Færsluflokkur: Bloggar
16.5.2020 | 11:39
2959 - Introvert á eftirlaunum
Já, ég er introrvert og líður hálfilla í fjölmenni. Hvað er fjölmenni? Ég ákveð það bara eftir aðstæðum hverju sinni. Einhverntíma spurði Tinna Bjarnadóttir mig hvaða fóbíur ég hefði. Átti ekki von á að 9 ára krakkar spyrðu spurninga af þessu tagi. Datt helst í hug að ég hefði flugstöðvarfóbíu, sem ég veit ekki hvort er til. Ég stressast gjarnan upp við mikil læti og mikið fjölmenni. Aðalbreytingin á mínum högum við veiru-vitleysuna er sú að ég þvæ mér mun oftar um hendurnar en áður og spritta mig öðru hvoru. Einnig hef ég horft á þríeykið fræga á hverjum degi. Oft sleppt tvöfréttunum þeirra vegna.
Nú er ég að mestu hættur að setja á mig vettlinga eða eitthvað annað í hvert skipti sem ég snerti hurðarhún utan íbúðarinnar eða lyftuhnapp. Jafnvel fer ég öðru hvoru út í Bónus. Þar með má segja að ég sé laus undan ofurvaldi drepsóttarinnar. Auðvitað eru mér ljós efnahagsleg áhrif faraldursins, en meðan eftirlaunin og ellilaunin lækka ekki verulega og verðbólgan fer ekki á fleygiferð reikna ég með að fljóta ofaná. Við hjónin eyðum fremur litlu og þar með þarf ég sennilega ekki að hafa miklar áhyggjur af afkomunni.
Spurningin sem þarf að fá bloggsvar við er hvort vænlegra er til árangurs þar og fjöldalesturs að vera sjálfhverfur eða sýnast ógnargáfaður og skrifa um alþjóðamál og þessháttar. Þykjast skilja allt. Jafnvel íslensk stjórnmál. Alþingismenn þykja mér ekki alveg nógu gáfaðir. Sumir eru það, en allsekki allir. Kannski er samt ekki hægt að ætlast til þess að þeir séu öðruvísi en pöpullinn. Flestir þeirra koma sæmilega fyrir sig orði. En er það nóg? Efast má um það.
Smáatriði eins og hvort Flugfélagið lifir eða deyr skiptir engu máli. Ríkisstjórnin ætti ekki að henda peningum í jafnvonlaust fyrirtæki. Ekki er nein ástæð til að ætla að þetta félag sé betra en önnur flugfélög. Ef þau flúgja ekki hingað er bara að taka því. Ferðamannabísness er ekki betri en aðrir. Öll eggin á ekki að setja í sömu körfu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.5.2020 | 06:06
2958 - Fésbókarvinir
Veirufaraldurinn er í lágmarki hér á Íslandi um þessar mundir. Réttast er aðvitað að reyna að notfæra sér það með einhverjum hætti. Verðbólgan gæti látið á sér kræla fljótlega og þá er best að vera búinn að eyða sínum peningum, ef einhverjir eru. Aldrei slíku vant er það kostur frekar en hitt að vera orðinn ellibelgur. Flugfélög og þessháttar óþarfi getur alveg farið á hausinn mín vegna. Atvinnuleysið sem af því gæti hlotist er þó vandamál. Miðað við erlenda umfjöllun er svo að skilja að andlitsgrímur eða andlitsgrímur ekki meðal almennings séu aðalatriðið í vírusvörnum. Eftir því sem Þórólfur segir skipta þær litlu og veita oft einungis falskt öryggi. Auk þess má segja að þær séu oftast illa gerðar og vitlaust notaðar. Mín skoðun er sú að margt eigi eftir að gerast í veirumálum meðal annars hér á Íslandi og þessvegna sé best að vera við öllu búinn. Veiran kemur aftur.
Faraldursfræðilega séð er veiruástandið í Bandaríkjunum ekki gott. Mest er það vegna þess að viðbrögð öll hafa þar orðið að pólitísku bitbeini. Þannig er það víða í heiminum. Þar sem viðbrögðin við kórónuveirunni hafa orðið stjórnmálunum að bráð hefur víða gengið illa að hemja útbreiðsluna. Í Bandaríkjunum eru það ríkisstjórarnir, sem eiga í orði kveðnu að ráða flestu sem þetta snertir, en alríkisstjórnin og Tromparinn sjálfur ráða að sjálfsögðu heilmiklu. Öll framkvæmd þessara mála er miklu flóknari hjá stórþjóðum en hjá þeim sem minni eru. Sennilega er það eitt það besta sem þessi ríkisstjórn okkar hefur gert, að láta þríeykið stjórna þessum veiruvörnum alfarið, en efnahagslegar afleiðingar eru á ríkisstjórnarinnar könnu og þar er rifist. Meðfærileiki og einsleitni þjóðarinnar hefur líka ráðið miklu.
Hjólafólkið er hættulegt. Fyrir okkur gamlingjana það er að segja. Sé skikkanlegum hraða haldið þarf það þó alls ekki svo að vera. Breidd gangstíga skiptir máli. Sömuleiðis veðrið. Allt skiptir máli. Bílaumferð á götum er einnig víða orðin svo mikil að til vandræða horfir. Um þetta mætti fjölyrða endalaust. Erum við lítil bílaþjóð í stóru landi?
Fésbókarvinir mínir eru alltof margir. Næstum þúsund. Hef ekkert við allt þetta að gera. Á tímabili sendi ég vinabeiðnir út um allt þar, en sé eftir því núna. Á örðu tímabili fékk ég heilmikið af vinabeiðnum frá útlendingum sem ég þekkt ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef þeir höfðu marga sameiginlega vini með mér og ég kannaðist við þá vini, samþykkti ég þessa nýliða. Vandasamt er að hætta vinskap, þó eru alltaf sumir að hóta því. Má maður ekki skoða árans bókina þó maður læki lítið sem ekkert og forðist þátttöku í umræðum? Oft eru þær ekki sérlega markverðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2020 | 08:46
2957 - Bloggar
Er kominn á þá skoðun að heppilegra sé að blogga oft og lítið í stað þess að láta gamminn geysa og blogga sem allra lengst og besservisserast sem mest. Þ.e.a.s. ef maður vill að margir lesi bloggin. Svo er það náttúrulega skilgreiningaratriði hvað er margir. Stjórnmál og allskonar átök eru vinsæl í þessu tilliti, en margt fleira getur skipt máli. Stýringar miðla eru miklar og mikilvægar í þessu sambandi. Tölvur stýra þessu eins og flestu. Algrím eða algorithmar ráða því oft hvaða fréttir og skoðanir þú sérð. Kannski er þetta ekki beinlínis ritskoðun en það er erfitt að eiga við þetta.
Ekki er nóg að vera á móti Fésbók og Instagram. Áhrifin og afskiptasemin eru feikilega mikil bæði þar og annarsstaðar. Mikið er talað um falsfréttir og erfitt getur verið að ákveða hverjum skuli treyst. Vefmiðlar eru flestir einskonar skoðanayfirlýsingar þó reynt sé að láta fréttayfirbragð skína frá þeim. Fréttirnar eru valdar og skýrðar í bak og fyrir. Pólitískar fréttir eru afleitar. Oft skiptir meira máli að koma skoðunum skrifarans að, en að segja frá fréttinni sjálfri og ýmsum útúrdúrum hennar á sem hlutlausastan hátt.
Auðveldast af öllu er fyrir bloggara að hafa allt á hornum sér. Auðvelt er að finna ýmislegt sem hæglega gæti farið betur. Aðfinnslur útaf málfari eru mjög algengar. Sérfræðingar á því sviði eru legíó. Æðsta boðorð allra bloggara ætti að vera að vera skiljanleg(ur). Kyngreining tungumálsins er eitt atriði sem hafa þarf í huga. Auðvitað skiptir máli hvaða orð eru notuð. Flestum orðum fylgir löng saga. Hún kann að vera mismunandi eftir móttakanda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.5.2020 | 22:29
2956 - Trump og kosningarnar í haust
Trump Bandaríkjaforseti er mjög eða a.m.k. fremur óvinsæll meðal flestra þeirra sem ekki hafa kosningarétt í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sérstaklega virðist sumum þjóðarleiðtogun vera uppsigað við hann. Heimafólk hans, það er að segja Bandaríkjamenn eða nægilega stór hluti þeirra, kaus hann samt árið 2016. Munu þeir gera það aftur? Það er allsekki víst. Vinstri sinnað fólk á Vesturlöndum hefur reynt að halda því fram að hann hafi ekki fengið meirihluta atkvæða. Vissulega fékk hann færri atkvæði í heildina en Hillary Clinton. Kosningakerfið er þannig í Bandaríkjunum að hann var samt réttkjörinn forseti þar.
Yfirleitt er það tiltölulega auðvelt fyrir sitjandi forseta að tryggja sér endurkjör. Hann hefur gjarnan alla þræði í hendi sér. Mótframbjóðandinn þarf að koma honum frá. Oftast nær bera Bandaríkjamenn mikla virðingu fyrir forseta sínum og telja hann hafinn yfir pólitískt dægurþras. Varla er Trump eins ómögulegur forseti og Pressan vill hafa hann. Fyrstu ár hans á forsetastóli voru Bandaríkjunum mjög hagstæð efnahagslega og án efa hefur hann ætlað að notfæra sér það. Þar á bæ kjósa menn gjarnan með peningaveskinu. Frambjóðendur eyða líka vænum summum í auglýsingar.
Tvennt kemur samt til núna sem gerir kosningarnar í haust afar spennandi. Annað er að sjálfsögðu Covid-19 faraldurinn og afleiðingar hans. Hitt er að ef gert er ráð fyrir að fylgi þeirra sé í rauninni nokkuð jafnt er samt talsverður fjöldi fólks í báðum flokkum sem hatar báða frambjóðendur. Sá hópur kýs gjarnan að prófa eitthvað nýtt. Trump naut þess árið 2016, þá var Hillary álitin fulltrúi ríkjandi afla og auk þess fremur óvinsæl hjá sumum hópum. Hann nýtur þess samt allsekki núna.
Allt útlit er fyrir að Joe Biden verði frambjóðandi Demókrata. Hann hefur lengi haft afskipti af stjórnmálum og var varaforseti hjá Barack Obama. Er allsekki óumdeildur og þar að auki gæti þriðji frambjóðandinn hugsanlega ruglað þessu öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.5.2020 | 11:13
2655 - Bóluefni
Er einhver sérstök ástæða til að bjarga Flugleiðum? Mér finnst það ekki. Að vandræði þeirra séu flugfreyjum að kenna eða flugmönnum er fjarstæðukennt í meira lagi. Fyrirtækið er sennilega bara illa rekið. Öll flugfélög í heiminum eiga í miklum vandræðum um þessar mundir. Áðan sá ég þotustrik á himninum, en þau eru jafnsjaldséð núorðið og sumir fuglar. Að Flugleiðir, eða Icelandair eins og þeir kjósa víst að láta kalla sig, geti e.t.v. bjargað þeim sem látið hafa peninga sína í hótelbyggingar að undanförnu er vonarpeningur í besta falli.
Þær þrengingar sem kunna að vera í vændum fyrir okkur Íslendinga kunna að vera miklar og margvíslegar. En hvort sem þær verða af efnahagslegum toga eða öðrum er ekki um annað að ræða en að standa saman þar til þær eru að mestu yfirstaðnar. Pólitískar hræringar kunna að verða miklar og engin leið er að spá neinu um hvernig þær verða. En hvernig sem allt veltist og snýst munum við komast út úr þessum þrengingum og takast á við framtíðina.
Engir svelta á Íslandi (skilst mér) og alltaf er hægt að fara uppávið með kröfurnar og á margan hátt höfum við það bara fjandi gott hérna. Jafnvel í Bandaríkjunum, sem margir álíta himnaríki á jörð, er faraldursaðstoð við almenning meiri en samskonar aðstoð við fyrirtæki. Að flestu leyti höfum við Íslendingar farið ótrúlega vel útúr þeim hremmingum sem Covid-19 hefur valdið í veröldinni. Ef bóluefni finnst fljótlega, og við höfum efni á að kaupa það, gætum við vel flotið ofaná.
Framtíðin verður ef til vill talsvert öðruvísi en við gerðum ráð fyrir, en við þvi er ekkert að gera. Hvernig hún verður, að loknum þessum veirufaraldri er ekki nokkur leið að vita. Við sem elst erum munum hverfa héðan áður en mjög langt um líður. Þegar við vorum að alast upp um miðja síðustu öld var tuttugasta og fyrsta öldin langt í fjarska og mörg okkar gerðum ráð fyrir að hún yrði með öllu áhyggjulaus og vissulega er hún það, ef miðað er við þau gildi sem þá var notast við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2020 | 08:45
2954 - Ramadan
Menn láta núna eins og faraldurinn sem kvalið hefur okkur að undanförnu, sé liðinn hjá. Svo er ekki og eins og Þórólfur segir, þá má alltaf búast við að hann blossi upp aftur. Á meðan er upplagt að æfa sig á því að láta eins of ekkert sé. Jafnvel að bæta sig eitthvað. Sérstaklega þó í almennum sóttvörnum og bakteríuhræðslu.
Mestra vinsælda í blogginu virðist pólitíkin njóta. Þetta hef ég þráfaldlega rekið mig á. Ef fyrirsagnirnar benda til þess að um stjórnmálaerjur sé að ræða eru miklu fleiri sem áhuga virðasta hafa. Tala nú ekki um ef í fyrirsögninni er nafn sem tengist pólitískum deilum eða einhverju þessháttar. Kannski á þetta einkum við um Moggabloggið. Ég veit það ekki.
Minnir að það hafi verið Sigurður Þór Guðjónsson, sem hrósaði fésbókinni ótæpilega fyrir alllöngu síðan. Hann var mjög öflugur á Moggablogginu þá. Hann sagði það lítinn vanda að komast hátt í vinsældum á Moggablogginu. Á fésbókinni væri hinsvegar mesta fjörið. Þó Moggabloggið sé um margt gallað, er mjög gott hve einfalt það er.
Með intermittent fasting. Já, ég veit ósköp vel að þetta er enskusletta, en skilst vonandi. Er hægt að láta eins og það sé ekki megrunarkúr. Samt er ég ekki eins feitur og ég var. Ef maður fer snemma á fætur, eins og ég geri oft, er ansi langur tími til hádegis. Oftast borða ég óþarflega mikil þá, en ég er að ná tökum á þessu. Ramadan er óneitanlega ágætishugmynd. Og henni er oftast hlýtt. Stjórnmál og trú blandast samt yfirleitt illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2020 | 07:25
2953 - Tobbi og Gróa
Sennilega er stórhættulegt að vera frægur. Þeir sem eru frægir eða þekktir eru oft sakaðir um allan fjárann. Stundum eiga þeir fullt í fangi með að verja sig. Sumir þurfa ekki að verja sig. Þetta fer nú að líkjast þulunni frægu hjá mér.
Ef sumir væru við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru frá.
Væru sumir betri við suma
en sumir eru við suma.
þegar sumir eru hjá.
Ekki veit ég hvort Gróa á Leiti hefur samið þetta. Æri-Tobbi gerði líka oft skemmtilegar vísur.
Urgara surgara urra rum,
illt er að vera í Flóanum.
Þambara vambara þeysings klið,
þó er enn verra Ölfusið.
Sko. Þetta mundi ég. Næst er ég að hugsa um að fjalla um bakteríuhræðslu. Hún stendur sumum fyrir þrifum og getur hæglega farið útí öfgar. Sagt er að hinn frægi Howard Hughes hafi undir lokin verið svo bakteríuhræddur að nálgaðist sturlun. Veit samt ekki mikið um hann. Allt má gúgla. Allir geta verið besservisserar ef þeir komast einhvernstaðar í tölvu. Í framtíðinni verða öflugar tölvur svo smáar að hægt verður að fela þær í lófa sínum og tala við þar. Gott ef þær verða ekki hugsanalesarar líka. Las nýlega um mann sem hvort eð er var með gerviauga öðru megin og í stað þess setti hann þar litla videotökuvél. Þetta er framtíðin.
Sóttvarnaráðherrann sjálfur hefur sagt að ef ástandið í Svíþjóð væri heimfært uppá litla Ísland hefðu ca. 70 drepist hér en ekki 10 úr kórónuveiru-veikinni. Kannski er þetta alveg rétt. Hugsanlegt er að eitthvað að þeim fjármunum sem þessi faraldur hefur kostað okkur hefði sparast með slíkri aðferðafræði. En hefði það svarað kostnaði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2020 | 07:09
2952 - Hinn nýi fjórflokkur
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er hinn nýi fjórflokkur samsettur úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum (einkennisstfir, einhver.) Miðflokkurinn og Viðreisn koma næst á eftir. Hvar er Framsóknarflokkurinn eiginlega? Er Sigmundur alveg búinn að drepa hann? Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins koma svo í humáttina.
Vírusinn er sennilega á undanhaldi. Samt er það svo að smit fannst um daginn í Heiðaskóla í Hvalfjarðarsveit, en af því Kári fann það eða Íslensk erfðagreining, er ekki lögð ofuráhersla á það. Sjálfskipaðri sóttkví verður kannski haldið eitthvað áfram, en ekki er hún eins afgerandi og áður. Veiran er samt hættuleg. Sóttvarnalæknir er einskonar einvaldur á landinu. Andstyggð hans á grímum er undarleg. Kannski veitir hún falskt öryggi, en ég mundi samt halda að hún drægi eitthvað úr líkum á því aðrir mundu smitast og auk þess er hún einskomar auglýsing.
Minnir að Þorsteinn Antonsson rithöfundur hafi skilgreint sjálfan sig með asperger-heilkenni. Ekki er það á allra færi að sjúkdómsgreina sjálfa sig. Einu sinni las ég allt eftir hann sem ég náði í og hafði mikinn áhuga á því sem hann skrifaði. Sumt af því sem sagt er að sé hægt að nota til skilgreinigar á asperger heilkenninu gæti átt við mig, en allsekki allt. Eitt af þessum atriðum er að vera með undarleg áhugamál. Einu sinni var ég algerlega gagntekinn af skák. Sama er að segja um frímerki. Einnig bókmenntir. Þetta finnst mér allsekki undarlegt. Auðvitað er betra að sálgreina aðra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2020 | 10:17
2951 - Litla land
Nú er klukkan að verða tíu á miðvikudagsmorgni. Að mörgu leyti er þetta fyrsta vikan í veirulausu (eða hérumbil) Akranesi. Á mánudaginn fór ég á bókasafnið. Er nú byrjaður að lesa bók sem heitir Litla land. Veit ekkert um hana annað en það að þetta er skáldsaga og fjallar að einhverju leyti um þjóðarmorðin í Rúanda og Búrúndí. Ég hef aldrei getað greint almennilega þar á milli og heldur ekki á milli Tútsa og Hútúa. Ég rugla þessu oft saman. Kannski hætti ég því ef mér tekst að lesa þessa bók til enda.
Í gær, eða var það í fyrradag, fór ég í fyrsta sinn eftir sjálfskipuðu sóttkvína út í Bónus. Þar hitti ég Guðmund Vésteinsson, en gat lítið við hann talað vegna tveggja metra reglunnar. Var semsagt við kassann. Eitthvað var hann að tala um Lilju, sennilega ætti maður að fara að athuga meira með þá sem óforvarendis voru skikkaðir til að vera með manni í bekk á Bifröst.
Kannski ætti maður að blogga núna þrátt fyrir allt. Fésbókin er kannski vanmetin af okkur sem ekki erum verseraðir í henni. Markverðustu umræðurnar fara sennilega fram í hópum, en ég hef aldrei komist upp á lag með að nota þá. Bloggið er víst bara fyrir ellibelgi sem vilja láta taka eftir sér. Fésbókin verður það sennilega á endanum líka. Þeir sem bera virðingu fyrir þessari fjárans bók kalla hana Fasbók eða eitthvað þaðan af verra. Einfaldast er sennilega að bregða bara fyrir sig enskunni og kalla hana Facebook. Kært barn hefur mörg nöfn segir í einhverjum fornum málshætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2020 | 07:02
2950 - Fimmti maí
Bandarískir ráðamenn halda því fram að Kínverjar hafi leynt því hve skæð og smitnæm Covid-19 veiran væri í raun og veru, til þess að geta náð áhrifum sem víðast og okrað á útbúnaði til þess að takast á við hana. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er greinilegt að hið nýja kalda stríð sem í uppsiglingu er mun verða milli Bandaríkjanna og Kína fyrst og fremst. Rússland og Efnahagsbandalagið munu verða á hliðarlínunni. Aðrar þjóðir og samtök skipta minna máli. Einangrunarstefna Trumps mun bíða hnekki, hvort sem það verður í kosningunum í haust eða eftir 4 ár.
Þetta hlýtur að vera einhver vitleysa. Þegar ég skoðaði Moggabloggslistann síðast var ég í níunda sæti á vinsældalistanum. Þangað ætlaði ég mér allsekki. Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að einhverjir taki mark á því sem ég skrifa. Þetta er hugsað sem einskonar dagbók. Þessar hugleiðingar mínar um heimsmálin og þjóðmálin eru engum ætlaðar. Þetta er opið öllum, en ekkert auglýst. Hugsanlega hafa aðrir samt áhuga á þessu. Kannski er leikurinn til þess gerður hjá mér að tekið sé mark á mér. Sínum eigin hug er erfiðast að botna í. Í dag er 5. maí. Það er á margan hátt merkilegur dagur. En um það ætla ég ekki að fjölyrða hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)