 | 05:54
2945 - Er Kim dauður?
Kim Il Sung, Kim Jong Il og núna Kim Jong Un. Þeir eru víst hver undan öðrum. Sungarinn afi þess núverandi, sem sennilega er verstur. Blóðþyrstur harðstjóri eftir því sem sumir Bandaríkjamenn segja. Ekki þó Trump. Hann kallaði Unarann Little Rocket Man, ef ég man rétt. Eins gott að hafa þessi nöfn á hreinu, ef maður skyldi þurfa að skreppa til Norður-Kóreu. Sumir segja að Unarinn sé dauður, eða algjört grænmeti eftir misheppnaða hjartaskurðaðgerð. Kannski er Kim einskonar ættarnafn. Venjulega eru ættarnöfn ekki höfð fremst, en því ekki það? Ekki eru nafngiftarsiðir okkar Íslendinga álitnir sérlega skynsamlegir af öllum.
Ef spekúlerað er í heimspólitík er óhjákvæmilegt að velta Norður-Kóreu fyrir sér. Sennilega er Kíverjum illa við of mikinn óstöðugleika þar. Gæti trúað að þeim sé nákvæmlega sama um Kim Jong Un, en vildu samt síður að hann dræpist. Hann gæti svosem verið stöðugleikaímynd þeirra í öllum óstöðugleikanum. Kannski er hann svolítið truflaður. Bandarískir blaðamenn vilja reyndar meina að Trump sé það líka.
Sumir virðast trúa því í alvöru að Kínverjar hafi komið Covid-19 af stað bara til þess að klekkja á Bandaríkjamönnum. Ég á bágt með að trúa því. Þetta er greinilega alvörufaraldur. Aumingja WHO-kallinn sem Trump ætlar víst að skjóta. Ekki á hann sjö dagana sæla núna.
Ekki er ég að hugsa um að kaupa hlutabréf í Flugleiðum, þó það gæti alveg verið skynsamlegt. Enda mundi þá ekki muna mikið um þessar fáu krónur sem ég gæti hugsanlega skrapað saman. Þessi ólukkans veirufaraldur verður varla eilífur. Hvort heldur sem ríkið hendir peningum í þetta vonlausa fyrirtæki eða lífeyrissjóðirnir, þá verður það sennilega gert í mínu nafni. Þ.e.a.s. einhvern veginn verður þetta áreiðanlega tekið af okkur pöplinum. Hmm, ekki er nú samkvæminni mikið fyrir að fara hjá mér. Áðan var skynsamlegt að fjárfesta í þessu fyrirtæki, en nú er það orðið vonlaust.
Áhrifin af kórónuveirunni á Ísland verða eflaust mikil. Fá lönd eru sennilega eins háð ferðamönnum og Ísland. Spánn er það kannski og Ítalía hugsanlega. Bæði þau lönd og flest önnur hafa við fleira að styðjast en blessaða ferðamennina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.4.2020 | 06:50
2944 - Kína og Bandaríkin
Myndin sem ég birti með síðasta bloggi var af Þuríðarbúð á Stokkseyri. Einu sinni tók ég myndir af næstum öllu sem ég sá, en er að mestu hættur því núna. Þessi mynd var bara þarna og þessvegna notaði ég hana. Venjulega nota ég bara myndir sem eru frá fornu fari á Moggablogginu og sæki þær um leið og ég set upp bloggið. Það skrifa ég í Word. Hef semsagt notað þessar myndir áður.
Myndirnar sem ég hef birt að undanförnu eru frá Hveragerði og einhverjum kynni að finnast þær merkilegar. Ein er af Bláhver, sem einu sinni var fleytifullur af sjóðandi vatni. Önnur af ryðguðum krana sem einhverntíma hefur sennilega verið settur á holuna sem Eiríkur blindi á Hótelinu setti karbítinn í. Nú, hef ég ekki sagt þá sögu hér? Kannski ég geri það í næsta bloggi eða einhverntíma seinna.
Mikilvægasti eiginleiki þeirra sem gáfaðir þykjast vera er að þegja sem fastast. Samkvæmt því er ég alls ekki gáfaður, því ég get ekki án þess verið að láta ljós mitt skína. Oft er þetta ljós bölvuð týra og stundum argasta vitleysa. Við því er samt ekkert að gera. Ég er bara svona.
Á margan hátt er það að koma í ljós að baráttan sem átti sér stað í kalda stríðinu er að birtast aftur. Nú eru það ekki Bandaríkin og Sovétríkin sem eigast við. Heldur má segja að það séu USA og Kína sem gera það. Hvernig er best fyrir smáþjóðir einsog okkur Íslendinga að haga sér? Að mörgu leyti komumst við vel frá kalda stríðinu. Einkum með því að halla okkur til skiptis að stórþjóðunum. Landið okkar er eftirsóknarvert frá þeirra sjónarmiði. Trump bandaríkjaforseti er á margan hátt fulltrúi óánægjuaflanna í þessu víðfeðma og eftirsóknarverða ríki, sem Bandaríki Norður-Ameríku óneitanlega eru. Hann þekkir sitt heimafólk. Þessvegna getur kosningabaráttan í kosningunum þar í haust orðið tvísýn og spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2020 | 06:22
2943 - Sápa og hreinsiefni
Eins og flestir Íslendingar er ég smám saman að verða talsvert veirufróður. Man að þegar sonur hennar Ágústu á Refstað, sem býr víst í Ástralíu, varð skyndilega heimsfrægur fyrir að útskýra fyrir blaðamanni af hverju handþvottur væri svona áhrifaríkur í veiruvörnum, að þá þóttist ég vera voðalega fyndinn þegar ég sagði í mjög þröngum hóp að sennilega væri þá best að éta sápu í lækningarskyni. Trump Bandaríkjaforseti er kannski að komast á þetta andlega stig, en gallinn er sá að kannski sagði hann þetta ekki sem brandara.
Mér finnst það vera fyrst núna, þegar ég er að verða áttræður, að ég sé nógu þroskaður til að blogga af einhverju viti. Þetta með vitið er ofmetið. Allir eru með eitthvað vit. Það getur verið allskonar. Bara spurning um hvernig það hentar öðrum. Kóvítinn sem ég vil kalla svo, en sumir kalla kófið og enn aðrir covid-19, kemur sennilega til með að breyta því á margan hátt hvernig við hugsum.
Er fólk fífl? Á margan hátt er það sennilega mikilvægasta spurningin sem heimspekin fæst við. Ef hún fæst þá við hana.
Halldór Jónsson ráðlagði mér að skrifa stutt blogg. Þau væru fremur lesin en langlokur. Samt endurbirtir Halldór langloku eftir Davíð Oddsson.
Hvernig stendur á því að vinstri menn eru yfileitt grennri en þeir sem hægrisínnaðir eru? Það er óhollt að vera feitur. Þetta er fremur óheppileg tilraun til kaldhæðni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.4.2020 | 06:38
2941 - Stutt blogg
Það sem stendur mannskepnunni helst fyrir þrifum á þessum ofgnóttartímum sem við lifum núna, er að hún notar tíma sinn ekki nógu skynsamlega. Það er t.d. ekki skynsamlegt að vera sífellt að hugsa um mat. Fésbókin er eitt af þeim hálmstráum, sem margir grípa í sér til bjargar í óvinveittum heimi. Með henni má fá tímann til að líða, án þess að gera nokkuð af sér. Einhverntíma var sagt að ríkur maður gæti því aðeins orðið siðmenntaður að hann lærði að nota þann tíma sem hann hugsanlega hefði, vegna ríkidæmis síns, án þess að skaða sjálfan sig. Í þessu er mikill sannleikur fólginn. Með þessu verða þeir sem vegna aldurs hætta að vinna í svipuðum sporum staddir og geta helst ekki orðið siðmenntaðir. Sífelld og endurtekin hugsun um mat veldur löngun í hann og það veldur aftur þeirri offitu sem er eitt af helstu vandamálum nútímans hér á Vesturlöndum.
Sú áhersla sem er nú um stundir er á Covid-19 faraldrinum, undirstrikar á vissan hátt þetta með tímann. Með því að beina athyglinni að einhverju svo skelfilegu sem heimsfaraldri eru því engin takmörk sett hverju hægt er að áorka. Ef samkomulag er ekki um hvernig það skuli gert er stutt í rifrildið og þar með pólitíkina. Hugmyndir fólks eru ákaflega misjafnar og auðvelt er þeim sem því vilja sinna, að hafa áhrif á þær hugmyndir.
Ég hef valið bloggið framyfir fésbókina því mér finnst hún of hamlandi. Það sem þar er sagt hefur lítil áhrif og er í langfæstum tilvikum til þess gert að hafa mikil eða meiri áhrif. Sumum, eins og mér t.d., er það eiginlegt að predika. Kannski hef ég engin áhrif á neinn og það er allt í lagi. Það sem sagt er hér er sjálfum mér til hugarhægðar og ef til vill er það alveg nóg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2020 | 22:23
2940 - Ú.S.V.B.
Af hverju þarf að tala um ævintýri hins seinheppna herra Beans? Af hverju má ekki segja hins vitlausa og klaufalega herra Beans? Mér finnst að krakkar eigi heimtingu á því að fá réttar og nákvæmar lýsingar á þýðingu orða, en ekki svona dauðhreinsaða tæpitungu. Að sjálfsögðu er þetta óttalegur tittlingaskítur, en skiptir máli samt.
Þegar ég rak kapalkerfið í Borgarnesi uppúr 1980 vorum við einu sinni með bingó í beinni útsendingu og kannski hefur það verið fyrsta bingóið í beinni á Íslandi. Ekki man ég eftir að tæknin hafi verið neitt að stríða okkur, en óttalegt vesen var þetta samt, enda gerðum við þetta aldrei aftur. Þó held ég að þetta hafi verið nokkuð vinsælt. Mér datt þetta svona í hug útaf vandræðunum hjá Stöð 2 í kvöld.
Á margan hátt held ég að kapalkerfið í Borgarnesi hafi verið dálítið merkilegt fyrirbrigði. Ég man eftir að hafa eitt sinn farið á fund eða ráðstefnu sem Alþýðubandalagið stóð fyrir í (eða á kannski að segja á) Ölfusborgum og flutt þar erindi um þessa merku stofnun. Björgvin Óskar Bjarnason var með mér í þessari ferð og ég man eftir að ÓRG (sem var ekki orðinn forseti þá) var á sífelldu rápi inn og út úr fundarsalnum og gott ef Svavar Gestsson var ekki þarna líka.
Nýja stefnan er sú að hafa bloggin nógu stutt, svo það er best að hætta núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2020 | 23:29
2939 - Mannapar
Þegar ég kom í fyrsta skipti til Kanaríeyja heyrði ég mikið talað um Mannabar. (Jú, auðvitað líka um Klörubar, en ég ætlaði að tala hérna um misskilning) Mér fannst nefnilega að alltaf væri talað um mannapa en ekki Mannabar. Ég hélt semsagt að staðurinn héti Mannapar en ekki Mannabar. Það er svo fyrir utan þessa sögu að þessi svonefndi Mannabar olli mér talsverðum vonbrigðum, en það gerði Klörubar ekki. A.m.k. ekki í sama mæli. En sleppum því. Margt mætti sjálfsagt um Gran Canary og ekki síður Tenerife segja en ég er að hugsa um að gera það ekki að þessu sinni.
Eiginlega er varla hægt að blogga án þess að minnast á Covid-19. Þríeykið fræga sem stjórnar vinsælasta þættinum í Sjónvarpi Allra Landsmanna væri auðvitað hægt að minnast á líka, en fólk getur bara horft á þáttinn þeirra sem sýndur er á hverjum einasta degi. Heimsmetið sem Trump forseti slær um þessar mundir í dánartölu á hverjum degi er um þetta leyti sennilega á milli 40 og 50 þúsund. Mikilvægt væri sjálfsagt að losna við hann sem fyrst, en vitanlega er ekki hægt að endurtaka og leiðrétta allar vileysurnar sem hann gerði í upphafi farsóttarinnar.
Þetta er ískyggilegt. Þegar ég kíkti á 50 listann áðan á Moggablogginu var ég kominn niður í 45. sæti á vinsældalistanum. Tvennt eða jafnvel þrennt er hugsanleg skýring á þessum ósköpum. Ég var vanur að vera svona í 20. sæti eða svo. Það er að segja undanfarið. Upphaflega komst ég ekki einu sinni á 50 listann. Mögulegar skýringar á þessu eru þær að bloggið sé aftur að ná fyrri vinsældum. Sú skýring hugnast mér hvað best. Önnur skýring er sú að lesendum mínum sé að fækka og þeir séu ekki nógu duglegir við lesturinn. Hvað sem öllum heimsmetum a la Sigmundur Davíð líður. Ég neita því þangað til annað sannast að ég skrifi ekki eins athyglisverð blogg og áður. Kannski eru þau of fá og ég hef verið að reyna að bæta úr því uppá síðkastið. (Sagan um stúlkuna sem var kölluð síðkastið er þessu alveg óviðkomandi.)
Eitt get ég gert og það er að mestu sársaukalaust. (A.m.k fyrir mig, veit ekki um aðra) og það er að stytta bloggin verulega. Kannski ég hætti bara hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)